Hoppa yfir valmynd

A-245/2007 Úrskurður frá 6. mars 2007.

ÚRSKURÐUR

Hinn 6. mars 2007 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-245/2007:

 

Kæruefni

Hinn 27. nóvember 2006 kærði [...], synjun svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík, dags. 6. nóvember sl., um aðgang og afrit af öllum skjölum og gögnum um fjármálamisferli fyrrverandi forstöðumanns á áfangastaðnum [X] sem uppvíst varð um í ágúst 2005.
Með bréfi, dags. 29. nóvember sl., var kæran kynnt svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík og stofnuninni veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til 8. desember sl. Jafnframt var þess óskað að stofnunin léti nefndinni í té afrit þeirra gagna sem kæran lýtur að innan sama frests. Með bréfi, dags. 11. desember sl., var fresturinn framlengdur til 15. desember sl. Umsögn svæðisskrifstofunnar, dags. 18. desember sl., barst nefndinni 21. desember sl., þar sem kröfu kæranda er hafnað. Jafnframt taldi stofnunin að henni væri ekki skylt að láta nefndinni í té umrædd gögn í trúnaði.
Kæranda var veittur frestur til 9. janúar 2007 til þess að tjá sig um umsögn svæðisskrifstofunnar. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.
Með bréfi, dags. 8. janúar sl., ítrekaði úrskurðarnefndin beiðni sína um afhendingu þeirra gagna sem kæran tekur til. Umbeðin gögn bárust nefndinni með bréfi svæðisskrifstofunnar, dags. 18. janúar sl., og var kæranda tilkynnt um afhendingu þeirra með bréfi, dags. 24. janúar sl.
Með bréfi svæðisskrifstofunnar, dags. 6. febrúar sl., upplýsti stofnunin að hún hefði með bréfi, dags. 19. janúar sl., kært til lögreglu mál það er beiðni kæranda laut að.

 

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfi, dags. 12. október sl., óskaði kærandi eftir aðgangi og afriti af öllum skjölum og gögnum í vörslu svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík er vörðuðu fjármálamisferli fyrrverandi forstöðumanns á áfangastaðnum [X] sem komið hafi í ljós í ágúst 2005. Um rökstuðning fyrir beiðni sinni vísaði kærandi til II. kafla upplýsingalaga.
Svæðisskrifstofan hafnaði beiðni kæranda með bréfi, dags. 6. nóvember sl., á grundvelli þess að um vinnugögn væri að ræða og þau væru undanþegin upplýsingarétti skv. 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga, en stofnunin hefði ritað þau til eigin afnota vegna undirbúnings ákvörðunar um að kæra til lögreglu meint misferli. Að auki væru gögnin þess eðlis að stofnuninni væri ekki heimilt að veita aðgang að þeim vegna einkamálefna og fjárhagsmálefna íbúa vistheimilisins sem sanngjarnt og eðlilegt sé að leynt fari, sbr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.
Í bréfi svæðisskrifstofunnar, dags. 18. janúar sl., kemur og fram að um meint misferli sé að ræða. Hafi Ríkisendurskoðun lokið skoðun sinni og skilað leiðbeinandi gögnum til stofnunarinnar. Að því búnu hafi stofnunin ákveðið að kæra málið til lögreglu til frekari rannsóknar, en vinna við frágang kærunnar sé á lokastigi. Er áréttað að stærstur hluti gagnanna séu persónuleg gögn og að rannsóknarhagsmunir séu í húfi á meðan málið sé enn í rannsókn. Með bréfi svæðisskrifstofunnar, dags. 19. janúar sl.,var málið kært til lögreglustjórans í Reykjavík
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þeim röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 

Niðurstaða

1.
Áfangastaðir eru skilgreindir sem búsetuúrræði fyrir fatlaða, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra. Meðferð umsókna um búsetu fyrir fatlaða er í höndum svæðisskrifstofa í málefnum fatlaðra, sbr. ennfremur reglugerð nr. 296/2002 um búsetu fyrir fatlaða. Um svæðisskrifstofur í málefnum fatlaðra og verkefni þeirra er fjallað í 12. gr. laga 59/1992. Sú starfsemi sem svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra í Reykjavík hefur með höndum að áfangaheimilinu [X] fellur samkvæmt framansögðu undir stjórnsýslu ríkisins og heyrir þar með undir gildissvið upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. gr. laganna.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um rannsókn eða saksókn í opinberu máli. Hinn 12. október sl. lagði kærandi fram beiðni sína um aðgang að umræddum gögnum og var tekin var afstaða til hennar 6. nóvember sl.  Í ljósi þess að þá hafði meint misferli ekki verið kært til lögreglu á kærandi rétt á því að leyst verði úr beiðninni á grundvelli upplýsingalaga.


2.
Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 83/2000, gilda lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nema óskað sé eftir aðgangi að skjölum eða öðrum gögnum, sem 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga tekur til, sbr. og 44. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nær réttur almennings til aðgangs að upplýsingum hjá stjórnvöldum til: „ - 1. allra skjala sem mál varða, þar með talinna endurrita af bréfum sem stjórnvald hefur sent, enda megi ætla að það hafi borist viðtakanda; - 2. allra annarra gagna sem mál varða, svo sem teikninga, uppdrátta, korta, mynda, örfilma og gagna sem vistuð eru í tölvu; - 3. dagbókarfærslna sem lúta að gögnum málsins og lista yfir málsgögn.“ Af þessari afmörkun á gildissviði upplýsingalaga leiðir að þau lög eiga einungis við þegar farið er fram á aðgang að upplýsingum, sem er að finna í afmörkuðum skjölum eða öðrum sambærilegum gögnum, sbr. 1. og 2. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna. Lögin gilda því ekki um aðgang að upplýsingum í skrám, sem unnar hafa verið með kerfisbunum hætti, nema þær sé að finna í einu eða fleiri afmörkuðum skjölum eða sambærilegum gögnum, sbr. t.d. úrskurð nefndarinnar í máli A-174/2004. Í þessu samhengi hefur úrskurðarnefndin litið svo á, að sé um að ræða upplýsingar sem skráðar eru með kerfisbundum hætti í bókhaldi þess sem kæra beinist að, falli úrlausn slíks máls utan gildissviðs upplýsingalaga. Á hinn bóginn geti lögin átt við um sérstök yfirlit sem unnin hafi verið upp úr viðkomandi bókhaldi, sbr. t.d. úrskurð nefndarinnar í málum A-35/1997 og A-44/1998. Í samræmi við þetta hefur nefndin í fyrri úrskurðum sínum ennfremur skýrt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga svo að réttur til upplýsinga taki einvörðungu til gagna sem fyrir liggja, þegar um þau er beðið, en leggi ekki á stjórnvöld skyldu til að útbúa ný gögn, sem ekki eru fyrirliggjandi, þegar eftir þeim er leitað, sbr. úrskurði nefndarinnar í málum A-181/2004 og 230/2006.
Í máli því sem hér er til úrlausnar, óskar kærandi eftir aðgangi að öllum skjölum og gögnum er varða meint fjármálamisferli fyrrverandi forstöðumanns áðurnefnds áfangaheimils. Með bréfi svæðisskrifstofunnar, dags. 18. janúar sl., bárust úrskurðarnefndinni gögn málsins sem hún hefur kynnt sér. Í fyrsta lagi er um að ræða möppu 1 með gögnum heimilissjóðs, sbr. 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 296/2002, sbr. reglugerð nr. 856/2002. Er þar um að ræða ýmis bókhaldsgögn, þ. á m. bankayfirlit, skjöl um hreyfingar á tilgreindum bókhaldslyklum og ýmis fylgiskjöl í formi yfirlita, útprentana og reikninga. Í öðru lagi mappa 2 vegna umsjónar með fjármunum einstakra vistmanna, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 296/2002. Um er að ræða ýmis bókhaldsgögn, þ. á m. færslur á reikningum íbúa, reikningsyfirlit, dagbókarfærslur og ýmis fylgiskjöl, en einnig yfirlit yfir fjármál einstakra vistmanna. Í þriðja lagi er um að ræða tvær plastmöppur er geyma útprentun bókhaldslykils vegna inn- og útborgunar af bankareikningi vegna reksturs áfangaheimilisins. Ennfremur bréf svæðisskrifstofunnar til KB-banka, dags. 21. nóvember sl. og svarbréf bankans, dags. 7. desember 2006 og loks bréf Ríkisendurskoðunar, dags. 21. september sl.
Gögn í möppum 1 og 2 geyma upplýsingar, sem skráðar hafa verið með kerfisbundnum hætti vegna bókhalds áfangaheimilisins og einstakra íbúa. Með tilvísun til 2. mgr. 2. gr. og 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga taka ákvæði upplýsingalaga ekki til þessara gagna og ber því að vísa kærunni frá að þessu leyti.
Að því er varðar þau yfirlit, sem tekin hafa verið saman um fjárhagsmálefni íbúa áfangaheimilisins, sbr. skjöl í möppu 2, er ljóst að þær upplýsingar sem þar koma fram varða einka- og fjárhagsmálefni viðkomandi íbúa sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, sbr. fyrri málsl. 5. gr. upplýsingalaga.
Að því er varðar bréf Ríkisendurskoðunar, dags. 21. september sl., er það mat úrskurðarnefndarinnar að það geymi ekki upplýsingar sem takmarka beri aðgang að, sbr. fyrri málsl. 5. gr. upplýsingalaga að undanskildum nöfnum þeirra íbúa sem tilgreindir eru á bls. 3 í bréfinu. Á það sama við um bréf svæðisskrifstofunnar, dags. 21. nóvember sl., til KB-banka að undanskildum upplýsingum í 4. lið bréfsins um nafn og kennitölu þess einstaklings sem óskað er upplýsinga um. Ber því að fallast á kröfu kæranda um aðgang að framangreindum bréfum, að gættum ákvæðum 7. gr. upplýsingalaga.
Það fellur utan kæruefnisins að fjalla um aðgang kæranda að svarbréfi KB-banka, dags. 7. desember sl., þar sem réttur kæranda takmarkast við þau gögn sem til staðar voru þegar hann lagði fram beiðni sína 27. nóvember sl. og hin kærða ákvörðun tekur til.

 

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefnd kröfu [...] á hendur svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík um aðgang að bókhaldsgögnum um rekstur áfangaheimilis að [X] og bókhaldsgögnum um íbúa heimilisins í möppum 1 og 2.
Staðfest er synjun svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík um aðgang að yfirlitum um fjárhag íbúa á áfangaheimilinu [X].
Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík er skylt að veita kæranda aðgang að bréfi Ríkisendurskoðunar, dags. 21. september 2006, að undanskildum upplýsingum um nöfn einstakra íbúa, og að bréfi svæðisskrifstofunnar, dags. 21. nóvember 2006, að undanskildu nafni og kennitölu þess einstaklings sem tilgreindur er í bréfinu.


Páll Hreinsson
formaður

                              Friðgeir Björnsson                                                                    Sigurveig Jónsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta