Hoppa yfir valmynd

A-093/2000 Úrskurður frá 7. febrúar 2000

ÚRSKURÐUR



Hinn 7. febrúar 2000 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-93/2000:

Kæruefni

Með bréfum, dagsettum 9., 23., 30. og 31. ágúst sl. og 1., 3., 6., 13., 16., 20. og 21. september sl., kærði […], meðferð Vestmannaeyjabæjar á 31 umsókn hans um aðgang að margvíslegum upp-lýsingum og gögnum.
Með bréfum, dagsettum 16. og 25. ágúst sl., 3. september sl. og 14. október sl., leitaði úrskurðarnefnd eftir skýringum á töfum á afgreiðslu umsókna frá kæranda um aðgang að umræddum upplýsingum og gögnum. Í síðastnefndu bréfi var jafnframt farið fram á að nefndin yrði upplýst um það, eigi síðar en 25. október sl., hvernig umsóknirnar hefðu verið afgreiddar. Erindum þessum var ekki svarað. Með bréfum til úrskurðarnefndar, dagsettum 25. október og 1. nóvember sl., ítrekaði kærandi erindi sín fyrir nefndinni. Þá leitaði kærandi til forsætisráðuneytisins með bréfum, dagsettum 9. og 29. nóvember sl., og kvartaði yfir óhóflegum drætti á afgreiðslu mála sem hann hefði beint til nefndarinnar. Af því tilefni beindi forsætisráðuneytið því til nefndar-innar með bréfi, dagsettu 1. desember sl., að hún upplýsti ráðuneytið um ástæður tafanna og hvenær þess mætti vænta að mál kæranda yrðu afgreidd.

Með bréfi, dagsettu 9. desember sl., skoraði nefndin á Vestmannaeyjabæ að taka afstöðu til umsókna kæranda og gera honum og nefndinni grein fyrir afgreiðslu þeirra fyrir 17. desember sl. Í því tilviki, að synjað yrði um aðgang að þeim upplýsingum og gögnum er umsóknirnar lutu að, var þess jafnframt óskað, að nefndinni yrðu látin í té afrit af gögnunum sem trúnaðarmál innan sama frests. Auk þess var bæjaryfirvöldum gefinn kostur á að koma að athugasemdum við ofangreindar kærur innan sömu tímamarka. Með bréfi til nefndarinnar, dagsettu 18. desember sl., greindi kærandi frá því að Vestmannaeyjabær hefði enn ekki orðið við framangreindri áskorun nefndar-innar.

Í bréfi, dagsettu 23. desember sl., gerði bæjarritarinn í Vestmannaeyjabæ svohljóðandi grein fyrir afstöðu bæjarins: "Það tilkynnist hér með til úrskurðarnefndar um upp-lýsinga-mál að Vestmannaeyjabær mun að svo komnu máli hvorki svara bréfum frá […] hér í bæ, né heldur senda honum nokkur gögn. Bréf frá honum verða endursend og ekki bókuð inn í bréfasafn bæjarins. – Ákvörðun þessi er hrein neyðarráðstöfun og gerð til þess að u.þ.b. 10 bæjarstarfsmenn fái áreitislaust að sinna þeirri vinnu sem þeir eru ráðnir til en það eru einkum starfsmenn við skjala-vörslu og ritun. […] hefur á þessu ári sent um 450 bréf og fyrirspurnir, eða um 2 á hverjum virkjum degi. Á árinu 1998 voru bréfin 319 og 39 á árinu 1997. Á þremur árum eru þetta um 800 bréf og fyrirspurnir og hefur þeim flestum verið svarað." Bréfi þessu fylgdu afrit af erindum kæranda til bæjarins á síðastliðnu ári. Afrit af bréfinu voru send kæranda og félagsmálaráðuneytinu.

Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu 30. desember sl., var Vestmannaeyjabæ greint frá því að nefndin myndi í ljósi framangreindrar afstöðu bæjaryfirvalda taka ofangreindar kærur til efnislegrar meðferðar. Af þeim sökum var þess farið á leit að staðfest yrði að skjöl þau, sem kærandi hafði óskað eftir aðgangi að, væru öll fyrir hendi og í vörslum Vestmannaeyjabæjar. Jafnframt var þess óskað að nefndinni yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit af skjölum, auðkenndum hér á eftir nr. 3–4, 7–11, 13–17 og 23–30 hið allra fyrsta. Ennfremur var bæjaryfirvöldum gerð grein fyrir því, að hefði svar bæjarins og umbeðin skjöl ekki borist fyrir 12. janúar sl, yrðu kærurnar teknar til úrskurðar án frekari fyrirrvara, enda þótt nefndarmenn hefðu ekki haft tök á að kynna sér efni skjalanna.

Með bréfi, dagsettu 12. janúar sl., barst úrskurðarnefnd svar Vestmannaeyjabæjar ásamt afritum af þeim skjölum sem er að finna í bréfasafni bæjarins.

Málsatvik

Kærandi hefur sent Vestmannaeybæ umsóknir um aðgang að eftirtöldum upplýsing-um og gögnum á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996:
    1. Nöfnum og heimilisföngum umsækjenda um starf uppeldisfulltrúa við barna-skólann, sbr. umsókn dagsetta 20. júlí sl.
    2. Nöfnum og heimilisföngum umsækjenda um tvö störf skólavarða við barna-skólann, sbr. umsókn dagsetta 20. júlí sl.
    3. Árituðum reikningum bæjarsjóðs og stofnana hans, þ.m.t. Þróunarsjóðs, ásamt athugasemdum skoðunarmanna, sbr. umsókn dagsetta 6. júlí sl.
    4. Fundargerðum Herjólfsdalsnefndar, sbr. umsókn dagsetta 14. júlí sl.
    5. Úttektareyðublöðum á verklagsreglum, vistuðum í sérstakri möppu merktri "Skráningar", samkvæmt samningi um rekstur sorpeyðingarstöðvar, sbr. umsókn dagsetta 14. júlí sl.
    6. Áætlun um úrbætur í ferlimálum og aðgengi fatlaðra í stofnunum Vestmannaeyjabæjar, samþykktri í bæjarstjórn 24. september 1998, sbr. umsókn dagsetta 14. júlí sl.
    7. Tilboði [A] og [B] í innheimtur fyrir Vestmanna-eyjabæ, sbr. umsókn dagsetta 14. júlí sl.
    8. Samningi Vestmannaeyjabæjar og [C] byggingavöruverslunar um að allar stofnanir bæjarsjóðs fái 14% viðskiptaafslátt í [C] frá 12. júlí sl., sbr. umsókn dagsetta 5. ágúst sl.
    9. Tillögu veitustjóra um stofnun einkahlutafélags til að standa að nýtingu vindorku til orkuframleiðslu, sbr. umsókn dagsetta 23. ágúst sl.
    10. Svari Þróunarfélags Vestmannaeyja vegna erindis frá [D], sem menn-ingar-málanefnd tók fyrir 23. september 1998, sbr. umsókn dagsetta 20. ágúst sl.
    11. Verksamningi við [E] hf. vegna endurbyggingar Landlystar, sbr. umsókn dag-setta 20. ágúst sl.
    12. Ársreikningi kertaverksmiðjunnar [F] vegna ársins 1998, sbr. umsókn dagsetta 20. ágúst sl.
    13. Bréfi frá [G], dags. 17. ágúst sl., um opnunartíma á [H] og [I], sbr. umsókn dagsetta 23. ágúst sl.
    14. Bréfi frá fjármálaráðuneyti, dagsett 12. ágúst sl., þar sem því er hafnað að gangast í fjárhagslega ábyrgð vegna lífeyrisskuldbindinga starfsmanna Sjúkrahúss Vestmannaeyja, sbr. umsókn dagsetta 23. ágúst sl.
    15. Greinargerð veitustjóra vegna fyrirspurnar um fatasöfnun o.fl., lagðri fram í veitustjórn 11. júní sl., sbr. umsókn dagsetta 23. ágúst sl.
    16. Verksamningi við [J] ehf. um uppsetningu lyftu í Hamarsskóla, sbr. umsókn dagsetta 29. júlí sl.
    17. Fundargerð bæjarráðs frá 23. ágúst sl., dagsett 26. ágúst sl.
    18. Nöfnum og heimilisföngum umsækjenda um að sinna liðveislu fyrir félagsmála-stofnun, sbr. umsókn dagsetta 26. ágúst sl.
    19. Nöfnum og heimilisföngum umsækjenda um að sinna frekari liðveislu fyrir félags-málastofnun, sbr. umsókn dagsetta 26. ágúst sl.
    20. Nöfnum og heimilisföngum umsækjenda um að vera til stuðnings á vegum félags-málastofnunar, sbr. umsókn dagsetta 26. ágúst sl.
    21. Tilboði í ræstingu og rekstrarvörur fyrir stofnanir bæjarsjóðs, sbr. samþykkt á 2472. fundi bæjarráðs, sbr. umsókn dagsetta 26. ágúst sl.
    22. Nöfnum og heimilisföngum umsækjenda um starf tómstunda- og forvarnafulltrúa, sbr. umsókn dagsetta 6. ágúst sl.
    23. Verksamningi við [J] ehf. um endurbætur og viðbyggingu við íþrótta-miðstöðina, samþykktum í bæjarráði 26. júlí sl., sbr. umsókn dagsetta 29. júlí sl.
    24. Þremur bréfum frá [K] tæknifræðingi, dagsettum 23. júlí sl., um kostnaðarþátttöku í gerð veggja, sbr. umsókn dagsetta 3. ágúst sl.
    25. Fjögurra mánaða uppgjöri bæjarveitna, sbr. umsókn dagsetta 2. júlí sl.
    26. Fundargerð stjórnar bæjarveitna frá 26. ágúst sl., sbr. umsókn dagsetta 3. september sl.
    27. Umsókn [L] og [M], dagsettri 18. ágúst sl., um að fá hluta af Stakkagerðistúni fyrir nautgriparækt, sbr. umsókn dagsetta 25. ágúst sl.
    28. Bréfi frá RARIK og Landsvirkjun vegna skerðingar á afgangsorku frá 1. september sl., sem tekið var fyrir í veitustjórn 26. ágúst sl., sbr. umsókn dagsetta 6. september sl.
    29. Bréfi frá [N], dagsettu 10. ágúst sl., þar sem óskað er eftir samþykki Vestmannaeyjabæjar og bæjarveitna til að leggja ljósleiðarastreng, sbr. umsókn dagsetta 6. september sl.
    30. Fundargerð húsnæðisnefndar frá 13. júlí sl., sbr. umsókn dagsetta 5. ágúst sl.
    31. Nöfnum og heimilisföngum umsækjenda um stöðu starfsleiðbeinanda hjá kerta-verksmiðjunni [F], sbr. umsókn dagsetta 23. ágúst sl.

Í bréfi Vestmannaeyjabæjar til úrskurðarnefndar, dagsettu 12. janúar sl., var staðfest að framangreindar upplýsingar og gögn væri öll að finna í skjalasafni bæjarins, að undanskildum þeim sem tilgreind eru hér á eftir:
    1. Ársreikningi Þróunarsjóðs Vestmannaeyja, sbr. umsókn kæranda sem auðkennd er nr. 3 að framan.
    2. Fundargerðum Herjólfsdalsnefndar, sbr. umsókn kæranda sem auðkennd er nr. 4 að framan.
    3. Úttektareyðublöðum á verklagsreglum, sbr. umsókn kæranda sem auðkennd er nr. 5 að framan.
    4. Áætlun um úrbætur í ferlimálum o.fl., sbr. umsókn kæranda sem auðkennd er nr. 6 að framan.
    5. Samningi Vestmannaeyjabæjar og [C] byggingavöruverslunar, sbr. umsókn kæranda sem auðkennd er nr. 8 að framan, en samningur þessi er aðeins munn-legur.
    6. Svari Þróunarfélags Vestmannaeyja, sbr. umsókn kæranda sem auðkennd er nr. 10 að framan.
    7. Tilboði í ræstingu o.fl., sbr. umsókn kæranda sem auðkennd er nr. 21 að framan, en ekkert útboð hefur farið fram.
    8. Fundargerð húsnæðisnefndar frá 13. júlí sl., sbr. umsókn kæranda sem auðkennd er nr. 30 að framan, en ekki var haldinn fundur í nefndinni þann dag.

Bréfi Vestmannaeyjabæjar fylgdu skjöl sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að og auðkennd eru hér að framan nr. 3, 7, 9, 11–17 og 23–31. Umsóknir, auðkenndar nr. 1, 2, 18–20, 22 og 31, varða allar nöfn og heimilisföng umsækjenda um laus störf hjá stofnunum bæjarins.

Í bréfinu var því ennfremur lýst yfir að hálfu Vestmannaeyjabæjar að engar upplýsingar í hinum umbeðnu skjölum séu þess efnis, að að mati bæjaryfirvalda, að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt skv. 5. gr. upplýsingalaga. Hins vegar standi enn óhögguð sú ákvörðun, sem kynnt var nefndinni og félagsmálaráðuneytinu með fyrrgreindu bréfi bæjarins frá 23. desember sl..

Niðurstaða

1.

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er mælt fyrir um þá meginreglu laganna að stjórn-völdum sé skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál. Þótt upplýsingaréttur almennings hafi þannig verið rýmkaður verulega, eins og fram kemur í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna, er þar jafnframt tekið fram að ekki sé lögð nein skylda á herðar stjórnvöldum til að veita almenningi upplýs-ingar að eigin frumkvæði. Ennfremur er aðeins veittur aðgangur að fyrirliggjandi gögnum í vörslum þeirra.

Í 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga er svo fyrir mælt að stjórnvald skuli taka ákvörðun um það svo fljótt sem verða má hvort það verður við beiðni um aðgang að gögnum. Í ljósi þess, að kærandi hefur á síðustu þremur árum sent Vestmannaeyjabæ u.þ.b. 800 beiðnir og fyrir-spurnir um aðgang að margvíslegum upplýsingum og gögnum, verður samt sem áður að telja það afsakanlegt af hálfu bæjaryfirvalda að fresta því að taka afstöðu til beiðna hans meðan starfsmenn bæjarins þurftu að sinna öðrum lögboðnum störfum. Þeim bar hins vegar að skýra kæranda frá ástæðum þessara fyrirsjáanlegu tafa og gera honum grein fyrir, hvenær ætla mætti að beiðnir hans yrðu afgreiddar, sbr. niðurlag 1. mgr. 11. gr.

Þótt sami einstaklingur eða lögaðili fari margítrekað fram á aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga getur það, eitt og sér, ekki réttlætt að honum sé synjað um þann aðgang. Þar af leiðandi styðst sú afstaða Vestmannaeyjabæjar, sem fram kemur í bréfi bæjarritara frá 23. desember sl. og áður er gerð grein fyrir, ekki við lög.

2.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er Vestmannaeyjabæ skylt að veita kæranda aðgang að þeim upplýsingum og skjölum, sem hann hefur óskað eftir og er að finna í skjalasafni bæjarins, nema eitthvert af undantekningarákvæðunum í 4. - 6. gr. laganna standi því í vegi. Ekki verður séð, að svo sé, enda hafa bæjaryfirvöld ekki rökstutt synjun sína um að veita aðgang að hinum umbeðnu upplýsingum og skjölum með vísun til þeirra ákvæða. Þar af leiðandi er skylt að veita kæranda aðgang að þeim, svo sem nánar greinir í úrskurðarorði.

Afgreiðsla á máli þessu hefur dregist úr hömlu, fyrst og fremst vegna þess að Vestmannaeyjabær hefur látið undir höfuð leggjast að svara ítrekuðum erindum úrskurðar-nefndar. Sá dráttur hefur ekki verið réttlættur og telst hann því ámælisverður, sbr. 11. gr. og 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga, sbr. og 1. og 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.



Úrskurðarorð:

Vestmannaeyjabæ er skylt að veita kæranda, […], aðgang að eftirgreind-um upplýsingum og skjölum:
    1. Nöfnum og heimilisföngum umsækjenda um starf uppeldisfulltrúa við barna-skólann.
    2. Nöfnum og heimilisföngum umsækjenda um tvö störf skólavarða við barna-skólann.
    3. Árituðum reikningum bæjarsjóðs og stofnana hans, ásamt athugasemdum skoðunar-manna.
    4. Tilboði [A] og [B] í innheimtur fyrir Vestmanna-eyjabæ.
    5. Tillögu veitustjóra um stofnun einkahlutafélags til að standa að nýtingu vindorku til orkuframleiðslu.
    6. Verksamningi við [E] hf. vegna endurbyggingar Landlystar.
    7. Ársreikningi kertaverksmiðjunnar [F] vegna ársins 1998.
    8. Bréfi frá [G], dagsettu 17. ágúst sl., um opnunartíma á [H] og [I].
    9. Bréfi frá fjármálaráðuneyti, dagsettu 12. ágúst sl., þar sem því er hafnað að gangast í fjárhagslega ábyrgð vegna lífeyrisskuldbindinga starfsmanna Sjúkrahúss Vest-manna-eyja.
    10. Greinargerð veitustjóra vegna fyrirspurnar um fatasöfnun o.fl., lagðri fram í veitustjórn 11. júní sl.
    11. Verksamningi við [J] ehf. um uppsetningu lyftu í Hamarsskóla.
    12. Fundargerð bæjarráðs frá 23. ágúst sl.
    13. Nöfnum og heimilisföngum umsækjenda um að sinna liðveislu fyrir félagsmála-stofnun.
    14. Nöfnum og heimilisföngum umsækjenda um að sinna frekari liðveislu fyrir félags-málastofnun.
    15. Nöfnum og heimilisföngum umsækjenda um að vera til stuðnings á vegum félags-málastofnunar.
    16. Nöfnum og heimilisföngum umsækjenda um starf tómstunda- og forvarnafulltrúa.
    17. Verksamningi við [J] ehf. um endurbætur og viðbyggingu við íþrótta-miðstöðina, samþykktum í bæjarráði 26. júlí sl.
    18. Þremur bréfum frá [K] tæknifræðingi, dagsettum 23. júlí sl., um kostnaðarþátttöku í gerð veggja.
    19. Fjögurra mánaða uppgjöri bæjarveitna.
    20. Fundargerð stjórnar bæjarveitna frá 26. ágúst sl.
    21. Umsókn [L] og [M], dagsettri 18. ágúst sl., um að fá hluta af Stakkagerðistúni fyrir nautgriparækt.
    22. Bréfi frá RARIK og Landsvirkjun vegna skerðingar á afgangsorku frá 1. september sl., sem tekið var fyrir í veitustjórn 26. ágúst sl.
    23. Bréfi frá [N], dagsettu 10. ágúst sl., þar sem óskað er eftir samþykki Vestmannaeyjabæjar og bæjarveitna til að leggja ljósleiðarastreng.
    24. Nöfnum og heimilisföngum umsækjenda um stöðu starfsleiðbeinanda hjá kerta-verksmiðjunni [F].

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta