Hoppa yfir valmynd

A 328B/2010. Úrskurður frá 11. febrúar 2010

ÚRSKURÐUR


Hinn 11. febrúar 2010 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-328/2010B.


Málsatvik

Með bréfi, dags. 5. febrúar 2010, fór [X] hdl. fyrir hönd Reykjavíkurborgar og Ríkiskaupa fram á það við úrskurðarnefnd um upplýsingamál að úrskurður nefndarinnar frá 28. janúar sl. nr. A-328/2010 yrði endurupptekinn og leiðréttur. Til vara var farið fram á að réttaráhrifum úrskurðarins yrði frestað.

Í úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að Reykjavíkurborg og Ríkiskaup skyldu veita aðgang að ákveðnum hlutum skjals, dags. 31. mars 2009, með yfirskriftina „Helstu skilmálar samnings um kaup á hlutafé eignarhaldsfélagsins [C] og [D] ásamt byggingarrétti í [O] á Austurbakka“. Tilefni úrskurðarins var kæra [Y] hrl. fyrir hönd eignarhaldsfélaganna [A] og [B] vegna synjunar Reykjavíkurborgar og Ríkiskaupa um afhendingu afrita af ,,...af öllum samningum og viðaukum sem gerðir hafa verið eftir 17. júlí 2008 og varða samninga ríkisins, Reykjavíkurborgar og Austurhafnar TR ehf. um byggingu tónlistarhúss við Austurhöfn í Reykjavík og ekki hefur verið fjallað um í kærumálum A-233/2006, 228-2006 og A-307-2009. Er þá jafnframt átt við afrit fundargerða Austurhafnar TR ehf. er varða byggingu húss sem og kaupsamninga um [C], [D] og [E] frá 2009.“ 

Í bréfi lögmanns Reykjavíkurborgar og Ríkiskaupa segir meðal annars svo:

,,Gerð er athugasemd við að úrskurðarnefndin hafi úrskurðað í máli þessu áður en Reykjavíkurborg, Ríkiskaup eða öðrum aðilum að skjalinu sem birta á upplýsingar úr hafi verið gefið tækifæri á að koma að sínum sjónarmiðum gagnvart því hvað ætti að strika yfir í skjalinu, ekki væri fallist á þá kröfu að kærendum væri almennt synjað aðgangi að skjalinu. Hefði það verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.

Ekki er gerð athugasemd við ákvörðun úrskurðarnefndarinnar nema að því leyti er varðar birtingu upplýsinga á blaðsíðu 5 sem hefjast á orðunum „Aðilar eru sammála um að vaxtakjör skuli endurskoðuð ...“ og enda á „...heild eða hluta án sérstaks kostnaðar“. Sú ákvörðun að birta þennan hluta virðist ekki samræmast þeim sjónarmiðum sem nefndin setur fram í úrskurði sínum undir lið 3 á bls. 8. Með birtingu þessa hluta er verið að birta upplýsingar [um] endurskoðun vaxta, tryggingar framkvæmdafjármögnunarinnar, uppgreiðslu lánsins og fleiri samningsatriði Austurhafnar við þriðja aðila sem allir falla utan gildissviðs laganna. Þá verða þessar upplýsingar ekki taldar vera í beinum tengslum við fjárframlög ríkis og borgar. Telja verður að þarna sé beinlínis verið að birta upplýsingar sem eru sama eðlis og aðrar upplýsingar sem synjað er um aðgang að í úrskurðinum á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga.

Því er farið fram á að úrskurður þessi verði endurupptekinn og leiðréttur á grundvelli 23. gr. stjórnsýslulaga þannig að upplýsingarnar sem birta á á bls. 5 verði ekki birtar.

Til vara er farið fram á með vísan til 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 að birtingu úrskurðarins, sem átti sér stað þann 3. febrúar sl. verði frestað með vísan til þeirra athugasemda sem fram koma hér að ofan við birtingu skjalsins.“

 

Niðurstaða

1.
Eins og fram kemur í beiðni þeirri sem hér er til úrlausnar er þess aðallega krafist að úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-328/2010 verði endurupptekinn og leiðréttur á grundvelli 23. gr. stjórnsýslulaga þannig að upplýsingarnar sem birta skal á bls. 5 verði ekki birtar.

Beiðni kæranda um endurupptöku eða leiðréttingu úrskurðar á grundvelli 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 lýtur ekki að leiðréttingu á bersýnilegri villu í úrskurðinum. Í athugasemdum við þá grein í frumvarp því sem varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 kemur eftirfarandi fram: „Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. er stjórnvaldi heimilt að leiðrétta bersýnilegar villur í ákvörðun, svo sem misritun á orði, nafni eða tölu og reikningsskekkju, svo og aðrar bersýnilegar villur er varða form ákvörðunar. Heimildin tekur hins vegar ekki til leiðréttingar á efni ákvörðunar.“ Slík breyting á efnislegri niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar, sem hér er krafist, getur ekki grundvallast á 23. gr. stjórnsýslulaga.

Fyrirmæli um endurupptöku stjórnsýslumála koma fram í 24. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. þess ákvæðis segir svo:
 
„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:
1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá       því að ákvörðun var tekin.“

Óháð því hvort þau stjórnvöld, sem gert er skv. úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál að afhenda almenningi gögn, teljast aðilar máls í hefðbundnum skilningi, tekur úrskurðarnefndin fram að ekkert er fram komið um að úrskurður hennar frá 28. janúar sl. hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða þá að sú ákvörðun að Reykjavíkurborg og Ríkiskaupum sé skylt að afhenda hluta skjalsins „Helstu skilmálar samnings um kaup á hlutafé eignarhaldsfélagsins Portusar ehf. og Situsar ehf. ásamt byggingarrétti GLÍ hf. á Austurbakka 2“ hafi byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin.
 
Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Skylda til slíks veltur þó, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurði hennar séu verulegir annmarkar að lögum.
Beiðni Reykjavíkurborgar og Ríkiskaupa um endurupptöku er byggð á því að upplýsingar á bls. 5 í skilmálaskjali, sem þessum stjórnvöldum var gert að afhenda kærendum í máli nr. A-328/2010, varði samningsatriði Austurhafnar TR ehf. við þriðja aðila sem falli utan við gildissvið upplýsingalaga og séu ekki í beinum tengslum við fjárframlög ríkis og borgar. Þarna sé því um að ræða upplýsingar sem séu sama eðlis og aðrar upplýsingar sem synjað er um aðgang að í úrskurðinum á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga.
 
Í 3. gr. upplýsingalaga er kveðið á um upplýsingarétt. Þar er orðuð almenn regla um víðtækan aðgang almennings að gögnum sem eru í vörslum stjórnvalda. Þessi regla sætir þó undanþágum og takmörkunum samkvæmt ákvæðum 4.-6. gr. laganna sem ber að skýra þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum. Hvort þessar reglur um undanþágur og takmarkanir á aðgangi eiga við verður að meta í hverju einstöku tilviki. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 28. janúar sl. var rökstutt hverjar ástæður lægju því til grundvallar að heimila ekki fullan aðgang að svokölluðu skilmálaskjali. Það mat leiddi síðan sjálfkrafa til þess að heimilaður var aðgangur að þeim hlutum skjalsins sem undantekningarregla 5. gr. upplýsingalaga var ekki talin ná til.
 
Af þessu verður ráðið að úrskurðarnefndin tók rökstudda afstöðu til þess hvort, og þá að hvaða marki, kærðum yrði gert skylt að afhenda kærendum umbeðnar upplýsingar og að hvaða leyti ákvæði 5. gr. upplýsingalaga stæði því í vegi. Því verður að hafna að úrskurður úrskurðarnefndarinnar hafi verið haldinn þeim efnislega annmarka sem lögmaður Ríkiskaupa og Reykjavíkurborgar hefur vísað til í máli þessu.

Með vísan til þess sem að framan segir er beiðni um endurupptöku úrskurðarins frá 28. janúar sl. hafnað.

 

2.
Til vara er krafist frestunar á réttaráhrifum úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-328/2010.

Í 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál geti, að kröfu stjórnvalds, ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún sérstaka ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en þremur dögum frá birtingu úrskurðar. Krafa sú sem hér er til úrskurðar barst innan þessa frests. Í athugasemdum við umrædda grein í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 50/1996 segir m.a. svo: „Líta ber á þetta heimildarákvæði sem undantekningu sem aðeins verði beitt þegar sérstaklega stendur á.“

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í úrskurðum A-78/1999C, A-117/2001B, A-233/2006B og A-277/2008B, lagt til grundvallar að með 18. gr. upplýsingalaga hafi fyrst og fremst verið höfð í huga tilvik þar sem í húfi eru tiltölulega mikilvægir hagsmunir, ekki síst hagsmunir einkaaðila, sem gætu verið skertir með óbætanlegum hætti, ef veittur yrði aðgangur að gögnum með upplýsingum um þá, í andstöðu við ákvæði upplýsingalaga eins og þau kynnu síðar að verða skýrð af dómstólum.

Í erindi lögmanns Reykjavíkurborgar og Ríkiskaupa, sem hér er til umfjöllunar, kemur fram almenn athugasemd við þá málsmeðferð úrskurðarnefndar um upplýsingamál, að áður en nefndin kvað upp úrskurð í málinu A-328/2010, hafi umbjóðendum hans og öðrum aðilum ekki verið gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum við nefndina um það hvaða hluta þeirra gagna sem um ræddi ætti að afhenda ef ekki yrði staðfest synjun afhendingar þeirra allra.

Fyrir liggur að úrskurðarnefnd um upplýsingamál gaf kærðu, Reykjavíkurborg, Ríkiskaupum og Austurhöfn TR ehf. tækifæri til að koma að sjónarmiðum sínum í málinu.  Það tækifæri nýttu kærðu sér með bréfum dags. 18. ágúst 2009 og 14. desember 2009 og mótmæltu því alfarið að skjölin yrðu birt. Í því skyni að upplýsa málið var ekki þörf á frekari umsögnum þar sem enginn vafi lék á því hver afstaða framangreindra aðila væri. Enn fremur liggur fyrir að í beiðni um frestun réttaráhrifa hefur lögmaður Reykjavíkurborgar og Ríkiskaupa aðeins vísað til þess að mikilvægt sé að utan upplýsingaréttar sé haldið upplýsingum á bls. 5 í skilmálaskjali sem aðilar undirrituðu og úrskurðarnefndin hefur talið að þeim beri að afhenda.

Úrskurðarnefndin tók í fyrrgreindum úrskurði rökstudda afstöðu til þess hvort þær upplýsingar sem hér um ræðir væru þess eðlis að yrðu þær gerðar opinberar væri veruleg hætta á röskun hagsmuna þeirra einkaaðila sem upplýsingarnarnar vörðuðu, sbr. 5. gr. upplýsingalaga. Ekkert er fram komið sem bendir til að það mat hennar hafi verið rangt, enda bera þær upplýsingar sem heimilaður var aðgangur að  ekkert með sér um fjárhæð lána, lánstíma, vaxtakjör eða annað sem mögulega virðist geta valdið umræddum fyrirtækjum tjóni.

Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefndin ekki vera fyrir hendi lagaskilyrði til þess að fresta réttaráhrifum úrskurðar síns frá 28. janúar sl. Ber því að hafna kröfu [X] hdl. fyrir hönd Reykjavíkurborgar og Ríkiskaupa þar að lútandi.

 

Úrskurðarorð

Beiðni [X] hdl. fyrir hönd Reykjavíkurborgar og Ríkiskaupa um endurupptöku eða leiðréttingu á úrskurði í máli nr. A-328/2010, frá 28. janúar 2010, er hafnað.

Kröfu [X] hdl. fyrir hönd Reykjavíkurborgar og Ríkiskaupa, um að frestað verði réttaráhrifum úrskurðar í máli nr. A-328/2010, frá 28. janúar 2010, er hafnað.

 


Friðgeir Björnsson
formaður

 


                    Helga Guðrún Johnson                                    Trausti Fannar Valsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta