Hoppa yfir valmynd

A-350/2010. Úrskurður frá 20. desember 2010

 

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 20. desember 2010 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-350/2010.

 

 

Kæruefni og málsatvik

Með tölvubréfi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, frá 2. júní 2010, kærði [...] lögfræðingur þá ákvörðun Seltjarnarnesbæjar að synja honum um aðgang að samkomulagi milli Seltjarnarnesbæjar og Íslenskra aðalverktaka hf. um skipti hluta af svokallaðri „Lýsislóð“ og lóðarhluta við Hrólfsskálamel ásamt viðaukum og fylgiskjölum.

 

Í synjun Seltjarnarnesbæjar, sem barst kæranda með tölvubréfi frá 2. júní, kemur fram að ekki sé hægt að verða við erindinu með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og er tekið fram að gagnaðili sveitarfélagsins Íslenskir aðalvertakar hf. líti á málið sem trúnaðarmál.

 

 

Málsmeðferð

Eins og fram hefur komið barst kæra máls þessa úrskurðarnefnd um upplýsingamál með tölvubréfi frá 2. júní.

 

Kæran var send Seltjarnarnesbæ með bréfi, dags. 4. júní. Var Seltjarnarnesbæ veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna til 15. þess mánaðar og til að afhenda úrskurðarnefndinni þau gögn sem kæran lýtur að. Með tölvubréfi lögmanns sveitarfélagsins, frá 7. júlí, var úrskurðarnefndin upplýst um að gagnaðili sveitarfélagsins, Íslenskir aðalverktakar hf., hefðu fallið frá þeirri kröfu sinni að ekki mætti afhenda kæranda samkomulagið. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál var með því tölvubréfi afhent samkomulag milli sveitarfélagsins, Íslenskra aðalverktaka hf., Ármannsfells ehf. og Arion banka hf., dags. 10. maí 2010, um lóðaskipti. 

 

Svör sveitarfélagsins voru kynnt kæranda með tölvubréfi hinn 8. júlí. Sama dag áréttaði hann með tölvubréfi að hann færi einnig fram á viðauka og fylgiskjöl samkomulagsins eins og fram kom bæði í beiðni hans til sveitarfélagsins og kæru til úrskurðarnefndarinnar. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til lögmanns sveitarfélagsins, dags. 9. júlí, var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði afhent þau sjö fylgiskjöl sem tilgreind voru í samkomulaginu.

 

Með tölvubréfi lögmanns sveitarfélagsins frá 21. júlí var úrskurðarnefndin upplýst um að gagnaðili sveitarfélagsins, Íslenskir aðalverktakar hf., legðust gegn afhendingu fylgiskjala 2, 3 og 5 með samkomulaginu og því hafni bærinn afhendingu þeirra með vísan til þess að um trúnaðarupplýsingar sé að ræða. Með tölvubréfinu var úrskurðarnefndinni afhent bréf lögmanns Íslenskra aðalverktaka hf., dags. 20. júlí, vegna málsins og afrit viðaukanna sjö við samkomulagið.

 

Eftirfarandi gögn hafa verið afhent úrskurðarnefndinni vegna málsins:

 

1.      Samkomulag milli Seltjarnarnesbæjar, Íslenskra aðalverktaka hf., Ármannsfells ehf. og Arion banka hf., dags. 10. maí 2010, um lóðaskipti, ásamt eftirfarandi fylgiskjölum:

1.1.   Teikning af lóð við Hrólfsskálamel.

1.2.   Útreikningur á fjárhæðum og eignarhlutföllum sem kom fram í 2. gr. samkomulagsins.

1.3.   Yfirlýsing Arion banka hf. um veðbandalausn af lóðarhluta við Hrólfsskálamel.

1.4.   Veðbókarvottorð fyrir Suðurströnd 2.

1.5.   Afsal fyrir íbúðinni nr. 0102 við Hrólfsskálamel og afsal fyrir öðrum réttindum sem falla til bæjarins skv. samkomulaginu.

1.6.   Samningur um tímabundin afnot af bílastæðum.

1.7.   Eldri teikning sem gerði ráð fyrir tilteknum byggingarreitum.

 

Til einföldunar verður eftir atvikum vísað til framangreindra númera við umfjöllun um skjölin í úrskurði þessum.

 

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila, en úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af þeim við úrlausn málsins.

 

 

Niðurstöður

1.

Eins og fram hefur komið fór kærandi fram á afhendingu samkomulags Seltjarnarnesbæjar, Íslenskra aðalverktaka hf., Ármannsfells ehf. og Arion banka hf., dags. 10. maí 2010, um lóðaskipti, ásamt sjö fylgiskjölum samkomulagsins. Seltjarnarnesbær hefur afhent úrskurðarnefndinni þau gögn sem að framan er getið.

 

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Kæruheimildin er bundin því skilyrði að ágreiningur sé uppi um annað tveggja: skyldu stjórnvalds til að veita aðgang að gögnum eða skyldu þess til að veita aðgang í formi ljósrits af skjölum eða afrits af öðrum gögnum.

 

2.

Með bréfi lögmanns Seltjarnarnesbæjar frá 7. júlí var úrskurðarnefndin upplýst um að gagnaðili sveitarfélagsins, Íslenskir aðalverktakar hf., hefðu fallið frá þeirri kröfu sinni að ekki mætti afhenda kæranda samkomulagið og féll því sveitarfélagið frá synjun sinni um afhendingu skjalsins. Þá var úrskurðarnefndin upplýst með bréfi lögmanns Seltjarnarnesbæjar frá 21. júlí um að bærinn legðist einungis gegn afhendingu fylgiskjala nr. 1.2, 1.3 og 1.5. Þar með hefur sveitarfélagið fallist á afhendingu skjala nr. 1, 1.1, 1.4, 1.6 og 1.7.

 

Stjórnvöldum er heimilt, á grundvelli 3. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1996 að veita aðgang að gögnum í ríkari mæli en kveðið er á um í II. kafla laganna, nema fyrirmæli laga um þagnarskyldu standi því í vegi. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur þau gögn sem um ræðir, skjöl nr. 1, 1.1, 1.4, 1.6 og 1.7, ekki fela í sér upplýsingar sem heimilt sé að undanþiggja aðgangi almennings á grundvelli 4.-6. gr. laganna eða fyrirmæli annarra laga um þagnarskyldu.

 

Með vísan til framangreinds ber Seltjarnarnesbæ að afhenda kæranda eftirfarandi gögn: (1) samkomulag milli sveitarfélagsins, Íslenskra aðalverktaka hf., Ármannsfells ehf. og Arion banka hf., dags. 10. maí 2010, um lóðaskipti, ásamt eftirfarandi fylgiskjölum, (1.1) teikningu af lóð við Hrólfsskálamel, (1.4) veðbókarvottorð fyrir Suðurströnd 2, (1.6) samningi um tímabundin afnot af bílastæðum og (1.7) eldri teikningu sem gerði ráð fyrir tilteknum byggingarreitum.

 

3.

Kærandi byggir kröfu sína um aðgang á ákvæðum II. kafla upplýsingalaga nr. 50/1996. Í 3. gr. þeirra laga segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr.“

 

Seltjarnarnesbær byggir synjun sína á 5. gr. upplýsingalaga sem hljóðar svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“

 

Við beitingu tilvitnaðs ákvæðis verður að hafa í huga að upplýsingalögin gera ráð fyrir að metið sé í hverju og einu tilviki hvort viðkomandi upplýsingar varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi fyrirtækja eða annarra lögaðila að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda þeim tjóni verði þær gerðar opinberar. Við matið verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt það er að það muni verða, verði upplýsingarnar veittar. Við það mat verður ennfremur að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafa fyrir rekstur þeirra lögaðila sem um ræðir á þeim tíma er matið fer fram. Þegar allt þetta hefur verið virt verður að því búnu að meta hvort vegi þyngra á metum hagsmunir viðkomandi aðila eða þeir hagsmunir sem meginreglu 3. gr. upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum er ætlað að tryggja, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 23. mars 2000 í máli nr. 455/1999. Við mat á hagsmunum almennings í þessu tilliti skiptir almennt verulegu máli hvort og þá að hvaða leyti þær upplýsingar sem um ræðir lúta að ákvörðunum um ráðstöfun opinbers fjár og eigna.

 

4.

Eins og fram hefur komið synjaði Seltjarnarnesbær kæranda um afhendingu eftirfarandi gagna: (1.2) útreikninga á fjárhæðum og eignarhlutföllum sem kom fram í 2. gr. samkomulagsins, (1.3) yfirlýsingu Arion banka hf. um veðbandalausn af lóðarhluta við Hrólfsskálamel og (1.5) afsal fyrir íbúðinni nr. 0102 við Hrólfsskálamel og afsal fyrir öðrum réttindum sem falla til bæjarins skv. samkomulagi. Eins og rakið hefur verið er synjun sveitarfélagsins byggð á 5. gr. upplýsingalaga um að óheimilt sé að afhenda almenningi upplýsingar um fjárhags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækja sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið þau gögn sem um ræðir.

 

Skjal 1.2 er útreikningar á fjárhæðum og eignarhlutföllum sem komu fram í 2. gr. samkomulagsins. Um er að ræða útreikninga á þeirri uppgjörsaðferð sem lýst er í 2. gr. skjals nr. 1, þ.e. samkomulagi milli sveitarfélagsins, Íslenskra aðalverktaka hf., Ármannsfells ehf. og Arion banka hf., dags. 10. maí 2010, um lóðaskipti en það skjal hefur sveitarfélagið fallist á að afhenda kæranda. Í skjali 1.2 er um að ræða m.a. upplýsingar um nýtingarhlutfall lóðanna tveggja, byggingarmagn, stærð og fleiri upplýsingar tengdar lóðunum, verðmat, upplýsingar um uppgjörsmöguleika og endanlegt uppgjör. Eins og fram hefur komið felur samkomulag aðila (skjal 1) í sér skipti á lóðunum tveimur á sléttu, þ.e. án þess að greiðsla vegna mismunar á verðgildi lóðanna eigi sér stað. Verður að telja að hagsmunir almennings af því að fá upplýsingar er lúta að ákvörðunum um ráðstöfun opinbers fjár eða opinberra eigna vegi í þessu tilviki þyngra en þeir hagsmunir sem varðir eru af 5. gr. upplýsingalaga. Þær upplýsingar sem um ræðir varða ekki svo mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni þeirra lögaðila sem um ræðir að sanngjarnt sé að þær fari leynt. Sveitarfélaginu ber því að afhenda kæranda skjal 1.2.

 

Skjal 1.3 er yfirlýsing Arion banka hf. um veðbandalausn af lóðarhluta við Hrólfsskálamel. Skjalið inniheldur upplýsingar um lóðina að Suðurströnd 2 á Seltjarnarnesi með landnr. 117871 og Hrólfsmel 2-8. Um er að ræða upplýsingar um stærðir lóða, þau veð sem á lóðunum hvíla o.fl. Í skjalinu koma fram upplýsingar sem annars vegar eru í skjali 1 og hins vegar í skjali 1.4 en sveitarfélagið hefur samþykkt að veita aðgang  að þeim skjölum. Upplýsingar um veð sem hvíla á lóðum eru upplýsingar úr þinglýsingarbókum sýslumanns sem almenningi eru aðgengilegar og geta þær því ekki falið í sér upplýsingar sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari og fela þær aukinheldur ekki í sér upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni fyrirtækis í skilningi 5. gr. upplýsingalaga. Aðrar upplýsingar í skjali 1.3, s.s. um lóðirnar sjálfar og veðbandalausn þeirra, eru ekki  upplýsingar sem leynt eiga að fara í skilningi ákvæðisins. Sveitarfélaginu ber því að afhenda kæranda skjal 1.3.

 

Skjal 1.5 er afsal fyrir íbúðinni nr. 0102 við Hrólfsskálamel og afsal fyrir öðrum réttindum sem falla til bæjarins skv. samkomulagi. Skjalið inniheldur að hluta til sömu upplýsingar og skjal 1.3, fyrir utan 3. gr. skjalsins. Sú grein felur í sér upplýsingar um afsal eignarréttinda Ármannsfells ehf. til sveitarfélagsins en um er að ræða að mestu sömu upplýsingar og fram koma í skjali 1. Aðrar upplýsingar í skjalinu eru ekki þess eðlis að undanþiggja eigi þær upplýsingarétti almennings á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga. Sveitarfélaginu ber því að afhenda kæranda skjal 1.5.

 

Með vísan til framangreinds ber Seltjarnarnesbæ að afhenda kæranda eftirfarandi gögn:  (1.2) útreikninga á fjárhæðum og eignarhlutföllum sem kom fram í 2. gr. samkomulagsins, (1.3) yfirlýsingu Arion banka hf. um veðbandalausn af lóðarhluta við Hrólfsskálamel og (1.5) afsal fyrir íbúðinni nr. 0102 við Hrólfsskálamel og afsal fyrir öðrum réttindum sem falla til bæjarins skv. samkomulagi.  

 


Úrskurðarorð

Seltjarnarnesbæ ber að afhenda kæranda [...] eftirfarandi gögn: 1) samkomulag milli sveitarfélagsins, Íslenskra aðalverktaka hf., Ármannsfells ehf. og Arion banka hf., dags. 10. maí 2010, um lóðaskipti, ásamt eftirfarandi fylgiskjölum, 2) teikningu af lóð við Hrólfsskálamel, 3) veðbókarvottorð fyrir Suðurströnd 2, 4) samning um tímabundin afnot af bílastæðum, 5) eldri teikningu sem gerði ráð fyrir tilteknum byggingarreitum, 6) útreikninga á fjárhæðum og eignarhlutföllum sem kom fram í 2. gr. samkomulagsins, 7) yfirlýsingu Arion banka hf. um veðbandalausn af lóðarhluta við Hrólfsskálamel og 8) afsal fyrir íbúðinni nr. 0102 við Hrólfsskálamel og afsal fyrir öðrum réttindum sem falla til bæjarins skv. samkomulagi.  

 

 Trausti Fannar Valsson

formaður

 

 Sigurveig Jónsdóttir                                                                                           Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta