Hoppa yfir valmynd

A-401/2012. Úrskurður frá 10. febrúar 2012

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 10. febrúar 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-401/2012.

 

Kæruefni

Með bréfi, sem barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál þann 8. september 2011, kærði [...] þá ákvörðun lögreglunnar á Eskifirði að synja honum um aðgang að bókun í dagbók lögreglu sem gerð hafi verið 9. júní 2010.

 

Kæruefni og málsatvik

Í bréfi sem lögreglan á Eskifirði ritar kæranda 9. ágúst 2011 er vísað til bréfs sem kærandi ritaði lögreglunni 2. s.m. Í bréfinu segir m.a.: „Bókun sú sem vísað er til í bréfi yðar er gerð þann 9. júní 2010. Með bréfi dags. 3. janúar 2011 fóruð þér fram á afhendingu bókunarinnar. Var yður boðið, umfram skyldu, að kynna yður bókunina á lögreglustöð, en afhendingu afrits hennar hafnað. Bréf yðar, dags. 2. maí sl., var sama efnis, en þá hafði erindi yðar þegar verið afgreitt.

 

Þar sem engin kæra hefur verið lögð fram á hendur yður og því ekkert mál til rannsóknar hjá embættinu, er erindi yðar synjað.“

 

Í framangreindri kæru kemur fram að bókun sú sem kærandi krefst aðgangs að hafi verið gerð að frumkvæði stefnda í dómsmáli sem hann hafi höfðað. Kærandi kveðst fyrst hafa frétt af bókuninni þegar stefndi í lok vitnaleiðslu í málinu hafi reifað ávirðingar á hendur sér, sumar mjög alvarlegar, og vísað til bókunarinnar máli sínu til stuðnings. Kærandi kveðst hafa fengið að sjá bókunina hjá lögreglunni en verið synjað um að fá afrit af henni. Ólíðandi sé að lögreglan geti haldið bókun vegna ávirðinga sem að sér beinist á þeim grundvelli að ekki þyki ástæða til að rannsaka þær. Þannig sé sér gert ókleift að hreinsa sig af ávirðingunum. Kærandi kveðst geta fallist á þá skoðun lögreglunnar að bókunin hafi upphaflega verið vinnuskjal en þar sem hún ætli ekki að aðhafast frekar í málinu megi líta svo á að það hafi verið afgreitt endanlega. Upplýsinga um bókunina verði ekki aflað annars staðar frá og því sé hún ekki undanþegin upplýsingarétti samkvæmt ákvæðum 4. gr. upplýsingalaga sem lögreglan vísi til.

 

Málsmeðferð

Sem fyrr segir barst kæra þessa máls úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi hinn 8. september 2011. Kæran var send lögreglunni á Eskifirði með bréfi úrskurðarnefndarinnar þann 9. sama mánaðar og henni gefinn kostur á að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Frestur til þessa var gefinn til 21. september. Þá óskaði nefndin eftir því að henni yrði innan sama frests látin í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

 

 

Svarbréf lögreglunnar á Eskifirði barst 22. september. Í því segir m.a. eftirfarandi: „Það er skoðun lögreglunnar á Eskifirði að hér sé um vinnuskjöl að ræða og því eigi 4. gr. laga nr. 50/1996, upplýsingalaga, við. Í umræddri bókun koma fram nöfn aðila sem voru vitni að ákveðnum atburðum. Jafnvel þótt mál sé komið í lokastöðu „Verkefni lokið“ getur lögregla tekið mál til rannsóknar ef fram kemur kæra þess sem misgert var við, og eða frekari upplýsingar koma fram sem verða til þess að lögreglan tekur mál upp til rannsóknar. [...] Almennt fer lögreglan með bókanir í dagbækur og tilkynningar sem trúnaðarmál enda gilda mjög strangar og skýrar reglur um meðferð lögreglu á upplýsingum sem eru til staðar í kerfum þeim sem hún rekur.“

 

Svarbréfi lögreglunnar fylgdi sú bókun sem kærandi krefst aðgangs að og bókun gerð 27. júní 2009. Kærandi hefur ekki krafist aðgangs að bókuninni frá 27. júní 2009 en lögreglan segir í bréfi sínu að hún telji rétt að láta úrskurðarnefndinni þessa bókun í té í til upplýsingar.

 

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. september 2011, var kæranda gefinn kostur á því að gera frekari athugasemdir varðandi kæruna í tilefni af  umsögn lögreglunnar á Eskifirði og var frestur til þess veittur til 30. september s.á. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Niðurstaða

Eins og að framan er rakið krefst kærandi aðgangs að bókun sem lögreglan á Eskifirði gerði 9. júní 2010. Hér er ekki um að ræða mál sem sætir rannsókn sem sakamál samkvæmt lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála, og ekkert er komið fram um að lögreglan muni aðhafast eitthvað frekar vegna málsins. Því á ekki við ákvæði 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga þar sem segir m.a. að upplýsingalögin eigi ekki við um rannsókn sakamáls eða saksókn. Um rétt kæranda til aðgangs að umræddri bókun fer því eftir ákvæðum upplýsingalaga nr. 50/1996.

 

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Takmarkanir á þessum rétti koma fram í 2. og 3. mgr. sömu lagagreinar. Bókun lögreglunnar á Eskifirði sem gerð var 9. júní 2010 geymir upplýsingar sem varða kæranda sjálfan með beinum hætti. Um rétt hans til aðgangs fer því eftir ákvæði 9. gr. upplýsingalaga. Rétt er að taka fram að réttur kæranda til að fá afrit af bókuninni skerðist ekki við það að honum var heimilað að lesa hana á lögreglustöðinni á Eskifirði, en samkvæmt 2. mgr. 12. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, eftir því sem við verður komið, að láta í té ljósrit eða afrit af gögnum á því formi eða sniði sem þau eru varðveitt á.

 

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér umrædda bókun. Enda þótt þar séu nefndir tveir menn aðrir en kærandi og sá sem bókunin er gerð eftir, þykir með hliðsjón af því sem í bókunina er skráð ekki tilefni til þess að takmarka aðgang kæranda að bókuninni, hvorki vegna einkahagsmuna annarra, sbr. 3. mgr. 9. gr. upplýsingalaga né vegna mikilvægra almannahagsmuna, sbr. 2. tl. 2. mgr. sama ákvæðis. Jafnframt skal bent á að samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 322/2001, um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu, á hinn skráði rétt á að fá frá lögreglu upplýsingar um hvaða upplýsingar um hann er eða hefur verið unnið með, tilgang vinnslunnar og hver fær, hefur fengið eða muni fá upplýsingar um hann.

 

Með vísan til framangreinds á kærandi samkvæmt 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga rétt á því að fá afhent afrit að bókun þeirri hjá lögreglunni á Eskifirði sem hefur málsnúmerið [...] og gerð var 9. júní 2010.

 

Úrskurðarorð

Lögreglunni á Eskifirði ber að afhenda kæranda, [...], bókun þá sem hún gerði 9. júní 2010 og hefur málsnúmerið [...].

 

Trausti Fannar Valsson

formaður

 

 Friðgeir Björnsson                                                                                Sigurveig Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta