A-348/2010. Úrskurður frá 18. nóvember 2010
ÚRSKURÐUR
Hinn 18. nóvember 2010 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-348/2010.
Kæruefni, málsatvik og málsmeðferð
Með bréfi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 30. september 2010, kærði [X] f.h. [...] ehf., drátt á afgreiðslu Þjóðskrár Íslands á beiðni hans um afhendingu upplýsinga og afrita gagna sem leiddu til ákvörðunar Þjóðskrár Íslands um að breyta skráningu á fasteignamati eignarhluta með fastanúmerin [...] og [...] að [A].
Í kærunni kemur fram að málsmeðferðin sé kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál á grundvelli 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.
Með bréfi, dags. 14. október 2010, var kærandi upplýstur um að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefði móttekið kæru hans. Ekki þótti ástæða til að veita Þjóðskrá Íslands færi á að gera athugasemdir við kæruna.
Niðurstöður
Eins og fram hefur komið lýtur kæra máls þessa að drætti á afhendingu upplýsinga og afrita gagna vegna breytingar á skráningu fasteignamats tveggja eigna. Af gögnum málsins má ráða að eignirnar séu nýbyggingar í eigu kæranda.
Í V. kafla laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna er fjallað um fasteignamat og framkvæmd þess. Í 29. gr. kemur fram að Þjóðskrá Íslands metur fasteignir samkvæmt lögunum. Í 30. gr. kemur fram að Þjóðskrá Íslands skuli hlutast til um að allar nýjar eða breyttar eignir, sem upplýsingar berast um skv. 19. gr., skuli metnar frummati innan tveggja mánaða frá því að upplýsingar um þær bárust. Nýtt mat skal skráð í fasteignaskrá og gildir það með þeim almennu breytingum sem á því geta orðið eða þar til því er hrundið með nýju mati. Í 1. mgr. 31. gr. kemur fram að aðili, sem verulega hagsmuni getur átt af matsverði eignar og sættir sig ekki við skráð mat skv. 29. gr. og 30. gr., geti krafist nýs úrskurðar Þjóðskrár Íslands um matið og í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að Þjóðskrá Íslands getur að eigin frumkvæði endurmetið einstakar eignir í því skyni að tryggja samræmt mat hliðstæðra eigna. Í 3. mgr. 31. gr. kemur fram að ákvæði 13., 14. og 18. gr. stjórnsýslulaga gilda ekki við meðferð mála samkvæmt 30. og 31. gr. laganna. Eiganda skal tilkynnt um nýtt eða breytt fasteignamat og sætti hann sig ekki við ákvörðun fasteignamats getur hann gert skriflega og rökstudda kröfu um endurupptöku máls innan eins mánaðar frá tilkynningu ákvörðunar.
Ákvörðun um fasteignamat skv. lögum nr. 6/2001, með síðari breytingum, er stjórnvaldsákvörðun. Kærandi telst aðili máls vegna umræddra ákvarðana og um rétt hans til aðgangs að umbeðnum upplýsingum fer því eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í upphafi 1. mgr. 15. gr. þeirra laga segir að aðili máls eigi rétt á því að kynna sér skjöl og önnur gögn er málið varði.
Í 2. gr. upplýsingalaga er kveðið á um gildissvið þeirra gagnvart öðrum lögum og þjóðréttarsamningum. Í 1. málslið 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga segir að þau gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993
Með vísan til framangreinds telst málið því ekki kæranlegt til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð
Vísað er frá kæru [X] f.h. [...] ehf. á hendur Þjóðskrá Íslands.
Trausti Fannar Valsson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson