A 288/2008 Úrskurður frá 19. ágúst 2008
ÚRSKURÐUR
Hinn 19. ágúst 2008 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. 288/2008.
Kæruefni og málsatvik
Með erindi, dags. 10. júní 2008, kærði [...], synjun Fasteignamats ríkisins á beiðni hans um aðgang að sundurliðuðum upplýsingum um föst laun og önnur föst kjör [A] vegna starfa hans hjá Fasteignamati ríkisins eins og þau voru í maí 2007.
Atvik málsins eru þau að með bréfi, dags. 8. apríl 2008, fór kærandi fram á aðgang að ofangreindum upplýsingum hjá Fasteignamati ríkisins. Beiðni sína ítrekaði hann með bréfi, dags. 17. sama mánaðar. Með bréfi, dags. 22. maí, synjaði Fasteignamat ríkisins beiðni kæranda. Í svari fasteignamatsins segir m.a. svo:
„Sú takmörkun 5. gr. upplýsingalaga sem lýtur að gögnunum sjálfum á ekki við í þessu máli og á þeim grundvelli má ætla að fyrirspyrjanda sé þar með heimill aðgangur að upplýsingum um föst laun og önnur föst kjör [...]. Hins vegar þarf einnig að taka afstöðu til þess hvort ákveðnir hagsmunir standi í vegi fyrir því að upplýsingarnar séu veittar. Hér er um að ræða einka- og fjárhagsmálefni einstaklings og í vafatilvikum er stjórnvaldi rétt að leita álits þess aðila sem í hlut á. Ekki liggur fyrir samþykki þess aðila sem fyrirspurnin varðar fyrir því að umræddar upplýsingar verði veittar en af 5. gr. upplýsingalaga er það nauðsynlegt þegar um er að ræða upplýsingar um tekjur og fjárhagsmálefni einstaklinga.
Að teknu tilliti til ofangreindra raka og þeirra takmarkana sem koma fram í 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er beiðni þinni um upplýsingar um föst laun og önnur föst kjör [...] eins og þau voru í maí 2007 hafnað.“
Málsmeðferð
Með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 18. júní 2008, var kæran kynnt Fasteignamati ríkisins og stofnuninni veittur frestur til 3. júlí til að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var þess óskað að nefndinni yrðu, innan sama frests, látin í té gögn málsins.
Svar fasteignamatsins barst úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 27. júní. Í bréfinu rekur fasteignamatið að í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5103/2007 komi fram að í skýringum við 5. gr. frumvarps sem síðan var samþykkt á Alþingi sem upplýsingalög nr. 50/1996 komi fram sú afstaða löggjafans að upplýsingar um laun opinberra starfsmanna, þ.e. ákvarðanir um föst laun og önnur föst starfskjör, séu ekki undanþegnar aðgangi almennings, en öðru máli gegni um greidd heildarlaun á hverjum tíma. Síðan segir þar m.a. svo:
„Þrátt fyrir fyrrnefnda niðurstöðu í áliti umboðsmanns Alþingis og þau sjónarmið að ákvarðanir um laun og önnur starfstengd réttindi eða greiðslur til starfsmanna hins opinbera séu í eðli sínu upplýsingar um ákvarðanir um ráðstöfun opinberra fjármuna taldi stofnunin eðlilegt að skýra þau sjónarmið þröngt í þessu máli. Hér er óskað eftir upplýsingum sem telja má einka- og fjárhagsmálefni einstaklings og þar af leiðandi eðlilegt að sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. [...]
Sú takmörkun 5. gr. upplýsingalaga sem lýtur að því hvort gögn séu undanþegin upplýsingarétti á ekki við. Hins vegar þarf einnig að taka afstöðu til þess hvort ákveðnir hagsmunir standi í vegi fyrir því að upplýsingarnar séu veittar. Hér er litið svo á að um sé að ræða einka- og fjárhagsmálefni einstaklings þar sem samþykki þess aðila sem fyrirspurnin varðar liggur ekki fyrir en af 5. gr. upplýsingalaga má ráða að það sé nauðsynlegt þegar um er að ræða upplýsingar um tekjur og fjárhagsmálefni einstaklinga.“
Í niðurlagi svars fasteignamatsins segir enn fremur svo: „með bréfi þessu fylgir ljósrit af ráðningarsamningi Fasteignamats ríkisins og [...], staðfestum af fjármálaráðuneyti. Ekki er getið um launaflokk á ráðningarsamningnum.“
Með bréfi, dags. 3. júlí, var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna svarbréfs Fasteignamats ríkisins frá 27. júní. Athugasemdir hans bárust úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 16. júlí sl.
Niðurstaða
Í fyrri málsl. 5. gr. upplýsingalaga kemur fram sú takmörkun á hinum almenna upplýsingarétti skv. 3. gr. laganna að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut eigi.
Beiðni kæranda um upplýsingar beinist að launakjörum tiltekins starfsmanns Fasteignamats ríkisins. Samkvæmt skýrri og fastmótaðri framkvæmd á upplýsingalögum, sem jafnframt á sér stoð í athugasemdum sem fylgdu umræddri grein í frumvarpi til upplýsingalaga, hafa 3. og 5. gr. laganna verið skýrðar svo að sé óskað aðgangs að gögnum um laun opinberra starfsmanna skuli veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum þar sem fram komi föst launakjör viðkomandi starfsmanna. Þá skuli einnig veita aðgang að einstaklingsbundnum ráðningarsamningum eða öðrum ákvörðunum eða samningum um föst launakjör þeirra. Á hinn bóginn er, vegna ákvæðis 1. málsl. 5. gr. upplýsingalaga, óheimilt að veita aðgang að upplýsingum um heildarlaun opinbers starfsmanns, hvort sem laun hans eru hærri en föst laun og kjör sem stöðu hans fylgja, t.d. vegna unninnar yfirvinnu eða vegna frádráttar sökum fjarvista eða annarra atvika. Vísast hér meðal annars til úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-214/2005, A-183/2004, A-68/1997, A-27/1997 og A-10/1997. Jafnframt vísast til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5103/2007.
Með vísan til þessa verður ekki fallist á þær röksemdir Fasteignamats ríkisins að upplýsingar um föst ráðningarkjör opinberra starfsmanna séu upplýsingar sem á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga sé óheimilt að láta af hendi nema með samþykki þess sem upplýsingarnar varða. Með vísan til 2. mgr. 44. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er ljóst að ákvæði þeirra laga takmarka ekki rétt almennings til aðgangs að gögnum skv. upplýsingalögum.
Með svarbréfi Fasteignamats ríkisins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál fylgdi afrit af ráðningarsamningi stofnunarinnar við [A]. Kemur þar fram að um launagreiðslur, launaflokk og starfsaldur til launa fari eftir því sem í samningnum greinir og samkvæmt kjarasamningi þess stéttarfélags sem starfsmaðurinn sé í, enda sé starfið á samningssviði stéttarfélagsins og hann hafi rétt til aðildar að stéttarfélaginu samkvæmt samþykktum þess. Í ráðningarsamningnum koma á hinn bóginn hvorki fram upplýsingar um þau laun sem [A] hafði hjá fasteignamatinu, né er þar tilgreindur með beinum hætti sá launaflokkur sem föst laun hans miðuðust við. Af svörum fasteignamatsins verður að draga þá ályktun að í einstökum gögnum sem fyrir liggi hjá stofnuninni, sbr. ákvæði 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, sé þannig ekki að finna sérstaklega tilgreindar og sundurliðaðar upplýsingar um föst laun og önnur föst kjör [A] hjá fasteignamatinu í maí 2007. Engu að síður verður að telja að í þeim upplýsingum sem hér hafa verið raktar og fram koma í umræddum ráðningarsamningi sé að finna upplýsingar sem efnislega geti talist til upplýsinga um föst launakjör hans.
Með vísan til framangreinds og þess hvernig beiðni kæranda í máli þessu er úr garði gerð verður að telja að hann eigi rétt til aðgangs að umræddum ráðningarsamningi. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar er því sú að Fasteignamati ríkisins beri á grundvelli upplýsingalaga að veita kæranda aðgang að ráðningarsamningi stofnunarinnar við [A].
Úrskurðarorð
Fasteignamati ríkisins ber að afhenda [...] afrit af ráðningarsamningi stofnunarinnar við [A].
Friðgeir Björnsson
formaður
Sigurveig Jónasdóttir Trausti Fannar Valsson