A-205/2005 Úrskurður frá 25. maí 2005
Úrskurður í málinu nr. A-205/2005
ÚRSKURÐUR
Hinn 25. maí 2005 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-205/2005:
Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 18. apríl s.l., kærði […] synjun tollstjórans í Reykjavík, dags. 22. mars s.l., um upplýsingar um hvort [A], [B] og eftir atvikum fleiri aðilar hafi fengið sömu tolla og vörugjöld, sem kæranda var gert að greiða, felld niður vegna innflutnings á sambærilegum búnaði.
Með bréfi, dagsettu 20. apríl s.l., var kæran kynnt tollstjóranum í Reykjavík og honum veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til 29. apríl s.l. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum er kæran laut að. Að beiðni tollstjórans í Reykjavík var fresturinn framlengdur til 9. maí s.l.
Tollstjórinn í Reykjavík svaraði með bréfi dagsettu 9. maí s.l. þar sem komu fram rök hans fyrir því að afhenda ekki umbeðin gögn. Bréfinu fylgdi í trúnaði afrit af þeim gögnum er kæran laut að.
Með bréfi dagsettu 11. maí s.l. var kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um svar tollstjórans í Reykjavík. Bárust svör kæranda innan tilskilins frests hinn 20. maí s.l. Færði hann þar fram frekari rök fyrir máli sínu.
Sigurveig Jónsdóttir og varamaður hennar viku sæti í máli þessu og var Ólafur E. Friðriksson settur staðgengill við meðferð og úrskurð málsins. Í fjarveru formanns, Páls Hreinssonar, tók Skúli Magnússon sæti í nefndinni.
Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik í stuttu máli þau að kærandi, sem hyggur á stafrænar gagnvirkar sjónvarpsútsendingar, sótti hinn 24. febrúar 2003 um niðurfellingu á öllum tollum og vörugjaldi á öllum móttöku-, efnismeðhöndlunar-, útsendingar- og fjarskiptabúnaði til ofangreindrar starfsemi, sem slík gjöld bera samkvæmt tollalögum. Með ákvörðun tollstjóra 25. mars 2003 var hafnað umsókn kæranda á þeim forsendum að fyrirtækið væri ekki með hljóðver eða myndver skv. 9. gr. reglugerðar nr. 719/2000. Sama niðurstaða var staðfest með úrskurði tollstjórans í Reykjavík nr. 6/2003 hinn 27. september 2003. Endanlega var þessi ákvörðun staðfest með úrskurði fjármálaráðherra dags. 23. janúar 2004.
Með bréfi dags. 11. febrúar s.l. fór kærandi fram á það við tollstjórann í Reykjavík að fá upplýsingar um það hvort [A] og [B] og eftir atvikum fleiri aðilar hefðu fengið sömu tolla og vörugjöld, sem kæranda var gert að greiða, felld niður vegna innflutnings á sambærilegum búnaði.
Með bréfi dags. 22. mars s.l. synjaði tollstjórinn í Reykjavík um aðgang að þessum upplýsingum. Kvað tollstjóri sér ekki heimilt að upplýsa um nöfn þeirra aðila er niðurfellingu hefðu hlotið á grundvelli 9. gr. reglugerðar nr. 719/2000. Vísaði hann þar til 24. gr. og 141. gr. tollalaga nr. 55/1987 og 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.
Kærandi leitaði þá til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Með bréfi dags. 18. apríl s.l. fór hann fram á að úrskurðarnefndin felldi úr gildi synjun tollstjóra dags. 22. mars. Tók hann fram að hann hefði út af fyrir sig enga hagsmuni af því að fá upplýsingar um það hvert væri verðmæti eða magn þess búnaðar sem [A], [B] og eftir atvikum aðrir hefðu flutt inn. Hagsmunir almennings og viðskiptalífsins krefðust þess að aðgangur að þessum upplýsingum væri óheftur, eftir atvikum með takmörkunum samkvæmt 7. gr. upplýsingalaga. Ekki væri nokkur leið fyrir gjaldanda að fá vissu fyrir því hvort hann nyti jafnræðis á við aðra gjaldendur í sömu aðstöðu, nema því aðeins að tollyfirvöld veittu aðgang að upplýsingum af þessu tagi.
Þá vísaði kærandi til álits umboðsmanns Alþingis í máli 481/1991 þar sem reyndi á skýringu 141. greinar tollalaga (SUA 1994, bls. 304).
Í umsögn tollstjórans í Reykjavík um kæruna dags. 9. maí s.l. kemur fram að hann líti svo á að með því að veita umbeðnar upplýsingar væri um leið verið að upplýsa um fjárhagsleg atriði sem geti varðað mikilvæga verslunarhagi einstakra aðila, sbr. 141. gr. tollalaga. Með því að veita aðgang að umbeðnum upplýsingum væri jafnframt verið að veita upplýsingar um það hvort tilteknir aðilar fullnægðu skilyrðum reglugerðar nr. 719/2000 og hvort þeir hefðu með höndum atvinnustarfsemi sem fæli í sér kvikmyndagerð, framleiðslu myndbanda og starfsemi hljóðvera (mynd- og hljóðvinnslu). Fengi kærandi upplýsingar um það hvaða aðilar nytu niðurfellingar og hverjir ekki, gæti hann út frá þeim upplýsingum áætlað hvað hver aðili fyrir sig þyrfti að greiða í gjöld af umræddum vörum enda lægi ljóst fyrir hvaða gjöld hvíldu á vörunum, lögum samkvæmt.
Þá vörðuðu þær upplýsingar sem hér væri óskað eftir, að mati tollstjóraembættisins, mikilvæga verslunarhagi einstakra aðila og yrði því að teljast sanngjarnt og eðlilegt að þær færu leynt. Taka bæri fram að kærandi væri í samkeppni við þá aðila sem hann óskaði eftir upplýsingum um og að mati embættisins væri hér um að ræða viðkvæmar upplýsingar um um fjárhagsleg atriði tengd mikilvægum verslunarhagsmunum.
Þá tók tollstjóri fram að ljóst væri að ekki lægi fyrir samþykki þeirra aðila sem í hlut ættu. Kærandi væri ennfremur „óviðkomandi aðili” í skilningi 141. greinar tollalaga auk þess sem hann væri í samkeppni við þá aðila sem upplýsingabeiðnin varðaði, sem gerði það enn vandasamara að veita honum þær upplýsingar sem óskað væri eftir.
Tollstjórinn í Reykjavík hafnaði því í umsögn sinni að álit umboðsmanns Alþingis sem kærandi vísaði til ætti við í þessu máli. Bréfi tollstjóra fylgdu í trúnaði gögn er vörpuðu frekara ljósi á kæruefnið.
Kærandi átti þess kost að tjá sig um umsögn tollstjórans í Reykjavík. Í bréfi [...] dags. 19. maí s.l. er því andmælt að um viðkvæmar upplýsingar sé að ræða enda hafi að minnsta kosti [B] ekki farið leynt með þessa starfsemi sína. Þá hafnar hann því að það sé sanngjarnt og eðlilegt að þessar upplýsingar fari leynt. Þvert á móti sé sanngjarnt að þær fari ekki leynt til þess að kærandi geti notið jafnræðis við keppinauta hvað varðar beitingu tollalaga. Þá er tekið fram að almennt þagnarskylduákvæði eins og í 141. grein tollalaga geti ekki takmarkað rétt kæranda til upplýsinganna, sbr. 3. mgr. 2. gr. þeirra laga.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurðinum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða
Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er áskilið að beiðni um aðgang að upplýsingum varði tiltekið mál. Þessi áskilnaður er nánar útfærður í 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga á þann hátt að beiðni skuli annaðhvort tiltaka það mál eða þau gögn í máli sem leitað er eftir, en það kemur um leið í veg fyrir að unnt sé að óska aðgangs að ótilteknum fjölda mála eða gögnum í ótilteknum málum af ákveðinni tegund.
Þegar til þess er litið að hluti beiðni kæranda varðar ekki tiltekin mál verður hún að því leyti ekki talin uppfylla þennan áskilnað um afmörkun beiðni. Með því að beiðnin er ekki afmörkuð á þann hátt sem 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga gerir kröfu til ber að vísa frá kröfu um aðgang að upplýsingum um hvort aðrir aðilar en [A] og [B] hafi fengið niðurfellingu gjalda á grundvelli reglugerðar nr. 719/2000. Hins vegar verður talið að kærandi eigi rétt á að fá skorið úr um hvort tollstjóranum í Reykjavík sé skylt að upplýsa hann um hvort [A] og [B] hafi fengið niðurfellingu gjalda á grundvelli 9. gr. reglugerðar nr. 719/2000.
Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr.” Með hliðsjón af markmiði laganna ber að skýra undantekningar frá þessari meginreglu þröngt, þ. á m. reglurnar í 5. gr. og 3. tölul. 6. gr. þeirra.
Í 5. gr. upplýsingalaga er m.a. kveðið á um að óheimilt sé að veita almenningi „aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila ... sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á”. Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til laganna, er þetta ákvæði skýrt svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni.”
Vissulega má við því búast að almenn vitneskja um undanþágur frá greiðslu opinberra gjalda varði fjárhags- og viðskiptahagsmuni þeirra fyrirtækja sem eiga í hlut. Það sjónarmið, að upplýsingar um niðurfellingu gjalda verði að fara leynt, verður þó að jafnaði að víkja fyrir almennum fyrirmælum upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings. Í því sambandi er m.a. rétt að líta til þess að fyrirtæki og aðrir lögaðilar verða hverju sinni að vera undir það búnir að mæta samkeppni frá öðrum aðilum, sbr. meginreglu þá sem fram kemur í 1. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993.
Tollstjórinn í Reykjavík ber fyrir sig 141. gr. tollalaga nr. 55/1987 sem hljóðar svo: „Tollstarfsmönnum er bannað, að viðlagðri ábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi, að skýra óviðkomandi aðilum frá því sem þeir komast að í starfi sínu um verslunarhagi einstakra manna og fyrirtækja, þar með talin hvers konar vitneskja sem ráða má af samritum af sölu- og vörureikningum sem tollyfirvöld halda eftir.” Þótt vera kunni að upplýsingar um hvort tilteknir aðilar hafi fengið niðurfellingu aðflutningsgjalda varði verslunarhagi þeirra, er það mat úrskurðarnefndarinnar að í þessu tilfelli vegi þyngra hagsmunir kæranda af því að fá upplýsingar afhentar. Telur úrskurðarnefndin að ekki sé sanngjarnt og eðlilegt að því sé haldið leyndu hvort tiltekin fyrirtæki sem kærandi nafngreinir hafi fengið undanþágu á grundvelli reglugerðar nr. 719/2000. Styðst það einnig við sjónarmið um jafnræði gjaldenda. Ber því að fallast á kröfu kæranda um aðgang að þeim upplýsingum. Jafnframt verði upplýst um þá vöruflokka sem í hlut eiga. Eins og áður segir gerir kærandi ekki kröfu um aðgang að upplýsingum um fjárhæð undanþágunnar og er því ekki þörf á því að úrskurðarnefndin taki afstöðu til þess hvort hann ætti kröfu til þeirra upplýsinga.
Úrskurðarorð:
Tollstjóranum í Reykjavík ber að veita kæranda, […] aðgang að gögnum sem upplýsa hvort [A] og [B] hafi fengið niðurfellingu gjalda á grundvelli 9. gr. reglugerðar nr. 719/2000. Að öðru leyti er kröfum kæranda vísað frá.
Friðgeir Björnsson varaformaður
Skúli Magnússon
Ólafur E. Friðriksson