A-110/2000 Úrskurður frá 21. desember 2000
ÚRSKURÐUR
Hinn 21. desember 2000 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-110/2000:
Kæruefni
Með bréfi samgönguráðuneytisins, dagsettu 29. nóvember sl., var úrskurðarnefnd um upplýsingamál framsend kæra […] fréttamanns, f.h. fréttastofu […], en kæran er dagsett 17. nóvember sl. Kærð er synjun Siglinga-stofnunar Íslands, dagsett 16. nóvember sl., um að veita kæranda aðgang að nýlegri skoðunarskýrslu um skipið […].
Með bréfi, dagsettu 30. nóvember sl., var Siglingastofnun kynnt kæran og stofnuninni veittur frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 11. desember sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrði látið í té sem trúnaðarmál afrit af skýrslu þeirri, sem kæran laut að, innan sama frests. Umsögn Siglingastofnunar, dagsett 8. desember sl., barst innan tilskilins frests ásamt umbeðnu skjali.
Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að hinn 15. nóvember sl. fór kærandi fram á að Siglingastofnun Íslands léti honum í té afrit af skoðunarskýrslu, sem starfsmenn stofnunarinnar hefðu gert að lokinni skoðun á skipinu […] í Reykja-víkurhöfn nýlega. Siglingastofnun synjaði beiðni kæranda daginn eftir á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 með vísun til fjárhags- eða viðskiptahagsmuna útgerðar-aðila skipsins.
Synjun Siglingastofnunar var kærð til samgönguráðuneytisins 17. nóvember sl. Með vísun til úrskurðar úrskurðarnefndar í málinu nr. A-65/1998 framsendi samgöngu-ráðuneytið kæruna til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með bréfi, dag-settu 29. nóvember sl.
Í kærunni er ekki dregið í efa af hálfu kæranda að skoðunarskýrsla varði fjárhags- eða viðskiptahagsmuni útgerðar. Hins vegar telji hann ótvírætt að aðrir hagsmunir vegi þyngra í þessu máli, svo sem öryggishagsmunir sjómanna og annarra sjófarenda. Með leynd um ástand skips séu stjórnvöld ennfremur að veita brotlegri útgerð skipsins vernd sem stuðlað geti að því að útgerðin telji síður ástæðu til úrbóta.
Í umsögn Siglingastofnunar til úrskurðarnefndar, dagsettri 8. desember sl., er vísað til þess að ástand skipa hljóti eðli máls samkvæmt alltaf að varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni útgerðaraðila þeirra. Af þeim sökum telji stofnunin óheimilt að veita aðgang að skýrslum um skoðun þeirra á grundvelli 5. gr. upplýsinglaga. Stofnunin hafi þó veitt tilteknum hagsmunaaðilum aðgang að slíkum skýrslum, þ.e. rannsóknarnefnd sjóslysa, útgerðaraðilum og sjómönnum eða stéttarfélögum þeirra. Þá bendir stofnunin á að nokkur flokkunarfélög hafi heimild til þess að skoða skip auk Siglingastofnunar. Ekki verði séð að upplýsingalög gildi um þessi flokkunarfélög, en ólíklegt verði að telja að þau séu reiðubúin að gera skoðunarskýrslur sínar opinberar.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um það hvort Siglingastofnun Íslands beri að veita kæranda aðgang að skýrslu um skoðun á tilteknu skipi sem framkvæmd var af starfsmönnum stofnunar-innar á grundvelli 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/1993 um eftirlit með skipum. Enginn ágreiningur er um það að Siglingastofnun fellur undir upplýsingalög skv. 1. mgr. 1. gr. laganna. Skiptir í því sambandi ekki máli hvort aðrir aðilar framkvæma einstaka þætti skipa-skoðunar, svo sem heimilað er í 2. mgr. 10. gr. og 4. mgr. 11. gr. laga nr. 35/1993.
Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Siglingastofnun hefur rökstutt synjun sína um að veita kæranda aðgang að umræddri skýrslu með því að vísa til 5. gr. laganna.
Sú grein hljóðar svo: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikil-væga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila." Ákvæði þetta felur í sér undantekningu frá meginreglu upplýsingalaga og ber því að skýra það þröngt. Í athugasemdum við síðari málslið þessarar greinar sagði m.a. svo í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni."
Við mat á því, hvort gögn hafi að geyma upplýsingar um mikilvæga fjár-hags- eða viðskipta-hags-muni lögaðila, sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari skv. 5. gr. upplýsinga-laga, kemur m.a. til skoðunar hvort hagsmunir lögaðilans af því, að upp-lýsingunum skuli haldið leyndum, vegi þyngra á metum en hagsmunir almennings af því að fá aðgang að þeim, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Var þetta sjónarmið lagt til grundvallar í dómi Hæstaréttar sem upp var kveðinn 23. mars 2000 í máli nr. 455/1999.
Einstök ákvæði laga nr. 35/1993, svo sem 2. tölul. 12. gr. og 19. gr., gefa til kynna þann vilja lög-gjafans að öryggissjónarmið skuli vega þungt við framkvæmd laga um skoðun skipa. Þá er hvorki í þeim lögum né í lögum nr. 6/1996 um Siglingastofnun Íslands að finna ákvæði, þar sem mælt er sérstaklega fyrir um þagnarskyldu starfs-manna stofnunar-innar að því er varðar efni skýrslna um skoðun skipa.
Upplýsingar, sem fram koma í slíkum skýrslum um ástand skips og önnur atriði, kunna að varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni útgerðar. Á móti kemur að mikil-vægt er fyrir almenning að geta fylgst með því að öryggi skipa sé tryggt. Þegar þessir mismunandi hagsmunir eru virtir er það niðurstaða úrskurðar-nefndar, með vísun til þess sem að framan greinir, að hagsmunir almennings af því að fá aðgang að skýrslum um skoðun skipa skuli almennt vega þyngra en hagsmunir útgerðar af því að upplýsingum, sem þar koma fram, sé haldið leyndum.
Nefndin hefur kynnt sér efni þeirrar skýrslu sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að. Að áliti hennar er þar ekki að finna neinar þær upplýsingar um fjárhags- eða viðskipta-hagsmuni útgerðar skipsins sem réttlæti samkvæmt framansögðu að synja kæranda um aðgang að skýrslunni. Ber Siglingastofnun þar af leiðandi að verða við beiðni hans.
Úrskurðarorð:
Siglingastofnun Íslands ber að veita kæranda, […], f.h. fréttastofu […], aðgang að skýrslu um skoðun á skipinu […] sem fram fór dagana 18., 23. og 24. október 2000.
Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson