Hoppa yfir valmynd

A-236/2006 Úrskurður frá 22. desember 2006

ÚRSKURÐUR

Hinn 22. desember 2006 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-236/2006.

Kæruefni

Hinn 24. október sl., kærði [...] synjun Kópavogsbæjar um aðgang að uppdráttum og öðrum gögnum sem lögð höfðu verið fyrir Kópavogsbæ og tengdust byggingu fyrirhugaðs húss við [X-götu nr. Y] þar í bæ.
Kæran var kynnt Kópavogsbæ, með bréfi dags. 26. október sl., og kostur gefinn á því á að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran laut að. Í svarbréfi Kópavogsbæjar, dags. 2. nóvember sl., er þess krafist að kærunni verði hafnað með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Til vara er þess krafist að Kópavogsbæ verði eingöngu gert skylt að afhenda hluta þeirra gagna sem beiðni kæranda nær til.
Með bréfi, dags. 13. nóvember 2006, var eiganda [hússins nr. Y við X-götu] í Kópavogi kynnt kæran og framkomnar athugasemdir Kópavogsbæjar og honum gefinn kostur á að gera úrskurðarnefndinni grein fyrir því, hvort eitthvað væri því til fyrirstöðu að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum og að hvaða leyti afhending þeirra gæti skaðað hagsmuni hans.
Athugasemdir eiganda [hússins nr. Y við X-götu] bárust nefndinni með bréfi, dags. 27. nóvember sl., þar sem hann hafnar því að þau gögn sem um ræðir verði afhent.
Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir Kópavogsbæjar með bréfi, dags. 6. nóvember sl., og um athugasemdir eiganda [hússins nr. Y við X-götu] með bréfi, dags. 28. nóvember sl. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni með bréfum hans, dags. 8. nóvember sl. og 12. desember sl.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að 19. september sl. óskaði kærandi eftir afriti af framlögðum gögnum hjá yfirvöldum Kópavogsbæjar um byggingu húss á lóðinni [X-götu nr. Y]. Kærandi var í tölvupóstsamskiptum við starfsmenn Kópavogsbæjar vegna beiðni sinnar til 20. október sl., er hann krafðist afhendingar uppdrátta og lýsinga, sem Kópavogsbær hefði vegna fyrirhugaðar byggingar á lóðinni [X-götu nr. Y]. Með tölvupósti skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs Kópavogsbæjar 24. október sl. var beiðni kæranda hafnað með tilvísun til 5. gr. upplýsingalaga.
Í umsögn Kópavogsbæjar um kæruna kemur fram að gengið sé út frá því að kærandi hyggist birta umrædd gögn eða hluta þeirra í fjölmiðlum. Skýra verði ákvæði 5. gr. upplýsingalaga þannig að innra skipulag íbúðarhúsa einstaklinga teljist til einkahagsmuna og eigi því að vera undanþegið aðgangi. Líta beri til sjónarmiða um friðhelgi einkalífs og ekki síður öryggissjónarmiða þegar tekin sé ákvörðun um að veita aðgang að upplýsingum um heimili einstaklinga. Meta verði þá hagsmuni sem um sé að ræða. Ef telja verði upplýsingarnar viðkvæmar út frá almennum sjónarmiðum, þannig að þær eigi ekki erindi við allan þorra manna, beri að undanþiggja þær aðgangi almennings. Nákvæmar upplýsingar af þessum toga leiði enn fremur til þess að nota megi þær í ólögmætum tilgangi. Tekið er fram að fyrir byggingarnefnd sé almennt lagðar þrenns konar teikningar, útlitsteikningar, afstöðumyndir og grunnmyndir, sem sýni innra skipulag. Verði ekki fallist á þá kröfu að hafna beiðni kæranda sé þess krafist til vara að afhending ganga verði takmörkuð við aðrar teikningar en grunnmynd.
Í umsögn eiganda [X-götu nr. Y] er því eindregið hafnað að kærandi fái aðgang að umbeðnum gögnum. Er þar vísað til sjónarmiða um friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Kærandi hafi ekki tilgreint neina þá hagsmuni sem fyrir hendi þurfi að vera til þess að réttlæta að veittur verði aðgangur að þeim einkamálefnum er fram komi í umræddum gögnum. Þá séu teikningar af húsinu verðmætt hugverk sem óskað sé að haldið verði leyndum. Sjónarmið um öryggi fjölskyldu hans mæli gegn afhendingu teikninganna. Er nefnt sem dæmi að innbrotsþjófar ættu hægar um vik svo og þeir sem kynnu að vilja skaða fjölskyldu hans. Tekið er fram að á þetta sé bent af gefnu tilefni þar sem á síðustu árum hafi hann orðið fyrir líflátshótunum sem m.a. hafi komið til kasta lögreglu. Þá fari birting teikninganna gegn ákvæðum 22. gr. a höfundalaga nr. 73/1972. Það er mat eignanda [X-götu nr. Y] að í málinu beri honum að njóta vafans þar sem réttur hans til friðhelgi um einkalíf sitt sé ótvíræður, en ólíklegt að almannahagsmunir snertist af málinu.
Í athugasemdum kæranda er m.a. vísað til þess að yfirvöld í Kópavogsbæ og í öðrum sveitarfélögum hafi afhent hverjum sem vilji uppdrætti af byggingum í bænum. Í þessu máli hafi önnur sjónarmið verið látin gilda og sé ekki hægt að fallast á slíkt.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.


Niðurstaða

1.
Með bréfi Kópavogsbæjar, dags. 2. nóvember 2006, bárust nefndinni teikningar af húsinu að [X-götu nr. Y], sem áritaðar eru af byggingarfulltrúa um samþykkt byggingarnefndar Kópavogs 9. október 2006. Um er að ræða fimm teikningar: Grunnmynd 1. hæðar, grunnmynd 2. hæðar, þakmynd-þaksvalir og tvær útlitsteikningar. Kópavogsbær hefur hafnað beiðni kæranda með tilvísun til einkahagsmuna eiganda [X-götu nr. Y], sbr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Þá hefur eigandi [X-götu nr. Y] lagst gegn afhendingu teikninganna af sömu ástæðu og einnig að með afhendingu þeirra kynni öryggis hans og fjölskyldu að vera hætta búin.
Meginreglan um upplýsingarétt almennings, sbr. 3. gr. upplýsingalaga, byggist á því að sá sem upplýsinga beiðist þurfi ekki að tiltaka ástæður fyrir beiðni sinni. Aðgangi að upplýsingum verður því ekki synjað á þeim grundvelli að ætlunin sé að birta þær. Annað mál er að hagnýting eða birting upplýsinga kann að varða við t.d. hegningarlög eða höfundalög, sbr. 22. gr. a höfundalaga nr. 73/1972 og 5. tölul. 25. gr. upplýsingalaga.
Upplýsingaréttur almennings sætir takmörkunum samkvæmt nánari fyrirmælum 4.-6. upplýsingalaga. Í máli þessu reynir á hvort einkalífshagsmunir og öryggishagsmunir eiganda [X-götu nr. Y] eigi að leiða til takmarkana á upplýsingarétti kæranda.

2.
Ekki verður talið að upplýsingar um það hvort einstaklingur, lögaðili eða opinber aðili hafi fengið útgefið leyfi til byggingar íbúðarhúsnæðis eða húsnæðis fyrir starfsemi sína samkvæmt framlögðum teikningum séu þess eðlis að þær skuli fara leynt skv. 5. eða 6. gr. upplýsingalaga. Að mati nefndarinnar má vera ljóst að öryggishagsmunir opinberra aðila, sbr. 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga geta leitt til þess að takmarka beri aðgang almennings að upplýsingum um opinberar byggingar vegna þeirrar starfsemi sem þar á sér stað. Ljóst er að það sama getur átt við um fyrirtæki og lögaðila sem reka þannig starfsemi að eðlilegt og sanngjarnt sé að aðgangur almennings að upplýsingum um innra skipulag bygginga þeirra sé takmarkaður. Verður ekki annað séð en að sömu sjónarmið geti einnig átt við um íbúðarhúsnæði einstaklinga og að ekki standi rök til þess að hafa hér annan hátt á, enda hafi einstaklingur tilefni til þess ætla að öryggi hans sé betur tryggt með því að takmarkaður sé aðgangur almennings að upplýsingum um innra skipulag heimilis hans.
Ekki er heldur útilokað að einstakar upplýsingar um persónu manns eða fjölskylduhagi hans, sem fram koma í slíkum gögnum, geti verið með þeim hætti að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt. Samkvæmt fyrri málslið 5. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari nema sá samþykki sem í hlut á. Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum kemur fram að það myndi takmarka mjög upplýsingaréttinn ef allar upplýsingar, sem snerta einkahagsmuni einstaklinga væru undanþegnar. Er þeirri stefnu fylgt að láta meginregluna um upplýsingarétt taka til slíkra upplýsinga en með þeim takmörkunum sem gera verður m.a. til að tryggja friðhelgi einkalífs, sbr. 5. gr. Upplýsingarétturinn verður almennt ekki takmarkaður samkvæmt ákvæðinu nema að undangengnu mati stjórnvalds á því hvort hætta sé á að þeir hagsmunir, sem þar eru tilgreindir, skaðist ef upplýsingarnar eru veittar. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður í framangreindu tilliti einnig að telja öryggishagsmuni einstaklinga.

3.
Á grunnmynd 1 og 2 er lýst allnákvæmlega innra skipulagi fyrirhugaðs íbúðarhúss að [X-götu nr. Y] og verður að leggja til grundvallar að það sé sérstaklega hannað samkvæmt persónulegum óskum eigandans og lýsi sérstökum þörfum hans og fjölskyldu. Þegar til þessa er litið og afstöðu hans til takmarkaðs aðgangs almennings að teikningunum, á grundvelli öryggishagsmuna sinna verður að telja að ekki sé útilokað að framangreindir hagsmunir hans geti skaðast ef þær upplýsingar sem þar koma fram verða veittar.
Með vísun til þess sem að framan greinir er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Kópavogsbæ sé óheimilt að veita kæranda aðgang að grunnmyndum vegna 1. og 2. hæðar [X-götu nr. Y], en að öðru leyti eigi kærandi rétt á aðgangi að þeim gögnum sem hann hefur beðið um.


Úrskurðarorð:

Kópavogsbæ er skylt að veita kæranda aðgang að uppdráttum af íbúðarhúsi við [X-götu nr. Y], sem samþykktar voru af byggingarfulltrúa 9. október 2006, að undanskildum grunnmyndum 1. og 2. hæðar.

Páll Hreinsson
formaður

Friðgeir Björnsson Sigurveig Jónsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta