Hoppa yfir valmynd

A 313/2009 Úrskurður frá 24. september 2009

ÚRSKURÐUR

Hinn 24. september 2009 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-313/2009.


Kæruefni og málsatvik

Með bréfi, dags. 11. júní 2009, kærði [A] synjun sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps frá 13. maí s.á. á beiðni hans um að honum yrði afhent afrit af öllum reikningum sem færðir hefðu verið til gjalda á „rotþróargjaldareikning“ hjá Svalbarðsstrandarhreppi árin 2005 til 2008.

Atvik málsins eru þau að [A] fór með bréfi til Svalbarðsstrandarhrepps, dags. 10. apríl 2009, fram á „afrit af öllum reikningum sem færðir eru til gjalda á „rotþróarreikning“ og hvaða losanir liggja bak við hvern reikning“. Vísaði hann í því sambandi til upplýsingalaga nr. 50/1996. Með bréfi, dags. 13. maí 2009, var þessari beiðni synjað. Segir m.a. eftirfarandi í bréfi sveitarfélagsins til kæranda:

„Í svarbréfi, dags. 10. mars sl., var [upplýst] um kostnað við rotþróarlosun hvert ár síðastliðin fjögur ár. Sveitarstjórn telur að vinna við að afrita alla reikninga þjóni litlum tilgangi. Í staðinn er sendur meðfylgjandi listi yfir losanir rotþróa í Svalbarðsstrandarhreppi árin 2005 – 2008 og fyrirhugaðar losanir á árunum 2009 og 2010. Jafnframt eru einnig meðfylgjandi aðalbókarhreyfingar vegna rotþróarlosana árin 2005 – 2008. Í þessu sambandi vísast einnig til álits [X] hdl., en þar segir m.a. „...að [A] geti ekki talist aðili máls í skilningi III. kafla laganna í þessu tilfelli, heldur falli hann undir almenning og þá gildi II. kafli laganna og samkvæmt honum er beinlínis óheimilt að veita aðgang að upplýsingum um mikilvæga fjárhagshagsmuni lögaðila, sbr. 5. gr. .“

 

Málsmeðferð

Eins og fram er komið barst kæra máls þessa úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi,  dags. 11. júní 2009. Var kæran kynnt Svalbarðsstrandarhreppi með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. júní 2009, og sveitarfélginu veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna til 26. júní 2009. Óskaði úrskurðarnefndin jafnframt eftir því að henni yrðu látin í té afrit af umbeðnum gögnum innan sama frests.

Svar Svalbarðstrandarhrepps barst með bréfi dags. 24. júní 2009. Þar segir m.a. svo:

„Ákvörðun sveitarstjórnar er einkum byggð á því sjónarmiði að kærandi sé ekki aðili máls í skilningi III. kafla upplýsingalaga nr. 50/1996, þar sem þau gögn sem hann biður um varða ekki tiltekið einstaklega afmarkað stjórnsýslumál sem snýr að honum sérstaklega. Þess vegna verði að líta á málið sem kröfu á grundvelli II. kafla laganna sem fjallar um almennan aðgang að upplýsingum.

Sveitarstjórn taldi, að höfðu samráði við lögmann, að rétt væri að hafna beiðni kæranda með vísan til 5. gr. upplýsingalaga, enda væri hann að biðja um afrit af gögnum sem gætu varðað mikilvæga fjárhagslega og viðskiptalega hagsmuni viðsemjenda sveitarfélagsins. Hagsmunir kæranda af því að fá gögnin afhent yrðu að víkja fyrir þessum hagsmunum, ekki síst vegna þess að hann hafði þegar fengið afhent gögn úr bókhaldi sveitarfélagsins, þar sem að mati sveitarstjórnar koma fram allar þær upplýsingar sem máli skipta varðandi þau atriði sem kærandi hefur gert athugasemdir við og krafist upplýsinga um.

Við ákvörðun sína tók sveitarstjórn meðal annars mið af úrskurði Úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-128/2001, frá 6. september 2001. Þar féllst nefndin á að afhenda bæri kærendum afrit af tilteknum reikningi. Var það rökstutt með því að eins og þar stóð á ættu kærendur ótvíræða hagsmuni umfram aðra að fá aðgang að umræddum reikningi. Teldust þeir því aðilar máls í skilningi III. kafla upplýsingalaga og beri þar af leiðandi að fjalla um mál þeirra skv. þeim kafla laganna. Þá segir í úrskurðinum að hagsmunir kærenda af því að fá aðgang að reikningnum vegi augljóslega þyngra en hagsmunir útgefanda reikningsins af því að varnað sé aðgangs að honum.

Það er mat sveitarstjórnar að grundvallarmunur sé á aðstöðu kærenda í þessum tveimur málum og því sé óhætt að gagnálykta frá nefndum úrskurði á þann veg að eins og málum er háttað í þessu máli hafi verið rétt að hafna beiðni kæranda.“

Hinn 30. júní 2009 ritaði úrskurðarnefndin kæranda bréf og gaf honum færi á að setja fram athugasemdir í tilefni af umsögn Svalbarðstrandarhrepps. Erindi sitt til kæranda ítrekaði nefndin með bréfi, dags. 14. júlí og á ný þann 20. sama mánaðar. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni með bréfi, dags. 22. júlí. Þar ítrekar kærandi kröfu sína um að fá afhent umbeðin gögn ásamt upplýsingum um hvað að baki viðkomandi reikningum liggur, og þá sérstaklega á hvaða bæjum eða við hvaða hús hafi verið losað.

Af þeim gögnum sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál bárust frá kærða við meðferð málsins verður ráðið að tvö fyrirtæki, [B] og [C], hafi á umræddu árabili sent sveitarfélaginu reikninga sem fallið gætu undir beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Með bréfum, dags. 10. ágúst 2009, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu umræddra fyrirtækja til þess hvort þau teldu eitthvað vera því til fyrirstöðu að veita kæranda aðgang að þeim gögnum sem krafa kæranda beinist að og þau hefðu sent sveitarfélaginu.

Svar barst frá [C] með bréfi, dags. 15. ágúst 2009, og [B] með bréfi, dags. 17. sama mánaðar. Kemur í umræddum bréfum fram að af hálfu hvorugs fyrirtækisins séu gerðar athugasemdir við að kæranda verði afhent umbeðin gögn.

 

Niðurstöður

1.
Eins og fram kemur í lýsingu málsatvika hér að framan fer kærandi fram á aðgang að öllum reikningum sem færðir hafa verið til gjalda á svonefndan „rotþróarreikning“ hjá sveitarfélaginu Svalbarðsstrandarhreppi og hvaða losanir liggja á bak við hvern reikning. Kærandi hefur í málinu vísað til þess að hann teljist „aðili málsins“ sem greiðandi rotþróargjalds af húseignum sínum í sveitarfélaginu.

Samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Hefur ákvæðið verið skýrt svo að undir greinina falli ekki einvörðungu þau tilvik þegar maður óskar eftir aðgangi að gögnum með upplýsingum um hann sjálfan, heldur taki hún einnig til þess þegar upplýsingarnar varða hann með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnunum, sbr. úrskurði nefndarinnar í málum A-294/2009 og A-299/2009.

Sveitarfélagið Svalbarðsstrandarhreppur hefur á grundvelli laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, ákveðið tiltekið fyrirkomulag á losun rotþróa í sveitarfélaginu. Er losunin og gjaldtaka fyrir hana á forræði sveitarfélagsins, en á þeim grundvelli hefur sveitarfélagið jafnframt fengið verktaka til að framkvæma þjónustuna. Beiðni kæranda um aðgang að gögnum lýtur að þeim reikningum sem slíkir verktakar hafa sent sveitarfélaginu á því árabili sem beiðnin nær til.

Þrátt fyrir að kærandi í máli þessu sé íbúi Svalbarðsstrandarhrepps teljast þau tengsl hans við umræddar gjaldfærslur, og þær upplýsingar sem hann hefur óskað aðgangs að, ekki fela í sér svo sérstaka hagsmuni hans umfram aðra íbúa sveitarfélagsins að hér sé um að ræða upplýsingar um hann sjálfan í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Kærandi hefur í máli þessu ekki afmarkað beiðni sína við afrit af reikningum sem honum hefur sjálfum verið gert að greiða, eða gefnir hafa verið út beinlínis vegna fasteigna hans. Kemur af þeirri ástæðu ekki til álita að afgreiða beiðni kæranda á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Ber samkvæmt því að leysa úr máli þessu á grundvelli II. kafla þeirra laga.

 

2.
Í 3. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006, segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4. – 6. gr. Stjórnvöldum er þó ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur  gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr.“

Í máli þessu hefur kærði ekki borið því við að beiðni kæranda um aðgang að gögnum varði ekki tiltekið mál í skilningi 3. gr. upplýsingalaga. Kærði telur hins vegar að honum hafi verið rétt að hafna beiðni kæranda á grundvelli 5. gr. þeirra laga, enda gætu gögnin varðað mikilvæga fjárhagslega og viðskiptalega hagsmuni viðsemjenda sveitarfélagsins. Með vísan til þess og þá jafnframt með vísan til þess hvernig atvikum málsins er að öðru leyti háttað reynir í máli þessu einvörðungu á það álitaefni hvort kærða hafi verið heimilt að hafna afhendingu umbeðinna gagna með vísan til fyrrnefnds ákvæðis 5. gr. upplýsingalaga.

 

3.
Þau gögn sem Svalbarðsstrandarhreppur hefur afhent úrskurðarnefnd um upplýsingamál eru eftirfarandi.

1) Skjal, dags. 2. júlí 2009, þar sem fram kemur yfirlit yfir sex reikninga frá [B] sem sendir hafa verið Svalbarðsstrandarhreppi til greiðslu árin 2005, 2007 og 2008, vegna rotþróarlosunar, auk þess að þar er tilgreindur einn reikningur frá fyrirtækinu [C] sem sendur var sveitarfélaginu á árinu 2007. Af gögnum málsins að öðru leyti verður ráðið að slíkur reikningur barst ekki sveitarfélaginu á árinu 2006.

2) Afrit þeirra sex reikninga frá [B], sem tilgreindir eru í skjali, sbr. lið 1 hér að ofan. Hverjum þessara reikninga fylgja einnig fylgiskjöl þar sem annars vegar eru sundurliðaðar fjárhæðir reikninganna m.v. fjölda tæminga, stærð rotþróa, kölkun seyru og akstur, og hins vegar fylgiskjöl þar sem fram kemur við hvaða fasteignir rotþróarlosun hefur farið fram, hvenær og um stærð þeirra rotþróa sem um er að ræða.

3) Afrit af reikningi frá [C] vegna losunar á rotþró, sbr. lið 1 hér að ofan.

4) Ódags. skjal á tveimur blaðsíðum sem inniheldur yfirlit yfir fasteignir í sveitarfélaginu, greiðendur rotþróargjalds, stærð rotþróa og hvort og þá hvenær losun viðkomandi rotþróa hefur farið þar fram.

5) Þrjár útprentanir sem sýna hreyfingar í aðalbók sveitarfélagsins og lýsa greiðslum úr sveitarsjóði vegna rotþróarlosana árin 2005, 2007 og 2008.

6) Afrit af bréfi Svalbarðsstrandarhrepps til kæranda, dags. 5. janúar 2009.

7) Afrit af tilboði/verksamningi [B] og [D], dags. 19. desember 2000, auk afrits af tölvupósti [B] til sveitarstjóra Svalbarðsstrandarhrepps þar sem fram kemur yfirlýsing um tiltekna breytingu á samningnum vegna greiðslna fyrir kölkun seyru.

8) Ódags. skjal þar sem fram kemur tillaga að gjaldskrá Svalbarðsstrandarhrepps fyrir hreinsun og losun rotþróa í sveitarfélaginu árið 2008.

9) Ódags. skjal sem ber yfirskriftina „GJALDSKRÁ fyrir losun rotþróa í Svalbarðsstrandarhreppi.“

10) Afrit af tölvupósti [X] héraðsdómslögmanns til Svalbarðsstrandarhrepps, dags. 8. maí 2009, vegna kröfu kæranda um aðgang að gögnum.

Samkvæmt gögnum málsins fylgdu þau gögn sem tilgreind eru undir tölul. 4 til 10 hér að ofan bréfi Svalbarðsstrandarhrepps til kæranda, dags. 13. maí 2009. Þau gögn hafa því þegar verið afhent honum. Kæranda hefur á hinn bóginn verið synjað um aðgang að þeim gögnum sem tilgreind eru undir liðum 1, 2 og 3 og verður í næsta kafla tekin afstaða til þeirrar synjunar.

 

4.
4.1. Um skjal samkvæmt lið 1
Í skjali, dags. 2. júlí 2009, er fylgdi öðrum gögnum sem kærði lét úrskurðarnefndinni í té, kemur fram yfirlit yfir sex reikninga frá [B], sbr. lið 2 í kafla 3 hér að framan, sem sendir voru Svalbarðsstrandarhreppi til greiðslu árin 2005, 2007 og 2008, vegna rotþróarlosunar, auk þess að þar er tilgreindur einn reikingur frá fyrirtækinu [C] sem sendur var sveitarfélaginu á árinu 2007. Í þessu skjali koma ekki fram aðrar upplýsingar en finna má á þeim reikningum sem um er að ræða. Á hinn bóginn leiðir af 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006, að réttur almennings til aðgangs að gögnum tekur einvörðungu til gagna sem fyrir liggja þegar um þau er beðið. Beiðni kæranda um aðgang að gögnum var beint til Svalbarðsstrandarhrepps með bréfi, dags. 10. apríl. Í úrskurði þessum verður því ekki lagt á kærða að veita kæranda aðgang að umræddu skjali.

4.2. Um skjöl samkvæmt liðum 2 og 3
Í 5. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“

Eins og leiðir af orðalagi ákvæðisins felur fyrri málsliður þess í sér takmörkun á upplýsingarétti almennings vegna einkahagsmuna einstaklinga. Síðari málsliðurinn felur á hinn bóginn í sér slíka takmörkun vegna mikilvægra fjárhags- eða viðskiptahagsmuna fyrirtækja og annarra lögaðila.

Þau gögn sem kærði hefur synjað kæranda um aðgang að geyma að stærstum hluta einvörðungu upplýsingar um málefni þeirra fyrirtækja sem hafa á árabilinu 2005 til 2008 sinnt losun rotþróa í Svalbarðsstrandarhreppi. Þó er í fylgiskjölum sem fylgdu sex reikningum [B] til sveitarfélagsins tilgreint við hvaða fasteignir rotþróarlosun fór fram á vegum fyrirtækisins, hvenær hún fór fram og um stærð þeirra rotþróa sem um er að ræða. Þær upplýsingar sem felast í þessari lýsingu snerta eðli máls samkvæmt einkahagsmuni þeirra einstaklinga sem eru eigendur viðkomandi fasteigna eða af öðrum ástæðum njótendur þeirrar þjónustu sem þarna er um að ræða. Um takmörkun á aðgangi almennings að þeim upplýsingum fer því að fyrri málsl. 5. gr. upplýsingalaga.

Í gögnum málsins kemur fram að með bréfi, dags. 13. maí 2009, var kæranda afhent ódags. skjal á tveimur blaðsíðum þar sem fram kemur yfirlit yfir fasteignir í sveitarfélaginu, greiðendur rotþróargjalds, stærð rotþróa og hvort og þá hvenær losun viðkomandi rotþróa hefur farið þar fram á tímabilinu 2005 til 2008. Af samanburði á fylgiskjölum umræddra sex reikninga [B] við það skjal sem kæranda hefur þegar verið afhent samkvæmt framangreindu er ljóst að kæranda hafa þegar verið afhentar sambærilegar upplýsingar um það hvar og hvenær rotþróarlosun hefur farið fram í sveitarfélaginu og um stærð viðkomandi rotþróa og fram koma á fylgiskjölum reikninganna. Því til viðbótar er í því skjali sem kæranda hefur verið afhent jafnframt að finna yfirlit yfir greiðendur þeirrar þjónustu sem um ræðir vegna hverrar fasteignar fyrir sig, en þær upplýsingar koma ekki fram á fylgiskjölum umræddra reikninga. Þar sem kæranda hafa samkvæmt þessu þegar verið afhentar þær upplýsingar sem koma fram í umræddum fylgiskjölum verður aðgangur kæranda að þeim ekki takmarkaður með vísan til fyrri málsl. 5. gr. upplýsingalaga, eins og atvikum máls þessa er að öðru leyti háttað.

Önnur gögn sem kærði hefur synjað kæranda um aðgang að eru sex reikningar sem [B] hefur sent Svalbarðsstrandarhreppi vegna losunar á rotþróm í sveitarfélaginu árin 2005, 2007 og 2008, fylgigögn þeirra reikninga þar sem fram kemur sundurliðun þeirra fjárhæða sem tilgreindar eru á reikningunum og nánari lýsing verkþátta, auk eins reiknings frá [C] vegna losunar á rotþró í sveitarfélaginu árið 2007.

Um takmörkun á aðgangi almennings að þeim upplýsingum sem fram koma í þessum gögnum fer að ákvæði síðari málsl. 5. gr. upplýsingalaga, enda geyma þau ekki upplýsingar um einkahagi manna.

Eins og áður er rakið er samkvæmt síðari málsl. 5. gr. upplýsingalaga óheimilt að veita almenningi „aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila ... sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.“

Í gögnum málsins er ekki að finna neinar vísbendingar um það að Svalbarðsstrandarhreppur hafi leitað eftir afstöðu þeirra tveggja fyrirtækja sem sendu Svalbarðsstrandarhreppi þá reikninga sem um er að ræða, áður en beiðni kæranda var synjað. Úrskurðarnefndin hefur hins vegar leitað eftir afstöðu þeirra til kæruefnisins. Rakið hefur verið hér að framan að hvorugt fyrirtækið gerir athugasemdir við að afrit reikninga sem frá þeim stafa og tilgreindir hafa verið hér að ofan verði látin kæranda í té.

Kærði hefur í máli þessu einvörðungu byggt synjun sína á 5. gr. upplýsingalaga. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að aðgangi kæranda að reikningum, sem einvörðungu fela í sér upplýsingar um greiðslur til fyrirtækjanna [B] og [C], verði synjað á grundvelli þess ákvæðis. Hið sama á við um þau fylgiskjöl sem reikningunum fylgdu og fela í sér nánari sundurliðun einstakra verkþátta og fjárhæða eða upplýsingar um það hvar og hvenær þeir verkþættir voru framkvæmdir. Ber kærða, Svalbarðsstrandarhreppi, því að afhenda kæranda þau gögn.

 

Úrskurðarorð

Svalbarðsstrandarhreppi ber að afhenda kæranda, [A], afrit sex reikninga frá [B], dags. 30. júní 2005, 30. júní 2007, 29. nóvember 2007, 30. nóvember 2007, 9. júlí 2008 og 31. ágúst 2008, vegna losunar rotþróa, auk þeirra fylgiskjala sem þeim fylgdu þar sem fram koma sundurliðaðar fjárhæðir reikninganna og lýsing verkstaða. Þá ber kærða jafnframt að afhenda kæranda afrit af reikningi frá [C], dags. 31. október 2007, vegna losunar rotþróa.

 


Friðgeir Björnsson,
formaður

      


                                                      Sigurveig Jónsdóttir                        Trausti Fannar Valsson.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta