Hoppa yfir valmynd

A-150/2002 Úrskurður frá 11. júlí 2002

ÚRSKURÐUR



Hinn 11. júlí 2002 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-150/2002:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 22. maí sl., kærði [A] hdl., f.h. [B], til heimilis að [C] í [...], til félagsmálaráðu-neytis-ins synjun Mosfellsbæjar, dagsetta 15. maí sl., um að veita honum aðgang að lög-fræðiáliti sem aflað var vegna bótakröfu hans á hendur bænum. Að mati félagsmála-ráðuneytisins heyrir kæran undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál og framsendi það hana því til nefndarinnar með bréfi, dagsettu 27. maí sl.

Með bréfi, dagsettu 19. júní sl., var kæran kynnt Mosfellsbæ og bænum veittur frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 3. júlí sl. Umsögn bæjarins, dagsett 1. júlí sl., barst innan þessa frests og fylgdi henni m.a. ljósrit af lögfræðiáliti Lex ehf. lögmannsstofu, dagsettu 17. apríl sl., sem mál þetta snýst um.

Málsatvik

Kærumál þetta á rætur að rekja til þess að á árinu 2000 synjaði Mosfellsbær umsókn kæranda um stækkun aukaíbúðar að [C]. Kærandi skaut þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem felldi hana úr gildi og lagði fyrir bæjaryfirvöld að taka umsókn kæranda til meðferðar að nýju til lögmætrar ákvörðunar. Í kjölfarið lagði kærandi fram bótakröfu á hendur bænum, vegna ólög-mætrar synjunar á fyrrgreindri umsókn hans. Að fengnu lögfræðiáliti frá Lex ehf. lögmannsstofu hafnaði bærinn bótakröfunni.

Hinn 3. maí sl. óskaði kærandi munnlega eftir að fá lögfræðiálitið afhent og var sú ósk ítrekuð samdægurs með bréfi umboðsmanns hans til bæjarritara Mosfellsbæjar. Með bréfi bæjarritara til kæranda, dagsettu 15. maí sl., var þeirri beiðni hafnað með vísun til 2. tölul. 4. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Jafnframt var kæranda bent á rétt til þess að kæra synjunina til úrskurðarnefndar um upp-lýsinga-mál skv. 14. gr. upp-lýsinga-laga. Eins og fram kemur í kaflanum um kæruefni hér að framan, kærði umboðsmaður kæranda synjunina hins vegar til félagsmálaráðuneytisins á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Til stuðnings beiðni kæranda um að fá lögfræðiálitið afhent er í kærunni vísað til 1. mgr. 15. gr. og 2. mgr. 16. gr. þeirra laga.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga er ekki ástæða til að gera frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

Samvæmt 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga á aðili stjórnsýslumáls rétt á því að kynna sér skjöl og önnur gögn, er málið varða, þar sem taka á eða tekin hefur verið ákvörðun um rétt eða skyldu manna, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Frá upplýsingarétti aðila máls eru gerðar undantekningar í 3. mgr. 15. gr., svo og í 16. og 17. gr. stjórnsýslulaga. Þótt fyrirmæli laganna um upplýsingarétt séu nátengd fyrirmælum 13. gr. þeirra um and-mælarétt getur aðili máls haft ríka hagsmuni af því að fá að kynna sér gögn máls eftir að ákvörðun stjórnvalds liggur fyrir, t.d. til að ákveða hvort ákvörðunin skuli borin undir dómstóla.

Í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga er svo fyrir mælt að stjórnvöldum sé skylt að veita aðila aðgang að skjölum og öðrum gögnum, sem varða tiltekið stjórnsýslumál, ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Frá þeirri meginreglu er að finna undan-tekningar í 2. og 3. mgr. greinarinnar.

Í 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga er kveðið á um að lögin gildi ekki um aðgang að gögnum samkvæmt stjórnsýslulögum. Þar af leiðandi ber því aðeins að leysa úr beiðni um aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga að stjórnsýslulög taki ekki til hennar, enda er réttur aðila máls til aðgangs að málsgögnum rýmri samkvæmt þeim lögum. Þegar vafi leikur á því, hvort leysa beri úr beiðni um aðgang að gögnum sam-kvæmt stjórnsýslulögum eða upplýsingalögum, er því eðlilegt að það sé gert á grund-velli þeirra fyrrnefndu.

Í því máli, sem til úrlausnar er, fer kærandi fram á að fá aðgang að lögfræðiáliti sem Mosfellsbær hefur aflað í tilefni af kröfu hans um bætur vegna þeirrar ákvörðunar bæjar-ins að synja honum um stækkun á íbúð. Vegna þess að sú ákvörðun er ótvírætt stjórn-valds-ákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga og beiðni kæranda er borin fram af honum, sem aðila að því stjórnsýslumáli, ber samkvæmt framansögðu að leysa úr beiðninni á grundvelli stjórnsýslulaga, en ekki upp-lýsingalaga, sbr. 2. mgr. 2. gr. þeirra laga. Þar af leiðandi verður synjun bæjarins um að veita kæranda aðgang að lögfræðiálitinu ekki kærð til úrskurðar-nefndar um upplýsingamál skv. 1. mgr. 14. gr. upplýsinga-laga og verður af þeim sökum að vísa kæru hans frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru [B] á hendur Mosfellsbæ er vísað frá úrskurðarnefnd.





Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta