Hoppa yfir valmynd

A-228/2006 Úrskurður frá 18. júlí 2006

ÚRSKURÐUR

Hinn 18. júlí 2006 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-228/2006.

Kæruefni

Hinn 22. febrúar sl., kærði [...], hrl. fyrir hönd [A] hf. og [B] hf. synjun Ríkiskaupa, dags. 30. janúar sl., á beiðni kærenda um afrit umsagnar matsnefndar um tillögu [C] frá september 2005 í verkefninu 13571 – „Tónlistarhús, ráðstefnumiðstöð og hótel“, auk annarra gagna og bréfaskipta milli Austurhafnar-TR ehf. og Ríkiskaupa við [C].
Með bréfi, dags. 23 febrúar sl., var kæran kynnt Ríkiskaupum og stofnuninni veittur frestur til 6. mars sl. til að gera við hana athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té, í trúnaði, afrit af þeim gögnum sem kæran laut að. Umsögn Ríkiskaupa ásamt umbeðnum gögnum er frá 27. mars sl. Kærendum var með bréfi, dags. 29. mars sl., gefinn kostur á að tjá sig um umsögnina. Athugasemdir kærenda bárust úrskurðarnefndinni með bréfi lögmanns þeirra, dags. 21. apríl sl.
Með bréfi, dags. 9. maí sl., óskaði úrskurðarnefndin eftir umsögn Ríkiskaupa um síðastgreint bréf lögmanns kærenda. Jafnframt var þess óskað að stofnunin aflaði afstöðu Austurhafnar-TR ehf. og [C] til kærunnar. Umsögn Ríkiskaupa ásamt afstöðu félaganna bárust úrskurðarnefndinni með bréfi stofnunarinnar, dags. 30. maí sl. Athugasemdir lögmanns kærenda við umsögnina bárust nefndinni með bréfi hans, dags. 9. júní sl.
Með bréfi, dags. 2. júní sl., var kæran kynnt Austurhöfn-TR ehf. og þess óskað að félagði gerði úrskurðarnefndinni grein fyrir því hvort það teldi eitthvað vera því til fyrirstöðu að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum og ef svo væri með hvaða hætti afhending þeirra gæti skaðað hagsmuni félagsins. Umsögn Austurhafnar-TR ehf. um kæruna barst nefndinni með bréfi félagsins, dags. 12. júní sl.
Með bréfi, dags. 21. júní sl., óskaði úrskurðarnefndin eftir því að [C] gerði úrskurðarnefndinni grein fyrir því, hvort það teldi eitthvað vera því til fyrirstöðu að veita kærendum aðgang að umbeðnum gögnum og ef svo væri með hvaða hætti afhending þeirra gæti skaðað hagsmuni félagsins. Barst umsögn félagsins með bréfi lögmanns þess 28. júní sl.
Með bréfi, dags. 21. júní sl., var kærendum gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir Ríkiskaupa og Austurhafnar TR ehf. Jafnframt var kærendum með símbréfi 29. júní sl., gefinn kostur á að senda úrskurðarnefndinni athugasemdir sínar í tilefni af umsögn [C], dags. 28. júní sl. Athugasemdir kæranda við umsagnirnar bárust nefndinni með bréfi lögmanns þeirra, dags. 30. júní sl.
Við meðferð málsins lagði lögmaður kærenda fram kæru, dags. 19. apríl sl., vegna synjunar Ríkiskaupa og Reykjavíkurborgar á að afhenda kærendum afrit samnings er Austurhöfn TR-ehf. og [C] gerðu 9. mars sl. um byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar á austurbakka Reykjavíkur. Hafa málin verði rekin samhliða, en sem aðskilin mál.
Nefndarmennirnir Páll Hreinsson og Sigurveig Jónsdóttir voru vanhæf til meðferðar málsins, sbr. [2. tl. 3. gr.] laga nr. 37/1993, og tóku varamenn þeirra, Helga G. Johnson og Skúli Magnússon, því sæti í nefndinni.

Málsatvik

Atvik málsins eru í stuttu máli þau að í apríl 2004 óskaði Ríkiskaup fyrir hönd Austurhafnar-TR ehf., sem er í eigu ríkisins og Reykjavíkurborgar, eftir þátttakendum í forvali 13484 þar sem fyrirhugað var að efna til samningskaupa um veitingu sérleyfis til að byggja, eiga og reka tónlistarhús, ráðstefnumiðstöð og hótel, ásamt tilheyrandi bílastæðum, við austurhöfnina í Reykjavík. Af hálfu verkkaupa Austurhafnar-TR ehf. var stefnt að því að gerður yrði sérleyfissamningur við einn bjóðanda. Meðal þeirra sem uppfylltu lágmarksskilyrði forvalsgagna voru kærendur og [C], samstarfshópur þriggja fyrirtækja: [D] hf., [E] hf. og [F] hf. Hinn 9. mars sl. var undirritaður samningur milli Austurhafnar-TR ehf. og [C] í eigu [E] hf. og [F] hf. um byggingu tónlistarhúss, ráðstefnumiðstöðvar og hótels við austurhöfnina í Reykjavík. Samningurinn var einnig undirritaður af fulltrúum íslenska ríkisins, Reykjavíkurborgar, [F] hf. og [E] hf., auk þriggja annarra fyrirtækja vegna þeirra skuldbindinga sem af samningum leiddi fyrir þessa aðila.
Hinn 10. október 2005 óskaði lögmaður kærenda eftir því við Austurhöfn-TR ehf. „... að fá afrit mats matsnefndar um tillögu/tilboð [C] „Evaluation Report on Revised Proposal of [C]“ frá september 2005 auk annarra gagna sem matsnefnd byggði mat sitt á.“ Jafnframt var þess óskað að látin yrðu í té „... afrit af öllum þeim bréfaskiptum sem farið hafa á milli Austurhafnar-TR ehf. og Ríkiskaupa við [C].“ Með bréfi til Austurhafnar og Ríkiskaupa, dags. 12. janúar sl., ítrekaði lögmaður kærenda fyrri óskir sínar um umbeðin gögn. Ríkiskaup hafnaði beiðninni með bréfi, dags. 30. janúar sl., með vísan til þess að hún teldi sig bundna trúnaði við félagið sem og aðra bjóðendur í verkefninu.
Til stuðnings kæru sinni vísar kærendur til 3. og 9. gr. upplýsingalaga. Um sé að ræða opinber gögn sem varði kærendur en þeir séu aðilar málsins. Gögnin hafi verulega þýðingu um sönnun og við mat á því hvort gætt hafi verið jafnræðis í samningskaupaferlinu, svo sem áskilið sé í 11. gr. laga nr. 94/2001, um opinber innkaup. Þau lög takmarki ekki aðgang aðila máls að gögnum í vörslum stjórnvalda. Þá vísa kærendur ennfremur til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli A-71/1999.
Í umsögn Ríkiskaupa 27. mars sl. kemur fram að stofnunin sé almennt bundin trúnaði við [C] sem og aðra bjóðendur í samræmi við trúnaðaryfirlýsingu sem stofnunin og aðilar á hans vegum hafi undirritað. Að því er varðar aðgang kæranda að umsögn matsnefndar um tillögu/tilboð [C] frá 20. september 2005 er það mat Ríkiskaupa að efni umsagnar matsnefndarinnar sé þess eðlis að veita megi afrit af henni að mestu leyti nema að því er varðar fjárhagslega, viðskiptalega og samkeppnislega hagsmuni [C], sbr. 5. gr. upplýsingalaga og úrskurð nefndarinnar í máli A-74/1999. Því til áréttingar fylgdi umsögn Ríkiskaupa eintak af umsögn matsnefndarinnar þar sem strikaðar eru út þær fjárhagslegu og viðskiptalegu upplýsingar sem Ríkiskaup telja að varði [C] miklu að haldið verði leyndum.
Um aðgang kæranda að öðrum gögnum segir í umsögn Ríkiskaupa að tilgreining þeirra sé óljós, sbr. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Er þess krafist að þessum hluta kærunnar verði hafnað. Að því er varðar bréfaskipti milli Austurhafnar-TR ehf. og Ríkiskaupa við [C] sé tilvísun kærenda ónákvæm, en miða megi við að þar sé átt við öll bréfaskipti Austurhafnar-TR ehf. og Ríkiskaupa við [C] fram til 10. október 2005. Umsögn Ríkiskaupa fylgdu afrit af öllum bréfaskiptum Austurhafnar-TR ehf. og Ríkiskaupa við [C] frá 30. september 2004 fram til 10. október 2005. Af hálfu Ríkiskaupa er tekið fram að efni þeirra sé ekki þess eðlis að leynt skuli fara skv. áðurnefndri trúnaðaryfirlýsingu nema að því leyti sem varði spurningar Ríkiskaupa í bréfum 4. og 6. september 2005 til [C] um frekari útskýringar „Revised Proposal“ og svör félagsins við þeim 7. og 8. september 2005. Geymi gögn þessi upplýsingar um viðskiptaleg málefni og útfærslu [C] á einstökum verkþáttum.
Í athugasemdum lögmanns kærenda, dags. 21. apríl sl., segir að óskað hafi verið eftir þeim gögnum sem forsendur matsnefndar væru byggðar á. Sé þar m.a. átt við bindandi umsagnir eða bindandi álit sérfræðihópa þeirra sem skipaðir voru sem og annarra sérfræðinga er hafi verið matsnefnd til ráðgjafar. Jafnframt sé óskað eftir því að fá afrit af samskiptum og upplýsingamiðlunum sem hafi borist milli kærða og [C]. Í svarbréfi Ríkiskaupa, dags. 30. maí sl., er vísað til þess að stofnunin hafi með bréfi sínu til úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. mars sl., og með afhendingu þeirra gagna sem þar greinir í öllum meginatriðum orðið við beiðni kærenda. Að því er varði tilvísun lögmanns kærenda til annarra gagna, þá sé þar um að ræða vinnugögn í skilningi 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga.
Af hálfu kærenda kemur fram í bréfi lögmanns þeirra, dags. 9. júní sl., að kærendur hafi ekki fengið afrit af umsögn, mati matsnefndar um tillögu [C] eða bréfaskiptum sem kærði muni hafa afhent úrskurðarnefndinni. Þá hafi kærendum einungis borist samantekt úr samningi Austurhafnar-TR ehf. og [C].
Í umsögn Austurhafnar TR-ehf., dags. 12. júní sl., er bent á sérstakt eðli samningskaupaferilsins um gerð tilboða og að ekki sé hægt að rjúfa trúnað um inntak tilboðs á meðan verkinu sé ekki lokið. Er í umsögninni lagst gegn afhendingu ganganna.
Í umsögn lögmanns [C], dags. 28. júní sl., er þess krafist að kærunni verði vísað frá þar sem umsögn matsnefndarinnar hafi verið notuð við undirbúning stjórnvaldsákvörðunar, skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 1. málslið 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga gildi lögin ekki um upplýsingar, sem fjalla beri um aðgang að á grundvelli stjórnsýslulaga. Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna beri að synja um aðgang að umbeðnum gögnum eða takmarka hann verulega, sbr. 7. gr. upplýsingalaga. Þá er því haldið fram að umsögn matsnefndarinnar séu vinnuskjöl og falli því undir 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga. Ennfremur takmarkist upplýsingaréttur kæranda af mikilvægum fjárhags- og viðskiptahagsmunum [C] og að hagsmunir fyrirtækisins vegi þyngra en hagsmunir kæranda.
Athugasemdir kærenda, í tilefni af umsögnum Ríkiskaupa, Austurhafnar-TR ehf. og [C] bárust úrskurðarnefndinni eins og áður segir með bréfi lögmanns þeirra 30. júní sl.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga taka lögin til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þar með falla Ríkiskaup ótvírætt undir lögin, sbr. ennfremur úrskurði nefndarinnar í málum A-71/1999 og A-74/1999. Af þessu leiðir ennfremur að lög nr. 94/2001 um opinber innkaup takmarka hvorki aðgang almennings skv. II. kafla upplýsingalaga né aðgang aðila máls skv. III. kafla laganna að gögnum í vörslum stjórnvalda, nema að því leyti sem lögin heimila víðtækari aðgang en þar er gert ráð fyrir, sbr. 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Þá er heldur ekki mælt sérstaklega fyrir um þagnarskyldu í umræddum lögum.
Við skýringu á ákvæðum upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings og aðila máls, sbr. II. og III. kafla laganna, og takmarkanir hans ber á hinn bóginn að hafa í huga þá meginreglu við opinber innkaup að kaupandi skuli gæta trúnaðar um upplýsingar sem hann fær frá bjóðendum, eftir því sem efni og eðli upplýsinganna gefur tilefni til, sbr. m.a. 17. gr. reglugerðar nr. 655/2003 um opinber innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu. Þær upplýsingar sem hér koma einkum til álita eru ýmiss konar upplýsingar um fjárhagslega og tæknilega burði bjóðenda, áætlanir þeirra auk tæknilegra lausna og aðferða til að koma til móts við þarfir kaupanda í útboði.
Í umsögnum sínum vísa Ríkiskaup, Austurhöfn-TR ehf. og [C] til trúnaðaryfirlýsingar er aðilar hafi undirritað, sbr. lið 10 í samningskaupalýsingu og lið 7.8.2. í sömu lýsingu um trúnað (Confidentiality of Basic Ideas and Proposals). Slík ákvæði sem hér um ræðir geta ekki ein og sér komið í veg fyrir aðgang kærenda að umbeðnum gögnum á grundvelli upplýsingalaga, sbr. ofangreinda úrskurði nefndarinnar.
Af hálfu kærenda hefur komið fram að þeir hafi ekki fengið afhent þau gögn sem vísað sé til í bréfi Ríkiskaupa 27. mars sl. Verður að leggja það til grundvallar við úrlausn málsins.

2.
Kærendur voru meðal þeirra sem uppfylltu skilyrði forvalsgagna um þátttöku í samningskaupum, sbr. 34. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Úrskurðarnefndin hefur byggt á því í málum, þar sem þátttakendur í útboðum á vegum opinberra aðila hafa óskað eftir aðgangi að gögnum útboðsmálsins, að um upplýsingarétt aðila fari skv. 9. gr. upplýsingalaga, sbr. úrskurði A-71/1999, A-74/1999 og A-126/2001. Telja verður kærendur aðila máls í skilningi greinarinnar þar eð þeir hafa, að áliti úrskurðarnefndar, einstaklega og verulega hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnum útboðsmálsins.
Í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga kemur fram að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Í 2. og 3. mgr. 9. gr. er að finna undantekningar frá þeirri meginreglu sem kemur fram í 1. mgr. Þannig segir í 2. mgr. að ákvæði 1. mgr. taki ekki til gagna sem talin eru í 4. gr. laganna eða gagna sem hafa að geyma upplýsingar um mikilvæga almannahagsmuni er leynt eiga að fara skv. 6. gr. Þá segir ennfremur orðrétt í 3. mgr: „Heimilt er að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingunum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnunum.“
Þau gögn, sem beiðni kærenda nær til, hafa að nokkru að geyma upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptamálefni þeirra aðila er þátt tóku í umræddum samningskaupum. Við úrlausn þess hvort veita beri kæranda aðgang að umbeðnum gögnum reynir því á andstæða hagsmuni, annars vegar þess sem upplýsinga óskar og hins vegar annarra þeirra sem hlut eiga að máli og kunna að eiga réttmæta hagsmuni af því að tilteknum atriðum sé haldið leyndum. Í þessu samhengi er tekið fram í athugasemdum við 9. gr. frumvarps þess er varð að upplýsingalögum að: „Kjarni reglunnar í 3. mgr. felst í því að vega skuli og meta þessa gagnstæðu hagsmuni, en síðarnefndu hagsmunirnir eru að meginstefnu hinir sömu og liggja að baki 5. gr. frumvarpsins.“ Þannig verði aðgangur einungis „... takmarkaður ef talin er hætta á því að einkahagsmunir skaðist ef aðila yrði veittur aðgangur að upplýsingunum. Stjórnvald getur því ekki synjað aðila um aðgang að gögnum á grundvelli hugleiðinga um að aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga sé almennt til þess fallinn að valda einhverju tjóni, heldur verður að leggja mat á aðstæður í hverju máli fyrir sig.“ Þá segir ennfremur: „Regla 3. mgr. byggist á því að við hagsmunamatið sé stjórnvaldi ljóst hverjir verndarhagsmunirnir eru. Oft verður því að leita álits þess sem á andstæðra hagsmuna að gæta, en yfirlýsing hans um að hann vilji ekki að upplýsingarnar séu veittar er þó ein og sér ekki nægjanleg ástæða til að synja beiðni um upplýsingar.“ Í þessu samhengi segir ennfremur í athugasemdum við 10. gr. þess frumvarps er varð að upplýsingalögum, að samkvæmt 3. mgr. 9. gr. skuli eins og áður segir meta þá andstæðu hagsmuni sem vegast á þegar tekin er afstaða til beiðni og „af þeim sökum getur verið nauðsynlegt að aðili upplýsi í hvaða tilgangi hann óskar upplýsinganna.“


3.

Sú beiðni sem kærendur hafa beint til Ríkiskaupa er að mati nefndarinnar þríþætt. Í fyrsta lagi hvort veita eigi þeim ótakmarkaðan aðgang að umsögn matsnefndar um tillögu [C] frá 20. september (Evaluation Report on Revised Proposal of [C] from September 2005). Í öðru lagi hvort þau 28 skjöl, er fylgdu umsögn Ríkiskaupa, dags. 27. mars sl., skuli öll afhent honum að undanskildum skjölum merktum nr. 23, 24, 25 og 26 og loks í þriðja lagi hvort veita beri kæranda aðgang að öðrum gögnum sem matsnefnd hafi byggt umsögn sína á.


3.1

Bréfi Ríkiskaupa 27. mars sl., fylgdu annars vegar áðurnefnd umsögn matsnefndar um tillögu [C] auðkennd nr. 1 og hins vegar eintak umsagnarinnar án mikilvægra upplýsinga um [C] auðkennd nr. 2. Umsögn matsnefndarinnar er 28 síður. Úrskurðarnefndin hefur borið saman skjölin. Þær upplýsingar sem Ríkiskaup hafa fellt út með tilvísun til 7. gr. má finna á síðum 5, 7, 8, 13, 14, 15, og 17. Er þar um að ræða tæknilegar útfærslur varðandi hönnun byggingarinnar og um fjármögnun.
Að mati nefndarinnar geyma útstrikanir á síðum 5, 13, 14, 15 og 17 upplýsingar sem flokkast undir atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál sem telja má eðlilegt og sanngjarnt að ekki komist til vitundar samkeppnisaðila, nema fyrir liggi skýlaust samþykki bjóðenda, sbr. hér til hliðsjónar 5. gr. upplýsingalaga eins og hún er skýrð í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til laganna. Nefndar útstrikanir geyma að mati úrskurðarnefndarinnar upplýsingar um mikilvæga viðskiptahagsmuni [C] sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, jafnvel þótt í hlut eigi aðili máls. Verður ekki talið að hagsmunir kærenda af því að fá aðgang að umræddum upplýsingum úr matsskýrslunni, vegi þyngra en hagsmunir [C] af því að upplýsingunum sé haldið leyndum. Hins vegar telur úrskurðarnefndin að ekki verði séð að útstrikanir á síðum 7, 8 og 15, 4. mgr. að neðan, hafi að geyma upplýsingar sem eigi að fara leynt með sama hætti. Með skírskotun til meginreglunnar í 1 mgr. 9. gr. upplýsingalaga og þess, sem rakið er hér að framan um undantekningar frá henni, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Ríkiskaupum sé að öðru leyti skylt að veita kærendum aðgang að hinni umbeðnu matsskýrslu.


3.2

Með bréfi Ríkiskaupa, dags. 27. mars sl., fylgdu afrit af öllum bréfaskiptum Austurhafnar TR ehf. og Ríkiskaupa við [C] frá 30. september 2004 fram til 10. október 2005. Er það mat Ríkiskaupa að efni þeirra sé ekki þess eðlis að leynt skuli fara að undanskildum gögnum auðkenndum nr. 23, 24, 25 og 26. Verður það mat Ríkiskaupa haft í huga við niðurstöðu nefndarinnar.
Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér framangreind gögn. Skjal auðkennt nr. 23 er tölvupóstur til framkvæmdastjóra Austurhafnar-TR ehf., dags. 4. september 2005, til [C] með fyrirspurnum um nánari útlistun tilboðs [C] á kostnaðarskiptingu milli framkvæmdaraðila annars vegar og Reykjavíkurborgar, Faxahafna og Vegagerðarinnar hins vegar. Skjal auðkennt nr. 26 geymir svarbréf [C], dags. 8. september 2005 við þeim fyrirspurnum. Skjöl nr. 27 og 28 eru að finna í samingakaupalýsingu og koma því ekki til frekari skoðunar. Það er álit nefndarinnar að hér sé um að ræða gögn sem eru hluti umrædds útboðsmáls.
Þrátt fyrir þau almennu sjónarmið sem hafa ber í huga við skýringu upplýsingalaga við framkvæmd laga, nr. 94/2001 sem rakin eru í kafla 1 hér að framan og um takmarkanir á upplýsingarétti aðila samkvæmt 2. og 3. mgr. 9. gr. upplýsingalaga, sbr. kafla 2 hér að framan, telur úrskurðarnefndin að Ríkiskaup hafi ekki sýnt fram á að það gæti, eitt og sér, skaðað samkeppnisstöðu ríkisins á útboðsmarkaði eða einkahagsmuni þótt kæranda verði veittur aðgangur að framangreindum skjölum auðkenndum nr. 23 og 26. Er þá litið til þess að í framangreindum skjölum kemur fram nánari afmörkun á tilboði tiltekins þátttakanda í samningskaupaferli. Öðru máli gegnir um skjöl auðkennd nr. 24 og 25., en þau geyma fyrirspurnir Ríkiskaupa og svör [C] um fjármögnun og fjárhagslegar ábyrgðir. Verður að telja að upplýsingar þessar séu þess eðlis að eðlilegt og sanngjarnt að leynt fari. Er það mat úrskurðarnefndarinnar að þessar upplýsingar varði mikilvæga viðskiptahagsmuni [C] sem eðlilegt að leynt fari. Verður ekki talið að hagsmunir kærenda af því að fá aðgang að upplýsingum úr nefndum skjölum vegi þyngra en hagsmunir [C] af því að upplýsingunum verði haldið leyndum, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna.


3.3

Beiðni kærenda lýtur í þriðja lagi að aðgangi að öðrum gögnum sem matsnefnd hafi byggt mat sitt á, sbr. bréf kærenda til Austurhafnar-TR 10. október 2005, og bréf kærenda til Ríkiskaupa og Austurhafnar-TR 12. janúar sl.
Þó svo að samningskaupalýsing 13571, sbr. 5. kafla hennar, geri ráð fyrir því að matsnefndin byggi umsögn sína á störfum þriggja tilgreindra starfshópa, reynir engu að síður á hvort kærandi hafi afmarkað beiðni sína með nægilega glöggum hætti, sbr. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Af athugasemdum við 10. gr. frumvarps þess er varð að upplýsingalögum leiðir að „í beiðni verður að tilgreina gögnin eða málið með það glöggum hætti að stjórnvöldum sé fært að hafa uppi á gögnunum eða málinu.“ Kærandi hefur í máli sínu fyrir úrskurðarnefndinni m.a. vísað til umsagna framangreindra starfshópa. Erindi hans var ekki þannig úr garði gert þegar það var borið fram við Austurhöfn-TR ehf. í október 2005 og síðar gagnvart sama aðila og Ríkiskaupum í janúar sl. Eins og beiðni kærenda var úr garði gerð var Ríkiskaupum ekki skylt að afhenda kæranda frekari gögn en leiðir af niðurstöðu nefndarinnar í köflum 3.1 og 3.2.
Úrskurðarorð

Ríkiskaupum er skylt að veita kærendum, [A] hf. og [B] hf., aðgang að matsskýrslu matsnefndar „Evaluation Report on Revised Proposal of [C] að undanskyldum upplýsingum er fram koma í útstrikunum á síðum 13, 14, 17 og 2. og 3. mgr. að neðan á síðu 15, sbr. bréf Ríkiskaupa, dags. 27. mars 2006, fylgiskjal 2.

Ríkiskaup skulu veita kærendum aðgang að skjölum auðkenndum nr. 1-23 og nr. 26, en undanþegin eru skjölin auðkennd nr. 24 og 25, allt sbr. bréf Ríkiskaupa, dags. 27. mars 2006.

Staðfest er synjun Ríkiskaupa um afhendingu annarra gagna útboðsmálsins.


Friðgeir Björnsson
varaformaður
Skúli Magnússon                                                                    Helga Guðrún Johnson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta