Hoppa yfir valmynd

A-227/2006 Úrskurður frá 14. mars 2006

ÚRSKURÐUR

Hinn 14. mars 2006 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-227/2006:

Kæruefni

Með bréfi, dags. 23. nóvember s.l., kærði [...], synjun utanríkisráðuneytisins um aðgang að upplýsingum er varða ákvörðun ríkisstjórnar um framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Með bréfi, dags. 29. nóvember s.l., var utanríkisráðuneytinu gefinn kostur á að gera athugasemdir við kæruna og láta í nefndinni í té í trúnaði afrit af umbeðnum gögnum. Í svari utanríkisráðuneytisins, dags. 13. desember s.l., segir að eina skjalið sem lagt hafi verið fyrir ríkisstjórn varðandi ákvörðun um framboð til öryggisráðsins hafi verið minnisblað frá utanríkisráðherra og það falli að öllu leyti undir 1. tl. 4. gr. upplýsingalaga. Fylgdi svarinu afrit af minnisblaðinu í trúnaði, sbr. 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga.
Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir utanríkisráðuneytisins. Þrátt fyrir ítrekanir hefur kærandi ekki sent nefndinni frekari rökstuðning fyrir kæru sinni. Er málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna, sbr. 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfi, dags. 14. október s.l., óskaði kærandi eftir því við utanríkisráðuneytið að fá aðgang að gögnum sem varða ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 1998 um framboð til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 25. október s.l., er beiðninni synjað enda sé hér um að ræða upplýsingar er falli undir 1. tl. 4. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.
Eins og áður segir skaut kærandi synjun þessari til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 23. nóvember s.l. Þar er dregið í efa að rök utanríkisráðuneytisins fyrir synjun taki til allra gagna málsins. Utanríkisráðuneytinu var gefinn kostur á að gera athugasemdir við kæruna. Í bréfi ráðuneytisins, dags. 13. desember s.l., kemur fram að eina skjalið sem lagt hafi verið fyrir ríkisstjórn varðandi ákvörðunina um framboð, sem tekin var 30. október 1998, sé minnisblað frá utanríkisráðherra þar að lútandi. Falli það að öllu leyti undir undanþágu 1. tl. 4. gr. upplýsingalaga.
Kæranda var gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum en þrátt fyrir ítrekanir hefur hún ekki nýtt sér þann möguleika.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

Kæra þessi er tekin til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna, sbr. 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi fór fram á aðgang að upplýsingum er varða ákvörðun ríkisstjórnar um framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Utanríkisráðuneytið hefur túlkað beiðnina svo að hún eigi einungis við um gögn sem lögð voru fyrir ríkisstjórn áður en ákvörðun um framboð var tekin. Þessum skilningi er ómótmælt. Ótvírætt er að minnisblað það sem lagt var fram í ríkisstjórn 30. október 1998 fellur undir 1. tl. 4. gr. upplýsingalaga þar sem það var tekið saman fyrir fund ríkisstjórnar. Er synjun utanríkisráðuneytisins því staðfest.


Úrskurðarorð:

Staðfest er synjun utanríkisráðuneytisins um aðgang að minnisblaði dags. 30. október 1998.

 

 

Páll Hreinsson
formaður
Símon Sigvaldason         Sigurveig Jónsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta