Hoppa yfir valmynd

A-372/2011. Úrskurður frá 31. maí 2011

ÚRSKURÐUR

Hinn 31. maí 2011 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-372/2011.

Kæruefni

Með bréfi, dags. 20. maí, kærði [...] þá afgreiðslu umboðsmanns Alþingis, sbr. bréf til kæranda dags. 6. maí, að synja honum um afhendingu korts af deiliskipulagssvæði sem kvörtun kæranda til umboðsmanns Alþingis laut að og umboðsmaður lauk með bréfi til kæranda, dags. 6. ágúst 2010, sbr. mál nr. 6035/2010, en kvörtunin beindist að úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 15. apríl 2010 í máli nr. 74/2009.

Málsatvik og málsmeðferð

Í bréfi umboðsmanns Alþingis til kæranda, dags. 6. maí, kemur eftirfarandi m.a. fram:

„Í tilefni af framangreindu erindi yðar tek ég fram að þegar stjórnvöld láta umboðsmanni Alþingis í té gögn umfram bein svör við fyrirspurn sem til hafa orðið hjá þeim við meðferð þess máls og vegna þeirra ákvarðana sem eru tilefni kvörtunar til umboðsmanns eða stafa frá afgreiðslum í málum annarra aðila, þá hefur þeirri starfsreglu verið fylgt af hálfu umboðsmanns Alþingis að afhenda þeim sem leitað hefur til umboðsmanns ekki afrit af slíkum gögnum nema stjórnvöld vísi beinlínis til þeirra um efnisleg svör við fyrirspurnum hans.“

Þá fjallar umboðsmaður Alþingis almennt um upplýsingarétt almennings á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996 og upplýsingarétt samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og bendir, með hliðsjón af þeirri umfjöllun, kæranda á að snúa sér með beiðni sína um aðgang að því korti sem um ræðir til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Einnig kemur fram í bréfinu að í samræmi við það lagaumhverfi sem skapað hafi verið hér á landi um rétt til aðgangs að gögnum í fórum stjórnvalda sé það réttara að afstaða hlutaðeigandi stjórnvalda til aðgangs að gögnum liggi fyrir og þá eftir atvikum þess stjórnvalds sem hafi farið með málið á kærustigi áður en umboðsmaður Alþingis fjalli um aðgang að þeim.

Í kæru, dags. 20. maí, kemur m.a. fram að sú starfsregla sem umboðsmaður Alþingis vitnar til í bréfi sínu til kæranda, dags. 6. maí, og rakin hefur verið, samræmist ekki ákvæðum laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis. 

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila, en úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af þeim við úrlausn málsins. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi óþarft að kynna umboðsmanni Alþingis kæru máls þessa áður en úrskurður yrði kveðinn upp.


Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir að lögin taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem síðan varð að upplýsingalögum kemur fram að í þessu felist að lögin taki til þeirrar starfsemi sem heyrir undir framkvæmdarvaldið samkvæmt þrískiptingu ríkisvaldsins. Utan gildissviðs þeirra falli hins vegar Alþingi og stofnanir þess, svo sem umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun. Af þessu leiðir að ekki er hægt að óska aðgangs að gögnum hjá umboðsmanni Alþingis á grundvelli upplýsingalaga. Þar sem lögin ná ekki til umboðsmanns Alþingis er heldur ekki unnt að kæra afgreiðslu hans á beiðni um afhendingu tiltekinna ganga til úrskurðarnefndar um upplýsingamál á grundvelli 14. gr. þeirra. Að þessu athuguðu er ljóst að kæran fellur utan gildissviðs upplýsingalaga nr. 50/1996 og þar með valdsviðs úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Með vísan til framangreinds ber úrskurðarnefnd um upplýsingamál að vísa kærunni frá nefndinni.


Úrskurðarorð

Kæru [...] á hendur umboðsmanni Alþingis, vegna synjunar hans á afhendingu korts af deiliskipulagssvæði sem kvörtun kæranda til umboðsmanns Alþingis laut að og umboðsmaður lauk með bréfi til kæranda, dags. 6. ágúst 2010, sbr. mál nr. 6035/2010, en kvörtunin laut að úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 15. apríl 2010 í máli nr. 74/2009, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

Trausti Fannar Valsson
formaður

 

 Friðgeir Björnsson                                                                                            Sigurveig Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta