A 321/2009. Úrskurður frá 22. desember 2009
ÚRSKURÐUR
Hinn 22. desember 2009 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-321/2009.
Kæruefni
Með bréfi, dags. 11. september 2009, kærðu [A] þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 25. ágúst að synja beiðni kærenda um aðgang að gögnum.
Af upphaflegri beiðni samtakanna, dags. 29. júní 2009, sem beint var til Matvælastofnunar má ráða að nánar tiltekið var óskað eftir gögnum sem hefðu að geyma eftirtaldar upplýsingar, enda hefði Matvælastofnun þau í sínum vörslum:
- Prósentuhlutfall stroksýna af svínaskrokkum í sláturhúsi [B] sem greinst hefðu salmonellumenguð tímabilið 1. júlí 2008 til 29. júní 2009.
- Prósentuhlutfall stroksýna af svínaskrokkum á landsvísu sem greinst hefðu salmonellumenguð tímabilið 1. júlí 2008 til 29. júní 2009.
- Yfirlit yfir frá hvaða bæjum og í hvaða mæli salmonella hefði greinst í stroksýnum af svínaskrokkum tímabilið 1. júlí 2008 til 29. júní 2009.
Eins og nánar verður rakið hér að neðan synjaði Matvælastofnun ofangreindri beiðni að öllu leyti.
Málsatvik og málsmeðferð
1.
Þann 29. júní 2009 beindu [A] ofangreindri beiðni um afhendingu gagna til Matvælastofnunar. Þeirri beiðni var hafnað með bréfi stofnunarinnar, dags. 25. ágúst. Í kæru samtakanna er rakið að Matvælastofnun hafi synjað um afhendingu umbeðinna gagna með þeim röksemdum að hún fæli í sér skerðingu á mikilvægum fjárhags- og viðskiptahagsmunum þeirra svínabúa sem upplýsingarnar varði. Afhendingin sé til þess fallin að valda viðkomandi búum verulegu tjóni og gæti rýrt samkeppnisstöðu þeirra gagnvart öðrum framleiðendum sérstaklega til lengri tíma litið þar sem sýkingar geti á einhverjum tímapunkti komið fram hjá flestum framleiðendum. Þá telji Matvælastofnun að slík afhending gagna sé til þess fallin að torvelda áframhaldandi samstarf stofnunarinnar við framleiðendur.
Kærandi segir að sé litið nánar á röksemdir Matvælastofnunar megi vera ljóst að þar komi í raun ekkert fram sem styðji að afhending umbeðinna gagna leiði til verri samkeppnisstöðu viðkomandi búa gagnvart framleiðendum. Þar sé ekki lagt mat á hversu mikið tjónið geti orðið og hverjar líkur séu á að tjón verði en gera verði meiri kröfur til röksemda stjórnvalda ef ætlunin sé að synja um aðgang að gögnum. Þá segir orðrétt í kærunni:
„Upplýsingalögin miða við að ekki séu skertir mikilvægir fjárhags- og viðskiptahagsmunir. Það snýr t.d. að áætlunum um framleiðslu á vörum og markaðssetningu þeirra, en ekki þeirri hættu að neytendur og framleiðendur hætti tímabundið að kaupa hráefni frá fyrirtækinu þegar upp kemst um mengun í matvælum sem hættuleg er neytendum á markaði. Það eru ekki hagsmunir sem njóta verndar í upplýsingalögum. Umrædd gögn eru enda of almenn til þess að þau geti talist fela í sér atvinnu- framleiðslu- eða viðskiptaleyndarmál. Raunar er það sérstaklega tekið fram að slík sýking geti á einhverjum tímapunkti komið upp hjá flestum aðilum. Það er því jafnt á komið með þeim, og ef almennt aðgengi verður að umræddum gögnum er samkeppnisstaða eins aðila ekki skert umfram aðra þegar til lengri tíma lætur. Það eru því engir einstakir og verulegir fjárhags- og viðskiptahagsmunir í skilningi 5. gr. upplýsingalaga sem hamla aðgengi [að] umræddum gögnum. Raunar gerir Matvælastofnun þær kröfur til verslana að þær tilkynni neytendum ef upp koma sýkingar í vörum sem þær selja. Er þetta gert með vísan til sjónarmiða um neytendavernd. Slíkar tilkynningar hljóta að leiða til sömu skerðingar á samkeppnisstöðu og vísað er til í röksemdum stofnunarinnar. Því er verslunum og framleiðendum á kjötvörum mikilvægt að hafa á hverjum tíma aðgang að upplýsingum um hvar mengað kjöt er að finna svo hægt sé að sneiða hjá þeim framleiðanda á meðan mengunin er upprætt. Þannig færist varnarlína neytendaverndar fram í framleiðslukeðjuna, neytendum til varnar og hagsbóta.“
Þá segir í kærunni að miklu skipti að halda því til haga við mat á því hvort afhenda beri umrædd gögn að um sé að ræða mengun frá fyrirtækjum sem geti haft skaðleg áhrif á heilsu fólks og jafnvel leitt það til dauða. Þá segir og að það sjónarmið að afhending gagnanna sé fallin til þess að torvelda áframhaldandi samstarf stofnunarinnar við framleiðendur njóti ekki verndar að lögum og mikilvægt að hrekja slík sjónarmið af festu.
2.
Með bréfi, dags. 16. september, gaf úrskurðarnefndin Matvælastofnun kost á að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi og frestur gefinn til þess til 28. september. Jafnframt var óskað eftir því að úrskurðarnefndinni yrðu afhent í trúnað afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að innan sama frests. Fresturinn var síðar framlengdur til 19. október.
Svar Matvælastofnunar barst með bréfi, dags. 16. október 2009, ásamt gögnum sem síðar verður gerð grein fyrir. Í bréfinu er því lýst að Matvælastofnun hafi með höndum eftirlit með aðbúnaði og heilbrigði á svínabúum samkvæmt reglugerð 219/1991 með síðari breytingum. Eftirlitinu sé einkum sinnt með sýnatökum, þ.e. kjötsafaprófi, stroksýnum og saursýnum. Markmiðið með eftirlitinu sé að tryggja eftir því sem frekast sé unnt að salmonellusýkt kjöt fari ekki á markað. Framleiðanda svínakjöts sé skylt að viðhafa fyrirbyggjandi aðgerðir gegn salmonellu og samstarf eftirlitsaðila og framleiðanda skipti miklu við að tryggja slíkar aðgerðir enda sé um viðvarandi eftirlit að ræða. Matvælastofnun birti reglulega almennar tölfræðiupplýsingar um eftirlit sitt sem ekki séu tengdar einstökum framleiðendum en gefi glögga mynd af tíðni salmonellu í svínaskrokkum á landsvísu og röðun svínabúa í flokka. Þá er fjallað um efni 5. gr. upplýsingalaga og síðan segir orðrétt í bréfinu
„Upplýsingar um salmonellu sýkingar í tilteknu svínabúi eða sláturhúsi eru að mati Matvælastofnunar viðkvæmar og varða mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni viðkomandi svínabús. Birting slíkra upplýsinga getur því valdið viðkomandi verulegu fjárhagstjóni auk þess að vera til þess fallin að skerða samkeppnisstöðu á markaðnum fyrir framleiðslu svínakjöts. Ef litið er til lengri tíma geta sýkingar komið upp hjá flest öllum framleiðendum á einhverjum tímapunkti. Afhending gagna um sýkingar hjá tilteknum framleiðendum en ekki hjá öðrum gæti haft þær afleiðingar í för með sér að neytendur myndu sneiða hjá framleiðsluvöru viðkomandi enda þótt afurðir viðkomandi væru jafn neysluhæfar og afurðir annars framleiðanda.
Afhending gagna um sýkingar á liðnu ári þurfa aukinheldur ekki að gefa rétta mynd af núverandi stöðu mála hjá viðkomandi framleiðanda og getur því valdið viðkomandi verulegu fjárhagslegu tjóni. Salmonellumengaðar svínaafurðir eru meðhöndlaðar með þeim hætti í sláturhúsi að þær teljast ekki skaðlegar heilsu almennings. Matvælastofnun getur því ekki fallist á að hagsmunir almennings af því að fá aðgang að umræddum gögnum vegi þyngra en hagsmunir viðkomandi svínabús af því að upplýsingunum sé haldið leyndum.
Að teknu tilliti til alls ofangreinds fer Matvælastofnun fram á að úrskurðarnefnd um upplýsingamál staðfesti ákvörðun stofnunarinnar um synjun um aðgang að gögnum um prósentuhlutfall stroksýna af svínaskrokkum í sláturhúsi [B] sem greinst hafa salmonellumenguð svo og yfirlit frá hvaða bæjum og í hvaða mæli salmonella hafi greinst í stroksýnum.“
3.
Þar sem beiðni [A] beindist m.a. sérstaklega að upplýsingum um prósentuhlutfall stroksýna af svínaskrokkum í sláturhúsi [B]s sem greinst hefðu salmonellumenguð fór úrskurðarnefndin þess á leit við [B] með bréfi, dags. 16. september 2009, að fyrirtækið gerði nefndinni grein fyrir því hvort það teldi eitthvað vera því til fyrirstöðu að veita kæranda aðgang að umbeðnum upplýsingum sem að fyrirtækinu lyti. Frestur til þess var gefinn til 28. september.
Svarbréf [B] er dags. 4. október. Segir þar eftirfarandi:
„[B] hf er fyrirtæki sem framleiðir, slátrar og selur svínakjöt. Félagið stendur fyrir framleiðslu á u.þ.b. 32% af svínakjötinu sem neytt er á Íslandi en slátrar í kringum 60% af heildarframleiðslunni. Við seljum síðan í kringum 45-50% til kjötvinnsla, einstaklinga og stórmarkaðar um land allt.
Sem framleiðandi þá er svarið við slíkri upplýsingagjöf neikvætt. Helstu rökin fyrir þeirri afstöðu eru:
- Slíkar upplýsingar gætu orðið til þess að starfsemin muni líða fyrir það til langframa þrátt fyrir breytt ástand á búinu seinna meir. Yfirleitt eru slíkar sýkingar tímabundnar og mjög vægar og því ekki mikil ástæða til að óttast að það valdi sýkingum í mannfólki en orðrómur á markaði getur orðið langlífari.
- Upplýsingar um stöðu búa gætu og hafa verið notaðar af öðrum framleiðendum til að selja sitt kjöt sem „hreint“ og „æskilegra“ umfram annað kjöt. Þetta getur og rýrt samkeppnisstöðu þess bús sem fyrir verður gagnvart öðrum framleiðendum.
- Slíkar upplýsingar gætu og hafa verið notaðar til að knýja fram verðlækkun á afurðum til framleiðenda sem fyrir verða slíkri sýkingu.
- Sem framleiðandi tel ég að 5. gr. upplýsingalaga eigi við þ.e. að gögn þessi séu undanþegin upplýsingarétti.
Þessu hefur undirritaður reynslu af á markaði. Brýnt er að hafa til hliðsjónar að staðan á neytendamarkaði er á heimsmælikvarða mjög góð og eftirlit mikið og strangt. Matvælastofnun birtir einnig yfirlit og fréttir af stöðu mála mjög reglulega.
Sem sláturleyfishafi þá er svarið við slíkri upplýsingagjöf einnig neikvætt. Ástæður þess eru:
- Margir framleiðendur slátra í sláturhúsi félagsins og ber sláturleyfishafa að halda trúnað um málefni einstakra framleiðenda. Sláturleyfishafi hefur ekkert umboð framleiðenda til að veita umbeðnar upplýsingar né aðrar upplýsingar um framleiðslu hans.
- Veiti sláturleyfishafi slíkar upplýsingar án umboðs framleiðenda mun sá trúnaðarbrestur verða til þess að framleiðendur finna aðrar leiðir í sambandi við slátrun og úrvinnslu og slíkt myndi þannig skaða rekstur félagsins.
- Neikvæð umræða og órökstuddar æsifréttir í kjölfar slíkrar upplýsingagjafar gætu skaðað rekstur sláturhússins og valdið tjóni fyrir viðskiptamenn þess.
- Sem sláturleyfishafi tel ég að 5. gr. upplýsingalaga eigi við þ.e. að gögn þessi séu undanþegin upplýsingarétti.
Sem söluaðili og eða heildsali þá er svarið einnig neikvætt. Ástæður eru:
- Meðferð og tilgangur slíkra upplýsinga er undirrituðum með öllu óljós. Þetta hefur ekki haft áhrif á endursölu svínakjöts og ekki valdið neinu tjóni á markaði enda er allt kjöt sem selt er heilbrigðisskoðað og uppfyllir allar kröfur um heilnæma vöru. Að því sögðu getur ekki verið neinn annar tilgangur með slíkri upplýsingagjöf en að mismuna framleiðendum sökum ástands sem getur myndast tímabundið á búum þeirra.
- Svínakjötsmarkaðurinn er frjáls markaður þar sem ríkir mikil samkeppni. Hafi kaupandi einhverjar séróskir varðandi það kjöt sem hann kaupir af framleiðanda, sláturleyfishafa, heildsala eða úrvinnsluaðila getur hann sett þær fram hvenær sem er við viðkomandi aðila. Að upplýsingar liggi fyrir um hvern og einn aðila á markaði er ótækt og sú fullyrðing um að það sé betri vörn fyrir neytendur umfram þá vörn sem er í dag er algerlega ósannað.
- Undirritaður áttar sig ekki á því orðalagi í kærunni að slík upplýsingagjöf gæti orðið neytendum til hagsbóta nema þá að átt sé við að kjöt frá framleiðendum sem verða fyrir slíkum sýkingum verði selt á lægra verði til neytenda óháð því hvort ekkert hafi greinst í kjötinu eður ei. Slík upplýsingagjöf myndi því klárlega mismuna framleiðendum og það er því líklegra en ella að slíkar upplýsingar gætu því miður orðið meira til tjóns en gagns og því á 5. gr. upplýsingalaga réttilega við.“
4.
Með bréfi, dags. 21. október, gaf úrskurðarnefndin [A] kost að gera frekari athugasemdir í ljósi umsagnar Matvælastofnunar og frest til þess til 30. október.
Athugasemdir [A] bárust nefndinni 28. október. Þar segir að samtökin telji að í kæru þeirra komi fram öll þau grunnsjónarmið sem réttlæti að þau fái aðgang að umbeðnum gögnum. Samtökin telji að Matvælastofnun og forsvarsmenn [B]s misskilji eðli þeirra fjárhags- og viðskiptahagsmuna sem vísað sé til í 5. gr. upplýsingalaga. Segir síðan eftirfarandi í bréfinu:
- „Upplýsingar um heilsuspillandi starfsemi tiltekins fyrirtækis (bús, bæjar) hljóta ávallt að vera skaðlegar. Það leiðir af eðli máls. Vörn upplýsingalaga, þ.e. þegar aðgangur að upplýsingum er takmarkaður sbr. 5. gr. laganna m.t.t. fjárhags- og viðskiptahagsmuna, er hins vegar beint að rekstrarlegum þáttum (s.s. tekjum, gjöldum, nýjungum, viðskiptaáherslum, stefnumótun o.fl.)
- Fráleitt er að ætla að tiltekin starfsemi geti leitað skjóls undir brynju upplýsingalaga við að leyna skaðlegri eða heilsuspillandi starfsemi [fyrir] þeim aðilum, sem ríka hagsmuni hafa af að vita um slíkt. Eftirlit Matvælastofnunar bregst með reglulegu millibili og veitir því ekki nægjanlega vörn. Í þessu samhengi er raunar afar sérstakt að vísa til þess að hin „heilsuspillandi“ starfsemi kunni sjálf að verða fyrir tjóni (fjárhagslegu). Ástæða þess að farið er fram á umræddar upplýsingar er einmitt sú að reyna að takmarka framtíðartjón þeirra sem keypt hafa (og/eða selt) hina heilsuspillandi vöru.
- Ennfremur er ekki hægt að ganga út frá því að upplýsingar um sýkingar á tilteknum bæjum þurfi sjálfkrafa að vera svo slæmar að tiltekið bú eigi sér enga viðskiptalega framtíð. Ef svo er hljóta umræddar sýkingar að vera í miklu magni og alvarlegar, en þá ætti engum að dyljast mikilvægi upplýsinganna. Að öðrum kosti metur viðskiptaaðili upplýsingar um sýkingar á tilteknum búum með hliðsjón af hinum almenna áhættuþætti slíkrar framleiðslu.
- Þá er rétt að taka fram að mjög langsótt er að vísa til skerðingar á samkeppnisstöðu sem rök fyrir því að útiloka aðgang að upplýsingum um sýkingu hjá tilteknum framleiðanda (búi). Það er einmitt tilgangur slíkra upplýsinga að efla samkeppni með því að auka gagnsæi.
- Að lokum má benda á að mikil þjóðhagsleg óhagkvæmni leiðir af því að sá framleiðandi, sem tjóni veldur, sé ekki undir ströngu aðhaldi markaðarins. Það er engan veginn hægt að álíta að það hafi verið tilgangur 5. gr. upplýsingalaga að verja þann sem tjóni veldur.“
Niðurstöður
1.
Eins og fram er komið var beiðni kæranda um aðgang að gögnum þríþætt. Ná allir liðir beiðninnar til tímabilsins 1. júlí 2008 til 29. júní 2009. Úrskurðarnefndin óskaði eftir því í bréfi til Matvælastofnunar, dags. 16. september, að henni yrðu látin í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Þau gögn sem nefndin fékk í hendur samkvæmt þessari beiðni eru yfirlit yfir stroksýni í öllum svínasláturhúsum á árinu 2008 og á árinu 2009 til 16. október. Þá fékk nefndin og í hendur sérstakt yfirlit yfir stroksýni í sláturhúsi [B] á sama árabili. Nefndin hefur kynnt sér þessi gögn. Á yfirlitunum kemur m.a. fram hvers konar sýni voru tekin, hve mörg og hvort þau hafi verið neikvæð eða jákvæð. Væru sýnin jákvæð er þess getið um hvaða tegund salmonellusýkingar sé að ræða. Á yfirlitum fyrir árið 2008 kemur fram frá hvaða búum skrokkarnir eru sem stroksýni hafa verið tekin af. Það kemur hins vegar ekki fram á yfirlitum fyrir árið 2009. Af þessum gögnum verður þó ráðið að slíkar upplýsingar hefur Matvælastofnun undir höndum og að þau gætu fylgt umræddu yfirliti. Yfirliti hvors árs um sig fylgir ennfremur sérstök samantekt um fjölda sýna, samtals fjölda sýna í safni, heildarfjölda eininga, fjölda jákvæðra sýna og af hve mörgum, svo og hve mörgum hafi verið hent.
2.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996, er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. Stjórnvöldum er hins vegar ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr. laganna. Kæru þá sem hér er til meðferðar ber að afgreiða samkvæmt framangreindum lagaákvæðum.
Matvælastofnun hefur ekki borið fyrir sig að kæran varði ekki tiltekið mál og telur því úrskurðarnefndin ástæðulaust að taka sérstaka afstöðu til þess hvort svo sé eða ekki. Þá hefur Matvælastofnun ekki borið fyrir sig að hún sé bundin sérstakri trúnaðarskyldu, sbr. niðurlagsákvæði 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin telur að sérstakri trúnaðarskyldu sé heldur ekki til að dreifa í því tilviki sem hér um ræðir.
Í 3. gr. upplýsingalaga er kveðið á um aðalreglu, þ.e. að almenningur á rétt á að fá aðgang að gögnum sem liggja fyrir hjá stjórnvöldum. Ekki skiptir máli í hvaða tilgangi er beðið um aðgang að gögnum. Í 4.-6. gr. laganna er síðan kveðið á um undantekningar frá þessari aðalreglu sem eðli þeirra samkvæmt ber að skýra þröngt. Þá undantekningarreglu, sem hér kann að eiga við, er að finna í 5. gr. laganna og hljóðar hún svo:
„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“
Í skýringum við 5. gr. í frumvarpi því sem síðar varð að upplýsingalögum segir m.a. að við mat á því hvort 5. gr. eigi við eða ekki verði að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna. Þegar lögaðili á í hlut verður og við mat af þessu tagi að líta til þess hvort hagsmunir hans af því að upplýsingunum sé haldið leyndum séu þyngri á metunum en hagsmunir aðila af því að fá aðgang að þeim, sbr. 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga. Þetta sjónarmið var lagt til grundvallar í dómi Hæstaréttar Íslands frá 23. mars 2000 í máli nr. 455/1999 og birtur er í dómasafni réttarins árið 2000, bls. 1309.
Úrskurðarnefndin telur að þær upplýsingar sem fyrir liggja í máli þessu geti ekki talist til leyndarmála um atvinnu, framleiðslu eða viðskipti þeirra svínabúa sem í hlut eiga í skilningi 5. gr. upplýsingalaga. Hins vegar kemur til skoðunar hvort um sé að ræða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svínabúanna eða aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni í skilningi þess ákvæðis sem vegi þyngra en réttur almennings til aðgangs að þeim samkvæmt meginreglu 3. gr. laganna.
Því er haldið fram af hálfu Matvælastofnunar að birting upplýsinga um salmonellusýkingar á svínabúunum geti valdið þeim verulegu fjárhagstjóni auk þess að vera til þess fallin að skerða samkeppnisstöðu búanna á markaði. Þá þurfi gögn um sýkingar á liðnu ári ekki að sýna núverandi stöðu mála hjá viðkomandi búi. Birtingin gæti haft það í för með sér að neytendur sneiddu hjá framleiðsluvöru viðkomandi bús enda þótt afurðir frá því væru jafn neysluhæfar og afurðir annars framleiðanda. Þá kemur og fram hjá Matvælastofnun að salmonellumegnaðar svínaafurðir séu meðhöndlaðar með þeim hætti í sláturhúsi að þær teljist ekki skaðlegar heilsu almennings. Röksemdir forsvarsmanns [B] fyrir því að heimila ekki aðgang að stroksýnum sem tekin hafa verið í sláturhúsi fyrirtækisins, sem raktar eru hér að framan, eru svipaðs eðlis og röksemdir Matvælastofnunar.
Í þeim gögnum sem úrskurðarnefndin hefur undir höndum frá Matvælastofnun er ekki að finna neinar fjárhagslegar upplýsingar er varða sérstaklega rekstur, samkeppnisstöðu eða aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni viðkomandi svínabúa. Út af fyrir sig er ekki hægt að telja útilokað að upplýsingar um salmonellusýkingar á tilteknu svínabúi geti einhver áhrif haft á rekstur og samkeppnisstöðu þess enda þótt það sé ekki sjálfgefið. Þótt þessi möguleiki sé fyrir hendi er hvorki hægt að telja eðlilegt né sanngjarnt að haldið sé leyndum upplýsingum opinberrar eftirlitsstofnunar um niðurstöður hennar í rannsóknum á heilbrigði þeirra dýra sem kjöt er selt af á almennum neytendamarkaði. Rétt almennings til upplýsinga af þessu tagi verður að telja ríkari en svo að undantekningarákvæði 5. gr. upplýsingalaga geti átt við í því tilviki sem hér er til umfjöllunar.
Af þeim gögnum sem Matvælastofnun hefur afhent úrskurðarnefnd um upplýsingamál verður ráðið að framangreind yfirlit yfir stroksýni í öllum svínasláturhúsum annars vegar og yfirlit yfir stroksýni í sláturhúsi [B] hins vegar innihalda þær upplýsingar sem kærandi hefur beðið um aðgang að. Ber því að afhenda kæranda afrit slíkra yfirlita frá því tímabili sem beiðni hans tekur. Vísast hér ennfremur til fyrri úrskurðarframkvæmdar úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. úrskurði í málum A-136/2001 og A-163/2001. Hins vegar nær beiðnin ekki til þeirra samantekta sem að framan er lýst um fjölda sýna, samtals fjölda sýna í safni, heildarfjölda eininga, fjölda jákvæðra sýna og af hve mörgum, svo og hve mörgum hafi verið hent, en augljóst er að þau skjöl hafa orðið til eftir að beiðni kæranda barst Matvælastofnun.
Úrskurðarorð
Matvælastofnun ber að veita kæranda, [A], aðgang að yfirlitum yfir töku stroksýna stofnunarinnar af svínaskrokkum í öllum svínasláturhúsum tímabilið 1. júlí 2008 til 29. júní 2009. Þá ber stofnuninni jafnframt að veita kæranda aðgang að yfirliti yfir stroksýni í sláturhúsi [B] frá sama tímabili.
Friðgeir Björnsson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Trausti Fannar Valsson