Hoppa yfir valmynd

A-392/2011. Úrskurður frá 14. desember 2011

ÚRSKURÐUR

Hinn 14. desember 2011 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-392/2011.

Kæruefni og málsatvik

Með erindi, dags. 3. mars 2011, kærði [A] þá ákvörðun Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins og sveinsprófsnefndar í rafgreinum, dags. 23. febrúar 2011, að synja honum um afhendingu afrita af 21 prófverkefni vegna sveinsprófa í rafvirkjun.

Atvik málsins eru þau að með bréfi, dags. 16. febrúar, fór kærandi þess á leit við Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins og sveinsprófsnefnd í rafgreinum að honum yrðu afhent afrit eftirtalinna prófverkefna vegna sveinsprófa í rafvirkjun:

1. Sveinspróf í raflagnateikningu – skólapróf vor 2010.
2. Sveinspróf í raflagnateikningu – skólapróf desember 2010.
3. Sveinspróf í raflagnateikningu – skólapróf febrúar 2011.
4. Íslenskur Staðall – ÍST200 – sveinspróf febrúar 2010.
5. Íslenskur Staðall – ÍST200 – sveinspróf júní 2010.
6. Íslenskur Staðall – ÍST200 – sveinspróf febrúar 2011.
7. Raflagnir og stýringar (verklýsingar og skýringar) – sveinspróf febrúar 2009.
8. Raflagnir og stýringar (verklýsingar og skýringar) – sveinspróf júní 2009.
9. Raflagnir og stýringar (verklýsingar og skýringar) – sveinspróf febrúar 2010.
10. Raflagnir og stýringar (verklýsingar og skýringar) – sveinspróf júní 2010.
11. Raflagnir og stýringar (verklýsingar og skýringar) – sveinspróf febrúar 2011.
12. Mælingar (verklýsing og skýringar) – sveinspróf febrúar 2009.
13. Mælingar (verklýsing og skýringar) – sveinspróf júní 2009.
14. Mælingar (verklýsing og skýringar) – sveinspróf febrúar 2010.
15. Mælingar (verklýsing og skýringar) – sveinspróf júní 2010.
16. Mælingar (verklýsing og skýringar) – sveinspróf febrúar 2011.
17. Rafmagnsfræði, stýrikerfi og búnaður – sveinspróf febrúar 2009.
18. Rafmagnsfræði, stýrikerfi og búnaður – sveinspróf júní 2009.
19. Rafmagnsfræði, stýrikerfi og búnaður – sveinspróf febrúar 2010.
20. Rafmagnsfræði, stýrikerfi og búnaður – sveinspróf júní 2010.
21. Rafmagnsfræði, stýrikerfi og búnaður – sveinspróf febrúar 2011.

Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins og sveinsprófsnefnd í rafgreinum synjaði með sameiginlegur bréfi kæranda um afhendingu þessara prófa með bréfi, dags. 23. febrúar. Í sama bréfi kemur fram að Fræðsluskrifstofa rafiðnaðarins og sveinsprófsnefnd í rafgreinum heimili kæranda aðgang að prófunum á starfsstöð sinni. Fram kom í bréfinu að kæranda var ekki heimilt að taka afrit af prófunum eða fara með þau af starfstöð Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins.


Málsmeðferð

Með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 10. mars, var kærða kynnt framkomin kæra. Kærða var jafnframt veittur frestur til 18. sama mánaðar til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi væri þess óskað. Ennfremur var þess óskað að nefndinni yrðu látin í té afrit þeirra gagna sem kæran lyti að. Svar barst frá Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins 17. sama mánaðar.

Í svarbréfi Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins er m.a. vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. A-73/1999 frá 23. mars 1999 sem laut að beiðni um aðgang að prófum hjá Háskóla Íslands. Vísað er til þess að sá úrskurður felur í sér heimild til aðgangs að prófum en ekki til afhendingar afrita af þeim.

Framkomnar skýringar Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins voru kynntar kæranda með bréfi, dags. 29. mars 2011. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 4. apríl.

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af þeim við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.
Eins og fram hefur komið snýr kæra máls þessa að synjun Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins og sveinsprófsnefndar í rafgreinum á afhendingu afrita af 21 prófi sem lögð hafa verið fyrir við framkvæmd sveinsprófa í rafvirkjun.

Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla, er almennt námsmat í framhaldsskólum í höndum kennara og byggist á markmiðum sem kveðið er á um í aðalnámskrá og skólanámskrá. Samkvæmt 1. málsl. 4. mgr. sama lagaákvæðis lýkur námi í iðngreinum með sveinsprófi og er ráðherra heimilt samkvæmt 3. málsl. sömu málsgreinar að sérstakar sveinsprófsnefndir í löggiltum iðngreinum til að annast samræmingu, framkvæmd og mat í tengslum við prófhald. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur skipað sveinsprófsnefnd í rafgreinum og telst sú nefnd til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga í skilningi 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga.


2.
Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Kæruheimildin er bundin því skilyrði að ágreiningur sé uppi um annað tveggja: skyldu stjórnvalds til að veita aðgang að gögnum eða skyldu þess til að veita aðgang í formi ljósrits af skjölum eða afrits af öðrum gögnum. Í máli þessu er deilt um hið síðarnefnda.

Í 2. mgr. 12. gr. upplýsingalaga, eins og henni var breytt með 4. gr. laga nr. 161/2006, kemur fram að eftir því sem við verði komið sé stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að láta í té ljósrit eða afrit af gögnum á því formi eða sniði og á þeim tungumálum, sem þau eru varðveitt á, nema þau séu þegar aðgengileg almenningi á rafrænu formi. Af þessu ákvæði leiðir að fari aðili fram á að fá ljósrit eða afrit af gagni sem hann á rétt á aðgangi að þá skal orðið við þeirri beiðni, eftir því sem við verður komið.

Í athugasemdum sem fylgdu 4. gr. frumvarps þess sem síðan varð að lögum nr. 161/2006, kemur  fram að þeim fyrirvara sé haldið með orðunum „eftir því sem við verður komið“ að ekki séu í vegi sérstakar hindranir við að veita afrit eða ljósrit af gögnum. Þannig geti skjöl t.d. verið þannig útlits að ógerlegt sé að ljósrita þau. Slíkar hindranir eiga ekki við í máli þessu. Samkvæmt því  ber sveinsprófsnefnd í rafgreinum að verða við beiðni kæranda um að fá afhent afrit af 21 prófi sem hann hefur óskað aðgangs að.

3.
Kæru þessari er einnig beint að Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins. Að framan er lýst þeirri niðurstöðu að sveinsprófsnefnd í rafgreinum beri að afhenda umbeðin gögn. Er því ekki tilefni til þess að taka afstöðu til skyldu skrifstofunnar vegna þeirra sömu gagna.


Úrskurðarorð


Sveinsprófsnefnd í rafgreinum ber að afhenda kæranda, [A], afrit þeirra prófa er hann fór fram á aðgang að með bréfi til skrifstofunnar 16. febrúar 2011.

 

 

Trausti Fannar Valsson
formaður

 

Friðgeir Björnsson                                                                                        Sigurveig Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta