Hoppa yfir valmynd

A 294/2009 Úrskurður frá 29. janúar 2009

ÚRSKURÐUR


Hinn 29. janúar 2009 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-294/2009.


Kæruefni

Með bréfi, sem úrskurðarnefndin móttók 22. september 2008., kærði [...], synjun Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar frá 5. september sama árs á að veita honum aðgang að gögnum frá dvalarheimilinu Seljahlíð um ömmu hans og afa, [A] og [B].

Málsatvik

Samkvæmt því sem segir í bréfi lögfræðings Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar til kæranda, dags. 5. september sl., bað kærandi um að sér yrði veittur aðgangur að framangreindum gögnum en ekki kemur fram hvenær velferðarsviðinu barst sú beiðni. Í bréfinu er beiðni kæranda synjað með vísan til þess að þar sem afi kæranda og amma séu bæði látin verði að telja að eigi sé unnt að veita kæranda aðgang að þeim gögnum er varði einkamálefni þeirra sérstaklega og um það vísað til 3. mgr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Í bréfinu er athygli kæranda vakin á rétti hans til að fá frekari rökstuðning fyrir synjuninni samkvæmt 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og eins á heimild til að skjóta henni til úrskurðarnefndar upplýsingalaga samkvæmt 14. gr. þeirra laga.

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar segir kærandi ástæðu þess að hann vilji fá aðgang að gögnunum vera þá að sex dögum fyrir andlát afa síns hafi verið gerðar töluverðar breytingar á erfðaskrá þeirra og telji hann sig eiga fullan rétt til þess að sjá hvernig heilsufar þeirra hafi verið þann dag. Kærandi segir afa sinn hafa legið stutta banalegu með krabbamein í heila og morfín í æð og ömmu sína verið illa kalkaða og komna í hjólastól.

Kærunni fylgdi afrit af afsali fyrir íbúð [A] og [B] til [C]. Afsalið er dagsett 18. júní 1996 og er undirritunin handsöluð lögmanni. Á afsalið ritar lögbókandinn í Reykjavík sama dag svofellda yfirlýsingu:

„Ár 1996, þriðjudaginn 18. júní, var ég undirritaður lögbókandi í Reykjavík kvaddur á heimili hjónanna [A] og [B].

[A] getur ekki lesið né skrifað vegna sjóndepru og veikinda og [B] á erfitt með að rita nafn sitt vegna veikinda. Afsalið hér að framan var lesið fyrir þeim hjónum og lýstu þau því yfir, að efni skjalsins væri í alla staði í samræmi við vilja sinn og handsöluðu þau Gunnari I. Hafsteinssyni, hdl., Reykjavík, kt. 250336-2929 undirritanir sínar undir skjalið að mér viðstöddum.

Gerðu þau hjón þetta af frjálsum og fúsum vilja og með fullu ráði og kváðu afsalið hafa að geyma vilja sinn.“

Í bréfi Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. nóvember sl., er greint frá því að umbeðin gögn hafi verið sett til geymslu á röngum stað og þau því ekki fundist fyrr en 19. nóvember þrátt fyrir talsverða leit. Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem orðið hafi á svörum velferðarsviðsins. Rökstuðningur velferðarsviðsins fyrir synjun um afhendingu gagnanna er svohljóðandi:

„Velferðarsvið ítrekar upphaflegan rökstuðning hinnar kærðu ákvörðunar. Um er að ræða gögn um einkamálefni [B] og [A] sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, sbr. 5. gr. upplýsingalaga. Þar sem [B] og [A] eru bæði látin, er eigi talið unnt að veita kæranda aðgang að gögnum er varða einkamálefni þeirra, en geyma engar upplýsingar um hann sjálfan. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að hagsmunir hans af því að fá aðgang að gögnunum séu ríkari en þeir hagsmunir sem mæla með því að gögnunum sé haldið leyndum, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 50/1996.

Velferðarsvið lítur svo á að hagsmunir af því að umbeðnum gögnum sé haldið leyndum séu einkum tvenns konar. Annars vegar er um að ræða hagsmuni hinna látnu sjálfra. Þótt mat þeirra hagsmuna sé vandkvæðum bundið telur Velferðarsvið sér ekki stætt að líta svo á að þessir hagsmunir séu ekki til staðar; hafi ekki vægi sem líta þurfi til við hagsmunamat skv. 3. mgr. 9. gr. upplýsingalaga. Hins vegar er um að ræða hagsmuni almennings af því að upplýsingum sem þessum sé haldið leyndum. Velferðarsvið telur að það hefði neikvæð áhrif mjög víða í samfélaginu ef fólk mætti búast við því að slíkar upplýsingar yrðu gerðar opinberar skömmu eftir dauða þess. Því telur Velferðarsvið kæranda ekki hafa sýnt fram á að hagsmunir hans af því að fá umbeðinn aðgang vegi þyngra en áðurnefndir almannahagsmunir, að viðbættum óljósum hagsmunum hinna látnu.

Hjálögð eru eftirfarandi gögn er varða [B]:

1. Skýrsla um sjúkraflutninga
2. Hitablöð
3. Rannsóknarskýrslur
4. Gögn frá Röntgendeild
5. Upplýsingar um hjúkrun
6. Handritaðar umsagnir lækna
7. Vistunarmat og tengd skjöl
8. Fyrirmæli læknis varðandi lyfjagjöf
9. Dagbókarfærslur
10. Hjúkrunarbréf
11. Skýrslur um heilsufar


Hjálögð eru eftirfarandi gögn er varða [B].

1. Fyrirmæli læknis
2. Hjúkrunarupplýsingar
3. Mælingaskýrslur
4. Hjúkrunargreiningar
5. Handritaðar umsagnir lækna
6. Rannsóknarskýrslur
7. Vistunarmat og tengd skjöl
8. Skýrslur um heilsufar“

 

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 23. september 2008, var kæran kynnt Velferðarsviði Reykjavíkurborgar og því gefinn frestur til 7. október til að koma á framfæri frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Sama dag var kæranda ritað bréf og honum kynnt að úrskurðarnefndin hefði móttekið kæru hans og hver meðferð hennar yrði á vegum nefndarinnar. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar bað um lengri frest í bréfi, dags. 30. september, og með bréfi úrskurðarnefndarinnar til velferðarsviðsins, dags. 6. október, var fresturinn lengdur til 21. október. Svar barst ekki innan tilskilins frests og var þá velferðarsviðinu ritað bréf, dags. 13. nóvember, efni bréfsins frá 23. september ítrekað og jafnframt óskað eftir því að úrskurðarnefndinni yrðu afhent í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran laut að. Frestur til þessa var gefinn til 19. nóvember. Hinn 21. nóvember barst úrskurðarnefndinni bréf Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. sama dag. Hinn 26. nóvember var kæranda ritað bréf og honum gefinn kostur á að gera athugasemdir við bréf velferðarsviðsins frá 21. nóvember. Ítrekunarbréf var sent 8. desember sl. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Hinn 22. desember var kæranda ritað bréf og hann m.a. beðinn um að upplýsa hvort það foreldri hans sem var barn afa hans og ömmu hefði verið á lífi þegar þau undirrituðu afsal fyrir íbúð sinni til Þorsteins Inga Kragh 18. júní 1996. Svar kæranda barst úrskurðarnefndinni 8. janúar sl. og sagði kærandi það foreldri sitt ekki hafa verið á lífi á þeim tíma.

 

Niðurstaða

Í III. kafla upplýsingalaga er kveðið á um aðgang aðila að upplýsingum um hann sjálfan. Sé litið til orðalags 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga virðist í ákvæðinu gert ráð fyrir að þau gögn sem um er beðið þurfi að innihalda upplýsingar sem beinlínis lúta að viðkomandi aðila sjálfum. Að túlkun þessa ákvæðis hefur verið vikið í nokkrum úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. úrskurði í málum A-21/1997, A-56/1998, A-106/2000, A-182/2004 og A-283/2008. Í athugasemdum með 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga sem fylgdu frumvarpi til laganna segir að ákvæðið sé byggt á áður óskráðri meginreglu um rétt einstaklinga til aðgangs að gögnum sem  séu í vörslu stjórnvalda og varði þá sérstaklega, enda standi reglur um þagnarskyldu því ekki í vegi. Með vísan til þessa hefur úrskurðarnefnd skýrt 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga svo að undir greinina falli ekki einvörðungu þau tilvik þegar maður óskar eftir aðgangi að gögnum með upplýsingum um hann sjálfan, heldur taki hún einnig til þess þegar upplýsingarnar varða hann með þeim hætti að hann hafi einstaklega hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnunum. Ber þó að hafa í huga, sbr. dóm Hæstaréttar frá 19. október 2000, í máli nr. 330/2000, að mikilvægt er að gera skýran greinarmun á upplýsingarétti almennings skv. II. kafla upplýsingalaga og upplýsingarétti aðila skv. III. kafla laganna. Hinn ríki réttur aðila sjálfs til aðgangs að gögnum samkvæmt III. kafla laganna er undantekning frá hinni almennu reglu í II. kafla þeirra um rétt almennings til aðgangs að gögnum. Því verður að vera hafið yfir vafa að sá sem fer fram á aðgang að gögnum teljist aðili í skilningi 9. gr. upplýsingalaga svo að leyst verði úr beiðni hans á grundvelli þeirrar greinar.

Kærandi hefur upplýst að móðir hans, barn afa hans og ömmu [A] og [B], hafi verið látin þegar þau afsöluðu íbúð sinni til Þorsteins Inga Kragh 18. júní 1996. Kærandi var þannig lögerfingi eftir afa sinn og ömmu samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 2. gr. erfðalaga nr. 8/1962, þegar afsalið var undirritað af lögmanni fyrir þeirra hönd þar sem hvorugt þeirra treysti sér til þess að undirrita skjalið. Réttur hans sem lögerfingja er því varinn af ákvæðum laga nr. 8/1962.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér þau gögn sem kærandi hefur óskað aðgangs að. Í þeim gögnum er ekki fjallað um hann sjálfan heldur einvörðungu heilsufar afa hans á tímabilinu frá því í október 1994 til dánardægurs 24. júní 1996 og ömmu hans frá fyrri hluta árs 1994 til síðari hluta árs 1999 eða atriði er að heilsufarinu lúta.

Fyrir liggur í gögnum málsins að afi kæranda var mjög heilsutæpur og andaðist 24. júní 1996 eða tæpri viku eftir að afsalið var undirritað. Í gögnum málsins kemur ekki fram hvert dánardægur ömmu kæranda var en af þeim er ljóst að heilsa hennar var verulega bág á þessum tíma. Í ljósi framangreindra staðreynda og samkvæmt gögnum málsins að öðru leyti, svo og rétti [...] samkvæmt ákvæðum laga nr. 8/1962, telur kærunefndin að leysa beri úr málinu á grundvelli III. kafla upplýsingalaga.

Úrskurðarnefndin telur samkvæmt því sem að framan segir að líta verði svo á að kærandi hafi sem lögerfingi afa síns og ömmu, [A] og [B], lögvarða hagsmuni af því umfram aðra að fá aðgang að þeim gögnum sem honum hefur verið synjað um aðgang að en þau geta varpað ljósi á hæfi þeirra til að ráðstafa eignum sínum á þeim tíma sem um ræðir. Þessir hagsmunir og gögnin eru þess eðlis að hvorki undantekningarákvæði 3. mgr. 9. gr. né ákvæði 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga um  almenn ákvæði laga um þagnarskyldu eiga hér við. Ber því Reykjavíkurborg, vegna velferðarsviðs borgarinnar, að afhenda [...] öll umbeðin gögn.

 

Úrskurðarorð

Reykjavíkurborg, vegna Velferðarsviðs borgarinnar, ber að afhenda [...], aðgang að gögnum frá dvalarheimilinu Seljahlíð um ömmu hans og afa, [A] og [B], og upp eru talin í bréfi Velferðarsviðs til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 21. nóvember 2008.

 

Friðgeir Björnsson, formaður

 

 

                                                    Sigurveig Jónsdóttir                         Trausti Fannar Valsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta