A-128/2001 Úrskurður frá 6. september 2001
ÚRSKURÐUR
Hinn 6. september 2001 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-128/2001:
Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 19. júlí sl., kærðu [A] og [B], til heimilis að […], synjun landbúnaðar-ráðu-neytis-ins, dagsetta 5. júlí sl., um að afhenda þeim ljósrit af reikningi [C] hrl. fyrir vinnu við gerð samkomulags um ábúðarlok kærenda á jörðunum [D], [E] og [F] í [H], svo og af greinargerð er kunni að hafa fylgt reikningnum. Þar eð kærunni fylgdu ekki þau skjöl, sem þar var vísað til, óskaði úrskurðarnefnd eftir því með bréfi, dagsettu 25. júlí sl., að kærendur létu henni í té afrit af þeim. Þau bárust síðan nefndinni 14. ágúst sl.
Með bréfi, dagsettu 17. ágúst sl., var kæran kynnt landbúnaðarráðuneytinu og því veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 28. ágúst sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit af umbeðnum gögnum innan sama frests. Umsögn ráðuneytisins, dagsett 27. ágúst sl., barst innan tilskilsins frests ásamt ljósriti af umbeðnum reikningi frá Sigurði Sigurjónssyni hrl. til jarðadeildar ráðuneytisins, dagsettum 5. mars 1999.
Í fjarveru Valtýs Sigurðssonar tekur Arnfríður Einarsdóttir, varamaður, sæti í nefndinni við meðferð og úrskurð í kærumáli þessu.
Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að kærendur og landbúnaðarráðuneytið gerðu 5. mars 1999 með sér samkomulag um ábúðarlok kærenda á ríkisjörðunum [D], [E] og [F] í [H]. Í samkomulaginu kemur m.a. fram að ráðuneytið greiði hluta kostnaðar kærenda vegna lögmanns þeirra vegna samninga og deilumáls í Gufudal, kr. 550.000, auk virðisaukaskatts. Í samræmi við samkomulagið greiddi ráðuneytið reikning þann, sem ágreiningur í máli þessu stendur um, hinn 19. mars 1999.
Með vísun til framangreinds samkomulags fóru kærendur fram á að fá ljósrit af reikningi lögmannsins í bréfi til landbúnaðarráðuneytisins, dagsettu 4. nóvember 2000. Ennfremur fóru þeir fram á að fá ljósrit af greinargerð með reikningnum ef einhver slík hefði fylgt honum. Í bréfinu tóku kærendur fram að þeir teldu lögmanninn hafa "tvírukkað" fyrir vinnu sína í sambandi við lausn ágreiningsmála þeirra við ráðuneytið.
Með bréfi til kærenda, dagsettu 23. nóvember 2000, tilkynnti landbúnaðarráðuneytið þeim að það hefði leitað eftir afstöðu lögmannsins til erindis þeirra og veitt honum frest til 30. nóvember 2000 til þess að svara því. Jafnframt var þeim tilkynnt að erindi þeirra yrði svarað að þeim tíma liðnum. Með bréfi ráðuneytisins til kærenda, dagsettu 4. desember 2000, var þeim tilkynnt að afgreiðslu erindis þeirra væri frestað til 15. þess mánaðar.
Kærendur ítrekuðu síðan erindi sitt með bréfi til landbúnaðarráðuneytisins, dagsettu 25. júní sl. Með bréfi ráðuneytisins, dagsettu 5. júlí sl., var þeim tilkynnt að beiðni þeirra væri synjað, m.a. á þeim grundvelli að gögn, er varði gerð reikninga fyrir aðkeypta þjónustu, séu undanþegin aðgangi skv. 4.–6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Jafnframt var tekið fram að leitað hefði verið eftir samþykki útgefanda reikningsins, [C] hrl., en svar hefði ekki borist frá honum. Í greinargerð ráðuneytisins til úrskurðarnefndar, dagsettri 27. ágúst sl., er þetta ítrekað og einnig tekið fram að engin greinargerð eða vinnuskýrsla hafi fylgt reikningnum.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða
1.
1.
Í 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvald skal taka ákvörðun um hvort það verður við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða má. Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar skal skýra aðila frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta."
Kærendur fóru upphaflega fram á að fá afhent ljósrit af hinum umbeðna reikningi með bréfi, dagsettu 4. nóvember 2000. Landbúnaðarráðuneytið tilkynnti þeim tæpum þremur vikum síðar að beiðninni yrði svarað í byrjun desembermánaðar og enn síðar að það yrði gert 15. desember 2000. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að ráðuneytið hafi aðhafst neitt frekar í því fyrr en kærendur ítrekuðu beiðni sína í júnílok 2001.
Landbúnaðarráðuneytið tilkynnti kærendum fyrst um afstöðu sína til beiðni þeirra þegar um það bil átta mánuðir voru liðnir frá því að hún kom fyrst fram. Þótt ekkert sé við það að athuga að ráðuneytið hafi gefið lögmanni þeim, sem hlut átti að máli, hæfilegan tíma til þess að láta í ljós álit sitt á beiðninni réttlætir það ekki þennan óhóflega drátt sem telja verður ámælisverðan.
2.
Samkvæmt upplýsingalögum er gerður greinarmunur á aðgangi aðila máls að upplýsingum um hann sjálfan, sbr. III. kafla laganna, og almennum aðgangi að upplýsingum, sbr. II. kafla þeirra. Eins og að framan greinir, fara kærendur fram á að fá ljósrit af reikningi frá lögmanni sínum sem landbúnaðarráðuneytið hefur greitt samkvæmt samkomulagi við þá. Í beiðni sinni til ráðuneytisins kváðust kærendur telja að lögmaðurinn hefði fengið tvígreitt fyrir störf í þeirra þágu og vildu þeir bersýnilega fá ljósrit af reikningnum og hugsanlegum fylgigögnum með honum til þess að geta gengið úr skugga um það.
Eins og hér stendur á, eiga kærendur ótvíræða hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að umræddum reikningi. Teljast þeir því aðilar máls í skilningi III. kafla upplýsingalaga og ber þar af leiðandi að leysa úr beiðni þeirra um aðgang að honum á grundvelli þessa kafla laganna.
Í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan." Orðalagið "upplýsingar um hann sjálfan" hefur verið skýrt þannig að það taki til upplýsinga, sem varða aðila máls sérstaklega, sbr. dóm Hæstaréttar 19. október 2000 í máli nr. 330/2000.
Í 2. og 3. mgr. 9. gr. upplýsingalaga er að finna undantekningar frá meginreglu 1. mgr., þ. á m. segir svo í 3. mgr.: "Heimilt er að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingunum sé haldið leyndum, þyngra en hags-munir þess sem fer fram á aðgang að gögnunum."
Það er álit úrskurðarnefndar að hagsmunir kærenda af því að fá aðgang að hinum umbeðna reikningi vegi augljóslega þyngra en hagsmunir lögmanns þeirra af því að varna þeim aðgangs að honum. Samkvæmt því er landbúnaðarráðuneytinu skylt að veita kærendum aðgang að reikningnum. Þá hafa þeir jafnframt farið fram á að fá ljósrit af honum. Með vísun til 2. mgr. 12. gr. upplýsingalaga ber ráðuneytinu einnig að verða við þeirri beiðni.
Úrskurðarorð:
Landbúnaðarráðuneytinu er skylt að afhenda kærendum, [A] og [B] ljósrit af reikningi [C] hrl., dagsettum 5. mars 1999, fyrir vinnu við gerð samkomulags um ábúðarlok kærenda á jörðunum [D], [E] og [F] í [H].
Eiríkur Tómasson, formaður
Arnfríður Einarsdóttir
Elín Hirst