Hoppa yfir valmynd

A 298/2009 Úrskurður frá 19. mars 2009

ÚRSKURÐUR

Hinn 19. mars 2009 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-298/2009.

 

Kæruefni

Með tölvubréfi, dags. 3. febrúar 2009, kærði [...], þá ákvörðun viðskiptaráðuneytisins frá 26. janúar að synja blaðinu um upplýsingar um samsetningu innlána í Icesave-sjóðum Landsbankans sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar færu með á fund um lausn og lánveitingar vegna Icesave.

 

Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að kærandi sendi tölvubréf þann 20. janúar 2009 til viðskiptaráðuneytisins og óskaði eftir upplýsingum um samsetningu innlána á Icesave-reikningum Landsbankans, þ.e. „hversu háar upphæðir höfðu sveitarfélög lagt inn, stofnanir og svo einstaklingar, allt sundurliðað.“ Upplýsingafulltrúi viðskiptaráðuneytisins sendi sama dag svar til kæranda og vísaði til þess að þessar upplýsingar væru á forræði skilanefndar Landsbankans og ráðlagði kæranda að snúa sér til hennar.

Þann 22. janúar, sendi kærandi viðskiptaráðuneytinu nýja beiðni og óskaði eftir „upplýsingum um samsetningu innlána í Icesave-sjóðum Landsbankans – þá samsetningu sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar færu með á fund um lausn og lánveitingar vegna Icesave.“ Einnig óskaði kærandi eftir sundurliðun á því hversu háar upphæðir á Icesave-reikningum bæjar- og sveitarfélög ættu svo og stofnanir, einstaklingar og lífeyris- og eftirlaunasjóðir. Þá óskaði kærandi eftir upplýsingum um hve háar upphæðir væru á Icesave-reikningunum sundurliðað eftir löndum.

Beiðni þessari var synjað af viðskiptaráðuneytinu með bréfi dags. 26. janúar.  Til stuðnings ákvörðun sinni vísaði ráðuneytið til 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, þ.e. að um væri að ræða gögn sem hefðu að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki.

Að fenginni framangreindri niðurstöðu viðskiptaráðuneytisins lagði kærandi fram þá kæru sem hér er til úrlausnar. Beinist kæran að synjun ráðuneytisins um að veita kæranda aðgang að þeim gögnum sem hún hafði óskað eftir að fá í tölvubréfi til ráðuneytisins 22. janúar.

Með bréfi, dags. 6. febrúar, var viðskiptaráðuneytinu kynnt kæran og því gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var óskað eftir því að úrskurðarnefndin fengi afhent í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran laut að. Þann 13. febrúar óskaði viðskiptaráðuneytið eftir að frestur til að skila inn athugasemdum við kæruna yrði lengdur og var fallist á það. Athugasemdir viðskiptaráðuneytisins, ásamt yfirliti yfir stöðu Icesave-reikninga Landsbankans frá október 2008, bárust úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 16. febrúar. Er hér um eitt skjal að ræða og er fleiri skjölum ekki til að dreifa í ráðuneytinu er varða beiðni kæranda, samkvæmt upplýsingum sem úrskurðarnefndin aflaði sér þaðan.

Í umsögn viðskiptaráðuneytisins segir m.a.:

„Vegna samningaviðræðna við Breta og Hollendinga vegna lausnar á málefnum innistæðueigenda Icesave-reikninga Landsbankans hafa fulltrúar viðskiptaráðu- neytisins í nefndinni aflað þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru vegna viðræðnanna um samsetningu og fjárhæðir innlána Landsbankans í Hollandi og Bretlandi. Ráðuneytið hefur ekki yfir að ráða öllum þeim upplýsingum sem óskað er eftir. Fékk ráðuneytið umræddar upplýsingar afhentar sem trúnaðarupplýsingar frá skilanefnd Landsbankans til notkunar í samningaviðræðum við önnur ríki. Því telur ráðuneytið að því sé óheimilt að veita aðgang að gögnum þar sem þau varða mikilvæga viðskiptahagsmuni Landsbankans, sbr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Þá telur ráðuneytið sér heimilt og skylt að takmarka aðgang að upplýsingarétti að umræddum gögnum vegna almannahagsmuna, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. upplýsingalaga.“

Með bréfi, dags. 18. febrúar, var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um umsögn viðskiptaráðuneytisins. Athugasemdir kæranda bárust úrskurðarnefnd um upplýsingamál með tölvubréfi, dags. 19. febrúar sl. Þar kemur m.a. fram sú afstaða að viðskiptahagsmunir Landsbankans geti ekki verið í húfi, þar sem hann sé í greiðslustöðvun. Upplýsingarnar geti ekki skaðað stofnanir, sveitarfélög, héraðsstjórnir eða einstaklinga enda sé ekki óskað eftir nafngreiningu þeirra.

 

Niðurstaða

1.

Í 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006, segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. Stjórnvöldum er þó ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr.“ Viðskiptaráðuneytið byggir synjun sína um aðgang að því skjali sem það hefur undir höndum á þeim takmörkunum á upplýsingarétti sem kveðið er á um í 5. gr. og 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. 

 

2.

Af 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga leiðir að heimilt er að „takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um: [...]   2. samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir; ...“ Í athugasemdum með þessu ákvæði í frumvarpi sem síðan varð að upplýsingalögum nr. 50/1996 segir m.a. að ákvæðið eigi við um:

„...samskipti íslenska ríkisins við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir, hvort sem þau eru af pólitískum, viðskiptalegum eða annars konar toga. Þeir hagsmunir, sem hér er verið að vernda, eru tvenns konar. Annars vegar er verið að forðast að erlendir viðsemjendur fái vitneskju um samningsmarkmið og samningsstöðu okkar Íslendinga. Hins vegar er verið að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt traust í skiptum við önnur ríki, þar á meðal innan þeirra fjölþjóðlegu stofana sem Ísland er aðili að. Vegna fyrrgreinds skilyrðis um mikilvæga almannahagsmuni verður beiðni um upplýsingar um samskipti við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir því ekki synjað, nema hætta sé á tjóni af þessum sökum. Í ljósi þess að hér er oft um mjög veigamikla hagsmuni að ræða kann varfærni þó að vera eðlileg skýring á ákvæðinu.“

Eins og fyrr segir hefur úrskurðarnefndin fengið í hendur frá viðskiptaráðuneytinu þær upplýsingar um Icesave-reikninga Landsbankans sem það segist hafa undir höndum. Í því skjali sem um er að ræða kemur fram hver er heildarfjárhæð á Icesave-reikningunum, annars vegar í Hollandi og hins vegar í Bretlandi. Þeim fjárhæðum er síðan skipt niður í þrjá flokka eftir því á hvaða bili innstæðurnar eru, þ.e., að því er innstæður í Hollandi varðar, lægri innstæður en 20.887 evrur, innstæður frá þeirri fjárhæð að 40.000 evrum og að síðustu hærri innstæður. Sama máli gegnir um innstæðurnar í breskum pundum, þeim er skipt í innstæður lægri en 16.500 pund, innstæður frá þeirri fjárhæð að 35.000 pundum og svo hærri fjárhæðir. Þá kemur fram hve margir innlánsreikningar eru í hverjum flokki um sig.

Það er ljóst að upplýsingarnar um fjárhæðir á reikningunum, sem ekki verður séð að geti breyst séu þær réttar, hljóta að verða að sínu leyti lagðar til grundvallar í fyrirhuguðum samningaviðræðum íslenska ríkisins við Breta og Hollendinga. Hins vegar verður ekki séð að þótt þær liggi opinberlega fyrir, þ.e. hjá öðrum en samningsaðilunum, geti þær gert samningsstöðu íslenska ríkisins verri en hún annars kynni að vera þannig að almannahagsmunir séu í hættu af þeim sökum. Að því er séð verður kemur ekkert fram í skjalinu um samningsmarkmið íslenska ríkisins. Þá verður heldur ekki séð að þessar upplýsingar séu til þess fallnar að rýra traust á milli viðsemjenda eða spilla samskiptum þeirra, enda harla líklegt að þessar tölulegu staðreyndir séu viðsemjendum íslenska ríkisins kunnar. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að synjun um aðgang að framangreindu skjali verði ekki byggð á 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga.

 

3.

Í 5. gr. upplýsingalaga segir:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“

Í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er m.a. tekið fram til skýringar á niðurlagsákvæði 5. greinar að samkvæmt því sé óheimilt að veita almenningi viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu fyrirtækja eða aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni þeirra.

Landsbanki Íslands  hf.  hefur um nokkurra mánaða skeið verið undir stjórn skilanefndar og því hvorki haft eiginlegan bankarekstur með höndum né eru nokkrar líkur á að svo verði í framtíðinni. Hins vegar mun skilanefndin þurfa að semja við lánardrottna bankans og koma eignum hans í verð. Við þessar aðstæður verður ekki séð að upplýsingar um innstæður á Icesave-reikningum geti varðað svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni bankans, að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda honum tjóni þótt veittur yrði aðgangur að þeim. Þar sem ákvæði 5. gr. upplýsingalaga á hér ekki við skiptir ekki máli, hvað varðar niðurstöðu, þótt skilanefnd Landsbankans hf. hafi afhent viðskiptaráðuneytinu umræddar upplýsingar í trúnaði. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að synjun um aðgang að framangreindu skjali verði ekki byggð á 5. gr. upplýsingalaga.

 


4.

Samkvæmt öllu framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að viðskiptaráðuneytinu beri að heimila [...] aðgang að yfirliti yfir stöðu Icesave-reikninga Landsbankans hf. frá október 2008.

 


Úrskurðarorð

Viðskiptaráðuneytinu ber að afhenda [...] yfirlit yfir stöðu Icesave-reikninga Landsbankans hf. frá október 2008.

 


Friðgeir Björnsson
formaður

 

 


                                                   Sigurveig Jónsdóttir                         Trausti Fannar Valsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta