Hoppa yfir valmynd

A-351/20110. Úrskurður frá 10. janúar 2011

 

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 10. janúar 2011 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-351/2010.

 

Kæruefni og málsatvik

Með bréfi, dags. 11. febrúar 2010, kærði [X] hdl. fyrir hönd [...] hdl. þá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 18. janúar, að synja honum afhendingar gagna um aðdraganda þess að Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki hf. var færður undir skilanefnd á vegum Fjármálaeftirlitsins.

 

Forsaga málsins er sú að með bréfi, dags. 8. janúar 2010, fór umbjóðandi kæranda fram á það í umboði Samson Global Holdings S.à.r.l. að honum yrði veittur aðgangur að nánar tilgreindum gögnum í vörslu Fjármálaeftirlitsins síðustu mánuði og vikur áður en Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki var settur undir skilanefnd á grundvelli laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.

 

Umbjóðandi kæranda hafði með bréfi, dags. 20. október 2009, óskað eftir sömu gögnum en Fjármálaeftirlitið hafnaði afhendingu gagnanna með bréfi, dags. 3. nóvember s.á. Í beiðninni frá 8. janúar sl. kemur eftirfarandi fram:

 

„Með bréfi dagsettu 20. október 2009 óskaði ég eftir sömu upplýsingum og tíundaðar eru hér að neðan, en Fjármálaeftirlitið hafnaði beiðni minni með bréfi dagsettu 3. nóvember.

 

Hef ég nú fengið umboð Samson Global Holdings S.à.r.l., 16, rue Jean l'Aveugle, L-1148, Lúxemborg, en umrætt félag var langstærsti hluthafinn í Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka hf. og réð fyrir 32,31% hlut. Umrætt umboð er hér meðfylgjandi undirritað af stjórnarmönnunum [A] og [B].“

 

Í fyrri beiðni kæranda, dags. 20. október 2009, eru þau gögn sem óskað er eftir afmörkuð með eftirfarandi hætti:

 

„Ég óska hér með formlega eftir því að fá aðgang að skjölum; minnisblöðum, bréfum, skýrslum o.þ.h. í vörslu Fjármálaeftirlitsins er varða samskipti eftirlitsins við Straum-Burðarás frá síðastliðnum áramótum og fram til 9. mars er Straumur var settur undir skilanefnd. Sér í lagi óska ég eftir gögnum sem eru dagsett frá 4. til 9. mars og kunna að varpa ljósi á þá ákvörðun sem tekin var.

 

Til nánari skýrgreiningar á þeim gögnum sem hér um ræðir þá óska ég eftir upplýsingum um fund stjórnenda Straums með [C] og [D] kl. 11:30 að morgni 5. mars 2009. Þá óska ég eftir vitneskju um það (og eftir atvikum gögnum) hvort Fjármálaeftirlitið hafi átt samskipti við breska systurstofnun sína, British Financial Services Authority, fyrir umræddan fund. Einnig óska ég eftir aðgangi að upplýsingum um samskipti þessara stofnana á þeim drögum sem í hönd fóru.

 

Þá óska ég eftir upplýsingum/minnisblöðum eða öðrum gögnum um fund sem [C] átti með stjórnendum Straums kl. 15:00 laugardaginn 6. mars 2009, en á þeim fundi sátu jafnframt fulltrúar Seðlabanka Íslands, fjármálaráðuneytis og viðskiptaráðuneytis. Sömuleiðis óska ég eftir upplýsingum um fund [C] og [E] með stjórnendum Straums kl. 16:00 sunnudaginn 8. mars 2009, en þann fund sátu jafnframt [F] og [G]. Einnig óska ég eftir upplýsingum um samskipti stjórnenda Straums og Fjármálaeftirlitsins fram eftir kvöldi 8. mars og aðfaranótt 9. mars. Sér í lagi fer ég fram á upplýsingar um það hvar og hvenær ákvörðun var tekin um að setja skilanefnd yfir bankann og hvernig staðið var að þeirri ákvörðun, þar á meðal hverjir tóku umrædda ákvörðun og þá hvort embættismenn annarra stofnana hafi átt hlut að máli.

 

Ég óska einnig eftir upplýsingum um fund stjórnenda Straums með fulltrúum Fjármálaeftirlitsins í húsakynnum eftirlitsins kl. 4:00 að morgni mánudagsins 9. nóvember.“

 

Fjármálaeftirlitið synjaði fyrri beiðni kæranda með bréfi, dags. 3. nóvember 2009. Í synjuninni kemur m.a. fram:

 

„Beiðni yðar snýr að aðgangi að gögnum sem hafa að geyma upplýsingar um fjárhags- og viðskiptamálefni Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf. og falla eðli málsins samkvæmt undir þagnarskylduákvæði Fjármálaeftirlitsins [13. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi]. Eftirlitsskyldir aðilar sem og aðrir sem Fjármálaeftirlitið á samskipti við verða að geta treyst því að slíkar upplýsingar og gögn sem eftirlitið kann að afla eða hefur undir höndum séu háðar trúnaði. Slíkur trúnaður er forsenda skilvirks eftirlits Fjármálaeftirlitsins.

 

Þegar litið er til 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 telur Fjármálaeftirlitið að þær upplýsingar sem þér óskið eftir og varða fjárahags- og viðskiptamálefni Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf., séu þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt með vísan til þagnarskylduálkvæðis 13. gr. laga nr. 87/1998 og 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

 

Af ofangreindu virtu synjar Fjármáleftirlitið ósk yðar um aðgang að umbeðnum gögnum.“

 

Fjármálaeftirlitið synjaði síðari beiðni kæranda með bréfi, dags. 18. janúar sl. Er sú synjun kærð í þessu máli. Í bréfinu kemur m.a. fram:

 

„Í bréfi yðar, dags. 8. janúar 2009, segir eftirfarandi: „Með bréfi dagsettu 20. október 2009 óskaði ég eftir sömu upplýsingum og tíundaðar eru hér að neðan, en Fjármálaeftirlitið hafnaði beiðni minni með bréfi dagsettu 3. nóvember.“ Þá kemur einnig fram í bréfinu að þér hafið nú fengið umboð Samson Global Holding, stærsta hluthafa Straums-Burðaráss, er réð yfir 34,31% hlut í félaginu. Meðfylgjandi bréfinu var jafnframt umboð undirritað af stjórnarmönnunum [A] og [B].

 

Fjármálaeftirlitið bendir á að ofangreint umboð Samson Global Holding yður til handa, breytir því ekki að þegar litið er til 3. gr. upplýsingalaganna nr. 50/1996 telur Fjármálaeftirlitið að þær upplýsingar sem þér óskið eftir og varða fjárhags- og viðskiptamálefni Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf., séu þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt með vísan til þagnarskylduákvæðis 13. gr. laga nr. 87/1998 og 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

 

Með vísan til framangreinds telur Fjármálaeftirlitið, m.t.t. þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir, að ekki sé ástæða til að breyta fyrri ákvörðun eftirlitsins í þessu máli, sbr. bréf dags. 3. nóvember sl., er varðar synjun á ósk yðar um aðgang að umbeðnum gögnum.“

 

Málsmeðferð

Eins og áður var rakið barst kæra máls þessa með bréfi, dags. 11. febrúar sl. Í kærunni kemur eftirfarandi m.a. fram:

 

„Umbjóðandi minn telur að jafnvel þó þau lagaákvæði sem FME byggir synjun sína á kunni að koma í veg fyrir afhendingu einhverra gagna (að hluta eða heild sinni í óbreyttri mynd) þá geti þau seint komið í veg fyrir afhendingu allra þeirra gagna sem FME hefur í fórum sínum og tengdust beiðni umbjóðanda míns. Í ákvörðun FME segir að þær upplýsingar sem óskað var eftir séu þess eðlis að sanngjarnt og eðlilegt sé að þær fari leynt með vísan til þagnarskylduákvæðis 13. gr. laga nr. 87/1998 og 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

 

Ef synjun FME byggir á að vernda hagsmuni Straums bendir umbjóðandi minn á eftirfarandi atriði máli sínu til stuðnings.

 

Í fyrsta lagi væri hægt að leita eftir samþykki Straums fyrir slíkri afhendingu, enda er beinlínis tekið fram í nefndri 5. gr. upplýsingalaga að takmarkanir gildi ekki liggi slíkt samþykki fyrir. Leiða má líkur að því að Straumur myndi fagna slíkri afhendingu enda hafi félagið og kröfuhafar þess litlar eða engar upplýsingar fengið um grundvöll og ástæður yfirtöku FME.

 

Í öðru lagi má benda á (eins og nefndin hefur gert í úrskurðum sínum) að í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er m.a. tekið fram til skýringar á 5. gr. laganna að óheimilt sé að veita almenningi viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu fyrirtækja eða aðra viðskiptahagsmuni þeirra. Straumur hefur verið undir stjórn skilanefndar í tæpt ár og því ekki haft eiginlegan bankarekstur undir höndum og eru litlar líkur á því að svo verði í framtíðinni. Það er því vandséð hvernig afhending gagna um aðdraganda skipunar skilanefndar geti varðað svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni félagsins, að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda því tjóni þótt veittur yrði aðgangur að þeim.

 

Í þessu sambandi má benda á 4. mgr. tilvitnaðrar 13. gr. laga nr. 87/1998 en þar segir að þegar þvinguð eru fram slit á eftirlitsskyldum aðila er heimilt við rekstur einkamála að upplýsa um atriði sem þagnarskylda gildir annars um skv. 1. mgr. greinarinnar. Af þessu má sjá að hagsmunir þeir sem þessum þagnarskylduákvæðum er ætlað að vernda eru að miklu leyti horfnir þegar félag er í slitameðferð.

 

Í þriðja lagi má benda á að í 7. gr. upplýsingalaga segir að eigi takmarkanir 4. – 6. gr. aðeins við um hluta skjals skal veita aðgang að öðru efni skjalsins.

 

Ef synjun FME byggist á því að vernda hagsmuni þriðju aðila (t.d. viðskiptamanna Straums) þá bendir umbjóðandi minn á að 3. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 segir að upplýsingar sem bundnar eru þagnarskyldu megi veita í samandregnu formi þannig að einstakir aðilar séu ópersónugreinanlegir. Þá bendir umbjóðandi minn einnig á áðurnefnda 7. gr. upplýsingalaga í þessu sambandi.

 

Umbjóðandi minn telur synjun FME ólögmæta. Umbjóðandi minn bendir á að staða hans sem stærsta hluthafa í Straumi er afar erfið hvað varðar öflun upplýsinga varðandi yfirtökuna. Undir venjulegum kringumstæðum gæti Straumur óskað eftir rökstuðningi og gögnum málsins í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga en með ákvæðum laga nr. 125/2008 voru slík úrræði afnumin. Þar að auki hefur hann ekki lengur aðkomu að stjórnun Straums eftir yfirtöku FME á félaginu og getur því ekki leitað leiða með atbeina félagsins sjálfs. Verði fallist á að FME sé heimilt að synja algerlega um afhendingu gagna varðandi aðdraganda yfirtökunnar er ljóst að umbjóðanda mínum er nauðugur sá einn kostur að höfða mál fyrir dómstólum vilji hann freista þess að afla upplýsinga um ástæður beitingar þessa viðurhlutamikla úrræðis FME skv. lögum nr. 125/2008.“

 

Kæran var send Fjármálaeftirlitinu með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. febrúar, og því veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna til 26. febrúar. Óskaði úrskurðarnefndin jafnframt eftir því að henni yrðu látin í té afrit af umbeðnum gögnum innan sama frests. Fjármálaeftirlitinu var veittur aukinn frestur til athugasemda til 5. mars og bárust athugasemdir þess þann dag. Í athugasemdum Fjármálaeftirlitsins kom m.a. fram:

 

„Hin umdeildu gögn í málinu varða Straum-Burðarás fjárfestingabanka hf. (Straum). Gögnin eru eftirfarandi:

 

1.   Margvísleg gögn um samskipti Fjármálaeftirlitsins og Straums 1. janúar 2009 til 9. mars sama ár.

2.   Upplýsingar um samskipti við breska fjármálaeftirlitið, FSA.

3.   Upplýsingar um „samskipti stjórnenda Straums og Fjármálaeftirlitsins fram eftir kvöldi 8. mars og aðfararnótt [sic] 9. mars“.

4.   Upplýsingar „hvar og hvenær ákvörðun var tekin um að setja skilanefnd yfir bankann og hvernig staðið var að þeirri ákvörðun, þar á meðal hverjir tóku umrædda ákvörðun og þá hvort embættismenn annarra stofnana hafi átt hlut að máli“. Sjá meðfylgjandi fundargerð stjórnar Fjármálaeftirlitsins, dags. 8. mars 2009, og fylgigögn með fundargerð.

 

Framangreind gögn eru hjálögð með bréfi þessu í trúnaði að beiðni úrskurðarnefndarinnar.

 

Rétt er að árétta að Fjármálaeftirlitið hefur ekki undir höndum hluta þeirra upplýsinga sem óskað var eftir. Stofnunin getur því ekki orðið við beiðni um afhendingu þeirra. Ítarlegri rökstuðning varðandi þetta atriði er að finna hér á eftir. Þetta á við um beiðni kærenda um eftirfarandi gögn:

 

1. Upplýsingar um „fund stjórnenda Straums með [C] og [D] kl. 11:30 að morgni 5. mars 2009“.

2.   Upplýsingar, minnisblöð eða önnur gögn um „fund [C] með stjórnendum Straums kl. 15:00 laugardaginn 6. [sic] mars 2009“.

3.   Upplýsingar um „fund [C] og [E]  með stjórnendum Straums kl. 16:00 sunnudaginn 8. mars 2009“.

4.   Upplýsingar um „fund stjórnenda Straums með fulltrúum Fjármálaeftirlitsins í húsakynnum eftirlitsins kl. 4:00 að morgni mánudagsins 9. nóvember [sic]“.

 

Beiðni kærenda snýr að aðdraganda og skipun skilanefndar fyrir fjármálafyrirtækið Straum-Burðarás fjárfestingabanka hf. (Straumur) á grundvelli 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki (ffl.). Nauðsynlegt er að hafa í huga að þetta ákvæði kom inn í lögin með 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., en þau lög hafa í daglegu tali verið nefnd neyðarlögin. Ákvæðið er í dag að finna lítið breytt í bráðabirgðaákvæði VI. í lögum um fjármálafyrirtæki. Í 8. mgr. ákvæðisins segir:

 

„Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um málsmeðferð og ákvarðanatöku Fjármálaeftirlitsins samkvæmt þessari grein.“

 

Á grundvelli þágildandi 100. gr. a ffl. tók Fjármálaeftirlitið stjórnvaldsákvörðun 8. mars 2009 er sneri að því að taka yfir vald hluthafafundar Straums eftir að ljóst varð að fyrirtækið gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Skipaði Fjármálaeftirlitið Straumi skilanefnd í kjölfarið. Þess skal getið að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var gerð opinber 9. mars 2009 og var afrit hennar sent [H] 3. nóvember 2009 í tilefni af fyrri beiðni hans til stofnunarinnar. Í ákvörðuninni kemur m.a. fram að stjórn Fjármálaeftirlitsins hafi tekið ákvörðunina en þetta svarar einni af þeim spurningum sem kærendur hafa borið upp í málinu.

 

Með vísan til þágildandi 8. mgr. 100. gr. a ffl. gilti IV.-VII. kafli stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ekki um framangreinda stjórnvaldsákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Ákvæði um upplýsingarétt aðila að stjórnsýslumáli er að finna í IV. kafla stjórnsýslulaganna. Þar af leiðandi getur sá sem telst eiga aðild að því stjórnsýslumáli ekki krafist upplýsinga um málið á grundvelli stjórnsýslulaga. Að sama skapi getur slíkur aðili ekki veitt öðrum umboð til þess að kalla eftir slíkum upplýsingum, enda getur hann ekki veitt öðrum ríkari rétt en hann nýtur sjálfur að lögum. Þetta sjónarmið verður að hafa í huga þegar virt er umboð Samson Global Holding S.à.r.l. sem liggur fyrir í gögnum málsins.

 

Við mat á ósk um aðgang að gögnum er mikilvægt að kanna lagagrundvöll beiðni um upplýsingar. Sá grundvöllur getur verið þrenns konar. Þannig getur beiðni um upplýsingar byggst á 15. gr. stjórnsýslulaga, 9. gr. upplýsingalaga eða 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, sbr. rit Páls Hreinssonar, Upplýsingalögin, bls. 28. Páll bendir á að mikilvægt sé að greina á milli þessara heimilda. Segir hann að ástæðan fyrir þessu sé eftirfarandi: „[...] ákvæði 15. gr. stjórnsýslulaga veita mun víðtækari upplýsingarétt en hin ákvæðin [1. mgr. 3. gr. og 9. gr. uppl.]. Þá veitir 9. gr. uppl. oft víðtækari upplýsingarétt en 1. mgr. 3. gr. uppl.“

 

Í stjórnsýslurétti hefur aðild verið skilgreind með rúmum hætti þannig að þeir sem eiga beina, verulega, sérstaka og lögvarða hagsmuni teljist aðilar máls, sbr. einnig dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 83/2003 frá 19. júní 2003. Í málinu komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Samskip  hf. gætu notið aðildar að stjórnsýslumáli sem varðaði rannsókn á meintum samkeppnisbrotum Eimskipafélags Íslands hf. Um aðild að stjórnsýslumálinu sagði Hæstiréttur m.a.:

 

„Eins og fram kemur í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem hér er fjallað um, gefa lögskýringargögn til kynna að aðildarhugtak í stjórnsýslumálum beri að skýra rúmt, þannig að ekki sé einungis átt við þá, sem eiga beina aðild að máli heldur einnig þá sem hafa óbeinna hagsmuna að gæta. Ekki er til einhlítur mælikvarði í þessum efnum og líta ber til hvers tilviks fyrir sig. Almennt er sá talinn aðili að máli, sem á einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta. Þannig eru þeir, sem bera fram kærur eða kvartanir yfirleitt taldir aðilar að stjórnsýslumáli, enda eigi þeir slíkra hagsmuna að gæta við úrlausn þess.

     Þegar þetta er metið er og óhjákvæmilegt að litið sé til hagsmuna annarra, sem að málinu koma. Eins og áður er að vikið leiðir aðild að stjórnsýslumáli til þess að viðkomandi á almennt rétt til að kynna sér skjöl og önnur gögn, er málið varða. Hagsmunir annarra geta hins vegar staðið til þess að aðgangur að gögnum verði takmarkaður. [Undirstrikun höfundar.]“

 

Líkt og Hæstiréttur bendir á kann upplýsingaréttur aðila máls að sæta lögbundnum takmörkunum. Lögmaður kærenda lýsti því yfir í stjórnsýslukæru sinni að Samson Global Holding S.à.r.l., sem er annar kærenda í máli þessu, hefði uppfyllt skilyrði aðildar að því stjórnsýslumáli sem fól í sér skipun skilanefndar til handa Straumi. Teljist maður aðili stjórnsýslumáls, þ.e. aðili máls þar sem tekin hefur verið eða ætlunin er að taka stjórnvaldsákvörðun, bls. 209. fer um upplýsingarétt hans eftir stjórnsýslulögum en ekki upplýsingalögum, sbr. 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga (Sjá Pál Hreinsson: „Upplýsingaréttur aðila máls“. Úlfljótur, 2. tbl. 60. árgangur 2007). Þar segir:

 

„Lögin gilda ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum“

 

Þar sem aðgangur á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga á ekki undir úrskurðarnefndina, upplýsingaréttur aðila að þeim stjórnvaldsákvörðunum sem teknar voru á grundvelli neyðarlaganna er takmarkaður og loks með hliðsjón af 14. gr. upplýsingalaga þar sem kveðið er á um kæruheimild á grundvelli laganna er ljóst að beiðni kærenda um upplýsingar og þar með kæra þeirra í málinu getur einungis grundvallast á upplýsingalögum. Ætla verður að þegar neyðarlögin voru samþykkt á Alþingi hafi löggjafinn haft í huga þau viðurkenndu sjónarmið sem Páll Hreinsson setti fram í kennsluriti sínu, Upplýsingalögin, sem reifuð voru hér að framan og fela í sér að aðili stjórnsýslumáls eigi víðtækari rétt til upplýsinga en aðrir. Hér verður einnig að huga að því að neyðarlögunum verður seint líkt við almenna löggjöf sem túlka beri til samræmis við önnur lög. Mun nærtækari skýring er að um sérlög sé að ræða á fjármálamarkaði og að önnur lög beri að túlka til samræmis við neyðarlögin, sbr. lögskýringarregluna lex specialis, en samkvæmt henni ganga sérlög framar almennari lögum ef ákvæði þeirra eru ekki samrýmanleg. Fjármálaeftirlitið telur að þetta sjónarmið eigi einnig við gagnvart lögum sem almennt hafa verið túlkuð sem sérlög á tilteknu sviði, sbr. upplýsingalögin. Neyðarlögin teljast því sérlög gagnvart upplýsingalögum. Þar með standa ekki rök til þess að kærendur geti kallað eftir gögnum sem aðili stjórnsýslumáls getur ekki kallað eftir, en aðili telst eiga víðtækasta upplýsingarétt sem byggt verður á. Önnur niðurstaða væri í andstöðu við þau neyðarsjónarmið sem búa að baki neyðarlögunum og hefði slíkt þau áhrif að ákvæði þeirrar sérlöggjafar næðu ekki tilgangi sínum. Í málatilbúnaði kærenda kemur fram að Samson Global Holding S.à.r.l. hafi sem hluthafa í Straumi reynst erfitt að óska eftir gögnum máls þar sem upplýsingaréttur aðila samkvæmt stjórnsýslulögum hafi verið afnuminn með neyðarlögunum. Segir að krafa kærenda byggist því á upplýsingalögum. Ekki verður um það deilt að ef kærendur geta aflað sér gagna á grundvelli upplýsingalaga sem þeim er meinaður aðgangur að samkvæmt neyðarlögum þá ná neyðarlögin ekki tilgangi sínum.

 

Fallist úrskurðarnefndin ekki á framangreind rök telur Fjármálaeftirlitið að nefndinni beri samt sem áður að hafna beiðninni á grundvelli eftirfarandi sjónarmiða. Ljóst er að beiðni um aðgang að upplýsingum á grundvelli upplýsingalaga getur aðeins byggst á tveimur ákvæðum laganna, þ.e. 1. mgr. 3. gr. og 9. gr. Fjármálaeftirlitið lítur svo á að í báðum tilvikum beri að synja kærendum um aðgang að hinum umdeildu gögnum.

 

Í 9. gr. upplýsingalaga er kveðið á um að stjórnvöldum sé skylt að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að upplýsingalögum sagði m.a. um 9. gr. laganna:

 

  „Í 1. mgr. er upplýsingarétturinn skilgreindur á svipaðan hátt og upplýsingaréttur skv. 3. gr. en því bætt við að skjöl eða önnur gögn, sem óskað er eftir aðgangi að, skuli hafa að geyma upplýsingar um aðila sjálfan. Aðili í þessum skilningi getur verið jafnt einstaklingur sem lögaðili. [Undirstrikun höfundar.]“

 

Eins og ráða má af framangreindu heimilar 9. gr. upplýsingalaga aðila einungis að kalla eftir upplýsingum um sjálfan sig. Upplýsingarnar sem um ræðir í þessu máli fjalla um lögaðilann Straum. Í þessu samhengi skal þess getið að fyrirtækið er enn með starfsleyfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Í hinum umbeðnu gögnum er ekki minnst á [H] eða Samson Global Holding S.à.r.l. Orðlagið „aðila sjálfan“ verður ekki skýrt með þeim hætti að annar aðili en Straumur-Burðarás fjárfestingabanki hf. geti kallað eftir þeim upplýsingum. Önnur skýring væri ótæk auk þess sem það skapaði varhugavert fordæmi ef menn gætu byggt á ákvæðinu varðandi upplýsingar um aðra en sjálfan sig. Af þessari ástæðu ber að hafna beiðni kærenda, þ.e.a.s. ef beiðni þeirra byggist á 9. gr. upplýsingalaga.

 

Eftir stendur hvort kærandi geti byggt á 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, sbr. lög nr. 161/2006. Í ákvæðinu segir:

 

„[Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr. Stjórnvöldum er þó ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr.]1)

 

Mikilvægt er að hafa í huga að ákvæðinu er ætlað að tryggja almenningi ákveðinn lágmarksaðgang að upplýsingum án þess að þurfa að rökstyðja hagsmuni af þeirri beiðni sinni. Þetta ákvæði gengur eins og áður segir skemmst af þeim ákvæðum sem hægt er að byggja kröfu um upplýsingarétt á, sbr. rit Páls Hreinssonar, Upplýsingalögin, bls. 28. Virða ber sjónarmið um meinta hagsmuni kærenda af því að fá upplýsingar í þessu ljósi.

 

Upphaflega var 1. mgr. 3. gr. orðuð með öðrum hætti en ákvæðið að ofan greinir. Ákvæðinu var hins vegar breytt með lögum nr. 161/2006. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna sagði m.a. um þetta ákvæði:

 

„Af framansögðu leiðir að þegar beðið er um aðgang að tilteknum gögnum verður erindið að tengjast tilteknu máli. Þessi niðurstaða byggist einnig á fyrirmyndum upplýsingalaganna. Í athugasemdum við 10. gr. frumvarps þess er varð að upplýsingalögum er tekið fram að gengið sé út frá sömu tilhögun og fram kemur í norsku og dönsku upplýsingalögunum um þetta efni. Þannig sagði svo í 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. þeirra norsku upplýsingalaga, sem voru í gildi, þegar frumvarp það var samið, er varð að upplýsingalögum, nr. 50/1996: „Enhver kan hos vedkomennde forvaltningsorgan kreve å få gjøre seg kjent med det offentlige innholdet av dokumenter i en bestemt sak.“

    Þá leiðir af sama áskilnaði að gögn sem 1. mgr. 3. gr. tekur til eru eingöngu þau sem til eru þegar beiðni um þau er afgreidd. Þessi regla leggur því ekki á stjórnvöld skyldu til að útbúa ný gögn til að geta orðið við beiðni, þ.e. ekki umfram það sem leiðir af skyldu skv. 7. gr. laganna til að veita aðgang að þeim hluta gagna sem undanþága eða takmörkun tekur ekki til, ef því er að skipta. Tilskipun (EB) nr. 2003/98 gerir heldur ekki kröfur umfram þetta.

    Þar sem misskilnings hefur gætt um framangreind atriði við framkvæmd upplýsingalaganna er í 1. og 2. gr. frumvarpsins lagt til að 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 10. gr. laganna verði orðaðar skýrar að þessu leyti.

    Að því er síðastnefnt atriði varðar er í 1. gr. frumvarpsins lagt til að á því verði hnykkt á tvo vegu í 1. mgr. 3. gr. Annars vegar með því að tiltaka að greinin taki einvörðungu til fyrirliggjandi gagna í vörslu stjórnvalda og hins vegar með því að taka upp sérstakt ákvæði um að á stjórnvöld verði ekki lögð skylda til að útbúa ný gögn sérstaklega til að verða við beiðni. [Undirstrikun höfundar.]“

 

Af framangreindri lagabreytingu leiðir að Fjármálaeftirlitinu ber ekki að útbúa ný gögn og að ef svo ólíklega vildi til að um skyldu til afhendingar á einhverjum gögnum yrði að ræða þá stæði slík skylda einungis til fyrirliggjandi gagna. Í upphafi þessa bréfs var grein gerð fyrir því að Fjármálaeftirlitið hefði ekki öll þau gögn undir höndum sem kærendur óska aðgangs að í víðtækri beiðni sinni. Með hliðsjón af framangreindum rökum er stofnuninni því ómögulegt að verða við því að afhenda umrædd gögn.

 

Þá skal þess getið að heimild manna til að kalla eftir upplýsingum á grundvelli 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga sætir takmörkunum samkvæmt öðrum ákvæðum upplýsingalaga. Í þessu máli eiga takmarkanir samkvæmt 5. og 6. gr. laganna við.

 

Eins og úrskurðarnefndin getur staðreynt eru þær upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið hefur afhent nefndinni í trúnaði afar viðkvæmar. Um er að ræða upplýsingar frá Straumi til Fjármálaeftirlitsins um eignasafn bankans, hugsanlega afskriftaþörf, eiginfjárstöðu, lausafjárstöðu og innlán. Slíkar upplýsingar uppfylla það skilyrði 5. gr. upplýsingalaga að varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja. Athuga ber einnig að í gögnunum er einnig minnst á viðskiptamenn Straums en þeir njóta einnig verndar samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga og 1. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

 

Varðandi fundargerð stjórnar Fjármálaeftirlitsins 8. mars 2008 skal þess getið að þar eru ýmis viðkvæm mál rædd sem ekki varða beiðni kærenda. Snerta sum þeirra önnur fjármálafyrirtæki og samskipti við erlendar ríkisstofnanir. Ef svo ólíklega vildi til að veittur yrði aðgangur að því skjali telur Fjármálaeftirlitið nauðsynlegt að sá aðgangur verði takmarkaður að því er varðar þær trúnaðarupplýsingar sem koma fram í fundargerðinni og snerta Straum ekki að neinu leyti.

 

Til viðbótar við framangreind rök bendir Fjármálaeftirlitið á að 2. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi (oefl.) á einnig við í málinu. Í ákvæðinu kemur fram að upplýsingar sem háðar eru þagnarskyldu samkvæmt sérlögum eða öðrum lögum skuli háðar sambærilegri þagnarskyldu þegar þær hafa verið afhentar Fjármálaeftirlitinu. Nokkur hluti þeirra gagna sem um ræðir varðar eins og áður segir ekki aðeins Straum heldur einnig viðskiptamenn fyrirtækisins. Falla þau gögn tvímælalaust undir 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Skilyrði fyrir þagnarskyldu samkvæmt 2. mgr. 13. gr. oefl. eru því uppfyllt.

 

Lögmaður kærenda heldur því fram að leita mætti samþykkis Straums fyrir veitingu upplýsinga á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga. Hér er þó um að ræða misskilning hjá lögmanninum því eins og rakið hefur verið hér að framan voru aðilar að stjórnsýslumálum á grundvelli neyðarlaga sviptir upplýsingarétti sínum með sömu lögum. Sú lögskýring að aðili máls sem ekki hefur heimild til þess að kalla eftir upplýsingum geti samt sem áður veitt samþykki sitt fyrir því að öðrum verði veittar slíkar upplýsingar er ótæk.

 

Hér mætti einnig að líta til 5. mgr. 13. gr. oefl. Þar segir:

 

„Opinber umfjöllun af hálfu þess aðila sem þagnarskyldunni er ætlað að vernda um trúnaðarupplýsingar veitir starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins eða sérfræðingum sem starfa eða starfað hafa á vegum þess ekki heimild til að láta af hendi trúnaðarupplýsingar.“

 

Þetta sýnir glöggt hversu sterka þagnarskyldu 13. gr. oefl. felur í raun í sér.

 

Hér að framan var rakið að sjónarmið lögmanns kærenda um samþykki fyrir veitingu upplýsinga á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga séu ekki á rökum reist. Í sömu umfjöllun staðhæfir lögmaðurinn að Straumur og kröfuhafar félagsins hafi fengið „litlar sem engar upplýsingar um grundvöll og ástæður“ ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins. Þetta er ekki aðeins villandi heldur beinlínis rangt. Líkt og þegar hefur verið getið var ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um beitingu neyðarlaganna gagnvart Straumi gerð opinber daginn eftir að hún var tekin auk þess sem þar er að finna rökstuðning fyrir ákvörðuninni. Þar kemur m.a. fram að Fjármálaeftirlitinu hafi borist bréf frá Straumi 8. mars 2009 þar sem því var lýst að fyrirtækið þyrfti að standa skil á skuldbindingum að fjárhæð 33 milljónir evra 9. sama mánaðar en Straumur hefði aðeins handbært fé að fjárhæð 15,3 milljónir evra. Einnig hafi sagt í bréfi Straums að það sé mat fyrirtækisins að ekki sé raunhæfur kostur að afla þess fjár sem nauðsynlegt sé til þess að tryggja áframhaldandi starfsemi og að ákveðið hefði verið að óska eftir heimild til greiðslustöðvunar að morgni 9. mars. Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins er tekið fram að stofnunin hafi með hliðsjón af framangreindu bréfi Straums litið svo á að skilyrði fyrir beitingu 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki (ffl.) væru uppfyllt. Fram kemur að stjórn Fjármálaeftirlitsins hafi tekið ákvörðun um að taka yfir vald hluthafafundar Straums og skipa fyrirtækinu skilanefnd. Ekki er því hægt að fallast á fullyrðingar lögmanns kærenda um að engar upplýsingar liggi fyrir um grundvöll og ástæður ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins.

 

Í málatilbúnaði sínum heldur lögmaður kærenda því fram að undanþágur 5. gr. upplýsingalaga frá upplýsingarétti almennings eigi ekki við í málinu þar sem Straumur hafi ekki haft „eiginlegan bankarekstur með höndum“ í tæpt ár. Hér verður að árétta að Straumur er enn með starfsleyfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

 

Fjármálaeftirlitið hefur tekið mið af 7. gr. upplýsingalaga um aðgang að hluta af gögnum máls og telur að ákvæðið leiði ekki til annarrar niðurstöðu en stofnunin hefur þegar komist að í máli kærenda.

 

Loks verður að hafa í huga að auk þeirra lögbundnu takmarkana sem er að finna á upplýsingarétti í upplýsingalögum er að finna sérstakt ákvæði um þagnarskyldu í 13. gr. oefl. Í 2. ml. 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga kemur fram að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki aðgang að upplýsingum samkvæmt lögunum. Með gagnályktun verður því slegið föstu að sérstök ákvæði um þagnarskyldu geti hins vegar takmarkað aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum umfram þær takmarkanir sem þar er að finna.

 

Í þessu samhengi verður að líta til þess að úrskurðarnefndin hefur í fyrri úrskurðum sínum staðfest að í 13. gr. oefl. felist sérstakt þagnarskylduákvæði, sbr. mál nr. A-85/1999 og A-147/2002.

 

Lögmaður kærenda ber því við að 3. mgr. 13. gr. oefl eigi við í málinu um að upplýsingar megi veita í samandregnu formi þannig að einstakir aðilar séu ópersónugreinanlegir. Til þess að hægt sé að afhenda upplýsingar á grundvelli þess ákvæðis þarf að vera ljóst að upplýsingarnar verði raunverulega „ópersónugreinanlegar“ í skilningi ákvæðisins. Fjármálaeftirlitið lítur svo á að þetta ákvæði eigi nær eingöngu við um tölfræðilegar upplýsingar sem tengja má við marga einstaklinga. Sú staða er ekki uppi í þessu máli. Ef nöfn aðila eru tekin út en augljóslega má ráða hverjir þar séu á ferðinni þá verður að álykta að skilyrði 3. mgr. 13. gr. oefl. um að upplýsingar séu ópersónugreinanlegar sé ekki uppfyllt. Fjármálaeftirlitið lítur þannig á að þetta sé staðan í fyrirliggjandi máli.

 

Varðandi upplýsingar um samskipti við breska fjármálaeftirlitið, FSA, þá telur Fjármálaeftirlitið rétt að aðgangur að þeim gögnum verði takmarkaður á grundvelli þeirra sjónarmiða sem rakin hafa verið hér að framan. Fjármálaeftirlitið telur einnig að óháð þeim sjónarmiðum beri að takmarka aðgang að þessum upplýsingum á grundvelli 2. tl. 6. gr. upplýsingalaga. Til þess að 2. tl. 6. gr. eigi við þarf skilyrði um mikilvæga almannhagsmuni að vera uppfyllt. Í þessu samhengi er rétt að nefna að samskipti Fjármálaeftirlitsins við erlendar eftirlitsstofnanir eru viðkvæm, sérstaklega eftir bankahrunið svokallaða sem reið yfir í október 2008. Ef til þess kæmi að upplýsingar um samskipti eða inntak samskipta FSA yrðu veittar kærendum væri hætt við því að slíkt hefði afar slæm áhrif á samskipti stofnananna tveggja. Ekki er útilokað að FSA og jafnvel önnur erlend eftirlitsstjórnvöld myndu ekki treysta sér til þess að veita Fjármálaeftirlitinu upplýsingar sem nauðsynlegar eru við rækslu eftirlits með fjármálamarkaðnum. Enginn vafi leikur á því að slíkt hefði slæm áhrif á starfsskilyrði Fjármálaeftirlitsins og snerti þar með mikilvæga almannahagsmuni í skilningi 2. tl. 6. gr. upplýsingalaga.

 

Að öllu framangreindu virtu mótmælir Fjármálaeftirlitið málatilbúnaði kærenda og krefst þess að úrskurðarnefndin hafni kröfum þeirra.

 

Með bréfi, dags. 10. mars sl. gaf úrskurðarnefndin kæranda kost á að gera frekari athugasemdir vegna kærunnar í ljósi umsagnar Fjármálaeftirlitsins. Svarbréf kæranda er dags. 17. mars sl. Þar kom eftirfarandi m.a. fram:

 

„Af umsögn FME að dæma virðist leika vafi, af þess hálfu, á því á hvaða lagagrundvelli umbjóðendur mínir óskuðu eftir gögnum sem og á hvaða lagagrundvelli kæran var reist. Í ljósi þessa er rétt að undirstrika að umbjóðendur mínir óskuðu eftir upplýsingum á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996 (hér eftir „lögin“), einkum 1. mgr. 3. gr. laganna en hafi FME undir höndum gögn sem varða umbjóðendur mína sjálfa þá reisa umbjóðendur mínir kröfu sína um aðgang að slíkum gögnum á 1. mgr. 9. gr. laganna, og um kæruheimildina var vísað til 14. gr. upplýsingalaga. Umbjóðendur mínir hafa í þessu máli ekki byggt rétt sinn á IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (hér eftir „stjórnsýslulögin“), sem eins og FME bendir réttilega á var með lögum nr. 125/2008 (hér eftir „neyðarlögin“) kippt úr sambandi m.a. hvað varðar rétt aðila máls til aðgangs að upplýsingum varðandi málsmeðferð og ákvarðanatöku FME á grundvelli þágildandi 100. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 (hér eftir „ffl.“).

 

Umbjóðendur mínir hafna alfarið lögskýringum FME og því hvað FME ætlar löggjafanum að hafa haft í huga þegar neyðarlögin voru samþykkt, sbr. umfjöllun á bls. 3 í umsögn FME um kæru umbjóðenda minna. Hér verður að hafa í huga að löggjafinn var með 8. mgr. 5. gr. neyðarlaganna að lögfesta íþyngjandi undanþágur frá lögvörðum réttindum  aðila stjórnsýslumáls samkvæmt stjórnsýslulögunum sem vitanlega ber að skýra þröngt eða a.m.k. ekki svo rúmt að hún felli um leið úr gildi rétt til aðgangs að upplýsingum skv. upplýsingalögunum sem hvergi er minnst á í fyrrnefndu ákvæði. Hafi löggjafinn ætlað að takmarka rétt almennings til aðgangs að upplýsingum skv. upplýsingalögunum hefði hann að sjálfsögðu þurft að taka það skýrt fram en þar sem hann gerði það ekki gildir réttur almennings til aðgangs að upplýsingum skv. upplýsingalögunum fullum fetum. Sú skýring  er ótæk, að lögfesti löggjafinn undantekningu frá upplýsingarétti skv. stjórnsýslulögunum þá felist sjálfkrafa í því að réttur til upplýsinga skv. öðrum lögum sem gengur skemur falli einnig niður. Rétt er að benda á að tilvitnuð undanþága frá málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaganna tekur til fleiri atriða en upplýsingaréttar. Hún var fyrst og fremst lögfest í neyðarlögunum til að einfalda og hraða málsmeðferð FME þegar stjórnvaldið þurfti vissulega að hafa hraðar hendur og ekki var talið ráðlegt að gefa færi á því að tefja málsmeðferðina. Þó afleiðingar undanþágunnar séu einnig þær að stjórnvöld telji að þeim beri ekki að veita aðgang að gögnum er varða þessar ákvarðanir löngu eftir að málsmeðferðinni er lokið, er ekki ljóst að slíkt hafi verið tilgangur löggjafans, enda hefur löggjafinn gert breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki síðan þá varðandi málsmeðferð þegar fjármálafyrirtæki lenda í erfiðleikum. Það er einnig rétt að hafa í huga að sú neyð sem skapaðist eftir fall stóru viðskiptabankanna þriggja í október 2008 var töluvert annars eðlis í mars 2009 þegar FME tók yfir vald hluthafafundar Straums.

 

Umbjóðendur mínir vekja athygli á því að þeir hafa ekki farið fram á það að FME útbúi ný gögn til að geta orðið við beiðni umbjóðenda minna í ríkara mæli en kveðið er á um í 7. gr. upplýsingalaganna. Einungis er óskað eftir þeim gögnum sem FME hefur undir höndum og varðar þau atriði sem umbjóðendur mínir óskuðu eftir upplýsingum um og er sú ósk hér með ítrekuð. Í því sambandi er vakin athygli á því að í greinargerð með frumvarpi að því sem varð að upplýsingalögunum segir m.a. „...hugtakið ,,gögn“ er notað sem samheiti um öll þau form sem upplýsingar eru varðveittar á innan stjórnsýslunnar. Upplýsingaréttur almennings gildir án tillits til þess í hvaða formi umbeðnar upplýsingar eru. Hugtakið á því að skýra rúmt eins og fram kemur í 2. tölul. 3. gr. frumvarpsins.“ Beiðni umbjóðenda minna er því ekki takmörkuð við „skjöl“ í þrengri merkingu þess orðs. Umbjóðandi minn skorar á FME að staðfesta hvort einhver „gögn“ í framangreindri merkingu séu til staðar er varða þær upplýsingar sem umbjóðendur mínir óskuðu eftir og FME kveðst ekki hafa undir höndum, en hugtakið upplýsingar er skýrt svo í greinargerðinni „Hugtakið ,,upplýsingar“ er samheiti yfir allt það sem komið hefur til vitundar stjórnvalda.“ Það kæmi umbjóðenda mínum á óvart ef engin gögn, í framangreindri merkingu, væru til staðar hjá FME til að mynda varðandi þá fundi sem taldir eru upp í fjórum töluliðum neðst að bls. 1 í umsögn FME við kæru umbjóðenda minna, s.s. tölvupóstsamskipti, fundargerðir, minnisblöð o.þ.h.

 

Þá heldur FME því fram að takmarkanir skv. 5. og 6. gr. upplýsingalaganna eigi við og verður nú vikið að skilyrðum framangreindra ákvæða fyrir því að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að upplýsingum.

 

Varðandi 5. gr. upplýsingalaganna, sem og reyndar tilvitnaða 13. gr. laga nr. 87/1998 (hér eftir „oefl.“), vísar undirritaður til umfjöllunar í kæru umbjóðenda minna, dags. 15. febrúar 2010, þar sem fram koma í þremur liðum röksemdir fyrir því að umræddar takmarkanir þurfi ekki að koma í veg fyrir að FME veiti umbjóðendum mínum aðgang að umbeðnum gögnum, þó e.t.v. kunni að vera nauðsynlegt að strika út tilteknar upplýsingar með vísan til ákvæðisins. Rétt er að árétta að umbjóðendur mínir eru ekki að reyna að nálgast viðkvæmar persónugreinanlegar upplýsingar um mikilvæga viðskiptahagsmuni viðskiptamanna Straums.

 

Rétt er að benda á að í greinargerð með frumvarpi því er varð að upplýsingalögunum segir m.a. um 5. gr. „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Í vafatilvikum er stjórnvaldi rétt að leita álits þess aðila sem í hlut á. Ef hann samþykkir að umbeðnar upplýsingar séu veittar stendur 5. gr. almennt ekki í vegi fyrir upplýsingagjöf. Sama er ef slíkt samþykki er gefið fyrirfram.“ Ekki verður séð að þær upplýsingar sem óskað er eftir geti raskað framangreindum hagsmunum hjá fyrirtæki í slitameðferð eða að slíkir hagsmunir séu yfir höfuð fyrir hendi. Erfitt er að koma auga á hvernig tilvist starfsleyfisundanþágu Straums breyti nokkru þar um enda slitameðferð í fullum gangi. Þá verður enn síður séð að FME hafi leitað álits þeirra aðila sem í hlut eiga svo sem þeim hefði verið rétt að gera skv. framangreindu og umbjóðendur mínir höfðu áður bent á. Í því sambandi og í ljósi athugasemda FME, dags. 5. mars 2010 (neðst á bls. 5), er ítrekað að neyðarlögin takmörkuðu einungis rétt til aðgangs að upplýsingum á grundvelli stjórnsýslulaganna en ekki á grundvelli upplýsingalaganna. Loks má benda á að Páll Hreinsson hefur í riti sínu Upplýsingalögin, bls. 62 og 70, bent á að þegar mál snertir fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja ber að leysa úr málinu á grundvelli mats á því hvort þar sé um að ræða svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni að ætla megi, með tilliti til aðstæðna, að það sé til þess fallið að valda hlutaðeigandi fyrirtæki tjóni, verði veittur aðgangur að upplýsingunum. Þá verði að meta með tilliti til aðstæðna í fyrirliggjandi máli, hversu mikið tjónið getur orðið og hvaða líkur séu á því að tjón muni hljótast. Erfitt er að sjá hvernig ársgamlar upplýsingar um félag í slitameðferð gæti mögulega valdið því slíku tjóni að rétt sé að fara leynt með upplýsingarnar.

 

Í úrskurði nefndarinnar A-85/1999 sem FME vísar til í umsögn sinni því til stuðnings að 13. gr. oefl. sé sérstakt þagnarskyldu ákvæði sem eigi að leiða til takmörkunar á aðgangi að upplýsingum segir: „Í ljósi þessa orðalags er ekki unnt að skýra umrætt lagaákvæði svo, eins og Fjármálaeftirlitið heldur fram, að öll gögn og upplýsingar, sem stofnunin fær í hendur á grundvelli lögboðinnar eftirlitsskyldu og varða viðskipti og rekstur fyrirtækja eða einstaklinga, séu háð þagnarskyldu, án tillits til efnis þeirra, vegna þess að þá væru orðin "og leynt á að fara" merkingarlaus. Í umræddu ákvæði er hins vegar mælt fyrir um ríka þagnarskyldu stjórnar og starfsmanna Fjármálaeftirlitsins að því er lýtur að viðskiptum og rekstri þeirra aðila sem stofnunin hefur eftirlit með. Á hinn bóginn verður ekki litið framhjá meginreglu 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga við úrlausn þessa máls, eins og áður hefur verið gerð grein fyrir.“ Þá segir jafnframt: „Með tilliti til þess m.a. hve langur tími er liðinn frá því að bréf þessi voru skrifuð er það álit nefndarinnar að í þeim sé ekki að finna neinar upplýsingar, sem leynt eigi að fara skv. 12. gr. laga nr. 87/1998 [nú 13. gr.- Innskot lögmanns], sbr. 5. gr. upplýsingalaga.“ Í þessu sambandi skal þess getið að í umræddu tilviki hafði liðið „á fjórða mánuð“ frá því að FME hafði snúið sér til hins eftirlitsskylda aðila og óskað eftir umþrættum upplýsingum. Þá segir í úrskurði nefndarinnar A-147/2002 sem FME vitnar einnig til: „Eins og fram kemur í áliti efnahags- og viðskiptanefndar, er hér um að ræða ákvæði sem þrengir rétt almennings til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Þar af leiðandi lítur úrskurðarnefnd svo á að skýra beri ákvæðið þröngt á sama hátt og önnur slík ákvæði. Í nefndarálitinu virðist vera gengið út frá því að þagnarskylda samkvæmt lögum, sem gilda um eftirlitsskylda aðila, skuli því aðeins ná til stjórnar og starfsmanna Fjármálaeftirlitsins að upplýsinganna, sem um er að ræða, hafi verið aflað frá hinum eftirlitsskyldu aðilum sjálfum, en ekki öðrum aðilum.“ Af framangreindu er ljóst að nefndin hefur hafnað túlkun FME á ákvæðinu, þó fallist hafi verið á að um sé að ræða sérstakt þagnarskylduákvæði þrátt fyrir gagnstæð ummæli í frumvarpi að lögunum, og talið að líta verði til þess hvert efni umræddra gagna er og hvort eðlilegt og rétt sé að leynt skuli fara með þau. Í því sambandi hefur nefndin haft hliðsjón af því hversu langt er liðið síðan gagnanna var aflað og er það ítrekað að í þessu tilviki er um að ræða ársgömul gögn. Þá er vakin athygli á því að nefndin hefur áréttað að ákvæðið beri að túlka þröngt þar sem um undantekningu frá meginreglunni er að ræða. Ennfremur hefur nefndin áréttað að ákvæðið eigi bara við um gögn sem aflað er frá eftirlitsskylda aðilanum sjálfum. Að mati umbjóðenda okkar er í ljósi framangreinds ekki tilefni til að fallast á röksemdir FME enda eiga engin skilyrði fyrir þagnarskyldu skv. umræddu ákvæði við í þessu máli.

 

Í ljósi þess að FME tekur fram í umsögn sinni um kæru umbjóðenda minna að það telji ekki mögulegt að gera upplýsingarnar raunverulega ópersónugreinanlegar er rétt að árétta að nafnleynd getur einungis átt við um þær persónur og leikendur sem ekki er almennt vitað að gögn varða. Það væri t.d. ekki hægt að túlka ákvæði 3. mgr. 13. gr. oefl. þannig í þessu tilviki að ekki mætti veita aðgang að gögnum á þessum grundvelli nema hægt væri að tryggja að Straumur, FME eða t.d. breska fjármálaeftirlitið (hér eftir „FSA“) væru ópersónugreinanleg enda eru það opinberar upplýsingar að þessir aðilar tengjast málinu. Hvað varðar viðskiptamenn Straums verður það að teljast ólíklegt að ekki sé hægt að koma gögnunum í slíkan búning að ekki sé hægt að persónugreina þá. Er því þessum skýringum FME hafnað.

 

Hvað varðar tilvísun FME til 2. tl. 6. gr. upplýsingalaganna þá hafnar umbjóðandi minn því að hún eigi við. Þó svo að hún ætti við að hluta, þá gæti hún ekki átt við um öll samskipti FME og FSA enda skilyrði að um mikilvæga almannahagsmuni sé að ræða og að upplýsingagjöf um þá hefði raunverulega hættu í för með sér á tjóni, sbr. umfjöllun um greinina í greinargerð með frumvarpi að upplýsingalögunum. Það hefur ekki áhrif á rétt almennings til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögunum þótt önnur stjórnvöld, hvort sem eru innlend eða erlend, yrðu óánægð ef almenningi á Íslandi yrði gert kleift að nýta lögbundinn rétt sinn til upplýsinga um athafnir stjórnvalda.

 

Um mikilvægi þess almennt að almenningi sé gert kleift að fá aðgang að upplýsingum úr stjórnsýslunni og þá hugmyndafræði sem að baki upplýsingalögunum búa má vísa til almennra athugasemda í greinargerð með frumvarpi að upplýsingalögunum en þar segir m.a. „Með frumvarpi þessu er lagt til að tekin verði upp sú meginregla í íslensk lög að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál. Hér er m.ö.o. ætlunin að rýmka rétt almennings til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum, einkum á þeim sviðum þar sem þeim hefur verið talið heimilt, en ekki skylt, að láta upplýsingar í té.“ Þá segir ennfremur um undanþágur laganna „Í II. kafla hefur verið leitast við að hafa undanþágur frá fyrrgreindri meginreglu um upplýsingarétt almennings sem fæstar og hefur þeim þannig verið nokkuð fækkað frá eldri frumvörpum, einkum þeim undanþágum sem byggjast á mikilvægum almannahagsmunum. Undanþáguákvæðin ber að sjálfsögðu að skýra þröngt...“ Af þessu er ljóst að réttur almennings til aðgangs að upplýsingum skv. upplýsingalögunum á ekki að vera eins takmarkaður og FME gefur í skyn í umsögn sinni um kæru umbjóðenda okkar.

 

Í almennum athugasemdum greinargerðarinnar kemur ennfremur fram að „Í nútíma lýðræðisþjóðfélagi er það talið sjálfsagt að almenningur eigi þess kost að fylgjast með því sem stjórnvöld hafast að, ýmist beint eða fyrir milligöngu fjölmiðla. Liður í því er að hver og einn geti fengið aðgang að upplýsingum um mál sem til meðferðar eru hjá stjórnvöldum, jafnvel þótt það snerti ekki hann sjálfan. Þetta er meginmarkmiðið með frumvarpi þessu og er þannig á sama hátt og stjórnsýslulögum ætlað að stuðla að auknu réttaröryggi í stjórnsýslunni. Lögin ættu jafnframt að draga úr tortryggni almennings í garð stjórnvalda --- tortryggni sem oft og einatt á rót sína að rekja til þess að upplýsingum hefur, stundum að óþörfu, verið haldið leyndum. Að sjálfsögðu getur það verið óhjákvæmilegt í vissum undantekningartilvikum, en til þess þurfa þá að vera brýnar ástæður.“

 

Með framangreint í huga og í ljósi hinna fordæmalausu og viðurhlutamiklu inngripa stjórnvalda í rekstur fjármálafyrirtækja á Íslandi eru hagsmunir almennings af því að fá upplýsingar um þá atburði sem áttu sér stað afskaplega brýnir og þurfa því að mati umbjóðenda okkar að liggja fyrir hvort tveggja mjög brýnar ástæður og skýrar lagaheimildir til að takmarka þann rétt svo ekki sé alið á tortryggni almennings í garð stjórnvalda. Hvorugt er fyrir hendi að mati umbjóðenda okkar í því tilviki sem hér er til umfjöllunar. Þessir hagsmunir eru enn ríkari hvað varðar þá aðila sem áttu hlut í þessum fjármálafyrirtækjum. Það er skýr krafa samfélagsins eftir hrunið sem átti sér stað á fjármálamörkuðum árið 2008 að á Íslandi ríki eins mikið gagnsæi og mögulegt er og því brýnt að stjórnvöld leitist við að tryggja gagnsæi sem víðast, í stað þess að túlka reglur er takmarka það eins rúmt og kostur er, eins og FME virðist gera.“

 

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila, en úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af þeim við úrlausn málsins.

 

 

Niðurstöður

1.

Eins og rakið hefur verið fór kærandi fram á afhendingu gagna um aðdraganda þess að Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki hf. var færður undir skilanefnd á vegum Fjármálaeftirlitsins.

 

Þau gögn sem Fjármálaeftirlitið hefur afhent úrskurðarnefnd um upplýsingamál eru eftirfarandi:

 

1.      Tölvupóstsamskipti starfsmanna FME og Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf. frá 1. janúar 2009 til 9. mars 2009 ásamt fylgigögnum:

a.       Átta skjöl skráð í málskrá FME undir málsnúmerinu [...].

b.      Fjörutíu og níu skjöl skráð í málskrá FME undir málsnúmerinu [...].

2.      Fundargerð fundar Seðlabanka Íslands, fjármálaráðuneytis, FME og Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf., dags. 10. febrúar 2009 ásamt fylgigögnum:

a.       Fundargerð, dags. 10. febrúar 2009.

b.      Request for Short-Term Funding, dags. 10. febrúar 2009.

c.       Bréf KPMG til Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf., dags. 9. febrúar 2009.

d.      Minnisblað FME vegna símtals við [I] hjá Straumi-Burðarás Fjárfestingarbanka hf. vegna frétta af sölu Actavis og slæmri stöðu Sjælsö, skráð af [J] 9. janúar 2009.

e.       Tölvupóstsamskipti [J] hjá FME og [I] hjá Straumi-Burðarás Fjárfestingarbanka hf., dags. 5. og 6 janúar 2009. Um er að ræða tvö skjöl skráð í málaskrá FME undir málsnúmerinu [...].

f.        Disposal plan fyrir tímabilið 26. nóvember til 6. janúar 2009.

3.      Samskipti Fjármálaeftirlitsins við breska fjármálaeftirlitið, FSA:

a.       Tölvupóstsamskipti [D] hjá FME við [K] hjá FSA, dags. 9. mars 2009. Um er að ræða fimm skjöl skráð í málskrá FME undir málsnúmerinu [...].

b.      Minnisblað FME vegna símtals við [K] hjá FSA, skráð af [L] 9. febrúar 2009.

c.       Minnisblað FME vegna fundar í London með [K] hjá FSA, skráð af [L] 9. febrúar 2009.

d.      Minnisblað FME vegna símafundar með [K] og [M] hjá FSA, skráð af [J] 15. janúar 2009 ásamt tölvupóstum dags. 14. janúar um skipulag og efni fundarins og minnisblað um stöðu Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf., dags. þann sama dag.

4.      Fundargerð stjórnar Fjármálaeftirlitsins, dags. 8. mars 2009, ásamt fylgigögnum:

a.       Fundargerð, dags. 8. mars 2009.

b.      Bréf frá Straumi-Burðarás fjárfestingarbanka hf., dags. 8. mars 2009.

c.       Bréf frá FME til Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf., dags. 8. mars 2009.

d.      Tillaga að ákvörðun stjórnar varðandi Straum-Burðarás fjárfestingarbanka hf.

e.       Ákvörðun stjórnar FME um skipan skilanefndar fyrir Straum-Burðarás fjárfestingarbanka hf., dags. 9. mars 2009.

f.        Erindisbréf um skipan í skilanefnd Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf., dags. 9. mars 2009.

g.       Ensk þýðing (óopinber) á ákvörðun stjórnar FME varðandi Straum-Burðarás fjárfestingarbanka hf.

 

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Kæruheimildin er bundin því skilyrði að ágreiningur sé uppi um annað tveggja; skyldu stjórnvalds til að veita aðgang að gögnum eða skyldu þess til að veita aðgang í formi ljósrits af skjölum eða afrits af öðrum gögnum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að rengja þá fullyrðingu Fjármálaeftirlitsins að frekari gögn er varða kæruna séu ekki til í fórum þess.

 

 

 

 

2.

Kærandi byggir kröfu um aðgang að framangreindum skjölum aðallega á 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga en hafi Fjármálaeftirlitið gögn sem hafa að geyma upplýsingar um umbjóðanda kæranda þá er aðgangs að gögnum óskað á grundvelli 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga.

 

Umbjóðandi kæranda Samson Global Goldings S.à.r.l. kemur hvergi fram í þeim gögnum sem afhent hafa verið úrskurðarnefndinni vegna máls þess. Það er afstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að umrædd gögn geymi ekki upplýsingar um umbjóðanda kæranda sjálfs í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Um rétt hans til aðgangs að þeim fer því ekki eftir 9. gr. laganna heldur eftir 3. gr. þeirra, um upplýsingarétt almennings.

 

Í 3. gr. þeirra laga segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr.“ Í 5. gr. laganna segir síðan: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“

 

Í 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga er tekið fram að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Með gagnályktun frá þessu ákvæði hefur hins vegar verið litið svo á að sérstök þagnarskylduákvæði geti ein og sér komið í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnum í vörslum stjórnvalda hvað sem líður öðrum lagaákvæðum um upplýsingaskyldu. Þegar um er að ræða sérákvæði laga um þagnarskyldu, þ.e. þegar upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar, fer það eftir „efni og orðalagi þagnarskylduákvæðis hvernig slík ákvæði verða skýrð og þýdd ákvæðum upplýsingalaga“ eins og segir í skýringum við 2. gr. frumvarps þess sem síðar varð að upplýsingalögum. Með hliðsjón af þessu telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að óhjákvæmilegt sé að taka hér fyrst til nokkurrar umfjöllunar þau ákvæði um þagnarskyldu sem Fjármálaeftirlitið hefur vísað til í máli þessu, þ.e. 13. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi með síðari breytingum, en líta jafnframt til 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

 

3.

Í 13. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi eru ákvæði um þagnarskyldu. Í 1.-4. mgr. 13. gr. segir eftirfarandi.

 

„Stjórn, forstjóri og starfsmenn Fjármálaeftirlitsins eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki að viðlagðri ábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um opinbera starfsmenn skýra óviðkomandi aðilum frá því er þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara um starfsemi Fjármálaeftirlitsins, viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila, tengdra aðila eða annarra, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Sama gildir um lögmenn, endurskoðendur, tryggingastærðfræðinga og sérfræðinga sem starfa fyrir eða á vegum Fjármálaeftirlitsins. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi og er óheimilt að nýta í atvinnuskyni upplýsingar sem bundnar eru þagnarskyldu.

 

Upplýsingar sem háðar eru þagnarskyldu samkvæmt sérlögum eða öðrum lögum eru háðar sambærilegri þagnarskyldu þegar þær hafa verið afhentar Fjármálaeftirlitinu.

 

Upplýsingar skv. 1. mgr. má veita í samandregnu formi þannig að einstakir aðilar séu ópersónugreinanlegir.

 

Þegar eftirlitsskyldur aðili er gjaldþrota eða þvinguð slit fara fram er heimilt við rekstur einkamála að upplýsa um atriði sem þagnarskylda gildir annars um samkvæmt 1. mgr. Þagnarskyldan gildir þó um upplýsingar sem varða þriðja aðila sem á hlut að björgunaraðgerðum vegna eftirlitsskylds aðila.“

 

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að líta beri á tilvitnað ákvæði 13. gr. laga nr. 87/1998, með síðari breytingum, sem sérstakt ákvæði um þagnarskyldu í skilningi 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Að því leyti sem í tilvitnuðu ákvæði eru ekki tilgreindar með beinum og skýrum hætti þær upplýsingar sem ber að gæta trúnaðar um verður þó að skýra það með hliðsjón af efni 5. gr. upplýsingalaga.

 

Í 1. og 2. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki eru svohljóðandi ákvæði um þagnarskyldu:

 

„Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

 

Sá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir. Sá aðili sem veitir upplýsingar skal áminna viðtakanda um þagnarskylduna.“

 

Þagnarskylda samkvæmt framangreindu ákvæði laga nr. 161/2002 yfirfærist á Fjármálaeftirlitið vegna upplýsinga sem það hefur tekið við. Ber því vafalaust að líta á umrætt ákvæði sem sérákvæði laga um þagnarskyldu í skilningi upplýsingalaga og skýra það með sama hætti og ákvæði 13. gr. laga nr. 87/1998 sem er gerð grein fyrir hér að framan.

 

4.

Þau gögn sem afhent hafa verið úrskurðarnefnd um upplýsingamál lúta öll að þeirri ákvörðun og aðdraganda hennar að Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki hf. var færður undir skilanefnd á vegum Fjármálaeftirlitsins þann 8. mars 2009. Í gögnunum koma meðal annars fram ítarlegar upplýsingar um lausafjárstöðu bankans, stöðu innlána, skuldbindingar bankans og eignir o.fl.

 

Í athugasemdum í frumvarpi til upplýsingalaga við 5. gr. segir m.a.: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um fjárhagsmálefni einstaklinga. [...] Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja eða annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni.“

 

Að framan er gerð grein fyrir ákvæðum 58. gr. laga nr. 161/2002 um þagnarskyldu en hún nær til alls þess sem starfsmenn fjármálafyrirtækja „fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum.“ Sá sem veitir upplýsingum af þessu tagi viðtöku verður bundinn þagnarskyldu með sama hætti. Þegar Fjármálaeftirlitið tók við þeim gögnum sem óskað er aðgangs að féll því á starfsmenn stofnunarinnar sama þagnarskylda að svo miklu leyti sem gögnin hafa að geyma efni sem fellur undir framangreint þagnarskylduákvæði. Auk þessa urðu jafnframt virk með sama hætti þagnarskylduákvæði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998.

 

Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál eru framangreind þagnarskylduákvæði í lögum nr. 161/2002 og 87/1998 víðtækari, þ.e. ganga lengra, en þær takmarkanir sem kveðið er á um í 5. gr. upplýsingalaga.

 

5.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið þau gögn sem um ræðir og telur þau gögn sem hér að framan í undirkafla 1 eru númeruð 4. c.-g. ekki fela í sér upplýsingar sem fara í bága við þau þagnarskylduákvæði sem rakin hafa verið hér að framan, þ.e. í 13. gr. laga nr. 87/1988 og 58. gr. laga nr. 161/2002. Þá er ekki um að ræða upplýsingar sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari vegna mikilvægra fjárhags- eða viðskiptahagsmuna fyrirtækja á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga. Um er að ræða þá ákvörðun stjórnar Fjármálaeftirlitsins að skipa skilanefnd yfir Straum-Burðarás fjárfestingarbanka hf., skjöl bæði á ensku og íslensku, tillögu um skipun skilanefndar og skipunarbréf þeirra sem skipaðir voru í skilanefndina. Tilvísuð skjöl eru gögn sem Fjármáleftirlitið hefur þegar birt opinberlega og/eða veitt upplýsingar um og innihalda ekki upplýsingar sem þagnarskylda ríkir um á grundvelli tilvitnaðra lagagreina. Þá er um að ræða bréf Fjármálaeftirlitsins til Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka sem inniheldur spurningar um lausafjárstöðu bankans en ekki svör bankans við þeim spurningum. Bréfið inniheldur ekki upplýsingar sem þagnarskylda ríkir um á grundvelli tilvitnaðra lagagreina.

 

Ber því Fjármálaeftirlitinu að afhenda eftirfarandi gögn: 1) bréf frá FME til Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf., dags. 8. mars 2009, 2) tillögu að ákvörðun stjórnar varðandi Straum-Burðarás fjárfestingarbanka hf., 3) ákvörðun stjórnar FME um skipan skilanefndar fyrir Straum-Burðarás fjárfestingarbanka hf., dags. 9. mars 2009, 4) erindisbréf um skipan í skilanefnd Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf., dags. 9. mars 2009, 5) enska þýðingu (óopinbera) á ákvörðun stjórnar FME varðandi Straum-Burðarás fjárfestingarbank hf. Enda þótt kærandi málsins kunni að hafi undir höndum þau gögn leysir það ekki stjórnvaldið sem gögnin hefur undir höndum undan því að afhenda gögnin beri stjórnvaldinu á annað borð skylda til þess samkvæmt upplýsingalögum, nema undantekningarákvæði í 12. gr. upplýsingalaga eigi við.

 

6.

Utan tilvitnaðra gagna er um að ræða frekari gögn sem innihalda upplýsingar um aðdraganda og ástæður þess að Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki hf. var settur undir skilanefnd á vegum Fjármálaeftirlitsins. Í þeim gögnunum koma fram ítarlegar upplýsingar um lausafjárstöðu bankans, stöðu innlána, skuldbindingar bankans og eignir bankans o.fl. Í þessu sambandi skiptir ekki máli þó þvinguðum slitum hafi lokið með nauðasamningum sem staðfestir voru í Héraðsdómi Reykjavíkur 18. ágúst 2010 enda má gagnálykta frá 4. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 á þann veg að ekki sé heimilt að upplýsa um atriði sem þagnarskylda gildir um þegar eftirlitsskyldur aðili er gjaldþrota eða þvinguð slit hafa farið fram í öðrum tilvikum en við rekstur einkamála.

 

Með vísan til þagnarskylduákvæða 58. gr. laga nr. 161/2002 og 13. gr. laga nr. 87/1998 og 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að Fjármálaeftirlitinu beri ekki að veita aðgang að eftirfarandi gögnum:.

 

1.      Tölvupóstsamskipti starfsmanna FME og Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf. frá 1. janúar 2009 til 9. mars 2009 ásamt fylgigögnum:

a.       Átta skjöl skráð í málskrá FME undir málsnúmerinu [...].

b.      Fjörutíu og níu skjöl skráð í málskrá FME undir málsnúmerinu [...].

2.      Fundargerð fundar Seðlabanka Íslands, fjármálaráðuneytis, FME og Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf., dags. 10. febrúar 2009 ásamt fylgigögnum:

a.       Fundargerði, dags. 10. febrúar 2009.

b.      Request for Short-Term Funding, dags. 10. febrúar 2009.

c.       Bréf KPMG til Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf., dags. 9. febrúar 2009.

d.      Minnisblað FME vegna símtals við [I] hjá Straumi-Burðarás Fjárfestingarbanka hf. vegna frétta af sölu Actavis og slæmri stöðu Sjælsö, skráð af [J] 9. janúar 2009.

e.       Tölvupóstsamskipti [J] hjá FME og [I] hjá Straumi-Burðarás Fjárfestingarbanka hf., dags. 5. og 6 janúar 2009. Um er að ræða tvö skjöl skráð í málaskrá FME undir málsnúmerinu [...].

f.        Disposal plan fyrir tímabilið 26. nóvember til 6. janúar 2009.

3.      Samskipti Fjármálaeftirlitsins við breska fjármálaeftirlitið, FSA:

a.       Tölvupóstsamskipti [D] hjá FME við [K] hjá FSA, dags. 9. mars 2009. Um er að ræða fimm skjöl skráð í málskrá FME undir málsnúmerinu [...].

b.      Minnisblað FME vegna símtals við [K] hjá FSA, skráð af [L] 9. febrúar 2009.

c.       Minnisblað FME vegna fundar í London með [K] hjá FSA, skráð af [L] 9. febrúar 2009.

d.      Minnisblað FME vegna símafundar með [K] og [M] hjá FSA, skráð af [J] 15. janúar 2009 ásamt tölvupóstum dags. 14. janúar um skipulag og efni fundarins og minnisblað um stöðu Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf., dags. þann sama dag.

4.      Fundargerð stjórnar Fjármálaeftirlitsins, dags. 8. mars 2009, ásamt fylgigögnum:

a.       Fundargerð, dags. 8. mars 2009.

b.      Bréf frá Straumi-Burðarás fjárfestingarbanka hf., dags. 8. mars 2009.

 

Að þessari niðurstöðu fenginni telur úrskurðarnefndin óþarft að taka afstöðu til annarra röksemda sem aðilar hafa fært fram máli sínu til stuðnings.

 

 Úrskurðarorð

Fjármálaeftirlitinu ber að afhenda [X] hdl. eftirfarandi fylgigögn með fundargerð stjórnar Fjármálaeftirlitsins, dags. 8. mars 2009: 1) bréf frá FME til Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf., dags. 8. mars 2009, 2) tillögu að ákvörðun stjórnar varðandi Straum-Burðarás fjárfestingarbanka hf., 3) ákvörðun stjórnar FME um skipan skilanefndar fyrir Straum-Burðarás fjárfestingarbanka hf., dags. 9. mars 2009, 4) erindisbréf um skipan í skilanefnd Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf., dags. 9. mars 2009, 5) enska þýðingu (óopinbera) á ákvörðun stjórnar FME varðandi Straum-Burðarás fjárfestingarbanka hf.

 

Fjármálaeftirlitinu ber ekki að afhenda kæranda önnur gögn sem afhent hafa verið úrskurðarnefnd um upplýsingamál vegna málsins.

 

 

Trausti Fannar Valsson

formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                          Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta