Hoppa yfir valmynd

A-251/2007 Úrskurður frá 11. maí 2007

ÚRSKURÐUR

Hinn 11. maí sl. kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-251/2007.

 

Kæruefni

Með bréfi, dags. 12. mars sl., kærði [...] synjun utanríkisráðuneytisins, dags. 2. mars sl., um aðgang að upplýsingum um samskipti Íslands við Atlantshafsbandalagið.
Með bréfi, dags. 14. mars sl., var kæran var kynnt utanríkisráðuneytinu og því veittur frestur til til 26. mars sl. að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni Jafnframt var þess óskað að ráðuneytið léti nefndinni í té afrit þeirra gagna sem kæran laut að innan sama frests. Umsögn ráðuneytisins barst nefndinni með bréfi þess, dags. 22. mars. sl.
Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um umsögn utanríkisráðuneytisins með bréfi, dags. 30. mars sl. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni 5. apríl sl.

 

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfi, dags. 10. október sl., óskaði kærandi eftir svörum utanríkisráðuneytisins við tilgreindum spurningum um samskipti Íslands við Atlantshafsbandalagið. Í fyrsta lagi hvort Alþingi eða utanríkismálanefnd hefði verið kynntur samningur Íslands við Atlantshafsbandalagið „Security Agreement by the Parties of the North Atlantic Treaty Organization“ frá 19. apríl 1952. Í öðru lagi hvort íslensk stjórnvöld hefðu undirritað og staðfest samning um „Agreement between the parties to the North Atlantic Treaty for the security of information“ frá 2002. Jafnframt óskaði kærandi eftir svörum við nánar tilgreindum spurningum hefði síðastgreindur samningur verið staðfestur. Í svarbréfi utanríkisráðuneytisins, dags. 2. mars. sl., er vísað til þess að beiðni kæranda varði upplýsingar um samskipti Íslands við Atlantshafsbandalagið um meðferð trúnaðarupplýsinga. Segir í svarinu að á heimasíðu ráðuneytisins, sem tilgreind er í svarinu, megi finna reglur og helstu þjóðréttarsamninga Atlantshafsbandalagsins um meðferð trúnaðarupplýsinga, og að það sé mat ráðuneytisins að ekki sé tilefni til frekari athugasemda eða skýringa við þær reglur.
Í kæru sinni telur kærandi að svar ráðuneytisins sé ófullnægjandi og ekki í samræmi við upplýsingalög. Ekki sé að finna rökstuðning fyrir synjun ráðuneytisins, heldur einungis vísað á vefsíðu ráðuneytisins.
Í umsögn utanríkisráðuneytisins er því lýst að kærandi hafi óskað eftir svörum við tilgreindum spurningum og að honum hafi verið vísað á fyrirliggjandi reglur um meðferð trúnaðarupplýsinga hjá Atlantshafsbandalaginu. Ekki hafi verið tilefni til þess að tjá sig frekar um nánari framkvæmd þeirra eða túlkun, enda hefði ekki verið óskað eftir aðgangi að fyrirliggjandi gögnum um það efni. Hafi að mati ráðuneytisins mátt ráða af beiðninni að kærandi hefði óskað eftir afstöðu þess til nánar tilgreindra álitaefna um túlkun þeirra og framkvæmd hér á landi. Ákvæði upplýsingalaga feli aftur á móti ekki í sér skyldu stjórnvalda til þess að taka saman álitsgerðir um túlkun eða beitingu þjóðréttarreglna sem Ísland sé bundið af eða starfsreglna sem settar hafi verið hjá alþjóðastofnunum sem Ísland eigi aðild að.
Af hálfu kæranda er á það bent að hann hafi ekki fengið þau svör sem hann hafi óskað eftir og að svör ráðuneytisins hefðu ekki nema að hluta snert fyrirspurnir hans. Í athugasemdum kæranda við umsögn utanríkisráðuneytisins ítrekar hann óskir sínar um að spurningum hans verði svarað.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þeim röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Kæruheimildin er bundin því skilyrði að ágreiningur sé uppi um annað tveggja: skyldu stjórnvalds til að veita aðgang að gögnum eða skyldu þess til að veita aðgang í formi ljósrits af skjölum eða afrits af öðrum gögnum. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006, er stjórnvöldum ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr. laganna. Er þetta í samræmi við fyrri framkvæmd nefndarinnar, sbr. t.d. úrskurði nefndarinnar í málum nr. A-181/2004, A-239/2007 og A-243/2007, að réttur til upplýsinga taki einvörðungu til gagna sem fyrir liggi, þegar um þau sé beðið, en leggi ekki á stjórnvöld skyldu til að útbúa ný gögn sem ekki séu fyrirliggjandi.

Fram kemur í þeim bréfaskiptum sem kærandi hefur átt við utanríkisráðuneytið og ennfremur í umsögn ráðuneytisins og í athugasemdum kæranda við þær, að beiðni kæranda taki ekki til aðgangs að tilteknum gögnum heldur að hann fái svör við nánar tilgreindum spurningum sem hann hafi lagt fyrir utanríkisráðuneytið.

Samkvæmt framansögðu liggur ekki fyrir synjun stjórnvalds um að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Þegar af þeirri ástæðu á úrlausn þessa ágreiningsmáls ekki undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál og verður því að vísa kæru þessari frá nefndinni.


Úrskurðarorð:


Kæru [...] á hendur utanríkisráðuneytinu er vísað frá.

 

Páll Hreinsson
formaður

 

                                                        Friðgeir Björnsson                          Sigurveig Jónsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta