A-229/2006 Úrskurður frá 4. júlí 2006
ÚRSKURÐUR
Hinn 4. júlí 2006 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-229/2006:
Kæruefni
Með bréfi, dags. 26. apríl sl., kærði [...] afgreiðslu Seyðisfjarðarkaupstaðar á beiðni hans um aðgang að gögnum um samskipti kaupstaðarins og [A] ehf. vegna fyrirhugaðrar virkjunar Fjarðarár í Seyðisfirði.
Með bréfi, dags. 2. maí sl., var bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og láta úrskurðarnefndinni í té í trúnaði afrit af þeim gögnum er kæran laut að. Í svari Seyðisfjarðarkaupstaðar 10. maí sl. kemur fram að kærandi hafi fengið í hendur öll gögn varðandi [A] ehf. sem bærinn hafi haft undir sínum höndum þegar kærandi hafi óskað eftir aðgangi að þeim. Með bréfi, dags. 15. maí sl., var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir Seyðisfjarðarkaupstaðar. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni með bréfum hans, dags. 23. og 24. maí sl.
Með bréfi, dags. 15. maí sl., var bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar beðinn um að láta nefndinni í té upplýsingar um þau gögn sem afhent hefðu verið. Seyðisfjarðarkaupstaður svaraði nefndinni með bréfi, dags. 18. maí sl. Með bréfinu fylgdi listi yfir þau gögn sem höfðu verið send kæranda, ásamt upplýsingum um þau gögn sem komið hefðu fram eftir að kærandi setti fram beiðni sína. Kæranda var með bréfi, dags. 29. maí sl., gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi framangreinds bréfs Seyðisfjarðarkaupstaðar. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni með bréfi hans, dags. 1. júní sl.
Málsatvik
Atvik málsins eru í stuttu máli þau að með bréfi, dags. 31. mars 2006, fór kærandi þess á leit við bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar að fá afhent öll gögn um samskipti kaupstaðarins og [A] ehf. vegna fyrirhugaðrar virkjunar Fjarðarár í Seyðisfirði. Sérstaklega óskaði kærandi eftir arðsemisútreikningum virkjunarinnar sem kynntar hefðu verið í bæjarstjórn haustið 2004 og í febrúar 2005. Í svarbréfi kaupstaðarins, dags. 25. apríl sl., kemur fram að sú kynning, sem kærandi vísi til að hafi farið fram á arðsemisútreikningum virkjunarinnar, hafi ekki farið fram í bæjarstjórn. Það hafi aftur á móti verið gert á opnum fundum sem haldnir hafi verið að loknum bæjarstjórnarfundum. Auk þess hafi málið verið kynnt á fleiri almennum fundum. Hafi bæjarstjórn hvorki safnað gögnum frá þeim fundum né hafi bæjarstjórnin heimild til að koma arðsemisútreikningum einstakra fyrirtækja á framfæri.
Í bréfi bæjarstjóra Seyðisfjarðarkaupstaðar 10. maí er því haldið fram að kærandi hafi fengið í hendur öll gögn um [A] ehf. sem kaupstaðurinn hafi haft undir höndum þegar kærandi óskaði eftir þeim. Að mati bæjarstjóra snúist málið um aðgang að arðsemisútreikningum [A] ehf. vegna virkjunarmöguleika í Fjarðará. Hafi bærinn ekki haft útreikningana undir höndum og hafi því ekki getað afhent þá. Fyrirtækið hafi á hinn bóginn kynnt útreikninga fyrir forsvarsmönnum bæjarins í þrígang. Fyrst á fundi með bæjarstjórn og umhverfismálaráði. Í annan stað á opnum fundi sem haldinn hafi verið í kjölfarið og í þriðja skiptið á fundi bæjarráðs nýverið. Í bréfi bæjarstjóra kaupstaðarins 18. maí 2006 koma fram upplýsingar um þau gögn sem kæranda hafa verið látin í té og þau gögn sem síðar hafa komið fram og varða málið.
Af hálfu kæranda er því haldið fram að hann hafi ekki fengið öll gögn varðandi samskipti Seyðisfjarðar og [A] ehf. og gögn er varða virkjun Fjarðarár í Seyðisfirði, sbr. bréf kæranda frá 23. og 24. maí sl. Sé þetta m.a. ljóst af lestri fundargerða sem lagðar hafi verið fram. Þá telur kærandi, sbr. bréf hans, dags. 1. júní 2006 að Seyðisfjarðarkaupstaður hafi nefnda arðsemisútreikninga undir höndum.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er áskilið að beiðni um aðgang að upplýsingum varði tiltekið mál. Þessi áskilnaður er nánar útfærður í 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga á þann hátt að í beiðni skuli annaðhvort tiltaka það mál eða þau gögn í máli sem leitað er eftir, en það kemur um leið í veg fyrir að unnt sé að óska aðgangs að ótilteknum fjölda mála eða gögnum í ótilteknum málum af ákveðinni tegund. Er þannig gert ráð fyrir í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum að í beiðni um aðgang að gögnum verði að tilgreina umrædd gögn eða málið með það glöggum hætti að stjórnvöldum sé fært að hafa upp á gögnunum eða málinu. Í athugasemdum í frumvarpi til upplýsingalaga, segir svo um skýringu á ákvæðinu að af því leiði að ekki sé „hægt að biðja um gögn í öllum málum af ákveðinni tegund eða frá tilteknu tímabili.“
Gagnvart Seyðisfjarðarkaupstað hefur kærandi óskað eftir aðgangi að öllum gögnum um samskipti kaupstaðarins og [A] ehf. vegna virkjunar Fjarðarár í Seyðisfirði. Í því sambandi hefur kærandi óskað sérstaklega eftir að fá afhenta arðsemisútreikninga virkjunarinnar. Greinir aðila á um hvort kaupstaðurinn hafi útreikningana hjá sér og hvort kærandi hafi fengið öll gögn um nefnd samskipti.
Að því er varðar beiðni kæranda um aðgang að nefndum arðsemisútreikningum hefur bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar lýst því yfir að kaupstaðurinn hafi útreikningana ekki undir höndum. Eftir að hafa kynnt sér framkomin gögn í málinu hefur úrskurðarnefndin ekki ástæðu til þess að draga þessa yfirlýsingu kaupstaðarins í efa. Þar sem líta verður svo á að gögn þessi séu ekki til staðar hjá Seyðisfjarðarkaupstað ber þegar af þeirri ástæðu að vísa kærunni frá að þessu leyti.
Að því er varðar aðgang að gögnum um samskipti Seyðisfjarðarkaupstaðar og [A] ehf. vegna virkjunar Fjarðarár reynir á hvort kærandi hafi afmarkað beiðni sína með nægilega glöggum hætti, sbr. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Kærandi hefur í máli sínu fyrir úrskurðarnefndinni m.a. vísað til gagna í fundargerðum bæjarráðs og bæjarstjórnar kaupstaðarins, sem hann hafi ekki fengið aðgang að. Erindi hans var ekki þannig úr garði gert þegar það var borið fram við bæjarstjóra Seyðisfjarðarkaupstaðar. Þá er einnig til þess að líta að mörg þeirra gagna sem kærandi vísar til varða mörg stjórnsýslumál. Eins og beiðni hans var úr garði gerð var Seyðisfjarðarkaupstað ekki skylt að afhenda kæranda frekari gögn.
Á grundvelli 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber stjórnvöldum að veita aðila nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar, eftir því sem við verður komið, reynist beiðni ónákvæm. Kærandi getur því snúið sér á ný til Seyðisfjarðarkaupstað og leitað eftir leiðbeiningum og aðstoð við að afmarka erindi sitt nánar þannig að hægt verði að taka efnislega afstöðu til erindis hans.
Úrskurðarorð:
Kæru [...] á hendur Seyðisfjarðarkaupstað að því er varðar aðgang að arðsemisútreikningum virkjunar í Fjarðará er vísað frá.
Seyðisfjarðarkaupstað var að öðru leyti ekki skylt að veita kæranda [...] aðgang að frekari gögnum eins og beiðni hans var úr garði gerð.
Páll Hreinsson
formaður
Friðgeir Björnsson Sigurveig Jónsdóttir