A 312/2009 Úrskurður frá 24. september 2009
ÚRSKURÐUR
Hinn 24. september 2009 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-312/2009.
Kæruefni og málsatvik
Með bréfi, dags. 9. september 2009, kærði [...] þá ákvörðun Alþingis, dags. 7. september 2009, að afhenda honum ekki upplýsingar um sundurliðaðar kostnaðargreiðslur til þingmanna af almannafé. Kærandi óskaði eftir upplýsingunum með bréfi til Alþingis 1. september 2009.
Í bréfi Alþingis til kæranda, dags. 7. september 2009, er vísað til þess að upplýsingalög nr. 50/1996 taki ekki til Alþingis, samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna. Þar komi fram að lögin taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Alþingi falli utan gildissviðs laganna en sú stefna hafi þó verið mörkuð að hafa hliðsjón af ákvæðum laganna við úrlausn beiðna sem berist skrifstofu Alþingis um gögn í vörslu þingsins. Hins vegar sé það afstaða Alþingis að afhending umbeðinna gagna kalli á umtalsverða úrvinnslu upplýsinga úr bókhaldi þingsins og er vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga sé stjórnvöldum ekki skylt að taka saman slíkar upplýsingar. Þá leiði það af 2. mgr. 2. gr. laganna að þau taki ekki til upplýsinga sem færðar hafi verið með kerfisbundum hætti í bókhald stjórnvalds. Enn fremur kemur fram í bréfinu að líta verði svo á að um greiðslur til alþingismanna vegna starfskostnaðar, hvort sem um sé að ræða endurgreiðslu afdreginnar staðgreiðslu eða greiðslu starfskostnaðar samkvæmt framvísuðum reikningum, séu undanþegnar upplýsingarétti almennings samkvæmt 5. gr. laganna.
Málsmeðferð
Eins og fram hefur komið var sú ákvörðun Alþingis að synja kæranda um afhendingu upplýsinga um sundurliðaðar kostnaðargreiðslur til þingmanna af almannafé kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með bréfi dags. 9. september 2009. Með bréfinu fylgdi beiðni kæranda til skrifstofu Alþingis, dags. 1. september 2009, ásamt svörum Alþingis, dags. 7. september 2009, við beiðni kæranda.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi ekki þörf á að veita Alþingi frest til að láta í té rökstutt álit á málinu áður en það yrði til lykta leitt eins og nefndinni er heimilt að veita stjórnvöldum á grundvelli 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga.
Niðurstaða
Í 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir að lögin taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem síðan varð að upplýsingalögum kemur fram að í þessu felist að lögin taki til þeirrar starfsemi sem heyrir undir framkvæmdarvaldið samkvæmt þrískiptingu ríkisvaldsins. Utan gildissviðs þeirra falli hins vegar Alþingi og stofnanir þess, svo sem umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun. Af þessu leiðir að ekki er hægt að óska aðgangs að gögnum hjá Alþingi á grundvelli upplýsingalaga. Það á við þótt Alþingi virðist í einhverjum mæli horfa til laganna þegar því berast beiðnir um afhendingu gagna. Þar sem ekki er unnt að óska aðgangs að gögnum hjá Alþingi á grundvelli laganna er heldur ekki unnt að kæra synjun Alþingis um afhendingu tiltekinna ganga til úrskurðarnefndar um upplýsingamál á grundvelli 14. gr. þeirra. Að þessu athuguðu er ljóst að kæran fellur utan gildissviðs upplýsingalaga nr. 50/1996 og þar með valdsviðs úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Með vísan til framangreinds ber úrskurðarnefnd um upplýsingamál að vísa kærunni frá nefndinni.
Úrskurðarorð
Kæru [...] vegna synjunar Alþingis um afhendingu upplýsinga um sundurliðaðar kostnaðargreiðslur til þingmanna af almannafé er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Friðgeir Björnsson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Trausti Fannar Valsson