Hoppa yfir valmynd

A-402/2012. Úrskurður frá 10. febrúar 2012

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 10. febrúar 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-402/2012.

 

Kæruefni og málsatvik

Með tölvupósti, dags. 20. september 2011, kærði [...] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál þá ákvörðun Barnaverndarstofu, dags. 19. maí 2011, að synja beiðni hennar um aðgang að upplýsingum um fósturleyfishafa virkra fósturmála sem væru orðnir 50 ára eða eldri.

 

Samkvæmt gögnum málsins er aðdragandi kæru máls þessa sá að með tölvupósti, dags 18. maí 2011, óskaði kærandi eftir því að fá upplýsingar hjá Barnaverndarstofu um virk fósturleyfi. Þeirri beiðni var svarað með tölvupósti dags. 19. maí 2011. Þar segir orðrétt:

 

„Upplýsingar varðandi fósturmál, s.s. um fjölda umsókna um leyfi fósturforeldra og hversu margir fá leyfi eru að finna í ársskýrslum Barnaverndarstofu, t.d. á bls. 15 í nýjustu ársskýrslu stofunnar sjá slóðina http://bvs.is/file/file920.pdf en allar ársskýrslur Barnaverndarstofu eru aðgengilegar á heimasíðu stofunnar www.bvs.is.

 

Þær upplýsingar sem beðið er um í fyrirspurn þinni liggja ekki fyrir hjá Barnaverndarstofu en skv. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er stjórnvöldum skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum en ekki skylt að útbúa ný gögn.“

 

Með tölvupósti, dags. 20. maí 2011, barst Barnaverndarstofu önnur beiðni frá kæranda. Þar var m.a. óskað nánari skýringa á því hvort ekki væri hægt að fá upplýsingar um aldur fósturforeldra. Í svari Barnaverndarstofu, dags. 23. maí 2011, kom fram að Barnaverndarstofa hafi skrá yfir fósturforeldra en ekki hafi verið teknar saman tölfræðiupplýsingar um aldur þeirra og því séu þær upplýsingar ekki aðgengilegar almenningi.

 

Málsmeðferð

Sem fyrr segir barst kæra þessa máls úrskurðarnefnd um upplýsingamál með tölvupósti, dags. 19. september 2011. Í kæru er efni hennar afmarkað við þá ákvörðun Barnaverndarstofu að afhenda kæranda ekki upplýsingar um fósturleyfishafa virkra fósturmála sem séu 50 ára eða eldri.

 

Kæran var send Barnaverndarstofu með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. september 2011, þar sem vísað er til 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 3. gr. laga nr. 83/2000, og kærða veittur frestur til 28. september s.á. til að gera athugasemdir við kæruna og til þess að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Var þess jafnframt óskað að úrskurðarnefndinni yrði innan sama frests látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.

 

Kærði svaraði kærunni með bréfi, dags. 22. september 2011. Í bréfinu eru raktir málavextir og samskipti við kæranda, eins og greint er frá hér að framan. Um grundvöll synjunar Barnaverndarstofu er orðrétt sagt:

 

„Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. laganna.

 

Í fyrsta lagi er samkvæmt ákvæðinu ekki hægt að óska aðgangs að ótilteknum fjölda mála heldur verður að tiltaka það mál eða þau gögn sem óskað er aðgangs að. Ljóst er að kærandi hefur óskað aðgangs að ótilteknum fjölda mála, eða um öll virk fósturleyfi.

 

Í öðru lagi veita lögin almennt ekki rétt til aðgangs að skrám sem stjórnvöld halda, að undanskilinni heimild skv. 3. tl. 2. mgr. 3. gr. laganna. Skráningarkerfi Barnaverndarstofu býður ekki upp á að flett sé upp í virkum fósturleyfum eftir aldri leyfishafa eða að virk leyfi séu listuð eftir þeirri breytu. Þar að auki hefur kærandi samkvæmt framangreindu ekki rétt til aðgangs að þeirri skrá.

 

Í þriðja lagi felst ekki skylda í lögunum fyrir stjórnvöld að útbúa gögn eða afla gagna, séu þau ekki fyrirliggjandi. Eins og fram kemur í svari stofunnar til kæranda þann 19. maí 2011 liggja þær upplýsingar sem beðið var um ekki fyrir hjá Barnaverndarstofu. Var kæranda hins vegar bent á að þær tölfræðilegu upplýsingar sem til eru um veitt fósturleyfi koma fram í ársskýrslu stofunnar.

 

Þau gögn sem liggja fyrir hjá stofunni um aldur fósturforeldra eru einungis í formi útfylltra umsóknareyðublaða um fósturleyfi og annarra gagna í hverju máli fyrir sig. Teljast þau gögn að mati stofunnar ótvírætt til gagna um einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, sbr. 5. gr. upplýsingalaga.

 

Það er því afstaða  Barnaverndarstofu eftir sem áður að kærandi eigi ekki rétt til þeirra upplýsinga sem henni var neitað um sbr. það sem fram er komið. Í ljósi þess að hin umbeðnu gögn eru ekki fyrirliggjandi hjá stofunni sér stofan sér ekki fært að láta nefndinni í té afrit af þeim gögnum svo sem óskað var eftir í erindi nefndarinnar, dags. 20. september 2011.“

 

Kæranda var kynnt með bréfi, dags. 23. september 2011, framkomin umsögn kærða vegna kærunnar og gefinn frestur til 30. s.m. til að koma að athugasemdum í ljósi umsagnarinnar. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Niðurstaða

Kæra máls þessa barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál að liðnum kærufresti samkvæmt 16. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Kærði hefur ekki vísað til þess undir meðferð málsins að því beri að vísa frá af þessari ástæðu. Af hálfu kærða var kæranda ekki leiðbeint um kæruleið til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga eða um frest til að beina kæru til hennar samkvæmt 16. gr. laganna. Verður í þessu ljósi tekin efnisleg afstaða til kærunnar, sbr. heimild í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Með 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er almenningi tryggður aðgangur að gögnum sem varða tiltekið mál, sem er eða hefur verið til meðferðar hjá stjórnvöldum, sbr. og 1. mgr. 10. gr. laganna. Af áskilnaði um að beiðni um aðgang varði tiltekið mál verður meðal annars dregin sú ályktun að lögin feli ekki í sér rétt til að óska eftir aðgangi að gögnum í öllum málum af ákveðinni tegund eða frá tilteknu tímabili. Þá leiðir einnig af 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006, stjórnvöldum er ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr. laganna. Skýring úrskurðarnefndarinnar á þessum ákvæðum laganna er sú að réttur til upplýsinga taki einvörðungu til gagna sem fyrir liggi, þegar um þau sé beðið, en leggi ekki á stjórnvöld skyldu til að útbúa ný gögn sem ekki séu fyrirliggjandi þegar eftir þeim sé leitað.

 

Af hálfu Barnaverndarstofu er fram komið að upplýsingar um aldur fósturforeldra sé einungis að finna í formi útfylltra umsóknareyðublaða um fósturleyfi og annarra gagna í hverju máli fyrir sig. Ekki liggi fyrir tölfræðileg samantekt um þær upplýsingar sem kæra málsins lýtur að. Úrskurðarnefnd upplýsingamála telur hvorki efni né ástæður til þess að draga í efa réttmæti þessarar staðhæfingar.

 

Af framangreindu leiðir að þær upplýsingar sem kærandi hefur óskað aðgangs að hafa ekki verið teknar saman. Þær liggja því einvörðungu fyrir í ótilteknum fjölda mála. Ber af þeirri ástæðu að staðfesta synjun Barnaverndarstofu um aðgang að upplýsingunum.

 

 

Úrskurðarorð

Synjun Barnaverndarstofu á beiðni [...] um aðgang að upplýsingum um fósturleyfishafa virkra fósturmála sem væru orðnir 50 ára eða eldri er staðfest.

 

Trausti Fannar Valsson

formaður

 

 Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta