Hoppa yfir valmynd

A-403/2012. Úrskurður frá 10. febrúar 2012

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 10. febrúar 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-403/2012.

 

Kæruefni

Með tölvupósti, dags. 3. nóvember 2011, kærði [...] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál að óhæfilegur dráttur hefði orðið á því að Reykjavíkurborg afgreiddi beiðni sína um aðgang að gögnum um námsleyfi [...].

 

Málsatvik og málsmeðferð

Með tölvupósti, dags. 25. október 2011, óskaði kærandi eftir að fá aðgang að öllum skjölum og gögnum um töku [...] starfsmanns Reykjavíkurborgar á námsleyfi „þar sem m.a. komi fram hvenær leyfið var veitt, af hverjum og hvort þetta sé launað námsleyfi.“

 

Sem fyrr segir barst kæra þessa máls úrskurðarnefnd um upplýsingamál með tölvupósti, dags. 3. nóvember 2011. Kæran var send Reykjavíkurborg með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. nóvember, þar sem vísað er til skyldu stjórnvalds samkvæmt 11. og 13. gr. upplýsingalaga og frestur veittur til að taka ákvörðun um afgreiðslu á beiðni kæranda til 17. nóvember. Í bréfinu var tekið fram að kysi Reykjavíkurborg að synja kæranda um umbeðinn aðgang að gögnum óskaði úrskurðarnefndin eftir því að henni yrðu látin í té í trúnaði afrit af umbeðnum gögnum innan sama frests. Jafnframt var borginni gefinn kostur á að gera athugasemdir við kæruna og koma að rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni innan sömu tímamarka.

 

Svar barst ekki frá Reykjavíkurborg innan framangreinds frests og með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. desember 2011, var óskað eftir svari hið fyrsta. Af gögnum málsins verður ráðið að ruglingur á nöfnum hafi leitt til þess að á þeim tíma hafi hvorki verið tekin afstaða til beiðni kæranda né bréfa úrskurðarnefndarinnar frá 8. nóvember og 1. desember 2011. Hvað sem því líður þá liggur fyrir að beiðni kæranda var svarað með svohljóðandi bréfi, dags. 23. desember 2011: „[...] starfsmaður á [...] er í launalausu námsleyfi frá og með 1. september 2011 til 1. júlí 2012. Ekki var um formlega umsókn um námsleyfið að ræða og ekki eru til sérstök gögn um það.“

 

Í tölvupósti kæranda til úrskurðarnefndarinnar 23. desember segir eftirfarandi: „Þá vil ég benda á v. svars frá Reykjavíkurborg í dag að um launalaust námsleyfi hafi verið að ræða sem hafi verið óformlegt og engin sérstök gögn til um það. Í því sambandi langar mig til að benda á Leiðbeiningar um leyfi og sveigjanleika v. náms samhliða starfi hjá Reykjavíkurborg þar sem segir að gera skuli skriflegt samkomulag um ólaunuð leyfi þar sem fram kemur lengd leyfis og hvernig því verði háttað. Tilkynning um það berist launadeild sem skrá þarf leyfið í Vinnustund. Sem dæmi má nefna að þá gleymdi [...] starfsmannastjóri að láta launadeild hafa bréfið í mínu tilfelli, að því er minn yfirmaður tjáði mér, og ég fékk þ.a.l. ofgreidd laun sem ég þurfti að endurgreiða. Ég segi þetta vegna þess að ég veit að það eru til gögn um ólaunuð námsleyfi eins og í tilfelli 2) [...]. Þess vegna vil ég halda áfram með málið og fá að sjá gögn um þetta námsleyfi [...].“

 

Niðurstaða

Kæra  máls þessa lýtur að því að kærandi telur sig ekki hafa fengið aðgang að gögnum sem varði námsleyfi [...] frá störfum hjá Reykjavíkurborg. Reykjavíkurborg segir hins vegar að ekki séu til sérstök gögn um veitingu leyfisins en umsókn um það hafi ekki verið formleg.

 

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga  kemur fram að stjórnvöldum sé „skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. Stjórnvöldum er þó ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr.“

 

Hafi stjórnvald synjað um aðgang að gögnum er heimilt samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga að bera þá synjun undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn, þ.e. tekur efnislega afstöðu til þess hvort aðgangur að gögnunum skuli heimilaður eða synjun stjórnvaldsins staðfest.

 

Samkvæmt niðurlagsákvæði 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga, sbr. 3. gr. laga nr. 83/2000, er stjórnvaldi skylt að láta úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum er kæra til nefndarinnar lýtur að.

 

Eins og að framan er rakið óskaði úrskurðarnefndin eftir því í bréfi til Reykjavíkurborgar, dags. 8. nóvember 2011, að henni yrði látin í té í trúnaði afrit af umbeðnum gögnum, en þá lá ekki fyrir hver afgreiðsla borgarinnar yrði á erindi kæranda frá 25. október s.á. um aðgang að gögnum. Erindi kæranda var afgreitt með bréfi, dags. 23. desember 2011, og í því kemur fram að ekki séu til sérstök gögn um veitingu þess námsleyfis sem beiðni kæranda beindist að. Úrskurðarnefnd upplýsingamála telur hvorki efni né ástæður til þess að draga í efa réttmæti þessarar staðhæfingar.

 

Málið liggur því þannig fyrir úrskurðarnefndinni að ekki sé um að ræða synjun stjórnvalds á aðgangi að gögnum og því ekki grundvöllur til þess að nefndin taki efnislega afstöðu til kæru kæranda sem leiðir til þess að henni ber að vísa kærunni frá sér.

 

Úrskurðarorð

Vísað er frá kæru [...] á hendur Reykjavíkurborg.

 

 

Trausti Fannar Valsson

formaður

 

 Friðgeir Björnsson                                                                                     Sigurveig Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta