Hoppa yfir valmynd

A 302/2009. Úrskurður frá 13. maí 2009

ÚRSKURÐUR

Með erindi dags. 16. febrúar 2008, kærðu [A] synjun Mosfellsbæjar á beiðni þeirra um aðgang að gögnum vegna skipulags hverfisverndar og framkvæmda í tengslum við uppbyggingu í Helgafellslandi í Mosfellsbæ. Kæran var framsend Mosfellsbæ þar sem af gögnum málsins leiddi að bærinn hefði ekki haft tækifæri til að taka afstöðu til beiðni [A], eins og hún var þar sett frem. Í kjölfar synjunar Mosfellsbæjar á beiðni kærenda, svo afmarkaðri, tilkynnti kærandi úrskurðarnefndinni með bréfi dags. 1. júlí 2008, að hann héldi kæru sinni til streitu, en afmarkaði kæruefnið um leið við þrjá tilgreinda töluliði í upphaflegu erindi frá 16. febrúar.

Kæran, eins og kærandi afmarkaði hana í bréfi sínu 1. júlí 2008, beinist að synjun Mosfellsbæjar á afhendingu gagna sem sýni fram á að umhverfisnefnd og skipulags- og bygginganefnd Mosfellsbæjar hafi tekið til umfjöllunar að aflétta 50 til 100 metra hverfisvernd við Varmá og Skammadalslæk í tengslum við uppbyggingu í Helgafellslandi, gagna um malbikun göngustíga innan hverfisverndarmarka við Varmá og synjun á afhendingu umsagnar Umhverfisstofnunar um lagningu malbikaðra göngustíga innan þeirra marka.

 II. Málsatvik
Þann 13. janúar 2008 ritaði kærandi bréf til Mosfellsbæjar, þar sem óskað var eftir skjalfestum upplýsingum um það hvenær og með hvaða rökum nefndarmenn í umhverfisnefnd bæjarins hefðu samþykkt að færa umhverfisverndarbelti við gljúfur Skammadalslækjar í 30 metra og enn fremur eftir skjalfestum upplýsingum um það á hvaða fundi nefndarinnar hefði verið tekin afstaða til þess hvort aflétta ætti hverfisvernd við bakka Varmár í tengslum við lagningu tengibrautar um Álafosskvos.  Þá var óskað svara við sömu spurningum vegna framkvæmda á bökkum Varmár, ofan gömlu ullarverksmiðjunnar í grennd við fossinn Álafoss, í farvegi Varmár neðan Vesturlandsvegar sumarið 2007 og lagningu gervigrasvallar við Varmá árið 2006.  Með bréfi frá umhverfisstjóra Mosfellsbæjar, dags. 21. janúar, var erindi þessu hafnað á þeim grundvelli að [A] hefðu lagt fram kærur á hendur bænum sem efnislega fjölluðu um sama viðfangsefni.  Mun hér af hálfu bæjarins hafa veri vísað  til kæru sem beint hafði verið til úrskurðarnefndar skv. skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.  Beiðni um gögn var ítrekuð af hálfu [A] með bréfi til umhverfisstjóra Mosfellsbæjar dags. 27. janúar.  Var þar bent á að [A] hefðu ekki staðið að umræddri kæru.  Í bréfi umhverfisstjóra til [A], dags. 29. janúar, kemur fram að samkvæmt gögnum frá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingamála sé upphafleg kæra á hendur Mosfellsbæ undirrituð fyrir hönd íbúa og [A].  Því standi fyrra svar bæjarins.  Synjun var því staðfest.

 III. Málsmeðferð
Ofangreinda synjun kærðu [A] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með bréfi, dags. 16. febrúar 2008, eins og lýst var hér að framan.  Í kærunni var kröfu samtakanna um afhendingu gagna af hálfu Mosfellsbæjar nánar lýst í sjö töluliðum.  Í kjölfar

framsendingar á erindi til Mosfellsbæjar var beiðninni synjað á þeim grundvelli að kæran hefði ekki afmarkað nægilega hvern einstakan af þeim sjö liðum sem tilgreindir væru í beiðni um aðgang að gögnum.
Kærandi lýsti því í bréfi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 1. júlí 2008, að hann óskaði þess að halda kæru sinni á synjun kærða á beiðni um aðgang að gögnum til streitu, en jafnframt afmarkað hann kæruefni nánar við tölulið nr. 1, 3 og 4 í upphaflegu erindi sínu, dags. 16 febrúar 2008.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál kynnti Mosfellsbæ fram komna kæru og framangreinda afmörkun kæruefnis með bréfi dags. 23. júlí.  Í bréfinu var bænum gefinn kostur á að gera athugasemdir við kæruna og færa frekari rök fyrir synjun sinni.  Jafnframt var óskað afrits af þeim gögnum sem kæran lyti að.  Í kjölfar ítrekana úrskurðarnefndarinnar á þessu erindi barst úrskurðarnefndinni svar Mosfellsbæjar, dags. 2. febrúar 2009.  Bréfinu fylgdi afrit af bréfi til kæranda dags. sama dag, þar sem segir svo:

1. Gögn sem sýna fram á að umhverfisnefnd og skipulags- og byggingarnefnd Mosfellsbæjar hafi tekið til umfjöllunar að aflétta 50-100m hverfisvernd við Varmá og Skammadalslæk í tengslum við uppbyggingu í Helgafellslandi.

Hvergi hefur verið “tekið til umfjöllunar að aflétta  50-100 m hverfisvernd við Varmá og Skammadalslæk.”  Slíkar breytingar á hverfisvernd hafa ekki verið gerðar og það hefur aldrei staðið til.  Ef átt er við breytingu á afmörkun byggðarfleka hverfisverndar meðfram Skammadalslæk, þá var hún gerð með breytingu á aðalskipulagi sem samþykkt var í bæjarstjórn 18. október 2006 að afloknu lögboðnu afgreiðsluferli skv. skipulags- og byggingarlögum.  Við þá breytingu mjókkaði hverfisverndað svæði norðan lækjarins um 11-16 m á um 400 m löngum kafla, þar sem það hafði áður verið 36-44 m mælt frá lækjarbakka.  Ekki er að sjá að um þetta hafi verið sérstaklega bókað í umhverfisvernd, en um þetta var fjallað í skipulags- og byggingarnefnd og í bæjarstjórn sbr. mál. nr. 200607272.

 

2. Gögn um malbikun göngustíga innan hverfisverndarmarka við Varmá.

Gerð göngustíga á umræddu svæði grundvallast á deiliskipulagi 3. áfanga Helgarfellshverfis, sem samþykkt var í bæjarstjórn 11. apríl 2007, mál nr. 200608200.  Ekki er berum orðum tekið fram að þeir skuli vera malbikaðir, en í greinargerð segir um þá (gr. 1.1.8): “Aðalstígar eru 3 metra breiðir og henta einnig sem hjólreiðastígar.”  Þetta orðalag hlýtur að skiljast þannig að um malbikaða stíga sé að ræða, og hafa hönnun og framkvæmdir miðast við það, án þess að sérstök umfjöllun hafi átt sér stað í nefndum um malbik eða ekki malbik.

 

3. Umsögn umhverfisstofnunar um lagningu malbikaðra göngustíga á hverfisverndarsvæði við bakka Varmár.

Umhverfisstofnun fékk deiliskipulag 3. áf. Helgafellshverfis til umsagnar og sendi umsögn þann 8. júní 2007.  Umsögn umhverfisstofnunar fylgir hjálagt.
Það er von Mosfellsbæjar að ofangreint, svo og hjálögð umbeðin umsögn umhverfisstofnunar, svari að fullu og öllu þeim kæruatriðum sem [A] töldu útaf standa sbr. ofannefnt bréf sitt frá 1. júlí 2008.  Að sjálfsögðu verður veittur aðgangur að ofangreindum málsnúmerum verði þess óskað.”


Úrskurðarnefnd um upplýsingamál gaf kæranda kost á að setja fram athugasemdir vegna tilvitnaðs svars Mosfellsbæjar.  Athugasemdir hans bárust með bréfi, dags. 3. mars.

Þar sem af athugasemdum kæranda mátti ráða að hann taldi að enn hefði ekki verið brugðist með réttum hætti við beiðnum hans um aðgang gagna boðaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál fulltrúa kæranda til fundar með nefndinni 16. apríl 2009.  Þeim fundi var frestað að beiðni kæranda.  Með tölvubréfi frá kæranda sem barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál þann 20. apríl, kynnti kærandi nefndinni samskipti sem hann hafði átt við Mosfellsbæ í apríl 2009.  Þar sem af þeim mátti ráða að kærandi teldi að enn hefði ekki að fullu verið orðið við beiðni hans um aðgang að gögnum voru fulltrúar kæranda og kærða á ný boðaðir til fundar nefndarinnar 4. maí 2009.

Á þeim fundi kom fram að Mosfellsbær hefði þegar afhent kæranda nokkurn hluta þeirra gagna sem féllu undir þau tvö mál sem sérstaklega voru tilgreind í bréfi bæjarins til kæranda, dags. 2. febrúar.  Auk þess lýsti fulltrúi Mosfellsbæjar því yfir að ekkert væri því til fyrirstöðu að kærandi fengi aðgang að öðrum gögnum þessara mála.

 

IV. Niðurstöður

1.
Mál þetta hefur tekið langan tíma í meðferð nefndarinnar.  Að hluta til er skýringa á því að leita í mistökum við skipulag á málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar sjálfrar.  Að hluta er skýringa einnig að leita í síðbúnum svörum kærða, Mosfellsbæjar, við erindum úrskurðarnefndarinnar.

Eins og rakið hefur verið beinist kæra máls þessa að afgreiðslu Mosfellsbæjar á beiðni kæranda um aðgang að gögnum.  Er kæran þríþætt. Í fyrsta lagi beinist hún að synjun Mosfellsbæjar á afhendingu gagna sem sýna fram á að umhverfisnefnd og skipulags- og bygginganefnd Mosfellsbæjar hafi tekið til umfjöllunar að aflétta 50 til 100 metra hverfisnefnd við Varmá og Skammadalslæk í tengslum við uppbyggingu í Helgafellslandi.  Í öðru lagi beinist hún að synjun á afhendingu gagna um malbikun göngustíga innan umhverfisverndarmarka við Varmá.  Í þriðja lagi beinist hún að synjun Mosfellsbæjar á afhendingu umsagnar Umhverfisstofnunar um lagningu malbikaðra göngustíga innan þeirra marka.

Af 3. tölul. 3. gr. laga nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál, leiðir að undir gildissvið þeirra laga falla m.a. upplýsingar um “ráðstafanir í tengslum við stefnumótun, löggjöf, skipulags- og framkvæmdaáætlanir og samninga á sviði umhverfismála sem hafa eða líklegt er að hafi áhrif á þá þætti sem um getur í 1. og 2. tölul.” sama ákvæðis.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. sömu laga er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi upplýsingum um umhverfismál með þeim takmörkunum sem greinir í 6. gr. laganna.  Í málsgreininni segir ennfremur að stjórnvöldum sé ekki skylt að afla sérstaklega upplýsinga til að láta almenningi þær í té.  Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna er þetta skýrt svo að upplýsingaréttur samkvæmt lögunum taki einvörðungu til fyrirliggjandi upplýsinga.  Ekki er hægt að krefjast þess á grundvelli ákvæðisins að stjórnvöld afli upplýsinga eða taki þær sérstaklega saman til að geta látið þær í té.

Með vísan til þessa fellur beiðni kæranda um aðgang að gögnum undir ákvæði laga nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál.  Samkvæmt 15. gr. þeirra laga er synjun

stjórnvalds á beiðni um aðgang að upplýsingum um umhverfismál kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem úrskurðar um  ágreininginn.


2.

Í bréfi Mosfellsbæjar til kæranda, dags. 2. febrúar 2009, kemur í fyrsta lagi fram að hvergi hafi verið tekið til umfjöllunar að aflétta 50 til 100 metra hverfisvernd við Varmá og Skammadalslæk.  Í öðru lagi kemur þar fram að gerð göngustíga innan hverfisverndarmarka við Varmá grundvallist á deiluskipulagi 3. áfanga Helgafellshverfis, sem samþykkt var í bæjarstjórn 11. apríl 2007.  Í því sambandi tekur bærinn einnig fram að ekki hafi farið fram sérstök umfjöllun í nefndum bæjarins um það hvort stígarnir skuli vera malbikaðir eða ekki.  Í þriðja lagi kemur fram að Umhverfisstofnun hafi fengið deiliskipulag 3. áfanga Helgafellshverfis til umsagnar.  Afrit af umsögn stofnunarinnar, dags. 8. júní 2007, fylgdi umræddu bréfi.

Á fundi úrskurðarnefndar um upplýsingamál með fulltrúum kæranda og Mosfellsbæjar þann 4. maí 2009 lýsti fulltrúi bæjarins því yfir að ekkert væri því til fyrirstöðu að kærandi fengi aðgang að öllum gögnum í tveimur málum sem tengjast fyrri tveimur liðunum í kæru máls þessa.  Af hálfu fulltrúa bæjarins kom þar jafnframt fram að frekari upplýsingar sem tengjast kærunni með beinum hætti liggi ekki fyrir.  Þá hefur umsögn umhverfisstofnunar, dags. 8. júní 2007, þegar verið afhent kærendum með bréfi Mosfellsbæjar, dags. 2. febrúar 2009.

Með vísan til framangreinds ber Mosfellsbæ að afhenda kæranda öll gögn sem fyrir liggja í skjalasafni bæjarins og vistuð eru undir málsnúmerunum 200607272 og 200608200, enda hafi þau ekki þegar verið afhent.

 

Úrskurðarorð
Mosfellsbæ ber að afhenda kæranda, [A], afrit allra gagna sem vistuð eru í skjalasafni bæjarins undir málsnúmerunum 200607272 og 200608200, enda hafi þau ekki þegar verið látin kæranda í té.

 


     Friðgeir Björnsson
      Formaður

 

                                  Sigurveig Jónsdóttir                            Trausti Fannar Valsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta