A 160/2003 Úrskurður frá 23. júní 2003
ÚRSKURÐUR
Hinn 23. júní 2003 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-160/2003:
Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 28. maí sl., kærði [ A] synjun Umhverfisstofnunar, dagsetta 26. maí sl., um að veita honum aðgang að síðustu sex hæfnisprófum veiðimanna sem haldin voru á árinu 2002.
Með bréfi, dagsettu 4. júní sl., var kæran kynnt Umhverfisstofnun og henni veittur frestur til að gera við hana athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 13. júní sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té í trúnaði afrit þeirra gagna, sem kæran lýtur að, innan sama frests. Umsögn Umhverfisstofnunar, dagsett 12. júní sl., barst innan tilskilins frests, ásamt umbeðnum gögnum.
Málsatvik
Atvik máls þessa eru í stuttu máli þau að með bréfi til Umhverfisstofnunar, dagsettu 20. maí sl., fór kærandi fram á að fá aðgang að sex síðustu hæfnisprófum veiðimanna sem haldin voru á árinu 2002.
Umhverfisstofnun synjaði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 26. maí sl., með vísun til 4. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Í svari stofnunarinnar er tekið fram að prófið sé mjög ítarlegt, en breytist lítið á milli ára. Prófið nái þar af leiðandi ekki tilætluðu markmiði ef það væri á almanna vitorði.
Í kæru til nefndarinnar er dregið í efa að heimilt sé að takmarka aðgang að umbeðnum gögnum í ljósi úrskurðar úrskurðarnefndar í máli nr. A-73/1999 sem kærandi telur að hafi fordæmisgildi í þessu máli. Bendir hann sérstaklega á að Umhverfisstofnun hafi ekki haldið því fram að um nákvæmlega sömu próf sé að ræða, heldur eingöngu að þau breytist lítið milli ára.
Í umsögn Umhverfisstofnunar til úrskurðarnefndar, dagsettri 12. júní sl., kemur fram að um nákvæmlega sama próf er að ræða í hvert sinn, sem það er lagt fyrir, ef undan er skilin ein spurningin sem til sé í tveimur útfærslum. Framkvæmdin sé sú að báðar þessar prófgerðir séu þó nýttar í hverju prófi þannig að um það bil helmingur próftaka leysi úr hvorri gerð fyrir sig. Nánar tiltekið er um að ræða tvær spurningar, þar sem reynir á kunnáttu próftaka til þess að greina tegundir fugla. Hvor spurning um sig vegur 2%, þannig að um er að ræða 4% af prófinu í heild.
Í umsögn Umhverfisstofnunar segir ennfremur að sama próf hafi verið lagt fyrir próftaka allt frá árinu 1997 og ekki standi til að gera breytingu á því á þessu ári. Af þeim sökum telur stofnunin að prófin geti ekki gefið óvilhalla niðurstöðu nema þeim sé haldið leyndum áður en þau eru lögð fyrir.
Kærandi hefur fært frekari rök fyrir kæru sinni. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða
Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr." Samkvæmt 4. tölul. 6. gr. laganna er heimilt „að takmarka aðgang að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um . . . fyrirhugaðar ráðstafanir eða próf á vegum ríkis eða sveitarfélaga, ef þau yrðu þýðingarlaus eða næðu ekki tilætluðum árangri væru þau á almanna vitorði." Í athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að upplýsingalögum, segir m.a. um þetta ákvæði að með prófi sé átt við hvers konar prófraunir sem opinberir aðilar standa fyrir. Hæfnispróf veiðimanna, sem mál þetta snýst um, fellur því augljóslega undir umrætt undantekningarákvæði.
Í 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga er að finna svohljóðandi ákvæði: „Veita skal aðgang að gögnum sem 4. tölul. 6. gr. tekur til jafnskjótt og ráðstöfunum eða prófum er að fullu lokið, nema ákvæði 5. gr. eða 1.–3. tölul. 6. gr. eigi við." Þrátt fyrir orðalag þessa ákvæðis ber, eðli máls samkvæmt, að skýra það á þann veg að heimilt sé að synja um aðgang að prófverkefnum ef fyrir liggur að nákvæmlega sömu spurningar verði lagðar fyrir þá sem þreyta sams konar próf síðar. Að öðrum kosti væru spurningarnar á almanna vitorði og því væri prófið þýðingarlaust eða næði a.m.k. ekki tilætluðum árangri, sbr. 4. tölul. 6. gr. upplýsingalaga.
Upplýst er að sömu spurningar hafa verið lagðar fyrir þá sem þreytt hafa hæfnispróf veiðimanna á undanförnum árum. Jafnframt er ætlunin að leggja þessar sömu spurningar fyrir þá sem þreyta munu prófið á næstunni. Eina undantekningin er sú að tvær spurningar, sem vega samtals 4% af prófinu í heild, eru til í tveimur útgáfum og er hvor útgáfa um sig lögð fyrir um það bil helming próftaka hverju sinni.
Samkvæmt því er það niðurstaða úrskurðarnefndar, með skírskotun til þess sem að framan segir, að Umhverfisstofnun hafi verið heimilt að synja kæranda um aðgang að umræddum prófverkefnum.
Úrskurðarorð:
Staðfest er sú ákvörðun Umhverfisstofnunar að synja kæranda, [ A] , um aðgang að síðustu sex prófverkefnum sem lögð voru til grundvallar á hæfnisprófi veiðimanna á árinu 2002.
Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson