76/1999 Úrskurður frá 15. júní 1999 í málinu nr. A-76/1999
Hinn 15. júní 1999 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-76/1999:
Með bréfi, dagsettu 19. maí sl., kærði [A], til heimilis að [...], meðferð sambýlisins [B] á beiðni hans, dagsettri 20. apríl sl., um aðgang að gögnum, sem hafa að geyma upplýsingar um meðferð og töku ákvörðunar um að binda enda á samskipti hans við [C], íbúa á sambýlinu.
Með bréfi, dagsettu 20. maí sl., var kæran kynnt sambýlinu [B] og því beint til þess að taka ákvörðun um beiðni kæranda eins fljótt og við yrði komið og eigi síðar en 27. maí sl. Jafnframt var þess óskað að ákvörðun sambýlisins yrði birt kæranda og nefndinni eigi síðar en kl. 16.00 þann dag. Ef sambýlið kysi að synja kæranda um aðgang að þeim gögnum, er beiðni hans laut að, var þess ennfremur óskað að nefndinni yrðu látin í té sem trúnaðarmál ljósrit eða afrit af þeim skjölum eða gögnum. Í því tilviki var sambýlinu auk þess gefinn kostur á að koma að athugasemdum við kæruna og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni innan sama frests.
Með bréfi til úrskurðarnefndar, dagsettu 27. maí sl., sendi forstöðu þroskaþjálfi sambýlisins afrit af erindi sínu til kæranda, dagsettu sama dag. Þar kom fram að í skjalasafni sambýlisins væri ekki að finna skrifleg gögn sem varða tildrög þess að endi var bundinn á samskipti kæranda við [C]. Að þessu virtu leit nefndin svo á að ekki væri ástæða til að halda meðferð málsins áfram, nema kærandi óskaði þess sérstaklega. Var kæranda tilkynnt þetta með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu 31. maí sl., og veittur frestur til 8. júní sl. til að lýsa afstöðu sinni til þeirra málalykta.
Með bréfi til úrskurðarnefndar, dagsettu 3. júní sl., gerði kærandi grein fyrir því að hann teldi enn ástæðu til að ætla að til væru skrifleg gögn eða bókanir um þá ákvörðun að binda enda á öll samskipti hans við [C]. Af þeim sökum fór hann þess á leit að málið yrði tekið til úrskurðar. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu 9. júní sl., var sambýlinu kynnt þetta erindi kæranda og því gefinn kostur á að lýsa viðhorfi sínu til þess fyrir kl. 12 á hádegi hinn 14. júní sl. Sérstaklega var þess óskað að sambýlið skýrði afstöðu sína til þeirrar staðhæfingar kæranda að til væru gögn í málinu.
Með bréfi, dagsettu 14. júní sl., barst úrskurðarnefnd umsögn forstöðuþroskaþjálfa sambýlisins ásamt ljósritum af þremur færslum í dagbók þess, dagsettum 17., 19. og 29. mars sl.
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að kærandi var ráðinn svonefndur liðsmaður [C], íbúa á sambýlinu [B]. Eftir að ráðningu hans lauk hélt kærandi áfram sambandi við [C] þar til endi var á það bundinn af hálfu forstöðuþroskaþjálfa sambýlisins.
Með bréfi til sambýlisins, dagsettu 20. apríl sl., fór kærandi fram á að fá ákvörðun um þetta staðfesta skriflega og jafnframt skriflegt svar við því á hvaða upplýsingum og sjónarmiðum sú ákvörðun væri byggð. Ennfremur fór hann fram á að fá afrit af öllum bókunum um málið, bæði fundargerðum og færslum í dagbók eða dagbækur, auk minnispunkta.
Í svari sambýlisins til kæranda, dagsettu 27. maí sl., vísaði forstöðuþroskaþjálfi til samtals við kæranda um samskipti hans við [C] hinn 29. mars sl., en taldi ekki ástæðu til að rekja þau nánar. Hins vegar tók hún fram að [C] undirgengist þýðingarmikla meðferð. Með tilliti til þess hefði það verið mat hennar og foreldra hans að ekki væri rétt að samskipti hans og kæranda héldu áfram. Í tilefni af erindi úrskurðarnefndar tók hún loks fram, að ekki væru í skjalasafni sambýlisins að finna skrifleg gögn er snertu samtal hennar og kæranda hinn 29. mars sl.
Í erindi kæranda til úrskurðarnefndar, dagsettu 3. júní sl., greindi hann frá því að símtal, sem hann átti við starfsstúlku sambýlisins hinn 19. mars sl., gæfi honum tilefni til að ætla að í dagbók þess hafi verið færðar upplýsingar um mál hans. Þá hafi viðbrögð stúlkunnar við ósk hans um að heimsækja [C] styrkt grun hans um þetta. Jafnframt taldi kærandi að vinnubrögð og verklag á sambýlinu væri með þeim hætti að ákvarðanir sem þessar væru skráðar í fundargerðir eða dagbók þess.
Í umsögn sambýlisins til úrskurðarnefndar, dagsettri 14. júní sl., tók forstöðuþroskaþjálfi fram að athugasemdir í síðastgreindu erindi kæranda til nefndarinnar gæfu ekki tilefni til sérstakra viðbragða af sinni hálfu. Síðan segir orðrétt í umsögninni: "Til þess að skýra málið enn frekar er rétt að benda á, að um mánaðamótin janúar/febrúar sl. og fyrir afmæli [C] 21. febrúar 1999, lá fyrir að ekki yrði af frekari heimsóknum [A] og [C]. Lágu þar að baki sömu ástæður og tilgreindar eru í bréfi mínu til [A] 27. maí 1999. Engin skrifleg gögn eða upplýsingar lágu að baki þeirri niðurstöðu og hæpið er að tala um eiginlega ákvörðun í því sambandi. Í dagbók sambýlisins er að finna þrjár færslur. Í þeirri fyrstu 17. mars 1999 er vísað til þess að [C] hafi haft samband við [A] og bókað að heimsókn hans hafi verið afboðuð. Í annarri færslunni 19. mars 1999, er vísað til samtals, er [A] átti við starfsmann sambýlisins. Var honum bent á að leita frekari upplýsinga daginn eftir. Í þriðju færslunni 29. mars sl. er vísað til samtals míns og [A], þar sem ég fjallaði um samskipti hans og [C] og vísað er til í bréfi mínu til hans 27. mars 1999. Ég vil undirstrika að færslur þessar geyma ekki formlegar ákvarðanir, eða unnt að skoða þær sem gögn til þess að undirbyggja tiltekna ákvörðun. Enda lá þá fyrir að ekki yrði af frekari heimsóknum. Dagbókarfærslur af því tagi sem hér um ræðir eru fyrst og fremst nauðsynlegar við starfrækslu sambýlisins. Þær geta geymt viðkvæmar upplýsingar um heimilismenn, sem almenningur fær ekki aðgang að. Við [A] áttum að auki fjölda samtala út af samskiptum hans við [C], en [C] undirgengst eins og áður segir þýðingarmikla og afar viðkvæma atferlismeðferð."
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Mál það, sem hér er til úrlausnar, varðar beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um samskipti hans við einstakling, sem er þroskaheftur og íbúi á sambýli, þar sem hann gengst undir "þýðingarmikla og afar viðkvæma atferlismeðferð", að sögn yfirþroskaþjálfa sambýlisins. Telja verður að það að girða fyrir þessi samskipti sé liður í meðferðinni, en ekki ákvörðun um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Þar af leiðandi gildir III. kafli upplýsingalaga nr. 50/1996 um aðgang kæranda að hinum umbeðnu upplýsingum, sbr. 2. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 9. gr. laganna.
Í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan." Í 2. og 3. mgr. þeirrar greinar er að finna undantekningar frá þessari meginreglu, þ. á m. segir svo í 3. mgr.: "Heimilt er að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingunum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnunum."
Síðastgreint ákvæði er m.a. skýrt svo í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga: "Aðgangur að gögnum verður því aðeins takmarkaður ef talin er hætta á því að einkahagsmunir skaðist ef aðila yrði veittur aðgangur að upplýsingunum. Stjórnvald getur því ekki synjað aðila um aðgang að gögnum á grundvelli hugleiðinga um að aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga sé almennt til þess fallinn að valda einhverju tjóni, heldur verður að leggja mat á aðstæður í hverju máli fyrir sig."
Úrskurðarnefnd hefur kynnt sér efni þeirra dagbókarfærslna sem mál þetta snýst um. Ekki verður séð að hagsmunir [C] af því að þeim upplýsingum, sem þar koma fram, sé haldið leyndum vegi þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að þeim. Þar af leiðandi ber að veita honum aðgang að upplýsingunum með skírskotun til meginreglunnar í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga.
Sambýlinu [B] er skylt að veita kæranda, [A], aðgang að þremur dagbókarfærslum frá 17., 19. og 29. mars sl., sem hafa að geyma upplýsingar um samskipti hans við [C], íbúa á sambýlinu.
Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson