A-207/2005 Úrskurður frá 10. júní 2005
ÚRSKURÐUR
Hinn 10. júní 2005 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-207/2005:
Kæruefni
Með bréfi dags. 15. desember 2004 kærði [...] til umhverfisráðuneytisins synjun Umhverfisstofnunar dags. 26. okt. 2004 um aðgang að gagnagrunni um þá sem hafa opinber réttindi sem meindýraeyðar eða garðaúðarar. Í sama bréfi kærði [...] einnig synjun Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur dags. 17. maí 2004 um aðgang að gagnagrunni um þá sem hafa opinbert starfsleyfi sem meindýraeyðar eða garðaúðarar. Með vísan til 2. mgr. 7. gr. laga nr. 37/1993 framsendi umhverfisráðuneytið kæruna til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með bréfi dagsettu 14. febrúar 2005. Um er að ræða tvö stjórnvöld og hefur úrskurðarnefndin samkvæmt því ákveðið að afgreiða kærurnar hvora í sínu lagi. Í úrskurði þessum verður afgreidd kæra vegna synjunar Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur. Leyst var úr kæru vegna synjunar Umhverfisstofnunar með úrskurði í máli nr. A-201/2005 sem kveðinn var upp hinn 11. apríl s.l.
Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að Umhverfis- og heilbrigðisstofa Reykjavíkur sendi hinn 26. febrúar 2004 bréf til félagsmanna [...] um að garðaúðun væri leyfisskyld starfsemi. Kom að sögn kæranda fram að leyfi myndu að jafnaði gilda í 12 ár frá útgáfudegi með möguleika á endurskoðun á 4 ára fresti. Kærandi fór fram á það með bréfi dags. 5. mars 2004 við Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur að fá skýringar á því hvers vegna leyfisveitingin væri til 12 ára án þess að samráð hefði verið haft við kæranda. Vísaði kærandi til þess að starfsheitaskírteini og eiturefnaskírteini fyrir meindýraeyða og garðaúðara sem gefin væru út af Umhverfisstofnun og lögreglustjórum/sýslumönnum giltu í 3 ár.
Með bréfi dags. 1. apríl 2004 óskaði kærandi eftir því við Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur að fá upplýsingar um meindýraeyða og garðaúðara sem fengið hefðu starfsleyfi. Með bréfi dagsettu 17. maí 2004 synjaði Umhverfis- og heilbrigðisstofa Reykjavíkur kæranda um umbeðnar upplýsingar. Var þar byggt á 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga sem hefði verið skýrð svo að ekki væri í skylt að útbúa ný gögn sem ekki væru fyrirliggjandi þegar beðið væri um upplýsingar. Ekki væri til sérstakur listi yfir meindýraeyða og garðaúðara með starfsleyfi í Reykjavík. Þann lista yrði að útbúa sérstaklega.
Kærandi óskaði því næst eftir því við umhverfisráðuneytið með bréfi dags. 15. desember 2004 að ákvörðun Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur yrði felld úr gildi. Með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 framsendi umhverfisráðuneytið kæru þessa til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með bréfi dags. 14. febrúar 2005 eins og fyrr segir.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sendi Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkurborgar kæruna til umsagnar með bréfi dags. 4. apríl s.l. Var umsagnarbeiðnin ítrekuð með bréfi dags. 20. apríl s.l. Með bréfi dags. 26. apríl s.l. svaraði skrifstofustjóri Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar. Þar kemur fram að Umhverfis- og heilbrigðisstofa Reykjavíkur sé ekki lengur starfandi þar sem við skipulagsbreytingar hjá Reykjavíkurborg hafi Umhverfissvið Reykjavíkurborgar frá og með 1. febrúar s.l. tekið við verkefnum hinnar fyrrnefndu.
Í bréfi Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar kemur fram að þau gögn sem kærandi fari fram á séu ekki til í þeim búningi sem óskað sé eftir. Stjórnvöldum beri ekki skylda til þess samkvæmt upplýsingalögum að safna saman eða útbúa ný gögn, sem ekki séu fyrirliggjandi, þegar óskað sé eftir aðgangi. Hins vegar megi geta þess að unnið sé að því að taka upp nýtt skráningarkerfi hjá stofnuninni, sem muni gera það kleift að birta upplýsingar um útgefin starfsleyfi á heimasíðu stofnunarinnar.
Kærandi tjáði sig um svör Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar með bréfi dags. 13. maí s.l. Þar sem úrskurðarnefndinni þótti ekki ljóst af bréfi hans hvort hann félli frá kæru sinni var hann beðinn um að skýra nánar afstöðu sína og kom fram í bréfi hans dags. 26. maí s.l. að hann héldi fast við kæruna.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 16. greinar upplýsingalaga nr. 50/1996 skal bera mál skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því tilkynnt er um ákvörðun. Ákvörðun Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur var tilkynnt kæranda með bréfi dagsettu 17. maí 2004 en var ekki borin undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál fyrr en umhverfisráðuneytið framsendi kæru Félags meindýraeyða með bréfi dagsettu 14. febrúar s.l.
Eins og málum er háttað þykir afsakanlegt hversu seint kæran er fram komin, sbr. 1. mgr. 28. greinar stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er þá litið til þess að ekki var leiðbeint um kærumöguleika í bréfi Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, eins og þó ber að gera samkvæmt 2. mgr. 20. greinar stjórnsýslulaga.
Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: “Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr.” Af þessari meginreglu leiðir að rétturinn til aðgangs nær aðeins til gagna sem til eru þegar um þau er beðið. Kærandi bað Umhverfis- og heilbrigðisstofu um upplýsingar um þá meindýraeyða sem fengið hefðu starfsleyfi. Slíkan lista hefði orðið að útbúa sérstaklega. Kærandi átti ekki á grundvelli upplýsingalaga tilkall til þess að slík ný gögn yrðu útbúin og afhent honum. Ber af þeim sökum að staðfesta ákvörðun Umhverfis- og heilbrigðisstofu sem tilkynnt var í bréfi til kæranda dagsettu 17. maí 2004.
Úrskurðarorð:
Staðfest er synjun Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur um aðgang að upplýsingum um þá meindýraeyða og garðaúðara sem fengið hafa starfsleyfi.
Páll Hreinsson,formaður
Friðgeir Björnsson
Sigurveig Jónsdóttir