A-246/2007 Úrskurður frá 6. mars 2007.
ÚRSKURÐUR
Hinn 6. mars 2007 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-246/2007:
Kæruefni
Með bréfi, dags. 3. janúar 2006, kærði [...] synjun fjármálaráðuneytisins um aðgang að gögnum sem farið hefðu á milli Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og ráðuneytisins vegna undirbúnings frumvarps til laga um Ríkisútvarpið ohf.
Með bréfi, dags. 11. janúar sl., var kæran kynnt fjármálaráðuneytinu og því veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til 23. janúar sl. Jafnframt var þess óskað að ráðuneytið léti nefndinni í té afrit þeirra gagna sem kæran lýtur að innan sama frests. Umsögn fjármálaráðuneytisins barst nefndinni með bréfi ráðuneytisins, dags. 23. janúar 2007, þar sem kröfu kæranda er hafnað.
Kæranda var með bréfi, dags. 24. janúar sl., gefinn kostur á að tjá sig um umsögn fjármálaráðuneytisins. Er umsögn kæranda dags. 2. febrúar 2007.
Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með erindi, dags. 12. desember sl., óskaði kærandi eftir að fá afrit af samskiptum fjármálaráðuneytisins og ESA vegna frumvarps til laga um breytingar á eignarhaldi Ríkisútvarpsins.
Með vísan til 5. gr. og 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga hafnaði fjármálaráðuneytið beiðni kæranda með bréfi, dags. 28. desember sl. Í synjun ráðuneytisins eru rakin ákvæði 6. gr. upplýsingalaga og athugsemdir við þau í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum. Tekið er fram að samkvæmt 122. gr. EES-samningsins og 24. gr. í II. hluta bókunar 3 við Samning um eftirlitsstofnun og dómstól, sé fjallað um valdsvið ESA í ríkisstyrkjamálum. Af þessu leiði að stofnunin sé almennt bundin trúnaði um einstök mál á meðan þau séu enn til efnismeðferðar hjá ESA, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli A-138/2001. Fram kemur að ráðuneytið hafi í tilefni af ósk menntamálanefndar Alþingis í janúar 2006, vegna umfjöllunar um frumvarp til laga um RÚV hf., afhent nefndinni í trúnaði bréf ESA, dags. 3. júní 2005, og bréf fjármálaráðuneytisins, dags. 15. ágúst 2005. Eftir að ráðuneytið hafði fengið samþykki kæranda, fyrirtækisins [X], og ESA var trúnaði aflétt af bréfunum 20. janúar 2006. Í niðurlagi bréfs ráðuneytisins er tekið fram að með vísan til 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga hafi ráðuneytið ekki heimild til að veita kæranda aðgang að öðrum gögnum er varða samskipti milli íslenskra stjórnvalda og ESA, á meðan málið sé enn til meðferðar hjá stofnuninni.
Í umsögn fjármálaráðuneytisins eru raktar röksemdir ráðuneytisins fyrir synjun þess á beiðni kæranda um afhendingu umræddra gagna og skýringar þess á ákvæðum 5. gr. og 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Er áréttað að ráðuneytið telji sig ekki hafa heimild til að veita kæranda aðgang að öðrum gögnum um samskipti milli íslenskra stjórnvalda og ESA, á meðan málið sé enn til meðferðar hjá stofnuninni. Bendir ráðuneytið jafnframt á að ESA sé bundin af reglum sínum um meðferð trúnaðarupplýsinga í leiðbeinandi reglum á sviði ríkisaðstoðar um verndun trúnaðarupplýsinga um viðskiptalega hagsmuni (Kafli 9.C. “Professional Secrecy in State Aid Decisions”). Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins hafi ESA enn fremur hafnað óskum kæranda um aðgang að sömu gögnum og hann hafi óskað eftir að fá aðgang að hjá ráðuneytinu. Að því er varði tilvísun til 5. gr. upplýsingalaga bendir ráðuneytið á að rannsókn ESA á málefnum Ríkisútvarpsins sé tilkomin vegna kæru [X] og að það fyrirtæki kunni að hafa lögvarða hagsmuni af því að gögn er varða kæru þess sé ekki afhent þriðja aðila á meðan rannsókn ESA stendur enn yfir.
Af hálfu kæranda er vísað til meginreglunnar um upplýsingarétt almennings í 3. gr. upplýsingalaga. Beiðnin lúti að gögnum sem varði almannahagsmuni en um sé að ræða breytingar á lögum um Ríkisútvarpið sem hafi almannahlutverki að gegna. Allar takmarkanir á upplýsingarétti almennings beri að skýra þröngt í málinu. Tekur kærandi fram að eðlilegt sé að leynd sé aflétt af öllum skjölum sem varði málið, enda engir mikilvægir fjárhags- eða viðskiptahagsmunir í húfi sem krefjast þess að leynd hvíli yfir bréfasamskiptum stjórnvalda við ESA. Um sé að ræða lagatæknileg atriði sem leynd geti ekki hvílt yfir að mati kæranda og standi ákvæði 5. gr. upplýsingalaga ekki gegn afhendingu gagnanna. Í umsögn sinni bendir kærandi jafnframt á að samkvæmt upplýsingum ESA sé það í valdi stjórnvalda í viðkomandi ríki að meta hvort veita beri aðgang að gögnum um samskipti þess við ESA. Er af hálfu kæranda undirstrikuð sú afstaða hans að 5. og 6. gr. upplýsingalaga standi því ekki í vegi fyrir því að honum verði veittur aðgangur að öðrum gögnum um samskipti fjármálaráðuneytisins og ESA vegna framangreinds máls.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þeim röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða
Samkvæmt 2. tölul. 6. gr. er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga er ákvæðið skýrt á þann hátt að það eigi „... við samskipti íslenska ríkisins við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir, hvort sem þau eru af pólitískum, viðskiptalegum eða annars konar toga. Þeir hagsmunir, sem hér er verið að vernda, eru tvenns konar. Annars vegar er verið að forðast að erlendir viðsemjendur fái vitneskju um samningsmarkmið og samningsstöðu okkar Íslendinga. Hins vegar er verið að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt traust í skiptum við önnur ríki, þar á meðal innan þeirra fjölþjóðlegu stofnana sem Ísland er aðili að. - Vegna fyrrgreinds skilyrðis um mikilvæga almannahagsmuni verður beiðni um upplýsingar um samskipti við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir því ekki synjað, nema hætta sé á tjóni af þessum sökum. Í ljósi þess að hér er oft um mjög veigamikla hagsmuni að ræða kann varfærni þó að vera eðlileg við skýringu á ákvæðinu.“ Í dæmaskyni er í athugasemdunum vísað til þess að með fjölþjóðastofnunum sé m.a. átt við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA).
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur litið svo á að hafi ESA lokið umfjöllun í málum er varða meinta ríkisaðstoð íslenskra stjórnvalda fari um takmarkanir á upplýsingarétti almennings eftir síðari málslið 5. gr. upplýsingalaga, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli A-240/2007. Samkvæmt gögnum málsins hefur ESA ekki lokið umfjöllun sinni um áðurnefnt kærumál [X]. Þegar til þess er litið og þeirra sjónarmiða sem rakin hafa verið hér að framan, einkum um þau markmið 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt traust í skiptum við þær fjölþjóðlegu stofnanir sem Ísland á aðild að, er það niðurstaða nefndarinnar að heimilt sé að takmarka aðgang kæranda að þeim gögnum á meðan málið er til meðferðar hjá ESA ber því að mati úrskurðarnefndarinnar að staðfesta að svo stöddu synjun fjármálaráðuneytisins að þessu leyti.
Úrskurðarorð:
Staðfest er synjun fjármálaráðuneytisins á beiðni kæranda, [...] um aðgang að gögnum sem farið hafa á milli Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og fjármálaráðuneytisins vegna undirbúnings frumvarps um Ríkisútvarpið ohf.
Páll Hreinsson
formaður
Friðgeir Björnsson Sigurveig Jónsdóttir