A-178/2004 Úrskurður frá 28. maí 2004
ÚRSKURÐUR
Hinn 28. maí 2004 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-178/2004:
Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 16. mars sl., kærði [ …] , til heimilis að [ …] í [ …] , meðferð bókasafns Vestmannaeyja á beiðni hans, dagsettri 4. mars sl., um aðgang að upplýsingum um umsækjendur um starf bókavarðar við safnið.
Með bréfi, dagsettu 12. maí sl., var kæran kynnt bókasafninu og þeim tilmælum beint til þess að taka ákvörðun um afgreiðslu beiðni kæranda eins fljótt og við yrði komið og eigi síðar en 21. maí sl. Var þess óskað að ákvörðun safnsins yrði birt kæranda og nefndinni eigi síðar en kl. 16.00 þann dag. Yrði kæranda synjað um aðgang að þeim gögnum, sem beiðni hans lýtur að, var þess jafnframt óskað að nefndinni yrðu látin í té í trúnaði afrit af þeim innan sama frests. Í því tilviki var safninu ennfremur gefinn kostur á að koma að athugasemdum við kæruna og frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun, innan sömu tímamarka. Bréf barst frá safninu vegna kærunnar og er það dagsett 21. maí sl. Því fylgdu engin gögn.
Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfi til bóksafns Vestmannaeyja, dagsettu 4. mars sl., fór kærandi fram á að fá upplýsingar um nöfn og heimilisföng umsækjenda um starf bókavarðar við safnið. Í bréfi hans kemur fram að umsóknarfrestur um starfið hafi runnið út 1. mars sl.
Í bréfi bókasafns Vestmannaeyja til úrskurðarnefndar, dagsettu 21. maí sl., er tekið fram að fundur vegna ráðningar bókavarðar hafi verið haldinn 11. mars sl. og því hafi ekki verið hægt að senda upplýsingar um það hver hefði verið ráðinn í starfið fyrir þann tíma. Þá er bent á að kærandi sé áskrifandi að fundargerðum nefnda og ráða Vestmannaeyjabæjar og því hafi hann fengið upplýsingar „um þetta strax og það fór í gegn". Einnig hafi verið sagt frá því í héraðsfréttablöðunum í Vestmannaeyjum hverjir hafi sótt um umrætt starf og hver hafi verið ráðinn í það. Því megi ætla að kærandi hafi þegar fengið umbeðnar upplýsingar.
Niðurstaða
Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr." Samkvæmt 4. tölul. 4. gr. laganna tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til „umsókna um störf hjá ríki eða sveitarfélögum og allra gagna sem þær varða; þó er skylt að veita upplýsingar um nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda þegar umsóknarfrestur er liðinn."
Eins og skýrt er fyrir mælt í niðurlagi 4. tölul. 4. gr. upplýsingalaga, er skylt að veita hverjum þeim, sem þess óskar, upplýsingar um nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda um störf hjá sveitarfélögum og stofnunum þeirra þegar umsóknarfrestur er liðinn. Samkvæmt því bar bókasafni Vestmannaeyja að láta kæranda í té upplýsingar um nöfn og heimilisföng umsækjenda um starf bókavarðar hjá safninu í samræmi við beiðni hans, jafnskjótt og umsóknarfrestur um starfið var liðinn. Kærandi á ekki síður rétt á því að fá þessar upplýsingar nú og er safninu því skylt að verða við beiðni hans án frekari tafar, nema honum hafi sannanlega verið send fundargerð, þar sem hinar umbeðnu upplýsingar er að finna. Það leysir safnið ekki undan þessari skyldu sinni samkvæmt upplýsingalögum þótt upplýsingarnar hafi verið birtar í héraðsfréttablöðum í Vestmannaeyjum.
Úrskurðarorð:
Bókasafni Vestmannaeyja er skylt að láta kæranda, [ …] , í té upplýsingar um nöfn og heimilisföng umsækjenda um starf bókavarðar við safnið.
Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson