Hoppa yfir valmynd

A-109/2000 Úrskurður frá 21. desember 2000

ÚRSKURÐUR



Hinn 21. desember 2000 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-109/2000:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 21. október sl., kærði [A], til heimilis að […], meðferð Húsaskóla og Öldutúnsskóla á beiðnum hans, dagsettum 18. apríl og 20. september sl., um aðgang að öllum upplýsingum, sem fyrir liggja um hann, hjá skólunum tveimur. Sérstaklega fór hann þess á leit að Öldutúnsskóli veitti sér aðgang að umsögn/meðmælabréfi til félagsvísindadeildar Háskóla Íslands og að umsögn [B], skólasálfræðings Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar, og [C], umsjónarkennara, um stuðningskennslu kæranda við nafngreindan nemanda sinn. Önnur gögn voru ekki tilgreind sérstaklega.

Með bréfi, dagsettu 27. nóvember sl., var kæran kynnt skólastjórum Húsaskóla og Öldutúnsskóla og beint til þeirra að taka ákvörðun um afgreiðslu beiðni kæranda eins fljótt og við yrði komið og eigi síðar en 7. desember sl. Var þess óskað að ákvörðun þeirra yrði birt kæranda og úrskurðarnefnd eigi síðar en kl. 16.00 þann dag. Ef þeir teldu ástæðu til að synja kæranda um aðgang að einhverjum gögnum, er beiðni hans laut að, var þess jafnframt óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té afrit þeirra sem trúnaðarmál innan sama frests. Í því tilviki var skólastjórunum auk þess gefinn kostur á að koma að athugasemdum við kæruna og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðunum sínum innan sömu tímamarka. Umsögn skólastjóra Öldutúnsskóla, dagsett 4. desember sl., barst innan tilskilins frests ásamt umbeðinni skýrslu sálfræðings um nafngreindan nemanda við skólann. Umsögn skólastjóra Húsaskóla, dagsett 7. desember sl., barst hinn 11. desember sl., ásamt afriti af erindi hans til kæranda, dagsettu 2. nóvember sl.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með samhljóða bréfum til skólastjóra Húsaskóla og Öldutúnsskóla, dagsettum 18. apríl sl., fór kærandi fram á að fá aðgang að öllum upplýsingum, sem fyrir liggja um hann, hjá skólunum. Með samhljóða bréfum til skólastjóranna, dagsettum 20. september sl., ítrekaði hann fyrri beiðni sína. Um ástæður beiðni hans kom þar fram að kærandi taldi sig hafa heyrt um "meintan orðróm og ærumeiðingar um sig á báðum skólunum á mjög líku tímabili, u.þ.b. fjórum vikum eftir að hafa farið með sitthvorn bekkinn, þar sem [kærandi] var í stuðningskennslu, annars vegar í Hafnarfjarðarkirkju í desember 1998, og hins vegar í Grafarvogskirkju í desember 1999". Telur kærandi að ástæða sé til að ætla að "einhverjir kennarar/starfsfólk við báða skóla hafi a.m.k. einhverja vitneskju um málið".

Í kæru til nefndarinnar hefur kærandi sérstaklega óskað eftir aðgangi að umsögn [B] skólasálfræðings Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar og [C] umsjónarkennara um stuðningskennslu kæranda við nafngreindan nemanda hans og að umsögn eða meðmælabréfi skólastjóra Öldutúnsskóla til félagsvísinda-deildar Háskóla Íslands um umsókn kæranda um nám í uppeldis- og kennslufræðum til kennsluréttinda vorið 1999. Önnur gögn eru ekki tilgreind sér-staklega frekar en í framangreindum beiðnum.

Með umsögn skólastjóra Húsaskóla til úrskurðarnefndar, dagsettri 7. desember sl., fylgdi afrit af erindi hans til kæranda, dagsettu 2. desember sl., þar sem fram kemur að því fylgi svör við fyrirspurnum hans. Í umsögn til nefndarinnar er jafnframt áréttað að ekki liggi fyrir neinar frekari upplýsingar um kæranda en ráðningarsamningur, vinnuskýrsla, skýrsla um afleysingarkennslu og veikindaforföll ásamt læknisvottorðum.

Í umsögn skólastjóra Öldutúnsskóla til úrskurðarnefndar, dagsettri 4. desember sl., er vísað til þess að í skólanum liggi ekki fyrir aðrar upplýsingar um kæranda, en þær sem nefndar hafi verið í erindi hans til kæranda, dagsettu 2. maí sl., þ.e. starfssamningur, gögn vegna menntunar og meðmæli, sem almennt hafi tengst ráðningu hans og kærandi sjálfur látið í té. Að því er varðar meðmæli til félagsvísindadeildar Háskóla Íslands er jafnframt upplýst að eyðublað, er til þess hafi verið ætlað, hafi verið lagt til hliðar og ekki sent deildinni, enda hafi kærandi ekki gengið frekar eftir því. Hins vegar liggi fyrir umbeðin skýrsla sálfræðings um nafngreindan nemanda sem kærandi veitti tímabundinn stuðning. Skýrslan fjalli þó eingöngu um nemandann en ekki kæranda. Því telji skólastjórinn sér ekki vera heimilt að afhenda hana öðrum án samþykkis hlutaðeigandi, þ. á m. foreldra barnsins.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

Eins og mál þetta liggur fyrir, hefur kæranda ekki verið synjað um aðgang að öðrum fyrirliggjandi gögnum en skýrslu skólasálfræðings um nafngreindan nemanda sem kæranda var falið að veita tímabundinn stuðning í Öldutúnsskóla.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónu-upplýsinga, sbr. 2. gr. laga nr. 76/1997, falla skýrslur sálfræðinga undir gildissvið þeirra laga, hvort sem þær teljast skrár í skilningi 2. mgr. sömu greinar eða ekki. Samkvæmt fyrri málslið 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 gilda þau ekki um aðgang að upplýsingum sem lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga taka til. Þar með verður synjun um aðgang að framangreindri skýrslu ekki borin undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Ber því að vísa máli þessu frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru [A] á hendur Húsaskóla og Öldutúnsskóla er vísað frá úrskurðarnefnd.



Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta