Hoppa yfir valmynd

A-201/2005 Úrskurður frá 11. apríl 2005

ÚRSKURÐUR

Hinn 11. apríl 2005 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-201/2005:

Kæruefni

Með bréfi dags. 15. desember 2004 kærði [..] til umhverfisráðuneytisins synjun Umhverfisstofnunar dags. 26. okt. 2004 um aðgang að gagnagrunni um þá sem hafa opinber réttindi sem meindýraeyðar eða garðaúðarar. Í sama bréfi kærði [..] einnig synjun Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur dags. 17. maí 2004 um aðgang að gagnagrunni um þá sem hafa opinbert starfsleyfi sem meindýraeyðar eða garðaúðarar. Með vísan til 2. mgr. 7. gr. laga nr. 37/1993 framsendi umhverfisráðuneytið kæruna til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með bréfi dagsettu 14. febrúar 2005. Um er að ræða tvö stjórnvöld og hefur úrskurðarnefndin samkvæmt því ákveðið að afgreiða kærurnar sitt í hvoru lagi. Í úrskurði þessum verður afgreidd kæra vegna synjunar Umhverfisstofnunar.

Páll Hreinsson vék sæti við meðferð og úrskurð í máli þessu. Sæti hans tók Skúli Magnússon varamaður.

 

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að Umhverfis- og heilbrigðisstofa Reykjavíkur sendi hinn 26. febrúar 2004 bréf til félagsmanna í [...] um að garðaúðun væri leyfisskyld starfsemi. Kom að sögn kæranda fram að leyfi myndu að jafnaði gilda í 12 ár frá útgáfudegi með möguleika á endurskoðun á 4 ára fresti. Kærandi fór fram á það með bréfi dags. 5. mars 2004 við Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur að fá skýringar á því hvers vegna leyfisveitingin væri til 12 ára án þess að samráð hefði verið haft við kæranda. Vísaði kærandi til þess að starfsheitaskírteini og eiturefnaskírteini fyrir meindýraeyða og garðaúðun sem gefin væru út af Umhverfisstofnun og lögreglustjórum/sýslumönnum giltu í 3 ár.

Með bréfi dags. 1. apríl 2004 óskaði kærandi eftir því við Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur að fá upplýsingar um meindýraeyða og garðúðara sem fengið hefðu starfsleyfi. Með bréfi dagsettu 17. maí 2004 synjaði Umhverfis- og heilbrigðisstofa Reykjavíkur kæranda um umbeðnar upplýsingar.

Kærandi sneri sér því næst til Umhverfisstofnunar en með bréfi dags. 26. október 2004 synjaði hún kæranda um aðgang að gagnagrunni í vörslu stofnunarinnar um þá aðila sem hefðu starfsréttindi meindýraeyða og garðaúðara og vísaði í því sambandi til 1. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Kvaðst stofnunin vera reiðubúin að afla samþykkis þeirra meindýraeyða sem hefðu enn ekki veitt samþykki sitt og hins vegar þeirra sem hefðu starfsréttindi garðaúðara fyrir því að nöfn þeirra yrðu látin kæranda í té. Jafnframt kvaðst stofnunin reiðubúin til að senda út upplýsingar frá kæranda til þeirra í umræddum starfsgreinum sem hún héldi skrá yfir.

Þessa ákvörðun kærði kærandi til Persónuverndar samkvæmt ábendingu umhverfisstofnunar. Með bréfi dagsettu 23. nóvember 2004 svaraði Persónuvernd því til að það félli ekki undir valdsvið stofnunarinnar að leggja á ábyrgðaraðila persónuupplýsinga skyldu til að afhenda tiltekin gögn. Stofnunin gæti hins vegar leyst úr ef ágreiningur risi um það hvort ábyrgðaraðili hefði farið út fyrir heimildir sínar, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000. Í þessu tilviki lægi enginn slíkur ágreiningur fyrir.

Kærandi óskaði því næst eftir því við umhverfisráðuneytið með bréfi dags. 15. desember 2004 að ákvarðanir Umhverfisstofnunar og Umhverfisstofu yrðu felldar úr gildi. Með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 framsendi umhverfisráðuneytið kæru þessa til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með bréfi dags. 14. febrúar 2005 eins og fyrr segir.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 14. greinar upplýsingalaga nr. 50/1996 er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Í bréfi Umhverfisstofnunar dags. 26. október 2004 er ákvörðun ekki reist á upplýsingalögum. Ekki liggur því fyrir synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Þegar af þeirri ástæðu verður að vísa kæru [...] á hendur Umhverfisstofnun frá. Það athugast að með upplýsingalögum er almenningi tryggður aðgangur að gögnum sem varða tiltekið stjórnsýslumál, sbr. einkum 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 10. gr. laganna. Af þessum ákvæðum verður dregin sú ályktun að á grundvelli þessara laga verði ekki krafist upplýsinga sem stafa af kerfisbundinni skráningu og vinnslu þeirra, sé ekki sérstökum gögnum til að dreifa vegna þeirrar skráningar.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta