Hoppa yfir valmynd

A 314/2009 Úrskurður frá 30. september 2009

ÚRSKURÐUR

Hinn 30. september 2009 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-314/2009.

 

Kæruefni og málsatvik

Með bréfi, dags. 24. júní 2009, kærði [X] héraðsdómslögmaður, fyrir hönd [A] í Vestmannaeyjum, þá ákvörðun skilanefndar Landsbanka Íslands hf. að svara ekki beiðni um afhendingu á upplýsingum. Í kærunni kom fram að skilanefnd bankans hefði 20. maí 2009 móttekið bréf [A], dags. 19. þess mánaðar, þar sem umrædd beiðni var sett fram. Laut hún að afhendingu gagna um það hvort og þá hvenær ákvörðun hafi verið tekin af skilanefndinni um að framselja lánasamning, dags. 27. september 2007, milli kæranda og Landsbanka Íslands hf. til NIB hf. ásamt öðrum gögnum varðandi lánasamninginn.

Með bréfi, dags. 22. júlí 2009, upplýsti lögmaður kæranda úrskurðarnefnd um upplýsingamál um að hann hefði þann 20. sama mánaðar móttekið afrit af svari skilanefndar Landsbanka Íslands hf., dags. 23. júní 2009. Frumrit bréfsins hefði hins vegar hvorki borist honum né kæranda. Að fengnu tilgreindu svarbréfi lægi fyrir að beiðni kæranda um upplýsingar væri hafnað af skilanefndinni. Með vísan til 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1996 væri sú ákvörðun kærð.

Upphafleg beiðni kæranda um aðgang að gögnum var afmörkuð með eftirfarandi hætti:

„[A] vísar til III. kafla laga 50/1996, upplýsingalaga, og krefst þess að skilanefnd Landsbanka Íslands hf. afhendi [A] samanber 2. ml. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1996, samanber III. kafla sömu laga, innan sjö daga frá móttöku bréfs þessa, gögn sem varða;

  • hvort og þá hvenær ákvörðun var tekin af skilanefnd Landsbanka Íslands að framselja ofangreindan lánasamning milli Landsbanka Íslands hf. og [A] til NBI hf.,
  • ef ofangreindur lánasamningur var framseldur frá skilanefnd Landsbanka Íslands til NBI hf., er þess krafist, að gögn verði afhent er tilgreina söluverðmæti og önnur kjör á ofangreindum lánasamningi frá skilanefnd Landsbanka Íslands til NBI hf.,
  • hafi ofangreindur lánasamningur verið færður í „flokk“ með öðrum kröfum sem eru í eigu Landsbanka Íslands hf., er krafist gagna frá skilanefnd Landsbanka Íslands sem tilgreina þann „flokk“ sem ofangreindur lánasamningur er felldur undir og gögn sem tilgreina hlutfall söluverðs af heildarverðmæti lánasamningsins, frá skilanefnd Landsbanka Íslands,
  • þá krefst [A] þess, með vísun til 1. mgr. 10. gr. laga 50/1996, að fá að kynna sér öll gögn er varða ofangreindan lánasamning, og ákvarðanir skilanefndar Landsbanka Íslands vegna lánasamningsins.“

Eins og fram kemur í bréfi lögmanns kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. júlí 2009, og nánar er lýst í niðurstöðukafla úrskurðarins var fyrsta lið ofangreindrar beiðni um upplýsingar svarað með bréfi skilanefndarinnar til kæranda, dags. 23. júní. Samkvæmt því ber í máli þessu að leysa úr því álitaefni hvort kærandi á samkvæmt upplýsingalögum nr. 50/1996 rétt á að skilanefndar Landsbanka Íslands hf. afhendi honum gögn sem geyma þær upplýsingar sem upphafleg beiðni hans til skilanefndarinnar laut að og tilgreind eru í öðrum, þriðja og fjórða lið beiðninnar.

 

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 29. júní 2009, var kærða, skilanefnd Landsbanka Íslands hf., kynnt framkomin kæra vegna dráttar á svörum við beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Þann 14. júlí sama ár barst úrskurðarnefndinni með tölvubréfi frá starfsmanni skilanefndarinnar afrit af svari til kæranda, dags. 23. júní, vegna upphaflegrar beiðni hans um gögn frá 19. maí.  Upplýsingar um svarbréf þetta bárust úrskurðarnefndinni jafnframt með bréfi frá lögmanni kæranda, dags. 22. júlí, eins og áður er rakið.

Í umræddu svari skilanefndar Landsbanka Íslands hf. til kæranda kemur fram sú afstaða að nefndinni sé falið að fara með yfirstjórn bankans sem teljist til einkaaðila í skilningi upplýsingalaga og stjórnsýslulaga. Hvorki upplýsingalög né stjórnsýslulög taki til einkaaðila og starfsemi þeirra að þeim tilvikum undanskildum þegar slíkum aðilum sé fengið vald til að taka ákvarðanir um réttindi manna og skyldur, þ.e. stjórnvaldsákvarðanir. Ákvarðanir sem séu einkaréttarlegs eðlis verði ekki taldar stjórnvaldsákvarðanir. Í því ljósi sé ekki tækt að líta svo á að stjórnsýslulög eða upplýsingalög eigi við í þessu tilviki. Í bréfinu staðfesti skilanefnd Landsbankans einnig að lánasamningi [A] hefði verið ráðstafað til NBI hf. í samræmi við lög. NBI hf. væri því löglegur kröfuhafi samkvæmt samningnum. Kröfum og beiðnum sem tengist samningnum beri því að beina til hans.

Með vísan til bréfs lögmanns kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. júlí, var skilanefnd Landsbanka Íslands hf. veittur kostur á að gera athugasemdir við kæru málsins og koma að frekari rökstuðningi fyrir synjun sinni á beiðni um aðgang að gögnum. Jafnframt var þess óskað að kærði léti nefndinni í té afrit þeirra gagna sem kæran lyti að.

Svar skilanefndar Landsbanka Íslands hf. barst úrskurðarnefndinni með tveimur bréfum, dags. 5. ágúst 2009. Í öðru bréfinu eru almennar athugasemdir við kæru málsins. Hitt bréfið ber yfirskriftina „TRÚNAÐARMÁL“ og felur í sér nánari umfjöllun um þau gögn og upplýsingar sem kæra málsins lýtur að.

Í almennum athugasemdum kærða er vísað til þess í fyrsta lagi að litið hafi verið svo á að einkaréttarleg félög, s.s. hlutafélög og sameignarfélög, jafnvel þótt þau séu að öllu leyti í eigu hins opinbera, falli utan gildissviðs upplýsingalaga, að því gefnu að viðkomandi félögum hafi ekki verið fengið vald til þess að taka ákvarðanir um réttindi manna eða skyldur. Síðan segir þar m.a. svo:

„Landsbanki Íslands hf. er hlutafélag, og fjármálafyrirtæki í skilningi laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, í greiðslustöðvun. Með ákvörðun frá 7. október síðastliðnum tók Fjármálaeftirlitið (hér eftir „FME“) þá ákvörðun, með heimild í 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., að taka yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf. og víkja stjórn félagsins í heild sinni frá störfum. Um leið skipaði FME bankanum skilanefnd, sem tók við öllum heimildum stjórnar félagsins samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög nr. 2/1995. Hefur skilanefndin allar götur síðan, rétt eins og stjórn Landsbanka Íslands hf. áður en til hinnar áðurnefndu ákvörðunar kom, farið með öll málefni bankans og haft umsjón með allri meðferð eigna hans. Sú starfsemi sem fram fer á vegum Landsbanka Íslands hf., er einkaréttarlegs eðlis að öllu leyti. Á það jafnt við um þá starfsemi sem fram fór fyrir ákvörðun FME þann 7. október sl. og laut umsjá þáverandi stjórnar félagsins, eða þá starfsemi sem nú fer fram á vegum bankans sem félags í greiðslustöðvun og felst aðallega í því að hámarka virði eigna bankans í umsjón núverandi stjórnar, skilanefndarinnar. Af því leiðir að bankinn er einkaaðili, sem ekki fellur undir hugtakið stjórnvald sem fer með stjórnsýslu, hvorki í efnis- eða formerkingu þess hugtaks.

Í þeirri staðreynd, að starfsemi bankans er einkaréttarleg að öllu leyti, felst einnig að bankinn fellur ekki undir gildissvið uppl. á þeim grundvelli að honum hafi verið fengið vald til töku ákvarðana um réttindi eða skyldur manna, þ.e. vald til töku stjórnvaldsákvarðana. [...] og í raun þá sækir bankinn hvorki valdheimildir til sérstakra laga né gilda sérstök lög um athafnir og starfsemi bankans að öðru leyti en lög um hlutafélög og önnur þau lög og réttarreglur sem almennt gilda í landinu.“

Með vísan til ofangreinds, og fleiri atriða sem rakin eru í bréfinu sem ekki er sérstök ástæða til að tíunda hér, lýsir skilanefnd Landsbanka Íslands hf. síðan þeirri afstöðu sinni að kæru málsins beri að vísa frá eða, eftir atvikum, að synja beiðni kæranda um aðgang að þeim gögnum sem hann fer fram á.

Í öðru lagi tekur skilanefnd Landsbanka Íslands hf. fram, að kjósi úrskurðarnefnd um upplýsingamál allt að einu að líta svo á að bankinn sé stjórnvald í skilningi upplýsingalaga, eða einkaaðili sem fengið hefur vald til töku stjórnvaldsákvarðana, telji bankinn engu að síður að synja eigi beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Rekur skilanefndin bæði sjónarmið sem lúta að því að ekki beri að líta svo á að kærandi geti talist aðili máls í skilningi 9. gr. stjórnsýslulaga, en jafnframt, kjósi úrskurðarnefnd um upplýsingamál að líta svo á, er rökstudd sú skoðun að engu að síður beri að synja framkominni beiðni vegna eðlis þeirra upplýsinga sem um ræði.

Eins og nánar verður vikið að hér að neðan var kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. ágúst, veittur kostur á að tjá sig um framanrakta umsögn skilanefndar Landsbanka Íslands hf. Með vísan til efnis þess bréfs skilanefndarinnar sem ber yfirskriftina „TRÚNAÐARMÁL“ var kæranda ekki látið í té afrit þess, enda var þar um að ræða umfjöllun um og lýsingu þeirra upplýsinga sem beiðni kæranda lýtur að. Leit nefndin svo á, að svo stöddu, að þar væri að hluta að finna upplýsingar sem nefndin þyrfti að skera úr um hvort kærandi ætti rétt á aðgangi að samkvæmt upplýsingalögum. Auk þess innihéldi  umrætt bréf  ekki í ríkari mæli en sú umsögn sem rakin hefur verið hér að framan upplýsingar sem kærandi hefði hagsmuni af því að fá að tjá sig um á grundvelli andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til niðurstöðu nefndarinnar, sem nánar er lýst í úrskurði þessum, stendur sú afstaða nefndarinnar óhögguð að ekki sé þörf á að veita kæranda kost á að tjá sig um efni bréfsins áður en úrskurður er lagður á mál þetta. Samhengis vegna og með vísan til rökstuðningsskyldu nefndarinnar samkvæmt stjórnsýslulögum verður efni bréfsins hins vegar rakið hér í meginatriðum. Byggir sú ákvörðun nefndarinnar jafnframt á því sjónarmiði að í umræddu bréfi komi að stærstum hluta einvörðungu fram upplýsingar sem þegar megi telja að fram hafi komið opinberlega af hálfu stjórnvalda og fjölmiðla. 

Í upphafi umrædds bréfs er lýst þeirri afstöðu skilanefndarinnar að þegar hafi verið orðið við þeirri beiðni kæranda um upplýsingar sem fram komi í 1. tölulið beiðni hans, þ.e. um upplýsingar um „hvort og þá hvenær ákvörðun var tekin af skilanefnd Landsbanka Íslands að framselja ofangreindan lánasamning milli Landsbanka Íslands hf. og [A] til NBI [hf.]. Nokkru síðar í bréfinu segir m.a. svo:

„Eins og kunnugt er tók Fjármálaeftirlitið (hér eftir „FME“) þann 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf., vék félagsstjórn frá og skipaði bankanum skilanefnd, með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 125/2008. Þann 9. október tók FME síðan ákvörðun, með heimild í áðurnefndri 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 [...]. Í þeirri ákvörðun fólst meðal annars að öllum eignum Landsbanka Íslands hf., hverju nafni sem þær nefnast, s.s. fasteignum, lausafé, reiðufé, eignarhlutum í öðrum félögum og kröfuréttindum skyldi ráðstafað þegar í stað til NBI hf. Samkvæmt ákvörðuninni skyldu þó tilteknar eignir og skuldir vera undanskildar framsalinu, sbr. viðauki við ákvörðunina. Á meðal þeirra voru útlán í verulegri tapshættu, sbr. e. liður II. viðaukans. Líkt og fram kemur í bréfi bankans til kæranda, dags. 23. júní sl., var lánasamningur milli kæranda og Landsbanka Íslands hf. ekki flokkaður sem útlán í verulegri tapshættu, og var honum því ráðstafað til NBI hf. í samræmi við ákvörðun FME frá 9. október sl. Er þetta eini „flokkurinn“ sem lánasamningur kæranda var felldur í, svo vitnað sé til orðalags í 3. tölulið beiðni kæranda hér að ofan, og hefur bankinn þegar upplýst kæranda um þetta atriði, sbr. bréf bankans dags. 23. júní sl.

Í 10. gr. ákvörðunar FME frá 9. október sl. kom eftirfarandi fram, um mat á eignum og uppgjör:

„Fjármálaeftirlitið skipar viðurkenndan matsaðila til þess að meta sannvirði eigna og skulda sem ráðstafað er til [NBI hf.] samkvæmt þessari ákvörðun. Að því mati loknu skal fara fram uppgjör þar sem [NBI hf.] skal greiða Landsbanka Íslands hf. mismun á virði eigna og skulda er miðast við tímamark framsals skv. 5. tl. Niðurstaða matsaðila skal liggja fyrir innan 30 daga frá ákvörðun þessari.“

[...] Vinna við ofangreint uppgjör hefur hins vegar reynst vera flóknari, viðameiri og þar af leiðandi tímafrekari en áætlanir gerðu ráð fyrir, og hefur FME þannig séð sig knúið til þess að framlengja frest til þess að ljúka uppgjöri nokkrum sinnum. [...]

Af framangreindu er ljóst að uppgjöri á þeim eignum og skuldum, sem ráðstafað var frá Landsbanka Íslands hf. til NBI hf. í samræmi við ofangreindar ákvarðanir FME, er ekki að fullu lokið. Af þeim sökum liggur ekki ljóst fyrir á þessum tímapunkti, hver endanleg fjárhæð áðurnefnds fjármálagernings, sem NBI hf. skal gefa út til Landsbanka Íslands hf., verður. Þegar af þeim sökum er bankanum ekki tækt að veita úrskurðarnefnd um upplýsingamál afrit af þeim gögnum sem kærandi fer fram á í lið 2 hér að ofan. Hið sama á við um gögn „sem tilgreina hlutfall söluverðs af heildarverðmæti lánasamnings, frá skilanefnd [bankans]“, sbr. liður 3. Endanleg niðurstaða í þessum efnum er háð ofangreindu mati og / eða samningum milli bankans annars vegar og NBI hf. hins vegar. Því mati er ekki lokið að fullu og þar sem uppgjör milli aðila liggur ekki ljóst fyrir er ekki unnt að fullyrða um ákveðið „söluverð“ á lánasamningi kæranda eða öðrum eignum sem ráðstafað var til NBI hf. í samræmi við ákvörðun FME þann 9. október sl. Upplýsingar þessar eru því einfaldlega ekki til reiðu.[...]“

Þá kom í tilvitnuðu bréfi skilanefndarinnar ennfremur fram, vegna fjórða liðar í beiðni kæranda um aðgang að gögnum, að bankinn hefði ekki undir höndum frekari gögn sem varði lánasamning kæranda við Landsbanka Íslands hf. og geti því ekki veitt úrskurðarnefndinni afrit af slíkum gögnum. Áréttar skilanefndin í því sambandi að NBI hf. sé réttur og löglegur kröfuhafi.

Með bréfi, dags. 6. ágúst, var kæranda veittur kostur á að tjá sig um áður rakta umsögn skilanefndar Landsbanka Íslands. Eins og þegar hefur verið lýst var kæranda hins vegar ekki látið í té bréf skilanefndarinnar sem ber yfirskriftina „TRÚNAÐARMÁL“.

Í athugasemdum kæranda, dags. 13. ágúst, kemur fram sú afstaða að skilanefnd Landsbanka Íslands hf., sem starfi í umboði Fjármálaeftirlitsins, hafi með þeirri ákvörðun að framselja lánasamning kæranda við bankann til Nýja Landsbankans hf. (NBI hf.) tekið ákvörðun sem snerti rétt hans og skyldu.  Framsal réttinda frá stjórnvaldinu skilanefnd Landsbanka Íslands hf. til tengds aðila, NBI hf., veki tortryggni kæranda sem hann hafi vilja til að eyða með upplýsingum um ákvarðanir skilanefndarinnar.

Bæði kærandi og kærði, skilanefnd Landsbanka Íslands hf., hafa í máli þessu fært frekari rök fyrir afstöðu sinni. Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þeim röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 

Niðurstaða

1.
Með 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., var nýrri grein, 100. gr. a, bætt við ákvæði laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum. Samkvæmt 1. mgr. nefndrar 5. gr. laga nr. 125/2008 var mælt fyrir um að Fjármálaeftirlitið gæti gripið til sérstakra ráðstafana í samræmi við ákvæði greinarinnar teldi það þörf á vegna sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Í 3. mgr. lagagreinarinnar var í þessu sambandi sérstaklega mælt fyrir um heimild Fjármálaeftirlitsins til að taka yfir vald hluthafafundar í því skyni að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir, m.a. að takmarka ákvörðunarvald stjórnar, víkja stjórn frá að hluta til eða í heild sinni, taka yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta eða ráðstafa slíku fyrirtæki í heild eða að hluta m.a. með samruna þess við annað fyrirtæki. Í 4. mgr. var ennfremur mælt fyrir um að Fjármálaeftirlitinu væri heimilt, samhliða því sem ákvörðun væri tekin um að víkja stjórn fjármálafyrirtækisins frá, að skipa því fimm manna skilanefnd sem fari með allar heimildir stjórnar samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga. Skilanefnd skyldi samkvæmt málsgreininni fara með öll málefni fjármálafyrirtækisins, þar á meðal að hafa umsjón með allri meðferð eigna þess, svo og að annast annan rekstur þess. Skilanefnd skyldi ennfremur fara eftir og framkvæma þær ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins sem teknar væru á grundvelli ákvæðisins.

Á grundvelli tilvitnaðrar 5. gr. laga nr. 125/2008 tók stjórn Fjármálaeftirlitsins 7. október 2008 þá ákvörðun að taka yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf. og víkja félagsstjórn í heild sinni frá störfum þegar í stað. Jafnframt skipaði Fjármálaeftirlitið skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar félagsins samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög nr. 2/1995. Í ákvörðuninni, sem birt er á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins, segir m.a. svo:

„Skilanefnd skal fara með öll málefni Landsbanka Íslands hf., þar á meðal að hafa umsjón með allri meðferð eigna þess, svo og að annast annan rekstur þess. Skilanefnd skal fylgja ákvörðunum sem Fjármálaeftirlitið tekur á grundvelli 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki og starfa í samráði við Fjármálaeftirlitið.

Með hliðsjón af framangreindu skal eftirfarandi tekið fram:

  1. Skilanefnd skal vinna að því að tryggja áframhaldandi viðskiptabankastarfsemi Landsbanka Íslands hf. hér á landi.
  2. Innköllun til lánardrottna Landsbanka Íslands hf. skal eigi gefin út vegna ákvörðunar þessarar.
  3. Ákvæði 64. og 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. eiga ekki við meðan skilanefnd fer með málefni fjármálafyrirtækisins. Á sama tíma verður ekki komið fram gagnvart fjármálafyrirtækinu aðfarargerð á grundvelli laga um aðför eða kyrrsetningu á grundvelli laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl.
  4. Ríkissjóður ber ábyrgð á kostnaði af framkvæmd aðgerða Fjármálaeftirlitsins vegna ákvörðunar þessarar, þar með talið skiptakostnaði ef til slíks kostnaðar stofnast.“

Ákvörðun þessi tók þegar gildi.

Hinn 9. október tók stjórn Fjármálaeftirlitsins jafnframt ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. Kom þar m.a. fram að eignum Landsbanka Íslands hf., svo sem fasteignum, lausafé, eignarhlutum í öðrum félögum og kröfuréttindum væri ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf. þegar í stað. Tilteknar eignir og réttindi, tilgreind í viðauka, voru þó undanskilin framsalinu. Nýi Landsbankinn hf. skyldi jafnframt, frá og með 9. október 2008 kl. 9.00, taka við starfsemi sem Landsbanki Íslands hf. hefði haft með höndum og tengdist hinum framseldu eignum. Í 10. tölul. ákvörðunarinnar kom jafnframt fram að Fjármálaeftirlitið skipaði viðurkenndan matsaðila til að meta sannvirði eigna og skulda sem ráðstafað væri til Nýja Landsbankans hf. samkvæmt þessari ákvörðun. Að því mati loknu skyldi fara fram uppgjör þar sem Nýi Landsbanki Íslands hf. skyldi greiða Landsbanka Íslands hf. mismun á virði eigna og skulda er miðaðist við tímamark framsalsins. Skyldi niðurstaða matsaðila liggja fyrir innan 30 daga frá ákvörðuninni. Jafnframt skyldi Nýi Landsbankinn hf. gefa út skuldabréf til Landsbanka Íslands hf. til greiðslu endurgjaldsins og skyldu skilmálar þess liggja fyrir innan 10 daga frá því að niðurstaða matsaðila lægi fyrir.

Með síðari ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins hefur þessari ákvörðun frá 9. október verið breytt í nokkur skipti. Þar á meðal var með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 14. febrúar 2009, kveðið á um að niðurstaða matsaðila varðandi mat á eignum og skuldum sem ráðstafað væri til Nýja Landsbankans hf. skyldi liggja fyrir eigi síðar en 15. apríl það ár. Nú síðast var umræddri ákvörðun síðan breytt með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 21. september 2009. Segir í ákvörðunarorði þeirrar ákvörðunar að fjármögnun NBI hf. (áður Nýja Landsbanka Íslands hf.) og útgáfu fjármálagernings um lokauppgjör vegna ráðstöfunar eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. skuli lokið eigi síðar en þann 9. október 2009.

Ofangreindri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um tímamörk þess hvenær mat á eignum og skuldum skyldi liggja fyrir var ekki breytt frekar en gert var með tilvitnaðri ákvörðun 14. febrúar 2009. Jafnframt liggur fyrir að Landsbankinn hf. fékk greiðslustöðvun í upphafi desembermánaðar 2008. Þá liggur einnig fyrir að lögum nr. 161/2002, þ.m.t. áður tilvitnuðum ákvæðum þeirra laga sem breytt var með lögum nr. 125/2008, var breytt í nokkrum efnisatriðum með setningu laga nr. 44/2009. Hafa þær breytingar m.a. samkvæmt efni sínu nokkur áhrif á hlutverk og stöðu skilanefndar Landsbanka Íslands hf. Hins vegar liggur enn ekki fyrir endanlegt uppgjör vegna ráðstöfunar eigna og skulda bankans yfir til NBI hf., sbr. m.a. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. september sl.

 

2.
Þær ákvarðanir sem Fjármálaeftirlitið tók samkvæmt framangreindu um málefni Landsbanka Íslands hf. byggðust á heimildum samkvæmt 5. gr. laga nr. 125/2008. Með hliðsjón af ákvæði 8. mgr. tilvitnaðs lagaákvæðis, þar sem sérstaklega var tekið fram að ákvæði VI. – VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 giltu ekki um ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins sem teknar væru á grundvelli hennar og með vísan til þess að þær valdheimildir sem kveðið er á um í nefndri lagagrein voru fengnar Fjármálaeftirlitinu sem opinberri ríkisstofnun, sbr. til hliðsjónar 3. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, verður á því byggt í úrskurði þessum að nefndar ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins um málefni Landsbanka Íslands hf. teljist til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga í skilningi 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Af áður tilvitnaðri 5. gr. laga nr. 125/2008, sem gilti samkvæmt efni sínu um skilanefnd Landsbanka Íslands hf. þegar henni var komið á fót, leiðir að henni var m.a. ætlað það hlutverk að fara eftir og framkvæma þær ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins sem teknar voru á grundvelli 5. gr. laga nr. 125/2008. Af þessu leiðir, að mati úrskurðarnefndarinnar, að þegar skilanefndin beinlínis kom að framanröktum ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins, sem teknar voru á grundvelli umræddrar 5. gr. laga nr. 125/2008, um yfirfærslu eigna frá Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbankans hf. (nú NBI hf.), á grundvelli fyrirmæla þess, verði að líta svo á að skilanefndin hafi, í því tilliti, farið með opinbert vald á grundvelli beinnar lagaheimildar. Nefndin tekur þó fram að ákvæði laga nr. 125/2008 um stjórnsýslulega stöðu skilanefnda Fjármálaeftirlitsins eru ekki svo skýr sem æskilegt væri. Á það ekki síður við um þýðingu og gildi  upplýsingalaga gagnvart þeim ákvörðunum sem skilanefndunum er falið að sinna en aðrar almennar reglur stjórnsýsluréttar.

Eins og þegar er fram komið var upphafleg beiðni kæranda um aðgang að gögnum fjórþætt. Aðeins fyrsti liður beiðninnar laut með beinum hætti að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, og þá eftir atvikum að tengdri ákvörðun eða ákvörðunum skilanefndarinnar, um yfirfærslu á lánasamningi kæranda og Landsbanka Íslands hf. yfir til Nýja Landsbankans hf. (nú NBI hf.) Kærandi hefur þegar, sbr. svar skilanefndar Landsbanka Íslands til hans, dags. 23. júní 2009, fengið afhentar upplýsingar sem lúta að þessum fyrsta lið beiðni hans. Í bréfi lögmanns kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. júlí 2009, segir m.a. um þennan þátt málsins: „Kröfu [A] um upplýsingar þess efnis, hvort og þá hvenær, ákvörðun var tekin af skilanefnd Landsbanka Íslands að framselja tilgreinda lánasamninga, er svarað í bréfi skilanefndar Landsbanka Íslands. Svarið byggir á tilvísun til ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008. Bréf skilanefndar Landsbanka Íslands verður ekki skilið á annan hátt en að skilanefnd Landsbanka Íslands hafi í kjölfar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008, framselt umræddan lánasamning [A] til NBI hf., sem sé löglegur kröfuhafi umrædds lánasamnings frá þeim tíma.“

Með vísan til þessa fellur það utan við kæruefni máls þessa að taka afstöðu til afgreiðslu skilanefndar Landsbanka Íslands hf. á þessum þætti upphaflegrar beiðni kæranda um aðgang að gögnum.

Hins vegar þarf í máli þessu að taka afstöðu til þess hvort kærandi eigi, á grundvelli upplýsingalaga, rétt á aðgangi að gögnum sem varða annan, þriðja og fjórða lið í upphaflegri beiðni hans um upplýsingar, eins og henni var með bréfi frá 19. maí 2009 beint að skilanefnd Landsbanka Íslands hf.

 

3.
Í öðrum lið beiðni kæranda um upplýsingar kemur fram að hafi hinn umræddi lánasamningur verið framseldur frá skilanefnd Landsbanka Íslands hf. til NBI hf. óski kærandi aðgangs að gögnum sem tilgreini söluverðmæti og önnur kjör á lánasamningnum frá skilanefnd Landsbanka Íslands hf. til NBI hf.

Í skýringum skilanefndar Landsbanka Íslands hf. til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. bréf skilanefndarinnar, dags. 5. ágúst 2009, kemur fram að uppgjöri á þeim eignum og skuldum, sem ráðstafað hafi verið frá Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbankans hf. (nú NBI hf.) í samræmi við ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins sé ekki að fullu lokið.

Segir ennfremur í skýringum skilanefndarinnar að af þessum sökum liggi ekki ljóst fyrir hver endanleg fjárhæð fjármálagernings sem NBI hf. skal gefa út til Landsbanka Íslands hf., verður. Þegar af þeim sökum sé ekki fært að veita úrskurðarnefnd um upplýsingamál afrit af þeim gögnum sem kærandi fari fram á í öðrum lið beiðni sinnar um aðgang að gögnum.

Tilgreindar skýringar skilanefndarinnar fá staðfestingu í ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins, sbr. nú síðast ákvörðun stofnunarinnar um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. frá 21. september 2009.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Nefndin getur því aðeins lagt úrskurð á mál að þau gögn, eða að minnsta kosti þær upplýsingar, sem óskað er eftir aðgangi að, séu í vörslum stjórnvalda, eins og það hugtak er skilgreint í 1. gr. upplýsingalaga, sbr. hér 9. og 10. gr. laganna. Vegna þess að gögn sem fallið geta undir beiðni kæranda að því leyti sem hér um ræðir eru ekki í vörslum skilanefndar Landsbanka Íslands hf. verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál að þessu leyti. Með vísan til þess er í máli þessu ekki þörf á að taka til þess afstöðu hvort mögulegar ákvarðanir skilanefndar Landsbanka Íslands hf., sem tengjast fyrirhuguðu uppgjöri milli Landsbanka Íslands hf. og NBI hf., séu þess eðlis að þær falli undir gildissvið upplýsingalaga.

 

4
Í þriðja lið beiðni kæranda, eins og henni var beint til skilanefndar Landsbanka Íslands hf., kemur fram svohljóðandi ósk um aðgang að gögnum:

,,Hafi ofangreindur lánasamningur verið færður í „flokk“ með öðrum kröfum sem eru í eigu Landsbanka Íslands hf., er krafist gagna frá skilanefnd Landsbanka Íslands sem tilgreina þann „flokk“ sem ofangreindur lánasamningur er felldur undir og gögn sem tilgreina hlutfall söluverðs af heildarverðmæti lánasamningsins, frá skilanefnd Landsbanka Íslands.“

Í skýringum skilanefndar Landsbanka Íslands hf., sem hún hefur látið úrskurðarnefndinni í té í máli þessu, kemur fram að vegna þess að endanlegt uppgjör milli Landsbanka Íslands hf. og Nýja Landsbankans hf. liggi ekki fyrir, sbr. framangreint, hafi skilanefndin ekki undir höndum gögn sem tilgreini hlutfall söluverðs hins umrædda lánasamnings af heildarverðmæti hans. Tekur skilanefnd Landsbanka Íslands hf. í skýringum sínum fram að endanleg niðurstaða í þessum efnum sé háð mati óháðs matsaðila á verðmæti eigna og skulda sem ráðstafað hafi verið til Nýja Landsbankans hf. (nú NBI hf.) og / eða samningum milli skilanefndar Landsbanka Íslands hf. annars vegar og NBI hf. hins vegar. Því mati sé ekki lokið að fullu og þar sem uppgjör milli aðila liggi ekki ljóst fyrir sé ekki unnt að fullyrða um ákveðið „söluverð“ á lánasamningi kæranda eða öðrum eignum sem ráðstafað hafi verið til NBI hf. í samræmi við ákvörðun FME þann 9. október. Umbeðnar upplýsingar að þessu leyti séu því einfaldlega ekki til reiðu.

Í tilvitnuðum skýringum skilanefndar Landsbanka Íslands hf. kemur ennfremur fram að á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 hafi öllum eignum Landsbanka Íslands hf. verið ráðstafað til NBI hf. Ákveðnar eignir hafi þó verið undanskildar. Þar á meðal hafi verið útlán í verulegri tapshættu. Samningur milli kæranda og Landsbanka Íslands hf. hafi ekki verið flokkaður sem útlán í verulegri tapshættu, og hafi honum því verið ráðstafað til NBI hf. í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Sé þetta eini „flokkurinn“ sem lánasamningur kæranda hafi verið felldur í.

Með vísan til ofangreindra skýringa skilanefndar Landsbanka Íslands hf. fellst úrskurðarnefnd um upplýsingamál á að skilanefndin hafi, a.m.k. á þeim tíma sem kærandi lagði fram beiðni sína um aðgang að gögnum, ekki haft undir höndum gögn sem fallið geti undir þriðja lið beiðni hans. Með vísan til þess og sbr. áður tilvitnaða 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál að þessu leyti.

 

5.
Fjórði liður í beiðni kæranda um aðgang að gögnum er svohljóðandi: „Að lokum krefst kærandi þess að fá að kynna sér öll gögn sem varða umræddan lánasamning og ákvarðanir skilanefndar Landsbanka Íslands vegna lánasamningsins.“

Í þeim athugasemdum og skýringum sem skilanefnd Landsbanka Íslands hf. lét úrskurðarnefndinni í té í tilefni af þessum lið í beiðni kæranda um aðgang gagna, kemur fram að skilanefndin hafi ekki undir höndum frekari gögn sem varði lánasamning kæranda við Landsbanka Íslands hf. og geti því ekki veitt úrskurðarnefndinni afrit af slíkum gögnum. Áréttar skilanefndin í því sambandi að NBI hf. sé nú réttur og löglegur kröfuhafi vegna skulda kæranda samkvæmt títtnefndum lánasamningi.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að ekki sé ástæða til að rengja ofangreinda fullyrðingu skilanefndar Landsbanka Íslands hf. Sá lánasamningur sem um ræðir hefur verið framseldur Nýja Landsbankanum hf. (nú NBI hf.). Jafnframt skal á það bent að samkvæmt 5. tölul. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, dags. 9. október 2008, tók Nýi Landsbankinn hf., frá og með 9. október 2008, við starfsemi sem Landsbanki Íslands hf. hafði haft með höndum og tengdist hinum framseldu eignum, þ.m.t. aðild Landsbanka Íslands hf. að hvers konar greiðslukerfum. Með vísan til þess að gögn sem falla undir umræddan lið í beiðni kæranda eru ekki fyrirliggjandi hjá skilanefnd Landsbanka Íslands hf., og með vísan til áður tilvitnaðrar 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál að þessu leyti.

 

6.
Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að ekki séu forsendur til að rengja þær skýringar skilanefndar Landsbanka Íslands hf., sem fram hafa komið við meðferð máls þessa, að gögn sem falla undir annan, þriðja og fjórða lið beiðni kæranda um aðgang að gögnum, séu ekki fyrirliggjandi í fórum skilanefndarinnar. Með vísan til þess, sbr. einnig áður tilvitnaða 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, ber að vísa kæru máls þessa frá úrskurðarnefndinni. Af framangreindu leiðir ennfremur að í máli þessu er ekki þörf á að taka til þess afstöðu hvort umrædd gögn, væru þau fyrirliggjandi í fórum skilanefndarinnar, féllu undir gildissvið upplýsingalaga nr. 50/1996.

 


Úrskurðarorð


Kæru [X] héraðsdómslögmanns, fyrir hönd [A] í Vestmannaeyjum, á synjun skilanefndar Landsbanka Íslands hf. á afhendingu gagna er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

 


Friðgeir Björnsson,
formaður

 

 

                                                 Sigurveig Jónsdóttir                          Trausti Fannar Valsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta