Hoppa yfir valmynd

A-129/2001 Úrskurður frá 19. september 2001

ÚRSKURÐUR



Hinn 19. september 2001 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-129/2001:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 24. ágúst sl., kærði […] hdl., f.h. […], synjun Íbúðalánasjóðs, dagsetta 20. ágúst sl., um að veita umbjóðanda hans upplýsingar um stöðu á láni sjóðsins til félagsins "[A]", með veði í fasteigninni [B] í Reykjavík.

Með bréfi, dagsettu 30. ágúst sl., var kæran kynnt Íbúðalánasjóði og sjóðnum veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 6. september sl. Jafnframt var þess óskað að í umsögn sjóðsins kæmi fram á hvaða lagagrundvelli hefði verið leyst úr beiðni kæranda og á hvaða formi umbeðnar upplýsingar væru varðveittar. Umsögn sjóðsins, dagsett 6. september sl., barst innan tilskilins frests.

Málsatvik

Eins og fram kemur í kæru til úrskurðarnefndar, seldi kærandi félaginu "[A]" fasteignina [B] í Reykjavík, sbr. kaupsamning, dagsettan 19. janúar 2001. Til greiðslu kaupverðsins tók félagið m.a. lán hjá Íbúðalánasjóði með veði í fasteigninni. Vegna vanskila á kaupsamningnum og til þess að gæta hagsmuna kæranda vegna mögulegs nauðungaruppboðs á fasteigninni fór umboðsmaður kæranda þess á leit, með bréfi til sjóðsins, dagsettu 17. ágúst sl., að fá upplýsingar um stöðu umrædds veðláns hjá sjóðnum og hugsanleg vanskil þess.

Íbúðalánasjóður synjaði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 20. ágúst sl. Í svarbréfinu segir m.a.: "Skráðar upplýsingar hjá Íbúðalánasjóði falla undir lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Það er almennt mat Íbúðalánasjóðs, vegna eðlis upplýsinga hjá sjóðnum um fjárhagsmálefni einstaklinga, að þær séu varðar af 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. – Stjórn Íbúðalánasjóðs samþykkti hinn 22. júní 2000 reglur um upplýsingagjöf starfsmanna um stöðu lána, sbr. hjálagt ljósrit. Þar kemur m.a. fram, að heimilt er að veita upplýsingar um stöðu lána við gerð kröfulýsinga, sem er að jafnaði degi fyrir framhald sölu. – Samkvæmt ofanskráðu er ekki unnt að verða við erindi yðar." Bréfi sjóðsins fylgdu jafnframt reglur stjórnar sjóðsins frá 22. júní 2000.

Í kæru til úrskurðarnefndar leggur umboðsmaður kæranda áherslu á hagsmuni hans af því að fá upplýsingar um stöðu veðlánsins og hvort það sé í skilum. Kærandi þurfi að geta undirbúið sig fjárhagslega undir mögulega sölu fasteignarinnar á uppboði, þ. á m. að ákveða hvort hann muni freista þess að tryggja hagsmuni sína með því að kaupa hana og fjármagna þau kaup. Í því skyni þurfi hann jafnframt að fá upplýsingar um hvort taka megi yfir lánið, hverjar séu mánaðarlegar afborganir af því o.s.frv. Tilboð Íbúðalánasjóðs um að veita kæranda aðgang að upplýsingum um þetta degi fyrir nauðungarsölu sé alltof skammur tími til þess að taka svo stórar ákvarðanir.

Í umsögn Íbúðalánasjóðs til úrskurðarnefndar, dagsettri 6. september sl., er ekki talin ástæða til þess að auka við þann rökstuðning sem sjóðurinn hafði áður látið kæranda í té. Á hinn bóginn er tekið fram að umbeðnar upplýsingar séu varðveittar í tölvukerfi Reiknistofu bankanna og einnig í sérstöku tölvukerfi sjóðsins.

Niðurstaða

Þær upplýsingar, sem kærandi óskar eftir aðgangi að, varða tiltekið lán hjá Íbúðalánasjóði og þar með fjárhagslega hagsmuni hlutaðeigandi lántaka. Samkvæmt umsögn sjóðsins til úrskurðarnefndar eru þær upplýsingar varðveittar í tölvukerfi Reiknistofu bankanna, svo og í sérstöku tölvukerfi sjóðsins sjálfs. Af því verður dregin sú ályktun að upplýsingum um einstök lán og lántaka sé safnað saman og þær færðar kerfisbundið í eina skipulagsbundna heild sem varðveitt er í þessum kerfum.

Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga, eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 83/2000, gilda lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nema óskað sé eftir aðgangi að skjölum eða öðrum gögnum, sem 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga tekur til, sbr. og 44. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Ákvæði 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er svo-hljóðandi: "Réttur til aðgangs að gögnum nær til: – 1. allra skjala sem mál varða, þar með talinna endurrita af bréfum sem stjórnvald hefur sent, enda megi ætla að það hafi borist viðtakanda; – 2. allra annarra gagna sem mál varða, svo sem teikninga, uppdrátta, korta, mynda, örfilma og gagna sem vistuð eru í tölvu; – 3. dagbókarfærslna sem lúta að gögnum málsins og lista yfir málsgögn."

Af þessari afmörkun á gildissviði upplýsingalaga leiðir að þau lög eiga einungis við þegar farið er fram á aðgang að upplýsingum, sem er að finna í afmörkuðum skjölum eða öðrum sambærilegum gögnum, sbr. 1. og 2. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna. Þar sem þær upplýsingar, sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að, hafa ekki, samkvæmt umsögn Íbúðalánasjóðs, verið teknar saman í eitt skjal eða sambærilegt gagn eiga lögin samkvæmt framansögðu ekki við um aðgang að upplýsingunum. Ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna.

Úrskurðarorð:

Kæru […] á hendur Íbúðalánasjóði er vísað frá úrskurðarnefnd.


Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta