A-122/2001 Úrskurður frá 1. ágúst 2001
ÚRSKURÐUR
Hinn 1. ágúst 2001 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-122/2001:
Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 10. júlí sl., kærði [A], til heimilis að […], synjun Akureyarbæjar, dagsetta 18. júní sl., um að láta honum í té ljósrit af ráðningarsamningum við tvo sviðsstjóra hjá bænum.
Með bréfi, dagsettu 17. júlí sl., var kæran kynnt Akureyrarbæ og bænum veittur frestur til að lýsa viðhorfi sínu til hennar til kl. 16.00 hinn 30. júlí sl. Ennfremur var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit þeirra gagna, sem kæran lýtur að, innan sama frests. Umsögn bæjarins, dagsett 30. júlí sl., barst hinn 31. júlí sl. ásamt afriti af hinum umbeðnu gögnum.
Málsatvik
Kærandi gegndi starfi bæjarritara hjá Akureyrarbæ um árabil. Skömmu eftir að hann lét af starfi og hóf töku eftirlauna var ákveðið að skipta starfi bæjarritara á milli tveggja sviðsstjóra, annars vegar fyrir stjórnsýslu- og þjónustusvið og hins vegar fyrir fjármálasvið. Samkvæmt samþykkt fyrir Lífeyrissjóð starfsmanna Akureyrarbæjar hafa eftirlaun kæranda miðast við tiltekinn hundraðshluta af föstum launum sviðsstjóranna.
Hinn 22. mars og 17. apríl sl. voru gerðir ráðningarsamningar við umrædda sviðsstjóra, sem fólu í sér breytt laun þeirra, að sögn kæranda, meðan eftirlaun hans hafi staðið óbreytt. Með bréfi, dagsettu 14. júní sl., óskaði kærandi eftir ljósritum af ráðningarsamningunum, "enda lít ég svo á að þeir snerti hagsmuni mína", eins og orðrétt segir í bréfinu.
Í svarbréfi bæjarstjórans á Akureyri segir m.a. orðrétt: "Mér er óheimilt að veita upplýsingar um heildarlaun einstakra starfsmanna Akureyrarbæjar, en þú átt fullan rétt á því að fá upplýsingar um föst laun þessara aðila. … – Ekki er unnt að verða við erindi þínu um að fá afrit ráðningarsamninga, þar sem í þeim koma fram upplýsingar/vísbendingar um heildarlaun sviðsstjóranna."
Í kæru sinni til úrskurðarnefndar, dagsettri 10. júlí sl., kveðst kærandi eiga skýlausan rétt til þess að fá ljósrit af ráðningarsamningunum, vegna hagsmuna sinna og með vísun til upplýsingalaga, "þannig að mér megi ljóst vera hver réttur minn er samkvæmt þeim ekki einungis hvað föst laun snertir heldur einnig aukagreiðslur, gildistíma, afturvirkni, breytingar á samningstíma o.s.frv."
Í greinargerð Akureyrarbæjar, dagsettri 30. júlí sl., segir að kæranda hafi þegar verið veittar upplýsingar um föst laun sviðsstjóranna. Synjun bæjarins um að veita honum frekari upplýsingar um launakjör þeirra byggist á 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Laun sviðsstjóranna séu tvíþætt, annars vegar föst dagvinnulaun og hins vegar laun fyrir yfirvinnu/aukavinnu. Síðarnefndu launin byggi ekki á föstum greiðslum, heldur skráningu á vinnu viðkomandi sviðsstjóra. Þær launagreiðslur geti verið breytilegar milli einstaklinga og milli mánaða/ára og geti því vart talist hluti fastra launa.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða
1.
1.
Í öðrum málslið 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga, eins og honum var breytt með 1. gr. laga nr. 83/2000, er tekið fram að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nema óskað sé eftir aðgangi að skjölum eða öðrum gögnum sem 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga tekur til. Í 2. mgr. 44. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er kveðið svo á um að þau lög takmarki ekki þann rétt til aðgangs að gögnum sem mælt er fyrir um í upplýsingalögum.
Í máli því, sem hér er til úrlausnar, hefur kærandi óskað eftir aðgangi að tveimur ráðningarsamningum sem falla augljóslega undir 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga. Þar með ber að leysa úr á málinu á grundvelli þeirra laga, en ekki laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
2.
Samkvæmt upplýsingalögum er gerður greinarmunur á aðgangi aðila máls að upplýsingum um hann sjálfan, sbr. III. kafla laganna, og almennum aðgangi að upplýsingum, sbr. II. kafla þeirra. Eins og að framan greinir, miðast eftirlaun kæranda við laun eftirmanna hans í starfi. Þar af leiðandi á hann hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að samningum um launakjör þessara starfsmanna Akureyrarbæjar og telst hann því aðili máls í skilningi III. kafla upplýsingalaga. Samkvæmt því ber að leysa úr beiðni hans um aðgang að umræddum ráðningarsamningum á grundvelli þessa kafla laganna.
Í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum, sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan." Orðalagið "upplýsingar um hann sjálfan" hefur verið skýrt þannig að það taki til upplýsinga, sem varða aðila máls sérstaklega, sbr. dóm Hæstaréttar 19. október 2000 í máli nr. 330/2000.
Í 2. og 3. mgr. 9. gr. upplýsingalaga er að finna undantekningar frá meginreglu 1. mgr., þ. á m. segir svo í 3. mgr.: "Heimilt er að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingunum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnunum."
Úrskurðarnefnd hefur áður komist að þeirri niðurstöðu, með vísun til lögskýringargagna, að skýra beri 5. gr. upplýsingalaga svo að almenningur eigi rétt til þess að fá vitneskju um föst laun og launakjör opinberra starfsmanna. Þar af leiðandi verða þeir almennt að sæta því að ráðningarsamningar þeirra verði gerðir opinberir. Þótt í samningum þeim, sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að, sé gert ráð fyrir breyti-legum launagreiðslum til sviðsstjóranna fyrir yfirvinnu og/eða aukavinnu getur það, eitt og sér, ekki skert rétt hans skv. 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga til þess að kynna sér efni þeirra. Samkvæmt því er Akureyrarbæ skylt að veita honum aðgang að samningunum í heild sinni, enda er þar ekki að finna neinar þær upplýsingar sem réttlæta að þeim sé haldið leyndum á grundvelli 3. mgr. 9. gr. laganna.
Úrskurðarorð:
Akureyrarbæ er skylt að veita kæranda, [A], aðgang að ráðningarsamningum við tvo sviðsstjóra hjá bænum sem dagsettir eru 22. mars og 17. apríl sl.
Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson