A-383/2011. Úrskurður frá 11. október 2011
ÚRSKURÐUR
Hinn 11. október 2011 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-383/2011.
Kæruefni
Með bréfi, dags. 28. júní sl., kærði People for the Ethical Treatment of Animals foundation (PETA) synjun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um að afhenda samtökunum afrit af leyfum til veiða á háhyrningum (l. Orcinus orca) sem sjávarútvegsráðuneytið gaf út árið 1983 og gögnum tengdum þeim leyfum.
Málsatvik og málsmeðferð
Með bréfi, dags. 23. maí sl., óskaði [X] f.h. PETA eftir aðgangi að afritum af leyfum til veiða á háhyrningum og öðrum tengdum gögnum sem gefin voru út af sjávarútvegsráðuneytinu árið 1983.
Beiðninni var synjað með tölvubréfi upplýsingafulltrúa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins 3. júní sl. Í synjuninni kemur fram að beiðnin falli utan gildissviðs upplýsingalaga nr. 50/1996.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sendi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu kæruna með bréfi, dags. 30. júní sl., og var ráðuneytinu veittur frestur til 7. júlí til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Svör ráðuneytisins bárust úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 4. júlí. Þar kemur eftirfarandi m.a. fram:
„Það er mat ráðuneytis sjávarútvegs- og landbúnaðarmála að umrædd fyrirspurn sé mun víðtækari og almennari en svo að skylt sé að svara henni samkvæmt 3. grein laga 50/1996.
Um er að ræða gögn frá árinu 1983 sem ætla má að séu nú varðveitt í skjalasöfnum, þ.e. eftir atvikum Þjóðskjalasafni, söfnum sveitarfélaga og stofnana sem sumar eru enn starfandi og aðrar ekki.
Jafnframt svari var starfsmanni PETA leiðbeint í þá átt að skilgreina ósk sína betur svo ráðuneytið hefði möguleika á að hnitmiða leit og beiðni um gögn við ákveðin skjöl og skjalasöfn.“
Með bréfi, dags. 2. ágúst, gaf úrskurðarnefndin kæranda kost á því að gera athugasemdir vegna umsagnar ráðuneytisins og bárust athugasemdir kæranda í bréfi, dags. 8. s.m. Þar kemur m.a. fram að PETA telji beiðnina falla undir gildissvið 2. gr. upplýsingalaga og ráðuneytið hafi ekki vísað til þess að í gögnunum séu upplýsingar sem falla undir 4. – 6. gr. laganna sem heimila stjórnvöldum að takmarka upplýsingarétt almennings. PETA ítrekar beiðni sína og vísar til þess að ef ákvæði 4. – 6. gr. eigi við um hluta skjals beri ráðuneytinu að afhenda aðra hluta þess, sbr. 7. gr. upplýsingalaga.
Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila, en úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af þeim við úrlausn málsins.
Niðurstaða
Eins og fram hefur komið snýr kæra máls þess að synjun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins á afhendingu leyfa til veiða á háhyrningum (l. Orcinus orca) sem sjávarútvegsráðuneytið gaf út árið 1983 og gögnum tengdum þeim leyfum.
Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. laganna. Í 1. mgr. 10. gr. sömu laga, sbr. 2. gr. laga nr. 161/2006, segir: „Sá sem fer fram á aðgang að gögnum skal tilgreina þau gögn máls sem hann óskar að kynna sér. Þá getur hann óskað eftir að fá að kynna sér öll gögn um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn sem málið varða.“
Í skýringum við 2. gr. frumvarps þess sem síðan varð að lögum nr. 161/2006 kemur fram að upplýsingaréttur samkvæmt upplýsingalögum er afmarkaður við skjöl og önnur gögn sem varða tiltekin mál. Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir því að þegar beiðni um aðgang varðar gögn í tilteknu máli, en gögnin ekki tilgreind sérstaklega að öðru leyti, verður að miða við að þau hafi verið útbúin, lögð fram eða þeirra aflað vegna máls sem er eða hefur verið til meðferðar í stjórnsýslunni. Verða gögnin því að tilheyra ákveðnu, tilgreinanlegu máli, þ.e. ákveðnu máli sem er eða hefur verið til meðferðar hjá stjórnsýslunni hvort sem það hefur verið afgreitt eða ekki.
Kærandi óskaði eftir afhendingu leyfa til veiða á háhyrningum (l. Orcinus orca) sem sjávarútvegsráðuneytið gaf út árið 1983 og gögnum tengdum þeim leyfum. Beiðnin eins og hún er sett fram beinist ekki að ákveðnum, tilgreindum gögnum máls, og fullnægir að því leyti ekki ákvæði fyrri málsliðar 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga sem rakið er hér að framan. Það er heldur ekki hægt að líta svo á að beiðnin lúti að þessu leyti að aðgangi að öllum gögnum í tilteknu máli, eins og kveðið er á um í 10. gr. upplýsingalaganna, því ekki verður litið svo á að öll leyfi gefin út 1983 og gögn þeim tengd flokkist til tiltekins mál. Beiðnin fullnægir þannig ekki þeim kröfum sem gerðar eru í síðari málslið 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Um er að ræða beiðni sem getur varðað fjölda mála á tilteknu tímabili. Með vísan til þessa ber að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Úrskurðarorð
Vísað er frá kæru People for the Ethical Treatment of Animals foundation á hendur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.
Trausti Fannar Valsson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson