A-163/2003 Úrskurður frá 10. júlí 2003
A-163/2003 Úrskurður frá 10. júlí 2003
ÚRSKURÐUR
Hinn 10. júlí 2003 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-163/2003:
Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 23. júní sl., kærði [ A] , til heimilis að [ …] í [ …] , synjun Umhverfisstofnunar, dagsetta 4. júní sl., um að veita honum aðgang að minnisblaði [ B] , dýralæknis, vegna eftirlitsferðar í [ X] ehf. hinn 9. apríl sl.
Með bréfi, dagsettu 25. júní sl., var kæran kynnt Umhverfisstofnun og henni veittur frestur til þess að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 4. júlí sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrði látið í té í trúnaði afrit af því skjali, sem kæran lýtur að, innan sama frests. Umsögn Umhverfisstofnunar, dagsett 30. júní sl., barst innan tilskilins frests, ásamt umbeðnu skjali.
Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins fór kærandi fram á það við Umhverfisstofnun 22. maí sl. að fá aðgang að minnisblaði [ B] , dýralæknis, vegna eftirlitsferðar í [ X] ehf. hinn 9. apríl sl. Stofnunin synjaði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 4. júní sl., á þeim grundvelli að upplýsingar í minnisblaðinu varði svo mikla fjárhags- og viðskiptahagsmuni félagsins að óheimilt sé skv. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 að veita að því aðgang.
Í kæru sinni leggur kærandi áherslu á þá hagsmuni almennings að fá upplýsingar um umhirðu hunda og aðstæður á því hundaræktarbúi sem um sé að ræða. Eigi það sér í lagi við um þá sem hafi í hyggju að kaupa hvolpa af búinu. Dregur hann jafnframt í efa að hagsmunir félagsins af því að halda hinu umbeðna minnisblaði leyndu njóti verndar skv. 5. gr. upplýsingalaga.
Í umsögn Umhverfisstofnunar til úrskurðarnefndar, dagsettri 30. júní sl., segir að [ X] ehf. stundi ræktun og sölu á hundum til almennings. Bent er á að rekstur búsins sé afar viðkvæmur fyrir hvers kyns umfjöllun og lítið þurfi út af að bregða til þess að dragi verulega úr sölu á dýrum þaðan. Þá er tekið fram að minnisblaðið feli í sér greinargerð sem aflað hafi verið í tengslum við stjórnsýslumál er fjallað hafi um kröfu stofnunarinnar á hendur [ X] um úrbætur á aðbúnaði dýra á hundaræktarbúinu. Greinargerð þessi hafi verið meðal gagna sem fyrir lágu þegar ákvörðun var tekin í málinu. Ákvörðun þessi hafi þó ekki falið það í sér að tekið hafi verið undir það sem fram kom í greinargerðinni. Áhrif greinargerðarinnar á fjárhags- og viðskiptahagsmuni félagsins geti því orðið mun meiri og alvarlegri, ef aðgangur sé veittur að henni, en vægi hennar við töku þessarar ákvörðunar gaf tilefni til. Af þeim sökum telur stofnunin eðlilegt og sanngjarnt að takmarka aðgang að hinu umbeðna minnisblaði, enda sé þeim hagsmunum sem 5. gr. upplýsingalaga er ætlað að vernda annars raskað að óþörfu.
Umsögn Umhverfisstofnunar til úrskurðarnefndar fylgdi jafnframt umsögn umboðsmanns [ X] ehf., dagsett 27. maí 2003, til stofnunarinnar, þar sem fjallað er um beiðni kæranda. Þar er eindregið lagst gegn því að orðið verði við henni enda telji fyrirsvarsmenn hundaræktarbúsins að þær fullyrðingar, sem koma fram í hinu umbeðna minnisblaði, eigi ekki við rök að styðjast. Því til stuðnings er vitnað til álits héraðsdýralæknis og bréfs Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, þar sem fram komi að 14. maí sl. hafi heilbrigðisfulltrúar farið í lokaúttekt hjá [ X] til þess að staðfesta að búið sé að uppfylla allar kröfur Umhverfis- og heilbrigðisstofnunarinnar. Í bréfinu sé tekið fram að engar athugasemdir séu gerðar í kjölfar eftirlitsins. Með vísun til þessa telji fyrirsvarsmennirnir að greinargerðin á minnisblaðinu gefi ekki rétta mynd af starfsemi og aðstöðu búsins.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða
Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4. - 6. gr." Umhverfisstofnun hefur rökstutt synjun sína um að veita kæranda aðgang að hinu umbeðna minnisblaði með því að vísa til 5. gr. laganna.
Sú grein hljóðar svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila." Ákvæði þetta felur í sér undantekningu frá meginreglu upplýsingalaga og ber því að skýra það þröngt. Í athugasemdum við síðari málslið þessarar greinar sagði m.a. svo í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni."
Við mat á því, hvort gögn hafi að geyma upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni lögaðila, sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari skv. 5. gr. upplýsingalaga, kemur m.a. til skoðunar hvort hagsmunir lögaðilans af því, að upp-lýsingunum skuli haldið leyndum, vegi þyngra á metum en hagsmunir almennings af því að fá aðgang að þeim, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Var þetta sjónarmið lagt til grundvallar í hæstaréttardómi 2000, bls. 1309.
Í 2. gr. laga nr. 15/1994 um dýravernd er m.a. svo fyrir mælt að skylt sé að fara vel með öll dýr. Ennfremur er gert ráð fyrir því í lögunum að almenningur fylgist með aðbúnaði dýra, þ. á m. er kveðið á um það í 1. mgr. 18. gr. þeirra að leiki grunur á að meðferð á dýrum brjóti gegn lögum beri þeim, sem verða þess varir, að tilkynna það Umhverfisstofnun, héraðsdýralækni eða lögreglu í viðkomandi umdæmi. Þá er hvorki í þeim lögum né í lögum nr. 90/2002 um Umhverfisstofnun að finna ákvæði, þar sem mælt er sérstaklega fyrir um þagnarskyldu starfsmanna stofnunarinnar að því er varðar dýravernd.
Minnisblað það, sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að, hefur að geyma greinargerð dýralæknis sem gerð var að beiðni Umhverfisstofnunar um aðbúnað dýra og aðstæður á hundaræktarbúi. Búið hefur selt hunda til almennings í samkeppni við aðra aðila. Upplýsingar, sem fram koma í greinargerðinni, kunna að skaða fjárhags hagsmuni búsins og samkeppnisstöðu þess gagnvart öðrum búum. Á móti kemur að mikilvægt er fyrir almenning, ekki síst viðskiptavini búsins, að geta fylgst með því að aðbúnaður hunda á búinu sé viðunandi. Þegar þessir mismunandi hagsmunir eru virtir er það niðurstaða úrskurðarnefndar, með vísun til þess sem að framan greinir, að hagsmunir almennings af því að fá aðgang að greinargerðum um aðbúnað dýra skuli almennt vega þyngra en hagsmunir þeirra, sem bú reka, af því að upplýsingum, sem þar koma fram, sé haldið leyndum.
Úrskurðarnefnd hefur kynnt sér efni þess minnisblaðs sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að. Að áliti hennar er þar ekki að finna neinar þær upplýsingar um fjárhags- eða viðskiptahagsmuni þess hundaræktarbús, sem í hlut á, er réttlæti samkvæmt framansögðu að synja kæranda um aðgang að minnisblaðinu. Ber Umhverfisstofnun þar af leiðandi að verða við beiðni hans.
Úrskurðarorð:
Umhversstofnun er skylt að veita kæranda, [ A] , aðgang að minnisblaði [ B] , dýralæknis, vegna eftirlitsferðar í [ X] ehf. hinn 9. apríl sl.
Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson