Hoppa yfir valmynd

A-132/2001 Úrskurður frá 23. október 2001

ÚRSKURÐUR



Hinn 23. október 2001 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-132/2001:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 1. október sl., kærði […], ritstjóri […]blaðsins [A], synjun Ríkisútvarpsins, dagsetta 21. september sl., um að veita honum aðgang að tilteknu bréfi sem formaður og framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna skrifuðu útvarpsstjóra.

Með bréfi, dagsettu 4. október sl., var kæran kynnt Ríkisútvarpinu og því veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 16. október sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðar-nefnd yrði látið í té sem trúnaðarmál afrit af hinu umbeðna bréfi, innan sama frests. Umsögn Ríkisútvarpsins ásamt afriti af bréfinu barst nefndinni innan tilskilins frests.

Elín Hirst vék sæti í máli þessu og tók Ólafur E. Friðriksson, varamaður, sæti hennar við meðferð málsins.

Málsatvik

Málsatvik eru í stuttu máli þau að kærandi tók viðtal við [B], fiskifræðing og fréttamann hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins, sem birtist í 2. tölublaði […]blaðsins [A] 2001 er út kom í júnímánuði sl. Nokkru síðar varð kærandi þess áskynja að formaður og framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna hefðu ritað útvarpsstjóra bréf í tilefni af þessu viðtali. Fór hann þess þá á leit, bæði símleiðis 12. september sl. og í tölvubréfi til framkvæmdastjóra Ríkisútvarpsins og starfandi útvarpsstjóra 13. september sl., að fá afrit af bréfinu. Með tölvubréfi frá framkvæmdastjóranum, dagsettu 21. september sl., var beiðni kæranda synjað með vísun til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og þess að bréfritarar hefðu lagst gegn því að við beiðninni yrði orðið.

Í kæru til úrskurðarnefndar dregur kærandi í efa að 5. gr. upplýsingalaga eigi við um aðgang að hinu umbeðna bréfi. Í lok kærunnar tekur hann fram að [B] sé samþykkur því að hann fái afrit af bréfinu.

Í umsögn Ríkisútvarpsins til nefndarinnar, dagsettri 16. október sl., segir orðrétt: "Skv. 5. gr. tilvitnaðra laga er ekki ætlast til þess að upplýsingar um einka- og fjárhagsmálefni, þ.m.t. viðskiptahagsmuni, séu látnar af hendi nema sá samþykki sem í hlut á. – Í athugaemdum við 5. gr. laganna eins og þær birtust í frumvarpi til þeirra kemur fram að í vafatilfellum sé leitað álits þess aðila sem hagsmuna á að gæta. Ríkisútvarpið bar erindi kæranda undir fyrirsvarsmenn LÍÚ sem lögðust gegn því að aðgangur yrði veittur að bréfi samtakanna. Að öðru leyti á Ríkisútvarpið ekki hagsmuna að gæta í máli þessu."

Kærandi hefur fært frekari rök fyrir kærunni. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þeim röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr."

Vegna einkahagsmuna eru gerðar svofelldar takmarkanir á upplýsingarétti í 5. gr. upplýsingalaga: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila."

Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, segir m.a. svo um þetta ákvæði: "Í 5. gr. frumvarpsins eru teknar upp takmarkanir sem upplýsingaréttur almennings sætir í þágu einkahagsmuna einstaklinga, fyrirtækja og annarra lögaðila. – Augljóst er að óheftur aðgangur almennings að öllum gögnum, sem stjórnvöld ráða yfir, kynni að rjúfa friðhelgi einkalífs manna. Á hinn bóginn myndi það takmarka upplýsingaréttinn mjög ef allar upplýsingar, sem snerta einkahagsmuni einstaklinga eða fyrirtækja, væru undanþegnar. Því hefur víðast hvar, þar sem upplýsingalög hafa verið sett, verið fylgt þeirri stefnu að láta meginregluna um upplýsingarétt taka til slíkra upplýsinga en með þeim takmörkunum sem gera verður til að tryggja friðhelgi einkalífs og mikilvæga hagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. – Hér er lagt til að lögfest verði nokkurs konar vísiregla um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Stjórnvaldi er m.ö.o. ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar þær sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu, samkvæmt almennum sjónarmiðum, svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna." Síðar segir orðrétt: "Í vafatilvikum er stjórnvaldi rétt að leita álits þess aðila sem í hlut á. Ef hann samþykkir að umbeðnar upplýsingar séu veittar stendur 5. gr. almennt ekki í vegi fyrir upplýsingagjöf. Sama er ef slíkt samþykki er gefið fyrirfram. Í ljósi þess að samkvæmt ákvæðinu er óheimilt að veita upplýsingarnar verður þó að gera nokkuð ríkar kröfur til þess að samþykki sé skýrt og ótvírætt."

Eins og skýrt kemur fram í 5. gr. upplýsingalaga og áréttað er í hinum tilvitnuðu athugasemdum með frumvarpi til laganna, er stjórnvöldum skylt að veita aðgang að gögnum, þótt þau hafi að geyma upplýsingar um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga ellegar mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja eða annarra lögaðila, nema upplýsingarnar séu þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt. Þó skal veita aðgang að síðastgreindum upplýsingum ef sá, sem í hlut á, veitir samþykki sitt til þess.

Samkvæmt þessu ræðst réttur almennings til aðgangs að gögnum með upplýsingum um málefni einstaklinga eða hagsmuni lögaðila af því hvers eðlis upplýsingarnar eru. Í því sambandi skiptir ekki máli, að lögum, hver er afstaða þess aðila, sem hlut á að máli hverju sinni, nema um sé að ræða viðkvæmar upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari.

Úrskurðarnefnd hefur kynnt sér efni þess bréfs sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að. Í bréfinu eru gerðar athugasemdir við vinnubrögð nafngreinds fréttamanns Ríkisútvarpsins. Þar er hins vegar ekki að finna neinar þær upplýsingar um fréttamanninn, bréfritara eða aðra einstaklinga né heldur lögaðila sem eðlilegt er og sanngjarnt að leynt fari skv. 5. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt því ber Ríkisútvarpinu að veita kæranda aðgang að bréfinu í heild sinni.

Úrskurðarorð:

Ríkisútvarpinu ber að veita kæranda, […], aðgang að bréfi til útvarpsstjóra, undirrituðu af formanni og framkvæmdastjóra Landssambands íslenskra útvegsmanna, sem dagsett er 2. ágúst sl.

Eiríkur Tómasson, formaður
Ólafur E. Friðriksson
Valtýr Sigurðsson



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta