Hoppa yfir valmynd

A-145/2002 Úrskurður frá 7. mars 2002

ÚRSKURÐUR



Hinn 7. mars 2002 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-145/2002:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 17. janúar sl., kærði [A], blaðamaður á Fréttablaðinu, synjun landbúnaðarráðuneytisins, dagsetta 14. desember sl., og Bænda-samtaka Íslands, dagsetta 18. desember sl., um að veita honum aðgang að upp-lýsingum um greiðslumark á jörðinni [B] í [...] við sölu jarðarinnar til ábúenda hennar og ráðstöfun greiðslumarksins, eftir að jörðinni hafði verið afsalað til þeirra.

Með bréfum, dagsettum 23. janúar sl., var kæran kynnt landbúnaðarráðuneytinu og Bændasamtökum Íslands og þeim veittur frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðunum sínum til kl. 16.00 hinn 6. febrúar sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té, í trúnaði, þau gögn, sem kæran laut að, innan sama frests. Umsögn Bændasamtakanna, dagsett 1. febrúar sl., og umsögn landbúnaðarráðuneytisins, dagsett 6. febrúar sl., bárust báðar innan tilskilins frests, ásamt gögnum með upplýsingum um greiðslumark, sem fylgdi ofangreindri jörð við sölu hennar til ábúenda í janúar 2001, og aðilaskipti að greiðslumarkinu eftir þann tíma.

Málsatvik

Atvik máls þessa eru í stuttu máli þau að með bréfi, dagsettu 29. nóvember sl., fór kærandi fram á að fá aðgang að gögnum um sölu ríkisjarðarinnar [B] og kaup fullvirðisréttar af henni.

Landbúnaðarráðuneytið svaraði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 14. desember sl., og lét honum í té ljósrit af afsali jarðarinnar til ábúenda hennar. Í bréfinu er tekið fram að við sölu jarðarinnar hafi fylgt henni greiðslumark samkvæmt ákvæðum laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Upplýsingar um, hvert greiðslumarkið hafi verið, varði hins vegar fjárhagsmálefni einstaklinga sem sann-gjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Beiðni kæranda um aðgang að þeim upplýsingum var því hafnað á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Í bréfi landbúnaðarráðuneytisins er ennfremur sagt að þar liggi ekki fyrir upplýsingar um hvort eða hvernig kaupandi kunni að hafa ráðstafað greiðslumarki umræddrar jarðar eftir útgáfu afsals. Bent er á að skv. 38. og 46. gr. laga nr. 99/1993 haldi Bændasamtök Íslands skrá um greiðslumark lögbýla og handahafa réttar til bein-greiðslna samkvæmt því. Sá hluti af beiðni kæranda var því framsendur Bændasamtökunum til þóknanlegrar meðferðar og afgreiðslu, með vísun til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Bændasamtökin synjuðu þessum hluta af beiðni kæranda með bréfi til hans, dagsettu 18. desember sl., á sama grundvelli og ráðuneytið.

Bæði landbúnaðarráðuneytið og bændasamtökin áréttuðu fyrri afstöðu sína til beiðni kæranda í umsögnum sínum til úrskurðarnefndar. Í umsögn ráðuneytisins, dagsettri 6. febrúar sl., segir orðrétt: "Greiðslumark fylgir lögbýli, sbr. 38. og 46. gr. laga nr. 99/1993 . . . en greiðslumarkið veitir framleiðendum á lögbýlum rétt sérstakra greiðslna úr ríkissjóði í samræmi við ákvæði búvörusamninga og gildandi laga á hverjum tíma. Samkvæmt 47. gr. laganna eru beingreiðslur framlag úr ríkissjóði til framleiðenda mjólkur og sauðfjárafurða og greiðast til framleiðenda í samræmi við greiðslumark hvers lögbýlis eftir nánar tilgreindum reglum sem settar eru með reglu-gerðum, sbr. nú reglugerðir nr. 19/2001 og 472/2001. Beingreiðslur til framleiðenda mjólkur og sauðfjárafurða eru samkvæmt því hluti af reglulegum tekjum fram-leiðendanna. Upplýsingar um greiðslumark, sem fylgir lögbýlum geta því veitt vísbendingar um reglulegar tekjur einstakra framleiðenda. Einnig getur greiðslumark lögbýla haft fjárverðgildi í viðskiptum."

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða
1.

Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga nr. 99/1993 skal tilkynna Bændasamtökum Íslands framsal á greiðslumarki vegna framleiðslu sauðfjárafurða og skulu samtökin jafnframt halda skrá yfir rétthafa slíks greiðslumarks, sbr. 1. mgr. sömu greinar. Í 2. mgr. 47. gr. laganna er kveðið á um að aðilaskipti með greiðslumark vegna framleiðslu mjólkur skuli ekki taka gildi fyrr en staðfesting Bændasamtakanna liggur fyrir. Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. skulu samtökin jafnframt halda skrá yfir slíkt greiðslumark.

Úrskurðarnefnd lítur svo á að þessi starfsemi Bændasamtakanna teljist til stjórnsýslu ríkis-ins, sbr. 2. mgr., sbr. 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga. Með skírskotun til niðurlags 3. mgr. 10. gr. laganna og 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga var þeim hluta af beiðni kæranda, sem varðar aðilaskipti að greiðslumarki jarðarinnar [B], því rétti-lega beint til samtakanna, enda eru gögn sem þau varða ekki aðgengileg annars staðar.
2.

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4. - 6. gr." Í 5. gr. laganna er að finna svohljóðandi ákvæði: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila."

Samkvæmt 1. mgr. 39. gr. og 1. mgr. 48. gr. laga nr. 99/1993 eru svonefndar bein-greiðslur framlög úr ríkissjóði til framleiðenda sauðfjárafurða og mjólkur og miðast þær við greiðslumark lögbýlis á hverjum tíma, eins og nánar er kveðið á um í lögunum og reglugerðum sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Með skírskotun til þeirrar meginreglu um rétt almennings til aðgangs að gögnum í vörslum hins opin-bera, sem fram kemur í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, er stjórn-völdum skylt að veita aðgang að upplýsingum um úthlutun fjár úr opinberum sjóðum í formi styrkja eða annarra óafturkræfra framlaga, sbr. dóm Hæstaréttar 1998, bls. 3096 í dómasafni réttarins. Vegna þess að framlög úr ríkissjóði í formi beingreiðslna miðast við greiðslu-mark lögbýlis á hverjum tíma lítur úrskurðarnefnd svo á að veita beri upp-lýsingar, ef þess er óskað, um það hvert sé eða hafi verið greiðslumark hvers einstaks lögbýlis. Þótt beingreiðslur séu hluti af reglulegum tekjum framleiðenda getur það ekki staðið í vegi fyrir því að almenningur fái upplýsingar um grundvöll slíkra óaftur-kræfra framlaga úr ríkissjóði. Samkvæmt því er landbúnaðarráðuneytinu skylt að veita kæranda aðgang að gögnum með upplýsingum um hvert hafi verið greiðslumark jarðarinnar [B], vegna framleiðslu sauðfjárafurða og mjólkur, þegar landbúnaðarráðherra, fyrir hönd jarðadeildar landbúnaðarráðuneytisins, seldi jörðina ábúendum hennar.

Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. og 1. mgr. 47. gr. laga nr. 99/1993 er heimilt að framselja greiðslumark, vegna framleiðslu sauðfjárafurða og mjólkur, frá einu lögbýli til annars, að uppfylltum skilyrðum sem nánar eru greind í lögunum og reglugerðum, settum sam-kvæmt þeim. Telja verður að upplýsingar um framsal eða annars konar aðilaskipti að greiðslumarki milli ein-stakra lögbýla varði slíka fjárhagsmuni þeirra einstaklinga og lögaðila, sem hlut eiga að máli, að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt, sbr. 5. gr. upplýsingalaga, enda varpa þær upplýsingar ekki frekara ljósi á það hvernig hin óafturkræfu framlög úr ríkissjóði eru reiknuð og hverjum þau eru greidd. Með vísun til þess ber að staðfesta synjun Bændasamtaka Íslands um að veita kæranda aðgang að gögnum með upp-lýsingum um aðilaskipti að greiðslumarki jarðarinnar [B].


Úrskurðarorð:

Landbúnaðarráðuneytinu er skylt að veita kæranda, [A], aðgang að gögnum með upplýsingum um hvert hafi verið greiðslumark jarðarinnar [B], vegna framleiðslu sauðfjárafurða og mjólkur, þegar landbúnaðarráðherra, fyrir hönd jarðadeildar landbúnaðarráðuneytisins, seldi jörðina ábúendum hennar.

Staðfest er ákvörðun Bændasamtaka Íslands um að synja kæranda aðgang að gögnum með upplýsingum um aðilaskipti að greiðslumarki umræddrar jarðar.





Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta