Hoppa yfir valmynd

A-225/2006 Úrskurður frá 9. febrúar 2006


ÚRSKURÐUR

Hinn 9. febrúar 2006 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-225/2006:

Kæruefni

Með tölvupósti dags. 14. desember s.l. kærði [...] synjun byggingarnefndar [A-bæjar] frá deginum áður um afhendingu á gögnum sem lögð hefðu verið fram á fundi nefndarinnar 30. nóvember s.l.
Með bréfi dags. 15. desember s.l. var [A-bæ] gefinn kostur á að gera athugasemdir við kæruna. Var beiðnin ítrekuð með bréfi dags. 10. janúar s.l. Með bréfi dags. 20. janúar s.l. gerði [A-bær] athugasemdir við kæruna og krafðist aðallega frávísunar þar sem beiðni væri ekki beint að réttu stjórnvaldi. Til vara var gerð krafa um að kærunni yrði hafnað með vísan til 5. gr. upplýsingalaga.
Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir [A-bæjar] og koma viðhorf hans fram í tölvupósti dags. 26. janúar s.l.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að 29. nóvember s.l. óskaði lóðarhafi að [X-götu], [A-bæ], eftir því að starfsemi hárgreiðslustofu í næsta húsi yrði stöðvuð þar sem fyrir henni væru ekki tilskilin leyfi. Erindið var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar [A-bæjar] 30. nóvember s.l. og því vísað til heilbrigðisnefndar í ljósi þess að hún færi með útgáfu starfsleyfa vegna viðkomandi starfsemi.
Hinn 5. desember s.l. óskaði kærandi eftir afriti þeirra gagna sem lögð hefðu verið fram á umræddum fundi byggingarnefndar um viðkomandi mál. Byggingarnefnd [A-bæjar] synjaði beiðninni með tölvupósti dags. 13. desember s.l. með vísan til 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga.
Í athugasemdum [A-bæjar] við kæruna dags. 20. janúar s.l. er aðallega krafist frávísunar vegna þess að beiðninni hafi ekki verið beint að réttu stjórnvaldi. Vísar sveitarfélagið til viðauka I með reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti en þar segi í 9. gr. að heilbrigðisnefndir annist útgáfu starfsleyfa vegna hárgreiðslustofu. Jafnframt segi í 6. gr., sbr. 75. gr. reglugerðarinnar, að það sé hlutverk heilbrigðisnefndar að tryggja að ákvæðum hennar sé framfylgt.
Til vara gerir [A-bær] kröfu um að kærunni sé hafnað á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga enda sé að finna í gögnum málsins upplýsingar er skaðað geti fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi fyrirtækis.
Í athugasemdum kæranda dags. 26. janúar s.l. er meðal annars bent á ósamræmi í rökstuðningi [A-bæjar] fyrir því að afhenda ekki gögnin. Hefði sveitarfélagið strax átt að framsenda beiðnina til heilbrigðisnefndar.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. upplýsingalaga skal beiðni beint til þess stjórnvalds sem tekið hefur eða taka mun ákvörðun í máli þegar um er að ræða gögn um mál þar sem taka á ákvörðun um rétt eða skyldu manna. Leyfisveiting vegna hárgreiðslustofu er samkvæmt 12. tölul. 4. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir í höndum heilbrigðisnefndar. Eftirlit með því að starfsleyfi sé fyrir hendi og skilyrði þess uppfyllt eru í höndum heilbrigðisnefndar og heilbrigðisfulltrúa samkvæmt 26. gr. sömu laga. Afturköllun starfsleyfis er alfarið í höndum heilbrigðisnefndar.
Kröfunni um aðgang að gögnum er vörðuðu leyfi til rekstar hárgreiðslustofu var því ranglega beint að byggingarnefnd [A-bæjar]. Bar byggingarnefnd [A-bæjar] að framsenda erindið til heilbrigðisnefndar skv. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er sú skylda enn þá virk. Þar sem ekki liggur fyrir ákvörðun bærs stjórnvalds samkvæmt 3. mgr. 10. gr. upplýsingalaga ber að vísa málinu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru [...] vegna synjunar byggingarnefndar [A-bæjar] um afhendingu á gögnum er vísað frá.

Páll Hreinsson formaður

Friðgeir Björnsson Sigurveig Jónsdóttir

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta