Hoppa yfir valmynd

A-106/2000 Úrskurður frá 10. nóvember 2000

ÚRSKURÐUR



Hinn 10. nóvember 2000 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-106/2000:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 11. október sl., kærði [A] hrl., f.h. [B] synjun utanríkisráðuneytisins, dagsetta 13. september sl., um að veita umbjóðanda hans aðgang að tilteknum gögnum sem varða andlát [C].

Með bréfi, dagsettu 12. október sl., var kæran kynnt utanríkisráðuneytinu og því veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 20. október sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit þeirra gagna, sem kæran laut að, innan sama frests. Að beiðni ráðuneytisins var fallist á að framlengja frest þennan til 28. október sl. Umsögn ráðuneytisins, dagsett 30. október sl., barst þann sama dag ásamt eftirtöldum málsgögnum:

1. Símbréfi ráðuneytisins til ræðismanns Íslands á Benidorm, dagsettu 16. janúar 2000.
2. Símbréfi ráðuneytisins til [D], dagsettu 18. janúar 2000.
3. Símbréfi ráðuneytisins til sr. [E], dagsettu 19. janúar 2000.
4. Tölvubréfi ráðuneytisins til sendiráðsins í London, dagsettu 19. janúar 2000.
5. Bréfi ræðismannsins á Benidorm til ráðuneytisins, dagsettu 19. janúar 2000.
6. Tölvubréfi sendiráðsins í London til ráðuneytisins, dagsettu 20. janúar 2000.
7. Tölvubréfi [F] til ráðuneytisins, dagsettu 9. febrúar 2000.
8. Tölvubréfi [F] til ráðuneytisins, dagsettu 14. febrúar 2000.
9. Minnisblaði ráðuneytisins um símtal við ræðismanninn á Benidorm, dagsettu 16. febrúar 2000.
10. Fylgibréfi ræðismannsins á Benidorm til ráðuneytisins, dagsettu 17. febrúar 2000, með dánarvottorði, skýrslu réttarlæknis og lögreglu.
11. Minnisblaði ráðuneytisins um símtal við ræðismanninn á Benidorm, dagsettu 21. febrúar 2000.
12. Bréfi ræðismanns Spánar í Reykjavík til [G] og [H], dagsettu 24. febrúar 2000.
13. Bréfi ræðismanns Spánar í Reykjavík til [G] og [H], dagsettu 5. apríl 2000.

Málsatvik

Mál þetta á rætur að rekja til þess að [C] lést af slysförum á Spáni hinn 15. janúar sl. Í bréfi til utanríkisráðuneytisins, dagsettu 21. júní sl., lýsir umboðs-maður kæranda hagsmunum hennar af því að kanna bótagrundvöll vegna fráfalls [C] sem verið hafi sambýlismaður hennar. Frá vori 1998 hafi kærandi og [C] heitinn búið saman hjá foreldrum hans og frá hausti það sama ár hafi þau dvalið til skiptis hjá foreldrum hvors annars. Hafi þau fest kaup á íbúð í aprílmánuði 1999 og flutt þangað, jafnframt því að staðfesta samband sitt með hringtrúlofun. Hafi þau bæði unnið og laun þeirra runnið inn á sameiginlegan sparisjóðsreikning. Þau hafi þó ekki látið skrá sambúð sína né átt lögheimili á sama stað. Í bréfinu er tekið fram að vegna þessa kunni kærandi að eiga rétt til skaðabóta vegna fráfalls [C] og hugsanlega rétt til greiðslu á grund-velli samningsbundinna trygginga. Er sérstaklega vísað til 13. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 þar sem m.a. er kveðið á um bætur til handa sambúðarmaka fyrir missi framfæranda. Því er farið fram á að kærandi fái aðgang að öllum gögnum í vörslum ráðuneytisins um slys það sem varð [C] að aldurtila.

Utanríkisráðuneytið afgreiddi beiðni kæranda á grundvelli II. kafla upplýsingalaga nr. 50/1996 og lét umboðsmanni hennar í té hluta af þeim gögnum, sem málið varða, ásamt lista yfir gögn málsins, sbr. bréf ráðuneytisins, dagsett 13. september og 9. október sl. Með vísun til 3. tölul. 4. gr. og 5. gr. upplýsingalaga synjaði ráðuneytið um aðgang að þeim gögnum málsins, sem auðkennd eru nr. 1-6, 9 og 11-13 hér að framan, svo og um hluta þeirra gagna sem auðkennd eru nr. 7, 8 og 10.

Í kæru til nefndarinnar, dagsettri 11. október sl., hefur umboðsmaður kæranda áréttað þau sjónarmið sem fram komu í beiðni hennar um aðgang að gögnum. Telur kærandi að hún eigi sérstaklega rétt á að fá aðgang að gögnum, auðkenndum nr. 1–6.

Umsögn utanríkisráðuneytisins til úrskurðarnefndar, dagsettri 30. október sl., fylgdi afrit af bréfi [I] hrl., dagsettu 16. ágúst sl., þar sem látin er í té umsögn um beiðni kæranda, f.h. foreldra hins látna. Þar kemur fram að þeir hafi fengið bú hans framselt til einkaskipta og leggist eindregið gegn því að nokkur gögn, sem varða fráfall hans, verði afhent öðrum en réttum fyrirsvarsmönnum dánar-búsins.

Í umsögn utanríkisráðuneytisins er ennfremur gerð ítarleg grein fyrir meðferð á beiðni kæranda í ráðuneytinu og þeim sjónarmiðum sem búa að baki hinni kærðu ákvörðun. Þar kemur m.a. fram að gögn, auðkennd nr. 9 og 11, hafi verið undan-þegin aðgangi sem vinnuskjöl ráðuneytisins, sbr. 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga, en upplýsingar í öðrum gögnum varði einkamálefni einstaklinga með þeim hætti að verndar njóti samkvæmt fyrri málslið 5. gr. laganna.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.

Í III. kafla upplýsingalaga er kveðið á um aðgang aðila að upplýsingum um hann sjálfan. Hefur úrskurðarnefnd skýrt 9. gr. laganna svo rúmt að hún taki til þess þegar einstaklingur hefur lögvarða hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að umbeðnum gögnum, sbr. niðurstöðu Hæstaréttar í dómi sem upp var kveðinn 19. október sl. í máli nr. 330/2000.

Í hæstaréttardóminum segir jafnframt að gera verði skýran greinarmun á upplýsingarétti almennings skv. II. kafla upplýsingalaga og upplýsingarétti aðila skv. III. kafla þeirra. Hinn ríki réttur aðila til aðgangs að gögnum er undantekning frá hinni almennu reglu laganna. Því verður að vera hafið yfir allan vafa að sá, sem fer fram á aðgang að gögnum, teljist aðili í skilningi 9. gr. laganna svo að leyst verði úr beiðni hans á grund-velli þeirrar greinar.

Kærandi heldur því fram að hún hafi lögvarða hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnum um slys það, sem varð [C] heitnum að aldurtila, þar sem hann hafi verið sambýlismaður hennar og hún kunni að eiga rétt á bótum vegna fráfalls hans. Í bréfi umboðsmanns kæranda til utan-ríkis-ráðuneytisins kemur fram að þau [C] hafi búið saman um all nokkurt skeið áður en hann lést. Sambúð þeirra var þó ekki skrásett, enda áttu þau lögheimili hvort á sínum stað.

Í íslenskum lögum er að finna a.m.k. tvö ákvæði, þar sem mælt er fyrir um rétt til bóta eftir sam-býlis--maka, þ.e. 13. gr. skaðabótalaga og 44. gr. laga nr.117/1993 um almanna-tryggingar. Í fyrra ákvæðinu er m.a. kveðið á um bætur til sambúðarmaka fyrir missi framfæranda. Í 1. og 3. mgr. 44. gr. laga nr. 117/1993 segir hins vegar orðrétt: "Sama rétt til bóta og hjón hafa samkvæmt lögum þessum einnig karl og kona sem eru í óvígðri sambúð er skráð hefur verið í þjóðskrá lengur en eitt ár. Sama rétt hafa karl og kona sem átt hafa saman barn eða konan er þunguð af hans völdum, enda sé óvígð sambúð þeirra skráð í þjóðskrá. Sama gildir um bótarétt þess sem eftir lifir. - Sameiginlegt lögheimili eða sambúð eftir öðrum ótvíræðum gögnum lengur en eitt ár skal lagt að jöfnu við skráningu sambúðar í þjóðskrá."

Með skírskotun til þess, sem að framan segir, verður ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á að hún eigi rétt til bóta eftir [C] heitinn á grundvelli þessara lagaákvæða. Hefur hún heldur ekki gert sennilegt að hún eigi rétt til vátryggingarbóta vegna fráfalls hans. Þar af leiðandi ber að leysa úr beiðni hennar um aðgang að hinum umbeðnu gögnum á grundvelli II. kafla upplýsingalaga.
2.

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr."

Úrskurðarnefnd hefur kynnt sér efni þeirra skjala sem um er deilt í máli þessu. Er það niðurstaða hennar að skjöl þau, sem auðkennd eru nr. 1-8, 10, 12 og 13, hafi öll að geyma einkamálefni sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari skv. 5. gr. upplýsinga-laga. Minnisblöð þau, sem auðkennd eru nr. 9 og 11, falla undir 3. tölul. 4. gr. laganna. Hafa þau ekki að geyma upplýsingar um staðreyndir, sem ekki verður aflað annars staðar frá, þannig að skylt sé að veita aðgang að þeim samkvæmt umræddu ákvæði. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.



Úrskurðarorð:

Staðfest er sú ákvörðun utanríkisráðuneytisins að synja kæranda, [B], um frekari aðgang að gögnum sem varða andlát [C].


Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta