Hoppa yfir valmynd

A-140/2002 Úrskurður frá 18. janúar 2002

ÚRSKURÐUR



Hinn 18. janúar 2002 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-140/2002:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 3. desember sl., kærði [...], til heimilis að [...] í [...], synjun flugmálastjórnar, dagsetta 21. nóvember sl., um að veita honum aðgang að skráðum upplýsingum um hvað fram fór á svonefndum rýnifundi, sem haldinn var á vegum stofnunarinnar hinn 15. ágúst 2000 um flugslys TF-GTI hinn 7. s.m.

Með bréfi, dagsettu 6. desember sl., var kæran kynnt flugmálastjórn og henni veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 19. desember sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit af þeim gögnum, sem kæran laut að, innan sama frests. Þá var þess sérstaklega óskað, að í umsögn flugmálastjórnar kæmi fram, hvort umbeðin gögn hefðu að geyma upplýsingar, sem aflað yrði úr öðrum gögnum, sem kæranda hefði aðgang að. Umsögn flugmálastjórnar, dagsett 19. desember sl., barst innan tilskilins frests ásamt skjali auðkenndu "Vinnuskjal til eigin nota – Rýnifundur vegna flugslyss TF-GTI", er hefur að geyma minnispunkta af fundi, sem haldinn var 15. ágúst 2000.

Steinunn Guðbjartsdóttir varamaður tók sæti Eiríks Tómassonar og Ólafur E. Friðriksson varamaður tók sæti Elínar Hirst við meðferð og úrskurð í kærumáli þessu.

Málsatvik

Atvik málsins eru í stuttu máli þau að með tölvubréfi til flugmálastjórnar, dagsettu 11. nóvember sl., óskaði kærandi "eftir afriti fundargerðar frá rýnifundi sem haldinn var 15. ágúst 2000 á Hótel Loftleiðum vegna flugslyss TF-GTI þann 7. ágúst 2000". Flugmálastjórn synjaði erindi kæranda með bréfi, dagsettu 21. nóvember sl. Rök flugmálstjórnar fyrir synjuninni voru m.a. þau að fundurinn hefði verið lokaður vettvangur þeirra aðila, sem koma að flugslysi með einum eða öðrum hætti, allt frá aðgerðastjórn til þeirra sem eru á vettvangi. Þessir aðilar kæmu saman til að ræða aðkomu sína að slysinu og upplifun í fyllstu einlægni og trausti og "myndu ekki gera það ættu þeir á hættu að umræður þeirra yrðu birtar á opinberum vettvangi". Þá var tekið fram að ekki hefði verið rituð fundargerð á fundinum, heldur hefði starfsmaður flugmálastjórnar skráð hjá sér minnispunkta til eigin afnota. Beiðninni var því synjað á grundvelli 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar hefur kærandi upplýst að hann sé faðir eins þeirra sem lést af völdum áverka er hann hlaut í umræddu flugslysi. Með skírskotun til þess hefur kærandi farið fram á að fjallað verði um rétt hans til aðgangs að umbeðnum gögnum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga, með tilliti til hagsmuna hans sem lögerfingja sonar síns. Hann geti þó sætt sig við að nöfn þeirra, er fundinn sátu, verði afmáð úr því eintaki, er hann fer fram á að vera veittur aðgangur að. Í kærunni er málsástæðum flugmálastjórnar að öðru leyti vísað á bug og dregið í efa að þær geti átt við um gögn málsins. Þá telur hann að hann geti ekki fengið umbeðnar upplýsingar annars staðar frá.

Í umsögn flugmálastjórnar til úrskurðarnefndar, dagsettri 19. desember sl., er vísað til þess, að umrætt flugslys sæti opinberri rannsókn. Á þeim grundvelli telur stofnunin að ekki verði fjallað um aðgang að umbeðnu skjali á grundvelli upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 2. gr. þeirra, og að vísa beri málinu frá úrskurðarnefnd. Samkvæmt upplýsingum, sem nefndin hefur aflað frá flugmálstjórn, eru umbeðnir minnispunktar þó ekki á meðal þeirra gagna, sem stofnunin hefur látið lögreglu í té vegna rannsóknarinnar.

Til vara byggir flugmálastjórn afstöðu sína á því að í upphafi umrædds fundar hafi aðstoðarframkvæmdastjóri flugumferðarsviðs falið aðalvarðstjóra sama sviðs að taka niður punkta á fundinum í þeim tilgangi að rituð væri fundargerð. Á síðari hluta fundarins hafi hins vegar verið fallið frá þeirri fyrirætlan m.t.t. þeirra umræðna sem fram fóru. Fundargerð hafi því aldrei verið rituð og minnispunktum, sem teknir voru saman, ekki verið dreift til þeirra, er fundinn sátu. Þeir hafi eingöngu verið til afnota fyrir flugumferðarsvið og ekki ætlaðir til framsendingar til annarra sviða og deilda innan stofnunarinnar eða til aðila utan hennar. Jafnframt sé til þess að líta, að það sem tekið var niður, hafi verið valið af handahófi þess er punktana ritaði og samstarfsmanna hans og hafi að geyma vangaveltur, innlegg og sundurlaus atriði, sem kunni að gefa mjög takmarkaða innsýn í þær umræður, sem fram fóru á fundinum. Ennfremur hafi fundarmenn tjáð sig í trúnaði og í trausti þess að öðrum yrði ekki veittur aðgangur að því, sem fram fór á fundinum, enda hafi hann verið lokaður öðrum en þeim, sem til hans var boðið. Loks er tekið fram að minnispunktarnir hafi hvorki verið liður í afgreiðslu máls né forsendur til ákvörðunar af hálfu flugmálastjórnar. Á þessum grundvelli telur flugmálastjórn að minnispunktarnir séu undanþegnir aðgangi á grundvelli 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga. Jafnframt telur stofnunin að 5. gr. s.l. geti átt við m.t.t. einkahagsmuna þeirra, sem fundinn sóttu, og tjáðu sig þar í trúnaði.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.


Niðurstaða

1.

Í niðurlagi 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga segir, að lögin gildi ekki um "rannsókn eða saksókn í opinberu máli". Óumdeilt er í máli þessu að yfir stendur lögreglurannsókn á flugslysi því sem varð í Skerjafirði hinn 7. ágúst 2000. Samkvæmt upplýsingum, sem nefndin hefur aflað frá flugmálastjórn, eru umbeðnir minnispunktar ekki meðal þeirra gagna sem lögregla hefur undir höndum vegna þeirrar rannsóknar. Er það í samræmi við fullyrðingar flugmálastjórnar um eðli og tilgang minnispunktanna.

Með skírskotun til þessa er ekki fallist á með flugmálastjórn að vísa beri málinu frá nefndinni á grundvelli 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga.
2.

Samkvæmt upplýsingalögum er gerður greinarmunur á aðgangi aðila máls að upplýsingum um hann sjálfan, sbr. III. kafla laganna, og almennum aðgangi að upplýsingum, sbr. II. kafla þeirra. Einn þeirra, sem lést af völdum flugslyssins í Skerjafirði 7. ágúst 2000 var sonur kæranda. Sem lögerfingi hans, skv. 2. mgr. 3. gr. erfðalaga nr. 8/1962, hefur kærandi hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að hinum umbeðnu gögnum. Hann telst því aðili máls í skilningi III. kafla upplýsingalaga og ber þar af leiðandi að leysa úr beiðni hans á grundvelli þessa kafla laganna.

Í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum, sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan." Orðalagið "upplýsingar um hann sjálfan" hefur verið skýrt þannig að það taki til upplýsinga, sem varða aðila máls sérstaklega, sbr. dóm hæstaréttar frá 19. október 2000 í málinu nr. 330/2000.
3.

Samkvæmt framansögðu er í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga mælt svo fyrir, að skylt sé að veita aðila máls aðgang að gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar er snerta hann sjálfan. Í 2. og 3. mgr. sömu greinar er að finna undantekningar frá þessari meginreglu, þ. á m. segir í 1. tölul. 2. mgr. að ákvæði 1. mgr. gildi ekki "um þau gögn sem talin eru í 4. gr." laganna.
Í 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga segir að réttur til aðgangs að gögnum taki ekki til "vinnuskjala sem stjórnvald hefur ritað til eigin afnota; þó skal veita aðgang að vinnuskjölum ef þau hafa að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar sem ekki verður aflað annars staðar frá".

Minnispunktar þeir sem hér um ræðir bera yfirskriftina "VINNUSKJAL TIL EIGIN NOTA – RÝNIFUNDUR VEGNA FLUGSLYSS TF-GTI". Fyrir liggur að skjalið var tekið saman um það sem fram fór á umræddum fundi af starfsmanni flugumferðarsviðs. Þá hefur flugmálastjórn upplýst að minnispunktar þessir hafi eingöngu verið ætlaðir til eigin nota innan flugumferðarsviðs stofnunarinnar og að þeir hafi ekki verið sýndir eða sendir öðrum. Úrskurðarnefnd hefur ekki ástæðu til að draga staðhæfingar flugmálastjórnar um þessi atvik málsins í efa. Samkvæmt því ber að fallast á það með flugmálastjórn að hér sé um að ræða vinnuskjal, sem stjórnvald hefur ritað til eigin afnota í skilningi 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga.

Loks kemur þá til athugunar hvort umræddir minnispunktar hafi að geyma upplýsingar, sem ekki verður aflað annars staðar frá, sbr. frávik frá undanþágu í 3. tölul. 4. gr. Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, sagði svo um þetta frávik: "Með [þessu] orðalagi er einkum átt við upplýsingar um staðreyndir máls sem af einhverjum ástæðum er ekki að finna annars staðar en kunna að hafa vegið þungt við ákvörðunartöku. Rökin að baki þessari reglu eru einkum þau að slíkar upplýsingar geti verið ómissandi til skýringar á ákvörðun og af þeim orsökum sé ekki rétt að undanþiggja þær aðgangi almennings enda þótt þær sé aðeins að finna í vinnuskjölum."

Úrskurðarnefnd hefur kynnt sér efni minnispunktanna. Í þeim er ekki að finna neinar upplýsingar um staðreyndir málsins, sem ekki verða fundnar annars staðar.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er það álit úrskurðarnefndar, með skírskotun til 1. og 2. mgr. 9. gr., sbr. 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga, að flugmálastjórn sé ekki skylt að láta kæranda í té minnispunkta þessa. Er synjun flugmálastjórnar því staðfest.

Úrskurðarorð:

Staðfest er sú ákvörðun flugmálastjórnar að synja kæranda, [...], um aðgang að skráðum upplýsingum um hvað fram fór á svonefndum rýnifundi 15. ágúst 2000 vegna flugslyss TF-GTI.


Valtýr Sigurðsson, formaður
Ólafur E. Friðriksson
Steinunn Guðbjartsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta