A-368/2011. Úrskurður frá 31. maí 2011
ÚRSKURÐUR
Hinn 31. maí 2011 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-368/2011.
Kæruefni og málsatvik
Þann 11. janúar 2011 kærði [...] synjun Barnaverndarstofu á beiðni hans um aðgang að gögnum er varða umsókn barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar frá árinu 2007 um meðferð á [meðferðarheimilinu A] fyrir dóttur hans, [X].
Í synjunarbréfi Barnaverndarstofu, dags. 9. desember 2010, kemur fram að kæranda sé synjað um aðgang að gögnunum þar sem hann hafi verið sviptur forsjá dóttur sinnar og eigi þar af leiðandi ekki rétt á upplýsingum um hana á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 eða 52. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þá séu viðkvæmar persónuupplýsingar í gögnunum sem ekki þyki rétt að veita öðrum aðgang að, en þeim sem eiga beina aðild að málinu, sbr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.
Málsmeðferð
Er úrskurðarnefnd hafði borist kæran var hún send Barnaverndarstofu með bréfi, dags. 2. febrúar 2011, og frestur veittur til að gera athugasemdir til 9. febrúar. Óskaði úrskurðarnefndin jafnframt eftir því að henni yrðu í trúnaði látin í té afrit af umbeðnum gögnum innan sama frests. Fyrir beiðni Barnaverndarstofu var fresturinn framlengdur til 15. febrúar og þann sama dag bárust svör Barnaverndarstofu með bréfi ásamt gögnunum. Þar kemur eftirfarandi m.a. fram:
„Ljóst er að [...] var ekki aðili að umræddu máli þar sem hann hafði verið sviptur forsjá dóttur sinnar, sbr. 3. mgr. 33. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, og á þar af leiðandi ekki rétt á umræddum upplýsingum á grundvelli þeirra laga. Á [...] á sömu forsendum ekki rétt til aðgangs að umræddum upplýsingum á grundvelli 52. gr. barnalaga nr. 76/2003. Var málið því skoðað á grundvelli II. kafla upplýsingalaga nr. 50/1996, um almennan aðgang að upplýsingum. Ljóst er að umrædd gögn eru þess eðlis að þau falla undir 5. gr. þeirra laga, þ.e. varða einkamálefni stúlkunnar og fósturfjölskyldu sem sanngjarnt er og eðlilegt að fari leynt. Barnaverndarstofa hefur á undanförnum árum ítrekað skoðað mál stúlkunnar á grundvelli 8. gr. barnaverndarlaga í kjölfar þess að faðir stúlkunnar hefur kvartað yfir meðferð málsins hjá barnaverndarnefnd og ljóst er af þeim gögnum sem aflað hefur verið í tengslum við þær kvartanir að stúlkan myndi ekki samþykkja aðgang að umræddum upplýsingum, en hún hefur t.a.m. neitað umgengni við föður sinn nema undir eftirliti barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar. Var beiðni [...] um aðgang að umræddum gögnum því synjað.
Barnaverndarstofa leggur áherslu á í málum sem þessum að virða rétt þeirra einstaklinga, sem fjallað er um í gögnum barnaverndaryfirvalda, til einkalífs. Stofan telur því almennt ekki mögulegt að veita öðrum en aðilum máls aðgang að gögnum sem varða umsóknir um fóstur eða meðferð á meðferðarstofnun. Bendir stofan í því sambandi á skyldu þeirra sem vinna að barnavernd til þess að gæta fyllsta trúnaðar um hagi barna foreldra og annarra sem þeir hafa afskipti af, sbr. 8. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Yrði erfitt fyrir Barnaverndarstofu að starfa í samræmi við trúnaðarskylduna ef aðrir en aðilar máls ættu rétt á aðgangi að umræddum gögnum á grundvelli 3. gr. upplýsingalaga.“
Úrskurðarnefndinni bárust eftirfarandi gögn samhliða bréfi, dags. 15. febrúar: umsókn barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar um vistun [X] á [A], hugleiðingar barnaverndaryfirvalda um líðan hennar, upplýsingar frá skóla hennar um ástundun náms, auk niðurstöðu sálfræðiprófs.
Með bréfi, dags. 2. mars 2011, var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsögn Barnaverndarstofu til 15. mars. Kærandi hefur komið á framfæri við starfsmann úrskurðarnefndar um upplýsingamál munnlegum athugasemdum við umsögnina þar sem hann ítrekar kröfur sínar um aðgang að gögnum.
Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila, en úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af þeim við úrlausn málsins.
Niðurstaða
1.
Eins og áður hefur verið rakið óskaði kærandi eftir aðgangi að gögnum í fórum Barnaverndarstofu er varða umsókn barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar frá árinu 2007 um meðferð á [A] fyrir dóttur hans, [X].
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 taka lögin til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Í 2. gr. upplýsingalaga er kveðið á um gildissvið þeirra gagnvart öðrum lögum og þjóðréttarsamningum. Í 1. málslið 2. mgr. 2. gr. laganna segir að þau gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, en þau lög taka til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga eins og fyrr segir. Í 1. málslið 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga segir að lögin gildi þegar stjórnvöld, þar á meðal Barnaverndarstofa, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Þegar aðili máls óskar aðgangs að gögnum sem varða ákvarðanir stjórnvalds um rétt eða skyldu í máli hans, en kæra kæranda í þessu máli varðar að hluta slíka ákvörðun, fer um aðgang að þeim samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaganna, en þar segir í upphafi 1. mgr. að aðili máls eigi rétt á því að kynna sér skjöl og önnur gögn er málið varði. Kemur því fyrst til skoðunar hvort kærandi máls þessa njóti upplýsingaréttar sem aðili að stjórnsýslumáli þar sem hann er faðir ólögráða barns sem gögnin lúta að.
2.
Í 3. mgr. 33. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 segir: „Foreldrar sem hafa verið sviptir forsjá barns eiga ekki aðild að málum sem varða ákvarðanir um úrræði því til handa, að undanskildum málum er varða ákvörðun um umgengnisrétt.“ Í 1. mgr. 45. gr. laganna segir um upplýsingarétt og aðgang að gögnum máls: „Barnaverndarnefnd skal með nægilegum fyrirvara láta aðilum máls í té öll gögn sem málið varða og koma til álita við úrlausn þess, enda tryggi þeir trúnað.“ Með vísan til þessa verður að draga þá ályktun að kærandi hefur ekki átt aðild að stjórnsýslumáli því sem gögn þau sem hér eru til skoðunar lúta að og fer því um aðgang hans að þeim gögnum eftir reglum upplýsingalaga nr. 50/1996.
Með vísan til þeirra sjónarmiða sem 33. gr. barnaverndarlaga byggir á verður að draga þá ályktun að regla 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt aðila sem hljóðar svo: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan“ eigi ekki við um kæranda. Um rétt hans til aðgangs að gögnunum fer því ekki eftir 9. gr. laganna heldur fer um aðgang að þeim eftir 3. gr. þeirra, um upplýsingarétt almennings.
3.
Samkvæmt 3. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. laganna. Í 5. gr. laganna segir: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“
Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér efni þeirra skjala sem kæranda var synjað um aðgang að. Þau hafa sem fyrr segir að geyma umsókn barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar um vistun [X] á [A], hugleiðingar barnaverndaryfirvalda um líðan hennar, upplýsingar frá skóla hennar um ástundun náms, auk niðurstöðu sálfræðiprófs. Samkvæmt athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er hér um að ræða gögn um einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að fari leynt, sbr. 5. gr. laganna. Með skírskotun til þess er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta ber þá ákvörðun Barnaverndarstofu að synja kæranda um aðgang að þessum skjölum.
4.
Að auki ber að taka til umfjöllunar að Barnaverndarstofa vísar til þess að kærandi njóti ekki upplýsingaréttar samkvæmt 52. gr. barnalaga nr. 76/2003 þar sem hann hafi verið sviptur forsjá dóttur sinnar, en ákvæði 2. mgr. 52. gr. laganna hljóðar svo: „Það foreldri sem ekki hefur forsjá barns á rétt á að fá upplýsingar um barnið frá leikskólum, skólum, sjúkrahúsum, heilsugæslu- og félagsmálastofnunum, félagsmálanefndum, barnaverndarnefndum og lögreglu. Réttur samkvæmt þessari málsgrein felur ekki í sér heimild til að fá upplýsingar um hagi forsjárforeldris.“ Samkvæmt athugasemdum við samhljóða ákvæði í frumvarpi til laga nr. 23/1995 um breytingu á eldri barnalögum nr. 20/1992 kemur fram að ákvæðið eigi ekki við um barn sem barnaverndarnefnd ráðstafar í fóstur, en um samband foreldra við það gildi reglur barnaverndarlaga. Í athugasemdum við 52. gr. núgildandi barnalaga er vísað til þeirra athugasemda sem hér hafa verið raktar. Í 4. mgr. 52. gr. sömu laga kemur fram að kæra megi synjun þeirra stofnana og stjórnvalda sem um getur í ákvæðinu til sýslumanns innan tveggja mánaða frá því að foreldri var tilkynnt um ákvörðunina.
Með vísan til framangreinds er úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki bær til að taka afstöðu til beiðni um aðgang að upplýsingum á grundvelli 52. gr. barnalaga þótt ákvæðið komi ekki í veg fyrir að úrskurðarnefndin geti fjallað um aðgang að sömu gögnum á grundvelli upplýsingalaga. Að fenginni þessari niðurstöðu tekur úrskurðarnefndin ekki efnislega afstöðu til þess hvort kærandi á rétt samkvæmt áðurnefndu ákvæði barnalaga eða ekki.
Úrskurðarorð
Staðfest er sú niðurstaða Barnaverndarstofu að synja [...] um aðgang að gögnum sem varða umsókn barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar um meðferð á [meðferðarheimilinu A] fyrir dóttur hans, [X].
Trausti Fannar Valsson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson