Hoppa yfir valmynd

A 279/2008B Úrskurður frá 4. júní 2008

ÚRSKURÐUR

Hinn 4. júní 2008 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð i málinu A-279/2008B.

Málsatvik

Með bréfi, dags. 19. maí 2008, fór utanríkisráðuneytið þess á leit við úrskurðarnefnd um upplýsingamál, með vísan til 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, að réttaráhrifum úrskurðar nr. A-279/2008, sem kveðinn var upp 14. sama mánaðar, yrði frestað. Í úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að utanríkisráðuneytinu bæri að veita kæranda í málinu aðgang að eftirtöldum gögnum: (1) Greinargerð starfshóps um framkvæmd verkefnis vegna færslu rekstrar Keflavíkurflugvallar yfir til íslenskra stjórnvalda samfara brotthvarfi varnarliðs Bandaríkjanna, dags. 4. desember 2006. (2) Tveimur viðaukum greinargerðarinnar, þ.e. viðauka I og viðauka II. (3) Fylgiskjölum greinargerðarinnar í fjórum möppum, auðkenndum A, B, C og D. (4) Yfirlitum yfir fylgiskjölin sem er að finna fremst í hverri framangreindra mappa.

Í erindi utanríkisráðuneytisins kemur fram að í úrskurðinum frá 14. maí 2008 sé því hafnað að ofangreind gögn teljist vinnuskjöl í skilningi 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga. Vísi nefndin til þess að meðlimir vinnuhóps ráðuneytisins sem vann umrædd gögn hafi verið lánaðir til verksins af vinnuveitendum sínum, sem séu undirstofnanir ráðuneytisins, en verið þar áfram á launaskrá og í fullu starfi samhliða verkefninu. Umræddir einstaklingar teljist því ekki hafa verið starfsmenn utanríkisráðuneytisins og geti því greinargerð þeirra ásamt fylgiskjölum ekki talist hafa verið útbúin af viðkomandi stjórnvaldi til eigin afnota.

Telur utanríkisráðuneytið að með þessum hætti hafi úrskurðarnefndin  túlkað starfsmannahugtakið of þröngt. Ef fallist væri á þessi sjónarmið nefndarinnar myndu ráðuneyti, a.m.k. í sumum tilvikum, veigra sér við að fá sérfræðinga frá undirstofnunum sínum í tímabundin verkefni tengd ritun vinnuskjala þar sem slíkt leiddi til þess að vinnuskjöl ráðuneytis teldust ekki vinnuskjöl lengur. Slík stjórnsýsluframkvæmd myndi hamla um of starfsumhverfi stjórnsýslunnar að því er varðar meðhöndlun vinnuskjala og takmarka aðgengi ráðuneyta að sérfræðiþekkingu hjá starfsmönnum undirstofnana sinna.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál kynnti [X] framkomna beiðni utanríkisráðuneytisins. Í tölvubréfi hans frá 22. maí 2008 kemur fram að hann telji ósk utanríkisráðuneytisins ekki styðjast við gild rök. Auk þess óskar hann þess að kannað verði hvort þriggja daga frestur skv. 18. gr. upplýsingalaga hafi verið liðinn þegar ósk ráðuneytisins var sett fram.

Niðurstaða

Í 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir að á grundvelli kröfu stjórnvalds geti úrskurðarnefnd um upplýsingamál ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún sérstaka ástæðu til þess. Segir í ákvæðinu að krafa þess efnis skuli gerð eigi síðar en þremur dögum frá birtingu úrskurðar.

Erindi ráðuneytisins, þar sem óskað er frestunar á réttaráhrifum úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli A-279/2008, er af hálfu úrskurðarnefndar um upplýsingamál stimplað um móttöku 21. maí 2008. Í málinu liggur þó fyrir að erindið mun hafa borist nefndinni síðdegis degi fyrr, þ.e. þriðjudaginn 20. maí 2008. Liggja fyrir upplýsingar frá utanríkisráðuneytinu um að erindið hafi verið boðsent forsætisráðuneytinu eftir hádegi sama dag. Úrskurður úrskurðarnefndarinnar í máli A-279/2008 var sendur utanríkis­ráðuneytinu með bréfi þann 14. maí 2008. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu mun úrskurðurinn þó fyrst hafa borist þangað og verið móttekinn af hálfu ráðuneytisins föstudaginn 16. maí.

Ekki er beinlínis kveðið á um það í upplýsingalögum hvenær erindi telst hafa borist úrskurðarnefndinni á grundvelli 18. gr. upplýsingalaga. Með vísan til þess hversu knappur frestur skv. lögunum er telur nefndin þó rétt að líta til hliðsjónar til 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar segir að kæra teljist nógu snemma fram komin ef bréf, sem hefur hana að geyma, er komið til æðra stjórnvalds eða afhent pósti áður en fresturinn er liðinn. Með vísan til þessa fór frestur utanríkisráðuneytisins að líða föstudaginn 16. maí, þegar úrskurður nefndarinnar var kominn til ráðuneytisins. Erindi ráðuneytisins um frestun á réttaráhrifum barst úrskurðarnefndinni 20. sama mánaðar eins og að framan segir. Var frestur skv. 18. gr. upplýsingalaga þá útrunninn. Ber því að vísa erindi utanríkisráðuneytisins um frestun á réttaráhrifum úrskurðar í máli nr. A-279/2008 frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð

Beiðni utanríkisráðuneytisins, frá 19. maí 2998, um frestun á réttaráhrifum úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 14. sama mánaðar í máli nr. 279/2008, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Friðgeir Björnsson,

formaður

Sigurveig Jónsdóttir                     Trausti Fannar Valsson.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta