Hoppa yfir valmynd

A-182/2004 Úrskurður frá 14. júlí 2004

ÚRSKURÐUR

Hinn 14. júlí 2004 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-182/2004:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 20. maí sl., kærði [ …] , til heimilis að [ …] á [ …] , synjun Borgarskjalasafns, dagsetta 10. maí sl., um að veita honum aðgang að gögnum um móðurafa hans og móðurömmu, [ A] og [ B] .

Með bréfi, dagsettu 27. maí sl., var kæran kynnt Borgarskjalasafni Reykjavíkur og safninu veittur frestur til að gera við hana athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun til kl. 16.00 hinn 10. júní sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrði í trúnaði látin í té afrit af þeim gögnum, sem kæran lýtur að, innan sama frests. Umsögn borgarskjalavarðar, dagsett 10. júní sl., barst innan tilskilsins frests, ásamt ljósritum af meginþorra umbeðinna gagna, að undanskildum stöðluðum kvittunum.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfi til Borgarskjalasafns, dagsettu 19. apríl sl., fór kærandi fram á að fá aðgang að þeim gögnum, sem eru í vörslu safnsins um móðurafa hans og móðurömmu, [ A] og [ B] . Þau [ A] og [ B] eru bæði látin. Hann lést árið 1957 og hún árið 1967.

Borgarskjalavörður svaraði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 10. maí sl., þar sem fram kemur að honum verði veittur aðgangur að þeim gögnum er náð hafa 80 ára aldri. Aðgang að yngri gögnum verði hins vegar að takmarka með tilliti til þess að þau fjalli um einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að takmarka aðgang að.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar færir kærandi rök fyrir því að hann eigi hagsmuni af því að afla upplýsinga um hvað raunverulega hafi hent þessa forfeður sína.

Í umsögn borgarskjalavarðar til nefndarinnar, dagsettri 10. júní sl., kemur fram að beiðni kæranda hafi verið tekin til meðferðar og afgreidd á grundvelli 20. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Kærandi hafi gert þá grein fyrir beiðni sinni að fá sem besta mynd af högum og aðstæðum afa síns og ömmu. Borgarskjalasafn hafi þó ekki talið að afgreiða beri beiðni hans á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga, þar sem ekkert sé fjallað um kæranda sjálfan í gögnum þeirra mála, sem um er að ræða, hann eigi ekki aðild að þeim og hafi ekki verið lögerfingi þeirra hjóna.

Í umsögninni kemur ennfremur fram að um sé að ræða gögn í tveimur málum. Gögn í öðru þeirra ná fram til ársins 1936, en í hinu til ársins 1956. Kæranda hafi þegar verið veittur aðgangur að þeim gögnum, sem náð hafa 80 ára aldri, en ekki að öðrum gögnum. Synjun um aðgang að þeim hafi byggst á 5. gr. upplýsingalaga, þar sem málin fjalli um viðkvæm einka- og fjárhagsmálefni sem eðlilegt sé og sanngjarnt gagnvart minningu þeirra [ A] og [ B] að fari leynt. Þessi málsskjöl hafi m.a. að geyma upplýsingar um félagslega erfiðleika þeirra, fátækt og fjárhagslegan stuðning hins opinbera við þau. Þá séu í þessum skjölum upplýsingar um sjúkdóma einstaklinga úr fjölskyldu þeirra, sjúkrahúsdvöl þeirra og kostnað því samfara.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.

Í III. kafla upplýsingalaga er kveðið á um aðgang aðila að upplýsingum um hann sjálfan. Úrskurðarnefnd hefur skýrt 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga svo að undir greinina falli ekki einvörðungu þau tilvik, þegar maður óskar eftir aðgangi að gögnum með upplýsingum um sig sjálfan, heldur taki hún einnig til þess þegar upplýsingarnar varða hann sjálfan, þannig að hann hafi einstaklega hagmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnunum.

Samkvæmt upplýsingalögum er gerður skýr greinarmunur á upplýsingarétti almennings skv. II. kafla upplýsingalaga og upplýsingarétti aðila skv. III. kafla þeirra. Hinn ríki réttur aðila til aðgangs að gögnum er undantekning frá hinni almennu reglu laganna. Því verður að vera hafið yfir allan vafa að sá, sem fer fram á aðgang að gögnum, teljist aðili í skilningi 9. gr. laganna, svo að leyst verði úr beiðni hans á grundvelli þeirrar greinar, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar 10. nóvember 2000 í máli nr. A-106/2000.

Í máli því, sem til úrlausnar er, óskar kærandi eftir aðgangi að gögnum um móðurafa sinn og móðurömmu sem bæði eru látin fyrir all mörgum árum. Þótt þannig sé um náinn skyldleika að ræða verður ekki talið að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að hinum umbeðnu gögnum, eins og atvikum er háttað, þ. á m. stóð hann ekki til erfða eftir afa sinn og ömmu samkvæmt lögum þegar þau féllu frá. Þar af leiðandi ber að leysa úr beiðni hans um aðgang að gögnunum á grundvelli II. kafla upplýsingalaga.

2.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. upplýsingalaga skal veita almenningi aðgang að gögnum, án tillits til þeirra upplýsinga sem þar er að finna, þegar liðin eru áttatíu ár frá því að þau urðu til. Eitt þeirra skjala, sem Borgarskjalasafn virðist hafa synjað kæranda um aðgang að, er dagsett 15. desember 1923 og nokkur önnur skjöl stafa frá fyrri hluta árs 1924. Ber safninu að veita honum aðgang að þessum skjölum í samræmi við skýr fyrirmæli upplýsingalaga.

Úrskurðarnefnd hefur kynnt sér efni annarra þeirra skjala sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að. Flest þeirra hafa að geyma upplýsingar um heilsuhagi sem og félagsleg og fjárhagsleg vandamál þeirra [ A] , [ B] og fjölskyldna þeirra. Samkvæmt athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er hér um að ræða gögn um einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt skuli fara skv. 5. gr. laganna. Með skírskotun til þess ber að staðfesta þá ákvörðun Borgarskjalasafns að synja kæranda um aðgang að þessum skjölum.

Fáein þeirra skjala, sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að, eru hins vegar þess eðlis að 5. gr. upplýsingalaga tekur ekki til þeirra. Hér er fyrst og fremst um að ræða svonefnd lífsvottorð frá sóknarprestum, svo og bótaskírteini um ellilífeyri [ A] heitins frá því í janúarmánuði 1956. Ber Borgarskjalasafni að veita kæranda aðgang að þessum skjölum á grundvelli meginreglu 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga um aðgang almennings að slíkum gögnum, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna.

Úrskurðarorð:

Staðfest er sú ákvörðun Borgarskjalasafns að synja kæranda, [ ...] , um aðgang að gögnum um móðurafa hans og móðurömmu, [ A] og [ B] . Þó ber að veita honum aðgang að þeim gögnum, sem stafa frá fyrri hluta árs 1924 eða fyrri tíma, svo og þeim skjölum sem nánar eru tilgreind í úrskurði þessum.

Eiríkur Tómasson, formaður

Elín Hirst

Valtýr Sigurðsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta