Hoppa yfir valmynd

A-176/2004 Úrskurður frá 28. maí 2004

A-176/2004 Úrskurður frá 28. maí 2004

ÚRSKURÐUR

Hinn 28. maí 2004 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-176/2004:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 13. apríl sl., kærði [ …] , til heimilis að [ …] á [ …] , þá ákvörðun fjármálaráðuneytisins að veita honum ekki aðgang að bréfi sem hann telur að ráðuneytið hafi ritað öllum innheimtumönnum ríkissjóðs um það hvernig skuli „skuldajafnað af vaxtabótum og barnabótum m.a. upp í skuldir einstaklinga við ríkissjóð".

Með bréfi, dagsettu 12. maí sl., var kæran kynnt fjármálaráðuneytinu og því veittur frestur til að gera við hana athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun til kl. 16.00 hinn 21. maí sl. Jafnframt var þess óskað að nefndinni yrði látið í té afrit af því skjali, sem kæran lýtur að, innan sama frests. Umsögn ráðuneytisins, dagsett 18. maí sl., barst innan tilskilins frests.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfi, dagsettu 16. mars sl., fór kærandi fram á að fá afhent afrit af bréfi fjármálaráðuneytisins til tollstjórans í Reykjavík varðandi reglur um skuldajöfnuð inneigna upp í umferðarlagasektir. Í bréfi ráðuneytisins til kæranda, dagsettu 5. apríl sl., er tekið fram að ráðuneytið hafi ekki sent innheimtumönnum ríkissjóðs bréf varðandi skuldajöfnuð inneigna upp í slíkar sektir. Af þeim sökum sé ekki unnt að verða við beiðni kæranda um að veita honum aðgang að slíku bréfi.

Í umsögn fjármálaráðuneytisins til úrskurðarnefndar, dagsettri 18. maí sl., eru sömu skýringar áréttaðar.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4. – 6. gr." Samkvæmt þessu er stjórnvöldum almennt skylt að veita almenningi aðgang að skjölum og öðrum gögnum í vörslum þeirra.

Fjármálaráðuneytið hefur lýst því yfir að sú fullyrðing kæranda, að ráðuneytið hafi sent bréf til innheimtumanna ríkissjóðs varðandi skuldajöfnuð inneigna upp í umferðarlagasektir, eigi ekki við rök að styðjast. Þar sem bréf það, sem kærandi óskar eftir aðgangi að, hafi ekki verið sent og sé því ekki til í vörslum ráðuneytisins sé ekki unnt að verða við beiðni hans.

Vegna þess að ekki liggur fyrir synjun stjórnvalds um að veita kæranda aðgang að skjölum eða annars konar gögnum í vörslum þess verður málið ekki borið undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál skv. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Ber þar af leiðandi að vísa því frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru [ …] á hendur fjármálaráðuneytinu er vísað frá úrskurðarnefnd.

Eiríkur Tómasson, formaður

Elín Hirst

Valtýr Sigurðsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta