Hoppa yfir valmynd

A-189/2004 Úrskurður frá 18. nóvember 2004

ÚRSKURÐUR


Hinn 18. nóvember 2004 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-189/2004:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 1. september sl., kærði […] synjun Umhverfisstofnunar, dagsetta 5. ágúst sl., um að veita henni aðgang að dagbók Hundaræktarinnar í […].

Með bréfi, dagsettu 27. september sl., var kæran kynnt Umhverfisstofnun og henni veittur frestur til að gera við hana athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun til kl. 16.00 hinn 11. október sl. Umsögn Umhverfisstofnunar, dagsett 12. október sl., barst hinn 13. s.m. ásamt ljósriti af dagbók hundaræktarinnar á tímabilinu frá 2. febrúar til 2. júlí 2004.

Í fjarveru Eiríks Tómassonar tók Steinunn Guðbjartdóttir varamaður sæti í nefndinni við meðferð og úrskurð í kærumáli þessu.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins fór kærandi fram á það við Umhverfisstofnun hinn 14. júlí sl. að fá aðgang að tilteknum gögnum, sem stofnunin hafði aflað í tengslum við athugun á Hundræktinni í […], þ. e. að dagbók sem hundaræktinni bæri að halda á grundvelli 11. gr. reglugerðar nr. 499/1997, um dýrahald í atvinnuskyni.

Umhverfisstofnun svaraði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 5. ágúst sl. Þar kom fram að umboðsmaður eigenda Hundaræktarinnar í […] hefði lagst gegn því að aðgangur yrði veittur að dagbókinni á þeim grundvelli að það gæti skaðað samkeppnisstöðu umbjóðenda hans gagnvart keppinautum í hundarækt. Þá væri stofnunin á þessu stigi að leiðbeina ræktinni um færslu dagbókar og benda henni á hvað þar ætti að koma fram. Af þessum ástæðum var beiðni kæranda synjað á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Í kæru til nefndarinnar er dregið í efa að aðgangur að dagbókinni geti skaðað fjárhags- eða viðskiptahagsmuni Hundaræktarinnar í […]. Jafnframt er af hálfu kæranda áréttað að hún óski fyrst og fremst eftir aðgangi að upplýsingum sem þar koma fram um aðbúnað dýranna, en ekki um fjárhagsstöðu hundaræktarinnar.

Í umsögn Umhverfisstofnunar um kæruna, dagsettri 12. október sl., er vísað til fyrri rökstuðnings fyrir afstöðu stofnunarinnar. Fram kemur að samkvæmt reglugerð nr. 499/1997 beri þeim sem rækta hunda í atvinnuskyni, að hafa leyfi til slíks reksturs en umdeilt hafi verið hvað teljist ræktun hunda í atvinnuskyni. Því hafi aðeins tvö hundabú slíkt leyfi nú. Unnið sé að gerð reglugerðar þar sem settar séu niður með ákveðnari hætti en nú er, hvaða aðilar sem stunda hundaræktun séu starfsleyfisskyldir. Þá kemur fram að með bréfi, dagsettu 14. júlí, 2004 hafi Umhverfisstofnun sent Hundaræktinni í […] bréf þar sem segir m. a. „Dagbókarfærslum er ábótavant og standast þær ekki ákvæði reglugerðarinnar varðandi skrá um fjölda dýra, viðkomu og afföll, heilsufar og fleira sem varðar líðan þeirra.“

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.

Beiðni kæranda varðar aðgang að dagbók sem Hundarækin í […] hefur haldið tímabilið 2. febrúar  til og með 1. júlí 2004 og Umhverfisstofnun kallaði eftir með vísan til 11. gr. reglugerðar nr. 499/1997, um dýrahald í atvinnuskyni. Greinin er svohljóðandi:
„Forráðamenn skulu að staðaldri færa nákvæma dagbók um þau dýr, sem þeir hafa í umsjá sinni. Þar skal skrá fjölda dýranna, viðkomu og afföll, heilsufar og fleira er varðar líðan þeirra. Halda skal skrá yfir viðskipti með einstök dýr þar sem fram komi nafn og heimilisfang kaupanda eða seljanda. Eftirlitsmenn á vegum lögreglustjóra skulu hafa óhindraðan aðgang að þeim upplýsingum, þegar þurfa þykir.
Lögreglustjóri skal hlutast til um að eftirlit fari fram hjá þeim aðilum, sem stunda dýrahald í atvinnuskyni. Skal það framkvæmt að óvörum, ásamt embættisdýralækni og lögreglustjóra og heilbrigðisfulltrúa afhent skýrsla með niðurstöðunum.“

Svo sem rakið er hér að framan er dagbókarfærslum Hundaræktarinnar […] ábótavant og standast ekki ákvæði 11. gr. reglugerðarinnar um upplýsingar varðandi veigamikil atriði sem þar skulu koma fram. Ennfremur eru þar skráð önnur atriði er lúta að daglegum rekstri búsins. Hvað sem því líður telur úrskurðarnefnd að aðgengi að dagbókinni verði ekki takmörkuð af þeim sökum, enda liggur fyrir að færsla hennar miðaði að því að uppfylla nefnt reglugerðarákvæði.

2.

Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4. - 6. gr.“ Umhverfisstofnun hefur rökstutt synjun sína um að veita kæranda aðgang að [hinni umbeðnu dagbók] með því að vísa til 5. gr. laganna.

Sú grein hljóðar svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“ Ákvæði þetta felur í sér undantekningu frá meginreglu upplýsingalaga og ber því að skýra það þröngt. Í athugasemdum við síðari málslið þessarar greinar sagði m.a. svo í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni.“

Við mat á því, hvort gögn hafi að geyma upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni lögaðila, sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, skv. 5. gr. upplýsingalaga, kemur m.a. til skoðunar hvort hagsmunir lögaðilans af því að upplýsingunum skuli haldið leyndum vegi þyngra á metum en hagsmunir almennings af því að fá aðgang að þeim, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Var þetta sjónarmið lagt til grundvallar í hæstaréttardómi [sem birtur er í dómasafni hæstaréttar frá árinu] 2000, bls. 1309. Í máli 163/2003 heimilaði úrskurðarnefnd kæranda í því máli aðgang að minnisblaði dýralæknis vegna ferðar í umrædda hundarækt m.a. með vísan til 2. gr. laga nr. 15/1994 um dýravernd. Hér gegnir hins vegar öðru máli þar sem ekki er um að ræða gagn frá opinberum aðila heldur dagbók sem haldin er á hundaræktarbúinu.

Úrskurðarnefnd hefur kynnt sér efni dagbókarinnar sem kærandi óskar eftir aðgangi að. Dagbókarfærslum er að mörgu leyti ábótavant um þær upplýsingar sem þar eiga að koma fram eins og getið var um hér að framan. Hins vegar er þar að finna upplýsingar um fjölda búra, fjölda hvolpa úr gotum auk ýmissa persónulegra upplýsinga. Hundaræktin […] hefur selt hunda til almennings í samkeppni við aðra aðila. Upplýsingar sem fram koma í dagbókinni kunna að skaða fjárhags- og viðskiptahagsmuni ræktarinnar og samkeppnisstöðu þess gagnvart öðrum sem slíka hundarækt stunda. Þrátt fyrir að mikilvægt sé fyrir almenning að geta fylgst með því að aðbúnaður hunda á staðnum sé viðunandi, þá þykja þeir hagsmunir ekki vega þyngra en hagsmunir hundaræktarinnar af því að ekki sé veittur aðgangur að upplýsingum sem fram koma í dagbókinni.

Með skírskotun til alls þess sem að framan greinir er það niðurstaða úrskurðarnefndar að staðfesta beri synjun Umhverfisstofnunar sem fram kom í svari hennar 5. ágúst sl.

Úrskurðarorð:

Sú ákvörðun Umhverfisstofnunar að synja kæranda, […], um aðgang að dagbók Hundaræktarinnar í […], er staðfest.


Valtýr Sigurðsson formaður
Elín Hirst
Steinunn Guðbjartsdóttir

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta