Hoppa yfir valmynd

A-095/2000 Úrskurður frá 26. apríl 2000

ÚRSKURÐUR



Hinn 26. apríl 2000 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-95/2000:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 7. apríl sl., kærði […], meðferð Ríkisútvarpsins á beiðni hans um aðgang að upplýsingum um nöfn umsækjenda um starf deildarstjóra svæðisstöðvar Ríkisútvarpsins á Akureyri.

Eins og mál þetta er úr garði gert, taldi úrskurðarnefnd ekki ástæðu til að leita eftir umsögn Ríkisútvarpsins um kæruna, sbr. 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Í fjarveru þeirra Elínar Hirst og Valtýs Sigurðssonar tóku þau Ólafur E. Friðriksson og Sif Konráðsdóttir varamenn sæti þeirra við meðferð og úrskurð í kærumáli þessu.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að kærandi óskaði hinn 4. apríl sl. eftir upplýsingum um nöfn umsækjenda um starf deildarstjóra svæðisstöðvar Ríkisútvarpsins á Akureyri. Samkvæmt auglýsingu bar að skila umsóknum til skrifstofu starfsmannastjóra Ríkisútvarpsins fyrir 3. apríl sl.

Samkvæmt tölvubréfi til kæranda, dagsettu 4. apríl sl., var honum tilkynnt að nöfn umsækj-enda um starfið yrðu birt að morgni næsta dags og að honum yrðu þá send þau með tölvupósti.

Í kæru til nefndarinnar telur kærandi að Ríkisútvarpið hafi með þessari meðferð beiðninnar brotið upplýsingalög og óskar eftir að úrskurðarnefnd úrskurði í málinu.

Niðurstaða

Samkvæmt gögnum málsins höfðu kæranda verið látnar í té þæ upplýsingar, sem hann óskaði eftir, þegar hann kærði meðferð á beiðni sinni til úrskurðarnefndar.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga er einungis unnt að kæra til úrskurðarnefndar "synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum" eða "synjun stjórnvalds um að veita ljósrit af skjölum eða afrit af öðrum gögnum." Þá er kæruheimild sú, sem er að finna í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, bundin því skilyrði að stjórnsýslumál sé ekki til lykta leitt, eins og ráðið verður af athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til þeirra laga.

Þar eð kæranda hafa þegar verið veittar þær upplýsingar, sem beiðni hans tók til, brestur samkvæmt framansögðu skilyrði til að skjóta meðferð á beiðninni til úrskurðarnefndar. Ber því að vísa kærunni frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru […] á hendur Ríkisútvarpinu vegna meðferðar á beiðni hans um aðgang að upplýsingum um umsækjendur um starf deildarstjóra svæðisstöðvar Ríkis-útvarps-ins á Akureyri er vísað frá úrskurðarnefnd.


Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta